SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir24. desember 2024

LJÓÐVERK / TÓNVERK. Um Kallfæri eftir Guðrúnu Hannesdóttur

Guðrún Hannesdóttir. Kallfæri. Dimma 2024.

 

Kallfæri er tíunda ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur en sú fyrsta, Fléttur, kom út 2007. Með þessum tug bóka hefur Guðrún skipað sér í hóp listfengustu samtímaskálda á Íslandi. Hún hefur fágæt tök á ljóðmáli og bregður gjarnan upp óvæntu sjónarhorni á náttúru, dýr og menn í ljóðum sínum. Guðrún vinnur gjarnan með ákveðin þemu og má þar til dæmis nefna sjöundu ljóðabók hennar, Slitur úr orðabók fugla (2014), þar sem öll ljóðin fjalla um fugla og eru jafnvel ort í orðastað fugla; útkoman er frumleg og oft á tíðum stórskemmtileg.

Í síðustu tveimur ljóðabókum sínum, Spegilsjónum (2020) og Fingramáli (2022), hefur Guðrún hins vegar verið að vinna sérstaklega með skynfæri mannsins, sjónina í þeirri fyrrnefndu og snertinguna í þeirri síðarnefndu. Sams konar aðferð beitir hún einnig í Kallfæri en hér er það heyrnin sem er rauði þráður ljóðanna, eins og kemur fram strax í bókartitlinum.

 

Reyndar er sú heyrn sem lýst er í mörgum ljóða bókarinnar að miklu leyti næmari en við eigum flest að venjast, ljóðmælandi heyrir til að mynda „birtingarhljóminn / á leið minni / inn í steininn“, heyrir „gullstráin syngja á sandinum“ og heyrir norðurljósin syngja magnþrunginn tvísöng með vatninu, svo vísað sé til stakra ljóðlína. Um tvísöng norðurljósa og vatns er ort í ljóðinu „frásögn“ og þar færist „magnþrunginn tvísöngurinn / […] smám saman í aukana / þar til himinn og jörð skulfu  / og sveitin öll“. Í lok ljóðsins kemur óvæntur snúningur á ljóðið þegar ljóðmælandi vísar til heimildamanns:

 

(svo vill til að heimild mín er vandaður
sannorður maður trésmiður að mennt
annars hefði ég ekki trúað aukateknu orði)

 

Slíkur kankvís húmor er eitt af höfundareinkennum Guðrúnar og, líkt og í þessu ljóði, læðist hann óvænt inn í ljóðmál sem virðist ef til vill ‚alvarlegt‘ í fyrstunni.

Heyrn ljóðmælanda bókarinnar er sérstaklega næm fyrir náttúrunni en allar ljóðabækur Guðrúnar bera vitni um sérstæða og djúpa náttúrusýn. Í ljóðinu „ofraun“ yrkir hún um regndropa sem:

 

hefur lengi
titrað efst á stráinu
 
skolfið í forsælunni
eins og harmþrungið hjarta.

 

Í lok ljóðsins kemur heyrnin við sögu þegar dropinn

 

þrútinn örvæntingarþungri
uppgjöf lætur hann sig falla
 
breytist við það
umsvifalaust í silfurtæran söng.
 
 

En það er miðhluti ljóðsins sem fangar athygli lesanda með óvæntri sýn því þar er því lýst hvernig regndropinn hefur

 

bisað við að telja himinhvolfin
kristalshimininn eldhimininn
alla hina himnana
rifjað upp fylkingar engla
og flókin hlutverk þeirra
allt riðlast ruglast að lokum
tvístrast í óreiðu og svima.

 

Þetta ljóð er gott dæmi um annað höfuðeinkenni á ljóðlist Guðrúnar Hannesdóttur og það er hvernig hún beinir kastljósi að því smæsta í náttúrunni, dvelur við það í ró og næði og tekst að vekja upp nýja sýn á náttúrufyrirbæri. Í ljóðinu sem fylgir á eftir þessu („mið“) er varpað ljósi á leið snjókorns „sem fellur óravegu / niður úr háloftunum“ og þeim kröftum sem kunna að verka á lendingarstað þess, og í ljóðinu „fræ“ er ort um biðukollur sem eru „beinlínis spaugilegar / hálfberir kollar þeirra minna á kinnar / fullar af lofti sem búa sig undir / að blása í trompet“. Þessi þáttur í ljóðlist Guðrúnar er hluti að þeirri djúpu náttúruskynjun sem greina má í öllu höfundarverkinu og líklega er eitt besta dæmið um slíka sýn að finna í ljóðinu „skógargata“ þar sem ljóðmælandinn sér að

 

steinvala hefur
oltið úr fari sínu
horfið úr augsýn
frjókorn flogið
köngurlóarvefur rifnað
smáfjöður orðið eftir á grein
sjöfingrað blað færst
lítillega úr stað.

 

En það er ekki bara náttúran sem er undir í ljóðum Guðrúnar, hún á líka til beitta og hvassa samfélagsádeilu. Áhrifaríkt er ljóðið „hlustun“ þar sem náttúran er víðs fjarri og hefst þannig:

 

stilltu á fréttastöðina ef þú þorir og þú munt festast
í eftiröpun úreltrar aðferðar sem notuð var til að
murka lífið úr hákörlum þannig að borað var gat á
höfuð þeirra og mænan dregin út með krók helst í
heilu lagi annars gætu fjörbrotin komið á þig höggi
og hryllilegar slitróttar síbyljufréttir orðið þér ofraun

 

Í ljóðinu „afþreying“ er svo miskunnarlaus upptalning á efni sjónvarpsþátta og kvikmynda sem margir velja sér helst til afþreyingar

 

hefnd angist myrkur
eftirför högg í hnakkann
gröf byssuskot blóðtaumur úr eyra
hárflyksur hnífstungur grátur og kvein
blóðpollar nauðganir pyntingar fjötrar
umsátur svöðusár afklipptir fingur
nálhvassar tennur
barnshvörf
eitur.

 

Ekki er langsótt, með tilliti til þema bókarinnar, að líkja Kallfæri við tónverk og í ljóði sem ber yfirskriftina „ tónverk í smíðum“ má sjá hvernig skáldið yrkir kjarnyrt ádeiluljóð sem varðar náttúruvernd um leið og vísað er til hins yfirskipaða þema bókarinnar í orðum eins og „skrjáf“, „hvísl“ og „þrítekið viðlag“ og „glamur í gandreiðarbeislinu“:

 

laumulegt skrjáf:
hvísl um að mylja fjöll
þurrka upp ár
krossfesta vindinn
þrautpína prísundarfiska
hafa fólk að fíflum og þrælum
græða á öllu lifandi og dauðu …
 
og þrítekið viðlag:
saman níðingar skríða
eða smá glamur í gandreiðarbeislinu
 
hugsanlegur lokaþáttur:
 
steingelt bergmál
ærandi dauðaþögn?
 
… eitthvað í þá veru

 

[Ástæða er til að hvetja hið metnaðarfulla bókaforlag, Dimmu, sem gefur út þessa nýju ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur til að gefa út heildarsafn ljóðabóka hennar sem allra fyrst!]

Ritdómurinn birtist í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði 2024

 

Tengt efni