PRÍSUNDARFISKAR OG ANNÁLAMYRKUR - Um Kallfæri eftir Guðrúnu Hannesdóttur
Í nýjustu ljóðabók Guðrúnar Hannesdóttur, Kallfæri, eru um 60 ljóð. Aftast eru nokkrar skýringar. Guðrún á brýnt erindi, hún þarf sannarlega að komast í kallfæri við lesendur og nú er það okkar að hlusta.
Ljóðin eru mörg hver flugbeitt og tekin er skýr afstaða gegn stríði, náttúruspjöllum, andvaraleysi og og hvers kyns yfirgangi. Sum bera með sér söknuð eftir fortíð eða tengjast náttúrunni; þar blakta gullstrá og huggunarreyr, hryssur bíta, regndropar og snjókorn falla, fræ fjúka og norðurljósin syngja. Víða er frost og ís í ljóðunum, vetrarhörkur og klakahröngl og „rabarbarastóðið fyrir utan kreppir tærnar í angist” (35). Rödd ljóðmælanda er rödd þess sem víða hefur farið og margt reynt og vill vara okkur við áður en það verður of seint.
Fyrstu tvö ljóðin í bókinni draga fram liðinn tíma sem mörgum er ókunnur og svipað þema er í ljóðinu „myrkur” á bls. 55. Í amstri daganna, umferðarnið og síbylju, heyrist ekki hátt í birtingarhljómi, fjaðraþyt eða fornu tauti og skrjáfi en við ættum kannski að leggja eyrun við og muna uppruna okkar og fortíð.
Þriðja ljóðið „tónverk í smíðum” er í sama dúr. Þar eru fyrirboðar þess að verið er að eyðileggja náttúruna með endalausri græðgi. Áður en við er litið er búið að leggja landið okkar undir grjótnámur, virkjanir og vindmyllur. Orðið prísundarfiskur kemur þar fyrir; lax sem elst upp í keri eða kví.
Í ljóðinu „Jeríkó, þaulæft atriði” er vísað til þess að stríð hafa verið háð um aldir og þau bitna mest á börnum. Lúmskt fyndið er ljóð um internetið (já, reynið bara að yrkja eitthvað bitastætt um það óskáldlega fyrirbæri) og yfirvofandi endalok þess. Og ljóð um hlátur kvenna snerti mig, það minnir á lífsbaráttu formæðra okkar og upp rifjuðust ummæli skáldkonunnar Margaret Atwood: Karlar óttast að konur hlægi að þeim - konur óttast að karlar drepi þær.
VINDHANAHLÁTUR
í þann tíð hlógu konur
hvorki dátt né lengi
kannski stöku álfkona á nýársnótt
eða stúlka í hópi barna
undir rökkursvefninn
í þessu landi var hlátur jafn galinn
og vindhani á bæjarburst
hefði ekki lafað þar lengi
nema ryðgaður skakkur
með óþolandi ískri
til einkis að tjasla við hann
slitinn úr öllu samhengi við vindáttina
og nauðsynleg jafnaðargerð
eins gott að sleppa honum alveg
(32)
Guðrún er meistari í orðasmíð og hugrenningatengslum eins og ótal dæmi sýna; „reynið bara að segja upphátt: þrír vetur í röð ... og fallið er bratt niður í dimmt annálamyrkur” (36).
Ekki eiga mávar sér marga málsvara en Guðrún dregur upp mynd af þeim, leitandi sér eilíflega að góðum stað til að deyja á. Ruslahaugarnir þar sem þeir dvelja löngum eru friðsæll staður; með volgri vélarolíu og ryðrauðum salla sem fellur hljóðlaust (41). Allt á sinn tilverurétt í heimsmyndinni.
Lljóðin í Kallfæri eru ort af orðsnilld og hagleikni, djúpri visku, stakri myndvísi og knýjandi þörf. Þau eru hvert öðru betra. Ég staldraði oft við mörg þeirra og naut þess að lesa þau, s.s. telos, gullgerðarlist og „dátarnir staðföstu.
Bókin endar á himnabréfi til lesenda en skv. gamalli trú voru það bréf sem skrifuð voru á himnum og bárust síðan til manna. Þeir sem komust yfir slík bréf töldust hólpnir í þessu lífi og öðrum (61). Í Kallfæri er sannarlega reynt að koma himnabréfinu til okkar, vara okkur við og veita sáluhjálp. En við þurfum að leggja eyrun við.