SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir29. september 2025

NÝTT SKÁLD - NÝ LJÓÐABÓK - NÝTT LJÓÐ

Anna Rós Árnadóttir hefur nú bæst við Skáldatalið okkar en hún sendir senn frá sér sina fyrstu ljóðabók. Bókin ber titilinn Fyrir vísindin og gefur Benedikt bókaútgáfa hana út. 

Anna Rós er fædd árið 1998 og hefur nýlokið meistaranámi í almennri bókmenntafræði. Hún hefur þegar látið að sér kveða í ljóðheimum og birt ljóð í ýmsum tímaritum auk þess sem hún hreppti Ljóðstaf Jóns úr Vör í byrjun árs fyrir ljóð sitt Skeljar sem lesa má hér

Úgáfu ljóðabókarinnar Fyrir vísindin verður fagnað í bókabúðinni Skáldu að Vesturgötu 10a, fimmtudaginn 9. október kl. 17. Þangað eru öll velkomin.

Anna Rós var svo vinsamleg að senda okkur smá kitlu, þegar eftir því var leitað, en ljóðið mun birtast í nýrri ljóðabók sem beðið er eftir með óþreyju:

 

Vísindakonan
 
Hún tekur vinnuna aldrei með sér heim
getur ekkert að því gert að sum hús
eru í eðli sínu tilraunastofur
 
þakrenna dropamælir
þröskuldur loftvog
gluggi smásjá
glerskápur jarðskjálftamælir
gleraugu gleraugu
sloppur sloppur
hanskar hanskar
 
getur ekkert að því gert að sumar konur
eru í eðli sínu vísindakonur
frá því þær vakna á morgnana
þar til þær sofna á kvöldin og
umbreytast í spákonu
miðil sjáanda
ég er ekki skyggn
segir hún á morgnana
ég er ekki skyggn
minnir hún sig á
á kvöldin
 
ég er ekki skyggn
hvíslar hún þar sem hún stendur
fyrir framan titrandi glerskápinn
og talan kemur til hennar
nákvæm
upp á kommu
ég er ekki skyggn
það eru bara þessi loftnet
í mér.

 

 

 

 

Tengt efni