SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir10. október 2025

LJÓÐAUPPLESTUR Á KAFFI GOLU LAUGARDAGINN 11. OKTÓBER KL. 15

 

 
 
Nokkur verðlaunaskáld lesa ný og eldri ljóð á Kaffi Golu á Hvalsnesi í Sandgerði þar sem meðal annarra stórskáldið Hallgrímur Pétursson þjónaði um nokkurra ára bil og skildi eftir stein til minningar um dóttur sína Steinunni. Skáldin fjalla um fegurð, sorg, áföll, gleði og ýmislegt fleira.
 
Anna Björg Hjartardóttir er eigandi og framkvæmdastjóri heildverslunarinnar Celsus ehf. Hún hefur áhuga á ljóðagerð og söng og er í tónlistarnámi en hún hefur komið fram sem einsöngvari víða. Anna Björg vann til verðlauna í ljóðasamkeppni Ljósberans 2023. Hún hefur áhuga á heimspeki og heldur fyrirlestra um friðarmál og búddisma. Hún er virk í alþjóða friðar-, menntunar og menningarsamtökum Soka Gakkai Int.
 
Draumey Aradóttir er rithöfundur og skáld, búsett í Hafnarfirði. Auk þýðinga hefur hún gefið út tvær barnabækur og sex ljóðasöfn. Hún hefur hlotið ótal viðurkenningar fyrir ljóð sín. Nýjasta ljóðabók hennar, Brimurð, kom út fyrr á þessu ári. Þrjár síðustu bækur hennar, Varurð, Einurð og Brimurð eru ljóðræn för gegnum óttann, áföll í móðurkviði og eilífa ást sem nær gegnum allar víddir.
 
Garibaldi (Garðar Baldvinsson) er fæddur í Reykjavík 1954 og hefur ort ljóð í áratugi. Ljóðin í Sjötíu bragandi dúfum sem kom út í fyrra lýsa sambandi skáldsins við yngsta bróður sinn og erfiðu lífi þeirra en einnig kærleika og von. Tvö ljóðanna hlutu verðlaun í ljóðasamkeppni Ljósberans 2023. Væntanleg bók hans, Þagnafár, sýnir líf föður hans og flótta hans frá áföllum í bernsku sem brjótast fram þegar hann jarðsetur yngsta son sinn.
 
Margrét Lóa Jónsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1967. Í fyrra hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir 12. ljóðabók sína, Pólstjarnan fylgir okkur heim. Fyrsta ljóðabók Margrétar, Glerúlfar, kom út 11. október 1985. Margrét Lóa hefur gefið út skáldsögu og þýtt ljóð, einkum úr spænsku. Einnig hefur hún starfrækt listagalleríið Marló og bókaútgáfu með sama nafni. Margrét Lóa hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ljóðagerð sína.
 
Ragnheiður Lárusdóttir hefur skrifað ljóð frá því að hún lærði að skrifa. Árið 2020 hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssona fyrir ljóðabókina 1900 og eitthvað en í fyrra kom út bókin Veður í æðum sem er safnbók og inniheldur allar þær fjórar bækur sem hún hefur skrifað til þessa. Í nýju bókinni yrkir Ragnheiður um þá sáru reynslu að horfa á dóttur sína lenda í fjötrum fíknar – en líka um þá töfra tilverunnar sem umlykja okkur og vonina sem glóir víða.

Tengt efni