SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir17. nóvember 2025

ÁHRIFARÍKT LISTAVERK - Blóðhófnir endurútgefinn


Ljóðabálkurinn kunni eftir Gerði Kristnýju, Blóðhófnir, hefur verið endurútgefinn í flokknum Nútímaklassík hjá Máli og menningu. Bókin hefur lengi verið ófáanleg og í ár eru liðin 15 ár frá því hún kom út. 

Í Blóðhófni yrkir Gerður Kristný um jötnameyna Gerði Gymisdóttur sem Skírnir, skósveinn Freys, sótti nauðuga til Jötunheima handa húsbónda sínum sem var friðlaus af ást til hennar. Hér er efni hinna fornu Skírnismála listilega flutt í nútímalegt söguljóð, þrungið femínisma og ofbeldi, harmi og trega.

Gerður Kristný hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Blóðhófni sem sló eftirminnilega í gegn við útkomu haustið 2010 og hefur síðan komið út víða um heim.

„Í ljóðabókinni Blóðhófni sækir Gerður Kristný sér efnivið til eddukvæðabálksins Skírnismála og af fagmennsku og með feminísku sjónarhorni smíðar hún áhrifaríkt listaverk sem á skilið allt það lof sem á það hefur verið borið", ritaði Soffía Auður Birgisdóttir m.a. í ítarlegum ritdómi um bókina sem birtist fyrst í TMM og síðan á skáld.is. 

Eftirfarandi ljóðlínur úr Blóðhófni lýsa upplifun Gerðar Gymisdóttur eftir að hafa verið rænt og síðan nauðgað:

Dagur að
kvöl kominn
 
Vígtennt myrkrið
skreið yfir
himinhvolfið
 
Hrammar Freys
hremmdu mig
 
fleygðu mér
innst í óttann
 
Hann risti
sár í svörð
nýtt á hverri nóttu
 
Sannarlega áhrifaríkt listaverk og fagna ber endurútkomu þess. Og það er virðingarvert að gullfallegri bókarkápunni hefur ekki verið breytt. 

 

Tengt efni