SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir27. desember 2019

„EINKALÍF MITT Á EKKERT ERINDI Á BÓK“

Jakobína – saga skálds og konu er eftir sagnfræðinginn og dóttur Jakobínu, Sigríði Kristínu Þorgrímsdóttur. Þar er sagt frá ævi og verkum Jakobínu Sigurðardóttur skáldkonu (1918-1994) á býsna lifandi og skemmtilegan hátt.

Margir þræðir

Bókin telur rúmlega 400 síður og er skipt upp í tvo hluta. Fyrri hluti fjallar um árin frá 1933-1948 og er sögusviðið Hornstrandir, Holtin og Reykjavík. Sá síðari segir frá árunum í Garði, frá því 1949 og fram að dánardægri Jakobínu. Hvorum hluta fyrir sig er skipt upp í kafla sem afmarka enn frekar einstök æviár, störf og verk Jakobínu. Þegar í nóg er að snúast hjá skáldkonunni við heimilisstörf, barneignir og ritstörf, og margir þræðir liggja saman, gætir á stundum dálítilla endurtekninga en það verður þó vart hjá þeim komist. Nokkrir kaflar geyma ímynduð samtöl höfundar við móður sína sem brjóta frásögnina skemmtilega upp. Auk þess að veita fróðlega innsýn í líf Jakobínu geymir bókin dágóða aldarfarslýsingu sem gerir að verkum að lesandinn á hægara með að fylgja skáldkonunni eftir og lifa sig inn í söguna.

Skemmtileg nálgun

Nálgun Sigríðar Kristínar er í senn fræðileg og persónuleg þar sem umfjöllunarefnið er móðir hennar. Bókin geymir vönduð vinnubrögð þar sem víða er leitað fanga og jafnan getið heimilda en einnig má þar finna kafla með ímynduðum samtölum mæðgnanna um efni bókarinnar. Þar takast jafnframt á ólík viðhorf til persónulega rýmisins. Jakobína var af þeirri kynslóð sem endaði gjarnan sendibréfin á beiðni um að brenna þau að lestri loknum. Þannig fór um fjögur bréfasöfn sem Jakobína skrifaði auk dagbókanna hennar að þeim var öllum fargað. „Einkalíf mitt á ekkert erindi á bók.“ (16) segir Jakobína hvöss við dóttur sína í einu af ímynduðu samtölunum. Sem betur fer hlýðir dóttirin þessu ekki því sagan sem hún segir af Jakobínu Sigurðardóttur er ómetanleg heimild um konu sem rís upp úr fátækt og basli sem ein „besta skáldkona Íslands fyrr og síðar“ (324).

Í Jakobínu búa andstæður

Í Jakobínu búa miklar andstæður. Hún er annars vegar róttækur hernaðarandstæðingur og þar er hún býsna fylgin sér. Til dæmis kærir hún sig ekki um að taka þátt í neinu á þjóðhátíðarárinu 1974 á „meðan erlendur her dvelst á landi voru.“ (354) Hún afþakkar bæði að lesa ljóð á Listahátíð í Reykjavík og að semja leikþátt, ásamt eiginmanni sínum, til að flytja á Laugum í Reykjadal. Skoðun hennar endurspeglast vel í kvæði sem hún yrkir þetta ár:

 

íslendingur með litlum staf

af tilefni þjóðhátíðar –

ekki dags ekki viku

ekki mánaðar né missiris –

ÁRS – mundu það

í dag

þann 27unda septembermánaðar

sendir þér kveðju

vélsmiðjan landráð há eff (354)

 

Hins vegar er Jakobínu einnig lýst sem léttri í lundu og notalegum félagsskap. Kvæðið sem hún orti um fyrsta barn sitt, Stefanínu, sýnir vel þessa mýkri hlið skáldkonunnar:

 

Mömmuljúf

Rökkrið ræður óði.

Raula ég í hljóði

brot úr lagi og ljóði,

lítinn kvæðisstúf,

- litla Mömmuljúf.

Allt mitt gull og gróði,

geisli úr lífsins sjóði,

ertu yndisljúf.

Litla Mömmuljúf.

 

Líði nóttin langa!

Löng er rökkurganga.

Fátt er yndisfanga.

Flyt ég kvæðisstúf

litlu Mömmuljúf.

Ótal rósir anga

er þinn silkivanga

strýkur hönd mín hrjúf,

litla Mömmuljúf.

 

Senn mun sólin bræða

svell og hrjóstrin klæða.

Vor og vonir græða

vetrarmeinin hrjúf,

litla Mömmuljúf.

Meðan þrautir mæða,

meðan stormar næða

kveð ég kvæðisstúf

litlu Mömmuljúf. (199)

 

Misskilningur leiðréttur

Bókin um Jakobínu er skreytt ljóðum frá ýmsum tímum og sömuleiðis eru skáldverkum hennar og smásögum gerð góð skil. Það er ekki hvað síst forvitnilegt að lesa um viðtökur verka hennar. Það er lítið rými á ritvellinum ætlað konum og því mjög á brattann að sækja. Verk kvenna féllu gjarnan undir hinn háðslega flokk „kerlingabókmennta“ og þóttu ekki merkilegar bókmenntir. Jakobína þarf því að strita þar sem annars staðar. Blessunarlega á hún þó fáeina vilhalla sér sem láta það ekki trufla sig um of að hún sé kona og tvisvar er hún tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir Dægurvísu árið 1967 og Lifandi vatnið – – – árið 1976. Síðan þá hafa gagnrýnendur gert sér æ betri grein fyrir hversu mikill fjársjóður er fólginn í verkum Jakobínu og lært að meta þau að verðleikum. Ennfremur eru þau í sífelldri endurskoðun og vill Sigríður Kristín til dæmis leiðrétta þann misskilning að móðir hennar setji stétt ofar kyni í verkum sínum. Hún fullyrðir þvert á móti að Jakobína setji stétt jafnfætis kyni og vísar m.a. í orð Helgu Kress um að í öllum verkum sínum fjalli Jakobína um samskipti kynjanna, stöðu kvenna og átök þeirra við karlveldið. (350) Auk þess bendir Sigríður Kristín á að Jakobína „fæðist inn í samfélag þar sem fátækar alþýðustúlkur eiga fárra kosta völ og sá skásti er að finna sæmilega fyrirvinnu. Hún [Jakobína] lítur stundum á hjónabandið sem nauðungarvist og hún skoðar oft sitt eigið líf út frá þeirri hugsun.“ Ennfremur segir Sigríður Kristín móður sína vera öskuvonda yfir stöðu jafnréttismála en „allt er rígskorðað í fornu fari kynhlutverkanna og hugarfarið líka.“ Þess vegna fari Jakobína hvergi. (350)

Verðlaunabók

Jakobína – saga skálds og konu hefur hlotið mjög góðar viðtökur. Hún hlaut á dögunum verðlaun bóksala í flokki ævisagna og er tilnefnd, í flokki fræðibóka og rita almenns efnis, bæði til íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna. Bókin er sannkallaður yndislestur og er mjög að hvers konar verðlaunum komin.

 

Tengt efni