SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 2. apríl 2022

FYRSTA #METOO SAGAN?

 
Þá stóð hann allt í einu frammi fyrir mér allsber. Þessi góðlegi maður var orðinn blárauður og þrútinn í framan. Augun ranghvolfdust og skjálfandi hendurnar fálmuðu í áttina til mín. Ístran hékk niður undir hné, brjóstin löfðu slyttislega utan á kafloðinni bringunni og titruðu af hjartslættinum. Ég hörfaði óttaslegin og mig klígjaði af viðbjóði. Ég hafði litið á hann sem huggara, - föðurlegan engil, og nú ætlaði hann að nauðga mér. Hann þreif aftan undir annað lærið á mér og ég missti fótfestuna og féll á flughálu gólfinu. Hann datt líka og vó salt á ístrunni milli fótanna á mér. Svo fó hann að mjaka sér ofan á mig og froðufelldi af ákafa. Ég trylltist alveg, - beit hann, læsti í hann nöglunum og reif út úr, tætti grátt hárstrýið af hálfsköllóttum hausnum á honum. Það lagði út úr honum laukfýlu, megna andremmu, svo mér lá við köfnun. En ég barðist eins og villiköttur fyrir lífi sínu. Hann náði taki á höndunum á mér. Mig sárverkjaði í veiku höndina, sem hann sneri niður í gólfið. Hann glennti í sundur fæturna á mér og lagðist ofan á mig af öllum þunga. Ég fann, að mér var ekki lengur undankonu auðið, og mér varð hugsað til þeirra karlmanna, sem ég hafði elskað, vafið fótunum utan um og gefið mig alla. Líkami minn féll máttlaus niður á ískalt gólfið og gafst upp. Það braust hljóð upp úr hálsinum á mér, hækkaði og varð að skerandi veini sem bergmálaði langdregið í sölum hússins. Ég hafði aldrei heyrt slíkt hljóð. Það fór um mig kipur og ég fór að kjökra. (Ásta Sigurðardóttir, 2021, bls. 14-15)
 
 
Þessa frásögn er að finna í smásögu Ástu Sigurðardóttur, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns, sem birtist fyrst í tímaritinu Lífi og list árið 1951. Það þykir nær öruggt að skáldkonan segi þarna frá eigin reynslu þar sem sögupersónan heitir Ásta, er listakona og starfar sem nakið módel - rétt eins og rithöfundurinn. Sagan er býsna berorð en hún hefst á því að Ásta er ofurölvi í partíi, lætur illa og er illa liðin. Hún fer út í nóttina í miklu uppnámi og þegar hún sest grátandi á götuna kemur til hennar „miðaldra maður, ákaflega góðlegur“ og býður henni að koma með sér heim til að þvo sér í framan (Ásta Sigurðardóttir, 2021, bls. 12). Í kjölfarið beitir hann hana kynferðislegu ofbeldi, líkt og frá greinir hér að ofan.
 
Viðbrögðin við sögu Ástu létu ekki á sér standa. Friðrika Benónýsdóttir fjallar nokkuð um þau í ævisögu skáldkonunnar, Minn hlátur er sorg sem byggir m.a. á frásögnum nánustu aðstandenda Ástu. Þegar hér er komið sögu var skáldkonan þegar á milli tannanna á fólki. Það hafði margoft sést til hennar þar sem hún fór um stífmáluð og drukkin auk þess sem það hneykslaði margan að hún starfaði sem nakið módel fyrir framan fjölda karlmanna.
 
Viðhorf fólks til Ástu er fyrst og fremst litað af því að hún er kona. Löngum hafa gilt aðrar reglur um hegðun kvenna en manna líkt og sést berlega af frásögn Friðriku þegar Ásta mætir einu sinni sem oftar á barinn. Þar sitja fyrir hressir menn sem setja upp hneykslunarsvip þegar hún nálgast borð þeirra. Samt virðast þeir jafn fullir og hún. Einn þeirra setur ofan í við Ástu og hún minnir hann á að honum hafi þótt hún falleg og yndisleg þegar hann skreið upp í til hennar nokkru áður. Maðurinn svarar því til að svona geti farið fyrir manni þegar hann er drukkinn, hann geti „jafnvel orðið hrifinn af druslu“ eins og henni (Friðrika Benónýsdóttir, 1992, bls. 91).
 
Þá þykir Ástu ekki betra viðhorf kvennanna til sín þar sem þær meti „frambærileika kvenna í giftingarhring á fingri og stærð og glæsileika heimilis“ líkt og kemur fram í ævisögunni. Sumar hverjar dáðst að Ástu í laumi á meðan þær eru ungar og ógiftar en um leið og þær eru orðnar lofaðar verður viðhorf þeirra fjandsamlegt og þær nota hvert tækifæri til að baktala hana, níða og lítillækka (Friðrika Benónýsdóttir, 1992, bls. 104).
 
Saga Ástu af kynferðislegu ofbeldi fær því ekki mikinn skilning og því síður vekur hún samúð hjá samferðafólki hennar árið 1951. Ásta ögraði fólki og taldi það sig ekki þurfa að leita lengra en í hennar eigin orð, í fyrrnefndri smásögu, til að undirstrika hversu mikil gála hún væri en þar segir að hún „leit út eins og mella og horfði ásælnislega á alla karlmenn“ (Ásta Sigurðardóttir, 2021, bls. 7). Það þurfti ekki frekari vitnanna við.
 
Saga Ástu er líklega fyrsta berorða fyrstu persónu frásögnin af kynferðislegu ofbeldi til að rata á prent en þeim hefur fjölgað síðan, til mikilla muna, og þá einkum með tilkomu internetsins og átaks á borð við #metoo-byltinguna. Þrátt fyrir að margt hafi tekið stórfelldum breytingum á þeim 70 árum sem liðin eru frá því að Ásta sagði frá reynslu sinni þarf fjöldi þolenda enn að mæta viðlíka viðhorfi og skáldkonan forðum; vantrú, kvenfyrirlitningu og drusluskömmun. Það er sannarlega umhugsunarefni.
 
 
 

Heimildir:

Ásta Sigurðardóttir. (2021). Sögur og ljóð. Forlagið.

Friðrika Benónýsdóttir. (1992). Minn hlátur er sorg: ævisaga Ástu Sigurðardóttur. Iðunn.

Tengt efni