SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir25. janúar 2023

MARGBROTIN MENNSKAN ÞRÍFST Í SKÁLDSKAPNUM - Ræða Arndísar Þórarinsdóttur

Arndís Þórarinsdóttir er handhafi íslensku bókmenntaverðlaunanna 2022 í flokki barna- og ung­menna­bóka fyr­ir skáld­sög­una Koll­hnís sem Mál og menn­ing gef­ur út. Arndís hefur skrifað vinsælar barna- og unglingabækur, meðal annars um nærbuxnaverksmiðju, miðaldahandrit, mjólkurfernuskáld og blokk á heimsenda. Hún hefur hlotið Barnabókmenntaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020 fyrir Blokkina á heimsenda (ásamt Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur) og Vorvinda, viðurkenningu IBBY, til Barnabókaverðlauna Reykjavíkur, Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og verið tilnefnd fjórum sinnum til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Arndís gaf skáld.is góðfúslegt leyfi til að birta öndvegis ræðu sem hún flutti í gær á Bessastöðum í tilefni af verðlaunaafhendingunni:

"Forseti Íslands, höfundar, útgefendur og aðrir lesendur.

Fyrir nokkrum árum sat á móti mér nafnkunnur bókmenntagagnrýnandi og kvartaði sáran yfir því hvað kollegar mínir væru hörundsárir í jólabókaflóðinu. Hún sagði svo um leið og hún horfði djúpt í augun á mér: „ÞETTA ER BARA BÓK. Það eru ekki himinn og jörð í húfi, þetta er bara ein bók á löngum ferli. Það er óþarfi að vera með þennan óhemjugang.“

Ég kímdi yfir samtalinu, en þegar illa gengur við skrifborðið hef ég ítrekað fálmað eftir þessu haldreipi sem krítíkerinn henti til mín. Þetta er bara bók. Það koma út þúsund bækur á íslensku á hverju einasta ári. Þetta er allt í lagi. Þetta er bara bók.

Og þetta tuldraði ég við sjálfa mig þegar handritið sem var búið að hrella mig í næstum áratug var orðið ári of seint til útgefandans, þrátt fyrir ótal áhlaup, ótal tilraunir og allt það sem mér lá svo mikið á hjarta.

Á endanum – með stuðningi vina, fjölskyldu og eiginmanns - beit ég á jaxlinn og sendi mínum langlundargóða ritstjóra handritið. Ég varð að sleppa sögunni út úr þessu sjálfskapaða fangelsi þótt ég treysti henni ekki enn.

Og bókin brölti í átt að útgáfu. Ég fann henni nafn og listamaður drauma minna teiknaði dásamlega kápu. En enn var ég samt uggandi.

Ég hafði augljóslega áhyggjur af hvers kyns formgöllum. Slíkt er hefðbundið á þessu stigi útgáfunnar. En aðallega óttaðist ég að bókin – umfram allar aðrar sem ég hef skrifað – væri of afhjúpandi. Að með því að skrifa þetta væri ég að gangast við því að sjálf hefði ég einhvern tímann hugsað það. Að ég væri vond manneskja.

Það var í sjálfu sér hægt að una við það að gefa út bók sem væri hugsanlega lágpunktur á ferlinum – einhvern tímann þurfa þeir að koma. Tilhugsunin um hitt var verri.

Samtíminn krefur okkur stöðugt um afstöðu. Ætlum við að læka færsluna eða ekki? Erum við með eða á móti, í þessu liði eða hinu. Er ekki rétt að skipta um prófíl-mynd til þess að lýsa stuðningi?

Það var margt sem ég reyndi að skrifa um í barnabókinni sem fékk nafnið Kollhnís. Sitthvað um fjölskyldur og allar erfiðu tilfinningarnar sem þrífast í nándinni og við þurfum að takast á við á öllum aldri. Ég reyndi að skrifa fyrir lesandi barnið sem ég var og lesandi konuna sem ég er. Ég skrifaði ýmislegt sem ég gæti aldrei kjarnað í 280 stafabilum. Ýmislegt sem ég get raunar ekki með nokkru móti tjáð á færri en 259 blaðsíðum. Af því þannig er skáldskapurinn. Í honum fær mennskan að vella fram. Þar fær lesandinn að stíga inn í heim þar sem svörin eru fleiri en bara rétt eða rangt.

Ég er innilega þakklát fyrir þær vinsamlegu móttökur sem sagan hefur fengið – og enn svolítið undrandi. Slapp þetta virkilega til? En eftir því sem frá líður held ég að velvilji lesenda sé kannski einmitt vegna breyskleikans – bæði míns og sögupersónanna minna. Við erum nefnilega öll svo ósköp ófullkomin.  

Kollhnís er bara bók. Bara ein bók af þúsund. Og ein einasta bók er auðvitað ekkert stórmál. En stórmálið, það sem öllu skiptir, er málheimurinn, bókaflóðið, samtalið, háskinn og krafturinn í bókunum þúsund. Af því að í skáldskapnum þrífst margbrotin mennskan og hún þarf rými sem er stærra en þumalfingurinn. Í sögunum er hægt að segja það sem ekki er unnt að segja með nokkru öðru móti.

Kærar þakkir fyrir mig. En mínar innilegustu þakkir vil ég færa fyrir bækurnar þúsund sem þið öll skrifið, þýðið, teiknið og gefið út. Í kvöld er ég meyr og þakklátur höfundur, en alla daga er ég glaður og þakklátur lesandi.

Takk."

 

 

Tengt efni