SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir19. maí 2023

LEIÐ FRÆÐIMANNSINS TIL SKÁLDSKAPARINS. Bækur Sigrúnar Pálsdóttur

Óhætt er að segja að leið Sigrúnar Pálsdóttir inn á svið íslenskra bókmennta sé sérstök. Það hlýtur að vera harla óvenjulegt að leggja á sig þá miklu vinnu sem það krefst að ljúka doktorsprófi í sagnfræði með þrotlausum, smásmuglegum rannsóknum til margra ára og snúa sér síðan að skáldsagnaskrifum. Sigrún lauk doktorsprófi frá Oxford háskóla á Englandi árið 2001 og starfaði eftir það við kennslu, rannsóknir og ritstjórn í nokkur ár. Frá því 2007 hefur hún starfað sjálfstætt og var meðal annars ritstjóri tímaritsins Sögu til ársins 2016. Á þessum tíma hefur hún ekki birt fræðigreinar en hins vegar hefur hún skrifað tvær bækur sem skilgreina má sem sagnfræði þótt þær beri einnig keim af aðferðum skáldskapar, eins og komið verður inn á síðar, og þrjár „hreinræktaðar“ skáldsögur. Hvort þessi vending í skrifum Sigrúnar þýðir að hún hafi alfarið snúið sér alfarið frá fræðilegum skrifum á tíminn eftir að skera úr um en hins vegar er ljóst að sagnfræðileg þekking hennar og sú rannsóknarþjálfun sem námið hefur fært henni skiptir sköpum fyrir skáldsagnaskrifin. Með bókum sínum hefur Sigrún markað sér eftirtektarvert svið í íslenskum bókmenntum með einstakri rödd þar sem söguleg þekking rennur skemmtilega saman við skáldlegt hugarflug og hæfileika til að setja saman áhugaverðan og spennandi texta. Þótt vettvangur hennar sé nú á sviði skáldskapar en ekki fræða er Sigrún Pálsdóttir enn að miðla sögulegri þekkingu – og líklega með miklu stærri lesendahóp en ella.

Í útvarpsviðtali sem Jórunn Sigurðardóttir tók við Sigrúnu í tilefni af útkomu þriðju bókarinnar, Kompu (2016), lýsir Sigrún muninum á starfi fræðimannsins og skáldsagnahöfundarins og fagnar því frelsi sem sá síðarnefndi nýtur; að það sé mikil hamingja fólgin í því að skrifa skáldskap samanborið við starf fræðimannsins.1 En það er einmitt í Kompu sem Sigrún stígur skrefið frá sagnfræðinni yfir í skáldskapinn til fulls því fyrri bækur hennar tvær, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847–1917 (2010) og Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga (2013) eru rótfastar í sagnfræðinni, segja frá raunverulegum persónum og eru byggðar á heimildum. Það er skemmtileg staðreynd að aðalpersóna Kompu er fræðimaður, ung kona sem hefur skrifað mörghundruð blaðsíðna doktorsritgerð í listasögu og er við það að leggja hana fram þegar babb kemur í bátinn sem stofnar doktorsprófinu í hættu. Með það í huga má segja að þriðja bók Sigrúnar byggi brú á milli fyrstu verkanna tveggja og þeirra tveggja sem hún hefur sent frá sér síðan; Delluferðarinnar (2019) og Dyngju (2021). Hér á eftir verður hugað að öllum þessum bókum og spáð í hvernig bakgrunnur höfundarins í fræðimennsku setur mark sitt á þann skáldskaparheim sem hún hefur skapað.

 

Unnið með heimildir: Þóra biskups

Ári eftir að Sigrún lauk við doktorsritgerð sína, Icelandic Culture in Victorian Thought. British Interpretations (c. 1850–1900) of the History, Politics and Society of Iceland, birti hún grein í bókinni Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Erlendsdóttur sagnfræðingi sem bar yfirskriftina: „Sagan um Þóru biskups“2 og er mjög áhugaverð fyrir þann sem er að skoða verk Sigrúnar. Þar segir hún frá verkefni sem hún fékk sem fyrsta árs nemi í sagnfræði við Háskóla Íslands, sem var „að greina, kenna og staðsetja“ nafnlaust bréf „í þeim tilgangi að læra að meðhöndla heimildir“ (251). Bréfið reyndist skrifað af Þóru Pétursdóttur, eða „Þóru biskups“, og var sent vinkonu hennar, Sigríði Einarsdóttur, sumarið 1872. Sigrún segir að bréfið hafi komið henni á óvart því heimur þess hafi virst framandi:

 

Hann féll að minnsta kosti ekki alveg að þeirri mynd sem ég þá hafði af tímabilinu. Yfir bréfinu var einhver kæruleysislegur hégómi og tjáningin í því svo óbeisluð að mér fannst það gæti varla verið skrifað af ungri konu búsettri í höfuðstað fátækasta lands Evrópu, í fásinninu norður við ysta haf, á þeim tíma sem prúðmennska, undirgefni og bæling féll ef til vill betur að ímynd kvenlegra dyggða en framhleypni, sjálfsöryggi og galsi. Þetta þótti mér spennandi […]. (251)

 

Þetta gefur Sigrúnu tilefni til að spá í hvernig heimildir eru notaðar og túlkaðar og þá sérstaklega hvernig einstakar heimildir eru felldar inn í þá „stórsögu“ sem rannsakandi leitast við að bregða upp. Hún bendir á að samkvæmt stuttum formála Finns Sigmundssonar að bréfi Þóru, sem birtist í bókinni Sendibréf frá íslenzkum konum 1784–1900,3 mætti álykta að bréfið væri fyrst og fremst heimild „um lífið í Reykjavík“ en ekki um bréfritarann (253). Þannig hafi hin hefðbundna saga litið framhjá því sérstaka gildi sem einstaka heimildir geta haft, til að mynda um líf einstaklinga. Sigrún telur að þetta eigi einnig við um það sem hún kallar hefðbundna kvennasögu, þar geta konur lent í „aukahlutverki“ því heimildir um þær eru fyrst og fremst nýttar til að skoða „framvindu sögunnar“:

 

Í hinni hefðbundnu kvennasögu, það er þeirri sögu kvenna sem leggur áherslu á þætti eins og réttindi og vinnu kvenna, áhugamál og viðhorf þeirra til menntunar, er Þóra einmitt í þessu hlutverki. Þar er hún meðal annars hluti af sveit kvenna af embættismannastétt sem sinnti félagsstarfsemi tengdri kvenréttindum, líknar- og bindindismálum […] Í listasögunni er Þóra hins vegar hluti af listvakningu meðal kvenna á Íslandi í lok þarsíðustu aldar. […] Í Reykjavíkursögunni stígur Þóra svo fram á sögusviðið sem vel menntuð og sigld biskupsdóttir, vænlegur kvenkostur í hringiðu hins „viðburðasnauða“ skemmtanalífs Reykjavíkur. (253–254)

 

Saga Þóru sjálfrar er ósögð, ítrekar Sigrún, þrátt fyrir að hún hafi komið við sögu í ýmsum sagnfræðirannsóknum sem hver um sig leitast við að bregða upp mynd af ákveðnum þáttum í  samfélagslegri sögu eða tímabilum í Íslandssögunni. Um leið og Sigrún ræðir helstu vankanta sem blasa við í notkun fræðimanna á heimildum veltir hún fyrir sér hvernig best sé að koma sögu Þóru á framfæri. Ljóst er að í þessari grein Sigrúnar má sjá frumdrögin að fyrstu bók hennar, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 18471917 sem kom út tæpum áratug síðar. Sigrún getur þess að heimildir um líf Þóru séu óvenjumiklar að umfangi og að það auðveldi að sjálfsögðu verkið:

 

Bréfin, auk dagbókanna, spanna tiltölulega langt tímabil en það eykur möguleika á að láta söguna lúta ákveðnu innra samhengi. Með því er átt við að segja megi sögu Þóru og skýra atburði í lífi hennar með því að skoða lífsferil hennar í heild í stað þess að túlka einstaka þætti út frá vitneskju okkar um líf ungra kvenna í Reykjavík á þarsíðustu öld. (255)

 

Í bók sinni um Þóru biskups leitast Sigrún við að láta þessar persónulegu heimildir tala; bókin byggist fyrst og fremst á skrifum Þóru sjálfrar. Það er aðeins á fyrstu 24 síðum bókarinnar sem Sigrún byggir á öðrum heimildum til að framkalla baksvið þeirrar myndar sem á eftir kemur. Hún leggur ríka áherslu á að hér sé um sagnfræði að ræða en ekki skáldskap, enda fylgja bókinni heimildaskrá, myndaskrá og nafnaskrá, samtals 60 blaðsíður. Fremst í bókinni má lesa þessi orð: „Öll samtöl og sviðsetningar í þessari bók eiga sér stoð í heimildum og eru í engu tilviki skáldskapur höfundar“.4 Það er einmitt í samtölum og sviðsetningum þar sem vinnubrögð Sigrúnar sem höfundar koma fram, ásamt því hvernig hún velur úr heimildum og hvernig hún kýs að raða því efni saman. Hún er höfundur heildarverksins þótt hún leitist við að „skálda“ ekki neitt. Og þetta heppnast vel, bókinni var afar vel tekið, var til að mynda tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis þar sem framúrskarandi fræðibækur eru verðlaunaðar, auk þess að hljóta tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna starfsfólks bókaverslana. Ritdómar um bókina voru flestir samróma um að hún væri einkar vel heppnuð og endurtekin stef í dómnum voru að verkið væri sagnfræðilega traust um leið og bókin væri skemmtileg aflestrar.

 

Gleðin við að skrifa

Það er áhugaverð þverstæða að Sigrún lýsti því yfir í blaðaviðtali að hún hefði í upphafi verið „staðráðin í að bjarga Þóru frá sögubókunum“5 en samt leggur hún áherslu á að bók hennar sé sagnfræði en ekki skáldskapur. Það er eigi að síður einmitt með aðferðum skáldskapar – samtölum, sviðsetningum og léttum stíl – sem henni tekst ætlunarverkið, að skrifa sagnfræði fyrir almenning: „Þetta er sagnfræði fyrir ungar stúlkur á öllum aldri og karlmenn sem hafa áhuga á konum. Áherslan á tungumál bréfanna endurspeglar nefnilega ekki bara fræðilega afstöðu heldur líka það markmið mitt að færa söguna nær hinum almenna lesanda.“6 Gunnar Karlsson sagnfræðingur skrifaði afar jákvæða umsögn um bókina og nefnir hvort tveggja frásagnarstílinn og að um fræðilega nýjung sé að ræða: „Frásögnin er hröð, fjörleg, svolítið gamansöm án þess að reyna nokkuð á sig til að vera fyndin. Fræðilega er líka veruleg nýjung að þessari bók. Þar birtist fágæt mynd af tilveru ógiftrar stúlku í borgarastétt.“7 Illugi Jökulsson benti á að eitt lykilatriðið í því hvernig Sigrún nær til „hins almenna lesenda“ í bókinni um Þóru biskups sé stíllinn: „[…] eiginlega er ánægja Sigrúnar af því að skrifa ein ánægjulegasta reynslan af því að lesa þessa bók! Hún er skrifuð af ísmeygilegri gleði, einhvern veginn.“8 Velta má fyrir sér hvort hin „ísmeygilega gleði“ sem lýsir af frásagnarhætti bókarinnar eigi rætur að rekja til þess tóns sem Sigrún skynjaði í áðurnefndu sendibréfi Þóru, til hins kæruleysislega hégóma og hinnar óbeislaðu tjáningar sem hún nefnir í greininni; framhleypni Þóru, sjálfsöryggi hennar og galsa. Svo vill til að slík einkenni verða áberandi í skáldsögum Sigrúnar sjálfrar, ekki síst Delluferðinni sem síðar verður rædd.

Eins og áður kom fram vildi Sigrún „frelsa Þóru frá sögubókunum“ í þeim skilningi að saga hennar yrði ekki bara „viðhengi samfélagsþróunar“ á forsendum karllægrar sögu.9 Í ritdómi í tímaritinu Sögu segist Íris Ellenberger kunna Sigrúnu „góðar þakkir fyrir að neita þráfaldlega að hengja frásögn sína á hefðbundinn tímaás meintrar þjóðarsögu og undirstrika þannig að saga er margbrotið og marglaga fyrirbæri sem engin eining ríkir um, þótt ákveðnar tegundir hennar séu algengari en aðrar“.10 Hins vegar segist Íris hafa saknað þess stundum „að Sigrún væri femínískari sagnfræðingur“ og segir skort „á femínísku sjónarhorni [verða] áberandi þegar litið er til þess að Þóra og hennar líkar voru táknmynd alls þess sem þótti óþjóðlegt á sama tíma og karlar af svipuðum stigum urðu efni í þjóðhetjur. Hún var módern, heimsborgari og kona í þokkabót.11 Þegar Sigrún er spurð að því í viðtali við Fréttablaðið hver séu þá „hin nýju sannindi“ bókarinnar gefur hún mjög áhugavert svar:

 

Einstakur hæfileiki Þóru sem bréfritara. Tungumál og tjáning hennar sem sjónarhorn á samfélagsþróun, hversdagslíf og hugsunarhátt íslenskrar borgarastéttar. Nákvæmar lýsingar hennar á atburðum og aðstæðum, sviðssetningar, samtöl fólks með beinum ræðum, skop hennar að tungumálinu og eigin líkamsvexti og annarra, skrásetning hennar á fyllirísröfli á grímudansleik í Kaupmannahöfn og svo framvegis. Allir þessir eiginleikar heimildanna tengjast margröddun textans og í samhengi íslenskrar sögu hafa þeir mikla þýðingu þar sem við eigum nánast engar skáldsögur frá þessum tíma.12

 

Sigrún tengir skrif Þóru því beint við íslenskar bókmenntir, að lýsingar hennar á lífi sínu séu nokkurs konar staðgengill skáldsagnatexta. Sjálf velti ég því fyrir mér í ritdómi um bókina „hvort að í Þóru hafi leynst efni í íslenska Jane Austen“ því hún var sískrifandi (bréf, ferðabækur, dagbækur) en lítið sem ekkert skáldskaparkyns virðist varðveitt eftir hana:

Því óneitanlega eru miklar samsvaranir með lífi Þóru og tilveru kvenhetja bresku skáldkonunnar – og þá sérstaklega í sambandi við möguleg og ómöguleg mannsefni. Það sem meira er: Af tilvitnunum í skrif Þóru má sjá að hún hefur auga fyrir hinu skoplega og kann vel þá list að beita háði og tvíræðni, af ætt Jane Austen.13

 

Að einhverju leyti lítur Sigrún Pálsdóttir því á sína fyrstu bók bæði sem sagnfræðirit og framlag til íslensks skáldskapar – og undir það má taka.

 

„Hvernig drukknar maður með börnum sínum?“

Í bókinni Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga (2013) tekur Sigrún aftur fyrir sögulegt efni og segir frá hjónunum Sigrúnu Briem og Friðgeiri Ólasyni sem fórust ásamt þremur börnum sínum þegar farþegaskipinu Goðafossi var sökkt af þýskum kafbáti rétt við Íslandsstrendur 10. nóvember árið 1944. Hjónin voru á heimleið eftir að hafa stundað framhaldsnám í læknisfræði í Kanada og Bandaríkjunum. Hér er aftur byggt bæði á sagnfræðilegum og persónulegum heimildum, bréfum, dagbókum, blaðagreinum, skýrslum o.fl. Aðferð Sigrúnar er svipuð og í fyrstu bókinni, heimildirnar eru notaðar til að byggja upp tíðarandamynd um leið og fylgt er æviferli hjónanna allt til hins hörmulega dauðdaga fjölskyldunnar.

Það er í raun magnað að hugsa um hversu gjörólíkir heimar það eru sem mæta lesandanum í bókunum tveimur. Þóra biskups er enn á lífi þegar Sigrún Briem fæðist árið 1911 en þegar Þóra deyr árið 1917 er hún „komin óravegu frá hinu óhagganlega samfélagi embættismanna um miðja nítjándu öld og hinum formfasta heimi landshöfðingjatímans“, eins og segir í bókinni um Þóru (213). Konurnar tvær eiga það sameiginlegt að alast upp við fjárhagslegt öryggi en það er himinn og haf á milli möguleika þeirra á að rækta hæfileika sína; samfélagið hefur tekið stakkaskiptum, sér í lagi þegar kemur að tilveru kvenna.

Mörg svið fléttast saman í þessari bók. Sigrún er ein af fyrstu íslensku konunum sem leggur stund á læknisfræði og áhugavert er að fá innsýn í þá kvennasögu. Þau Friðgeir eru fyrstu Íslendingarnir sem fara í framhaldsnám til Bandaríkjanna og hann fyrsti Íslendingurinn sem tekinn er inn í hinn virta Harvard-háskóla í doktorsnám í læknisfræði. Þá er sögð áhugaverð saga af því hvernig ung hjón byggja upp framtíð sína, mennta sig, koma undir sig fótunum í atvinnulífinu og eignast börn. Allt kostar þetta mikla vinnu og ýmsar fórnir þarf að færa svo markmiðunum sé náð. En það er falleg mynd sem teiknast upp af fjölskyldunni, við fáum innsýn í hugsanir þeirra í gegnum dagbækur og bréf og fjölmargar ljósmyndir af fjölskyldunni auka áhrifamáttinn. Skýrasta andstæða bókarinnar er fjölskyldulífið annars vegar og stríðið hins vegar. Sigrúnu tekst mjög vel að draga upp mynd af þessum sögulegu tímum og nýtir hún fjölbreytilegar sögulegar heimildir til að skapa samfélagslega umgjörð um sögu fjölskyldunnar og lýsa framvindu stríðsins. Bréfasöfn og dagbækur gera síðan gæfumuninn þegar kemur að hinni persónulegu sögu.

Stíll bókarinnar er þéttur og rennur vel. Kaflarnir eru fimmtán og lengstir eru fyrsti kafli og lokakaflinn. Allt fram að síðasta kafla styttast kaflarnir og þeir síðustu, áður en að lokakaflanum kemur, eru mjög stuttir; þeir bregða upp svipmyndum úr lífi fjölskyldunnar áður en þau leggja af stað heimleiðis í lokasiglinguna. Gera má ráð fyrir að allir lesendur þekki örlög fjölskyldunnar fyrirfram og maður kemst ekki hjá því að fyllast óhug og sorg eftir því sem nær dregur endalokunum. Í lokakaflanum er lýst nokkuð ítarlega tilverunni um borð í Goðafossi og siglingunni heim. Áhrifarík er sviðsetning höfundar á sjálfri árásinni á skipið og þar má segja að hún taki sér skáldaleyfi þegar hún lýsir nokkurs konar afturliti Sigrúnar til hamingjutíma í lífi fjölskyldunnar (byggt á bréfum) þegar tundurskeytið hefur grandað skipinu og „Sigrún er hvergi eða um það bil einhvers staðar mitt á milli lífs og sögu“ (176).14 En nákvæm lýsing höfundar á ástandinu um borð eftir sprenginguna þær sex mínútur sem liðu áður en skipið var horfið niður í undirdjúpin er byggð á bókum sem áður hafa verið skrifaðar um atburðinn, sem og sjóferðarprófum, blaðaviðtölum og öðrum vitnisburði þeirra sem komust af. Lýsing höfundar er bæði fagleg og áhrifarík. „Hvernig drukknar maður með börnum sínum?“ (182) er spurning sem sett er fram undir lokin en að sjálfsögðu er ekkert svar mögulegt við slíkri spurningu og lokorð bókarinnar eru: „Og myrkrið undir yfirborði sjávar sem verður svartara við hvert orð sem reynir að lýsa því sem þar hefur gerst“ (183).

Fyrir þessa bók hlaut Sigrún Pálsdóttir tilnefningu til Viðurkenningar Hagþenkis, líkt og fyrir fyrstu bókina, og að auki var hún tilnefnd til Menningarverðlauna DV, bæði í flokki fræðirita og fagurbókmennta og hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki ævisagna. Með þessum tveimur óvenjulegu sagnfræðiritum hafði Sigrún vakið verðskuldaða athygli og fest sig í sessi meðal áhugaverðustu rithöfunda landsins.

           

Kompur af ýmsu tagi

Í þriðju bókinni,  Kompu (2016), stígur Sigrún skrefið til fulls úr heimi fræðanna og inn í heim skáldskaparins – en þó ekki. Það fyrsta sem blasir við lesanda bókarinnar er fræðimaður að störfum að skoða (skáldaða) sögulega heimild. Ung íslensk kona situr á bókasafni í Bretlandi við rannsóknir og er að skrifa upp færslur úr dagbók frá sautjándu öld. Dregið er fram hversu endurtekningarsöm og tímafrek slík vinna getur verið og lengst af án sýnilegs árangurs: „það var ekkert í þessu. Ekkert annað en formfastur og fremur andlaus vitnisburður um fábrotna tilveru sem erfitt var að gefa mikla merkingu, jafnvel þótt hún væri 365 ára gömul. En ég varð víst að klára, halda áfram að fletta. Halda áfram að rýna í það sem ekkert var.“15 En hin þreytandi rannsóknarvinna ber þó árangur um síðir og fræðikonan unga sér fram á að geta lagt fram doktorsritgerð í fyllingu tímans þar sem framlag hennar mun breyta sýn manna á breska listasögu og teljast til tíðinda í kvennasögu. Hún ætlar að tileinka ritgerðina móður sinni. Í næsta kafla bókarinnar er sex hundruð blaðsíðna ritgerðin skrifuð og sögukona á bara eftir að ganga frá formsatriðum og leggja hana fram, en eitthvað hefur komið upp á. Lesandi fær ekki að vita strax hvert vandamálið er en fræðikonan hefur tekið sér hlé, er komin heim til Íslands og virðist glíma við djúpt þunglyndi og leyndarmál sem hún treystir engum fyrir.

Titill bókarinnar er margræður, hann getur til að mynda vísað til sálarástands sögukonu, eða eins og segir á nafnspjaldi sálfræðings sem henni hefur verið ráðlagt að hitta: „Fear is that little darkroom where misconceptions are developed“ (15). En í húsinu sem sögukona og eiginmaður hennar leigja í Reykjavík er einnig að finna litla kompu sem liggur inn af stofunni og er nokkurs konar leynistaður sem sögukona fer á þegar henni líður illa eða vill forðast fólk, og að einhverju leyti speglar hún vanda sinn í þessu litla rými: „Af hverju hafa þessar dyr aldrei verið opnaðar eða á þær minnst síðan við fluttum hingað inn? Kannski af sömu ástæðu og sannleikurinn um margra ára rannsókn mína neitar að koma upp á yfirborðið: ég má auðvitað ekki hugsa um það helvíti, nei, ekki svo mikið sem orða það inni í eigin höfði“ (16–17). Kompan verður því líka eins konar tákn fyrir undirmeðvitund sögukonu. Á sama hátt og hún vill ekki upplýsa um sannleikann um rannsókn sína vill hún líka leyna þessari kompu fyrir öðrum og hengir fyrir dyrnar teppi með myndum af þremur grískum örlagagyðjum – „Atropos, Lakkesis og Kloþo“ (21) – þeim sem spinna lífsþráðinn (Kloþo), úthluta honum til hvers og eins (Lakkesis) og skera á hann (Atropos). Lesanda getur grunað að í vísunum til þessara gyðja kunni að leynast forboði. Við hugleiðingarnar um bókartitilinn má bæta því við að móðir sögukonu gefur henni litla minnisbók – kompu í skærbleiku og mjúku leðurbandi með gylltri teygju (28) – og á sú minnisbók eftir að koma meira við sögu síðar. Inni í þeirri kompu felur sögukona laust blað úr fornu handriti sem hefur markað þáttaskil í doktorsrannsókn hennar og hún veit ekki hvað hún á að gera við. Síðar verður það einmitt móðir hennar sem leysir það vandamál, eins og fram kemur í nokkuð óvæntum sögulokum.

 

Karl eða kona?

Eins og líklega á við um teppið af örlagadísunum sem áður var lýst er texti Sigrúnar í Kompu þéttofinn. Víða laumar hún inn tilvísunum til vandamálsins sem hún glímir við í doktorsritgerðinni, hvort listamaðurinn sem hún er að skrifa um sé karl eða kona. Á einum stað er móðir hennar að lýsa listaverki sem er sett saman „úr nokkur hundruð speglabrotum sem með mismunandi lit glersins og afstöðu á myndfletinum sýna tvö ólík andlit, karlmanns og konu, eftir því hvaðan horft er á verkið“ (26). Rétt áður hefur hún lýst því að erfitt sé „að segja hvort móðursystir mín teljist fremur kvenleg eða karlmannleg“ (24).

Hin mismunandi sjónarhorn á listaverkið sem kalla fram mismunandi myndir vísa svo aftur til fræðanna, til mismunandi aðferða og sjónarhorna sem fræðimenn beita. Og slíkar hugleiðingar eru endurspeglaðar í frásögn bókarinnar þar sem túlkanir og rangtúlkanir koma víða við sögu. Hér má til dæmis nefna samband sögukonu við annað fólk. Stór hluti frásagnarinnar sýnst um samskipti hennar – og samskiptaleysi – við aðra, móður sína og vinkonur til að mynda. Hún á stóran hóp vinkvenna og hefur ákveðnar skoðanir á þeim sem hún kemur á framfæri í kostulegum kafla þar sem lýst er sumarbústaðaferð sem hún fer reyndar sjálf ekki í. Það kemur þó ekki í veg fyrir að hún ímyndi sér hvað þar fer fram og hvernig samræður vinkvennanna þróast. Lesandinn fær því ákveðna sýn á vinkonurnar og metur þær eftir túlkun sögukonu. Síðar kemur í ljós að þær túlkanir eiga ekki allar við rök að styðjast, eru beinlínis rangtúlkanir byggðar á hennar eigin hugmyndum og fordómum. Hér vakna að sjálfsögðu spurningar um aðrar túlkanir og hvort fræðimenn, til dæmis, stjórnist ef til vill fyrst og fremst af sínum fyrirfram gefnu hugmyndum þegar þeir meðhöndla og túlka heimildir. Sigrún laumar slíkum hugleiðingum víða inn í frásögnina. Á einum stað spyr tengdafaðir hennar til dæmis „hvort skjalasöfn séu í eðli sínu frumskógur, dæmi um þá almennu óreiðu sem lífið sé?“ (49). Spurningunni má líka snúa við og spyrja hvort okkar óreiðukennda líf sé eins og skjalasafn þar sem öllu ægir saman? Það gæti verið vandasamt að draga fram heildstæðan söguþráð ævinnar úr slíkum frumskógi.

Hér að ofan var því lýst hvernig rannsóknarvinna sögukonu fólst lengst af í því að „að rýna í það sem ekkert var“. En síðan verða þáttaskil í rannsókninni:

 

[…] á degi 203. Þá tók rannsókn mín alveg nýja stefnu. Dagur númer 203 var ekki bara merkileg uppgötvun ein og sér, sem leiddi í ljós að S.B. var höfundur myndarinnar af Tom Jones, heldur breytti vísbendingin sem þar var að finna, um að höfundurinn væri kvenmaður, handritinu í heild sinni. Það sem áður virtist lítilfjörlegur vitnisburður um hversdaglegar og síendurteknar athafnir öðlaðist nú allt aðra merkingu. Það var þó ekki síst fyrir mikið magn af fræðilegu efni sem mér tókst að sjúga sögulega þýðingu úr nánast hverju einasta orði dagbókarinnar. Ég drakk í mig allt sem hafði verið skrifað um tímabilið, um myndlist og um konur. Og ég lærði ný hugtök. (43)

 

Þar sem áður var „ekkert“ öðlast þá fyrst merkingu þegar rannsakandi horfir á textann frá öðru sjónarhorni en áður, líkt og gildir um listaverkið úr spegilbrotunum sem móðir hennar lýsti snemma í frásögninni. Það listaverk kemur aftur til tals og við fáum nánari útskýringu móðurinnar á merkingu þess:

 

„Sko, áhorfandinn sér verkið aðeins frá einu sjónarhorni í einu. En með því að færa sig úr stað sér hann hvernig andlit hins stóra leikanda sögunnar umbreytist í annan af öðru kyni. Og eins og þú hefur væntanlega komið auga á er það engin tilviljun hver breytist í hvern í þessu verki.“ Svo glottir hún og hagræðir hárinu á höfði sínu og heldur áfram og talar um hvernig þessi tvöfalda andlitsmynd ógni hugmyndinni um söguna sem þráð sem spunninn sé af valdakörlum […] (91)

 

Túlkunarvandinn

Það má ljóst vera að þótt Sigrún Pálsdóttir hafi snúið sér frá sagnfræðiritun til skáldskaparskrifa í Kompu eru heimildir og túlkunarvandi þeirra henni enn mjög hugleikin. En slíkar hugleiðingar eru haganlega fléttaðar saman við söguþráð skáldsögunnar, ofnar saman við frásögnina af fræðikonunni sem veit ekki hvað hún á til bragðs að taka þegar hún finnur texta sem henni hefur áður yfirsést og getur kollvarpað öllum hennar fyrri túlkunum. Mæðgnasambandið er einn meginþráður sögunnar og í ljós kemur að sögukona hefur einnig mistúlkað ýmislegt í fari móður sinnar. Undir lok frásagnarinnar er það móðirin, sem hefur fylgst með námi dótturinnar af miklum áhuga og reynt að aðstoða hana eftir megni, sem tekur málin í sínar hendur, enda gerir hún sjálf uppgötvun sem enn á ný breytir öllu. Hér verður ekki farið nánar út í þá sálma heldur aðeins ítrekað að ekki er allt sem sýnist í Kompu Sigrúnar Pálsdóttur. Stíllinn er á köflum súrrealískur, enda bendir allt „til þess að í skynjun okkar leynist staður þar sem raunveruleikinn og ímyndunin renna saman í eitt“ eins og er tvítekið í bókinni (61–62 og 116). Lesandi þarf að fara að eins og sögukonan þegar hún les sundurlaus textaskilaboð úr síma frá vinkonu sinni: „Þetta er heill hellingur […] ég tjasla brotunum saman í huganum og fylli inn í söguna í krafti þekkingar. Og smá ímyndunarafls“ (114).

 

Delluferð Sigurlínu Brandsdóttur

Í skáldsögunni Delluferðinni snýr Sigrún aftur til loka nítjándu aldar og kalla mætti bókina sögulega skáldsögu ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hér er hvorki fjallað um sögulega atburði né sögulegar persónur og söguþráðurinn er „uppspuni“. Sagan gerist um aldamótin 1900 og frásögnin hefst á samdrykkju háttsettra íslenskra karlmanna í mars 1897 þar sem þeir eru að ræða undarlegt mál sem varðar unga íslenska konu, Sigurlínu Brandsdóttur eða Miss Selenu Branson, sem fréttir hafa borist af frá Ameríku. Nokkrum árum fyrr hafði Sigurlína horfið sporlaust af landi brott en vísbendingar eru um að nú séu þeir komnir á slóð hennar, undir breyttu nafni. Hér eru saman komnir Landshöfðinginn, Dómarinn, Presturinn, Amtmaðurinn, Skáldið, Sagnfræðingurinn og Ritstjórinn (starfsheitin rituð með stórum staf og greini í bókinni) og þetta gefur strax tóninn fyrir þá gamansömu frásögn sem er að hefjast. Fulltrúar íslenska karlveldisins eru forviða yfir þeim möguleika að hér sé um að ræða: „Peðið hans Brands?“, „Litla peðið!“, „Peð?“ (13). Þrítekningin á orðinu „peð“ myndar sterka andstæðu við starfsheiti karlanna og á milli kynjanna og stöðu þeirra á sögutímanum. Það sem vekur mesta furðu karlanna er að litla peðið virðist hafa selt lítinn og gamlan hlut, hugsanlega „beltissprota“, fyrir fimmtán þúsund dollara, upphæð sem nemur næstum því öllu „sparisjóðsfé Landsbanka Íslands“ (13), en bankinn sá er í byggingu á sögutímanum. Lesandinn fær ekki frekari fréttir af þessum fundi að sinni heldur fylgir stofustúlku sem legið hefur á hleri út úr stjórnarráðshúsinu, „þessa gamla tukthúss“ (14), og eltir hana á harðahlaupum niður Bankastræti, inn Austurstræti og „upp í Brandshús í tæka tíð, meðan sagan af Branson, henni Línu litlu, með öllum sínum útúrdúrum, eyðum og undrum er enn skýr í höfði hennar“ (13). Hlaup stofustúlkunnar gefur einnig taktinn fyrir frásagnarstílinn, því frásögnin sem fylgir er mestan partinn hröð og fjörleg með ævintýralegum útúrdúrum, eyðum og undrum sem saman mynda áhugaverða og flókna sögufléttu. Síðar í bókinni er litið aftur inn á þennan fund í stjórnarráðshúsinu og þar afhjúpa hinir háttsettu herrar hroka sinn og kvenfyrirlitningu. Sigurlína er enn til umræðu og lesandi fær ágæta innsýn í persónuleika hennar:

 

Landshöfðingi: „Já, það er nafn hennar. Greind stúlka en óvenjuleg um margt.“

Sagnfræðingurinn: „Ég kem þessum kvenmanni ekki fyrir mig.“

Dómarinn: „Smávaxin og bjarthærð. Ekki ólagleg en dálítið vanstillt.“

Landfótgeti: „Já, hviklynd. Eilítið hortug líka.“

Prestur: „Það er vinnufrekjan á því heimili.“

Dómarinn: „Ritþræll föður síns.“

Skáldið: „Já, og þess á milli utan í útlendum mönnum mikið. Að reyna sig í enskunni. Það er eins og gengur með kvenfólkið hér. Hún er óþjóðleg í því formi. Hefur líka verið dugleg að selja þeim alls kyns flingur, saum og prjón.“

Prestur: „Er það ekki þjóðlegt og nytsamlegt?“

Skáldið: „Sokkaplögg og annað fánýti?“

Dómarinn: „Vinnur hún ekki þannig heiðarlega fyrir sér?“

Skáldið: „Jú, sjálfsagt er það. En auvirði engu að síður, því öllu ræður hér draumlyndið og þessi óstýriláti hugur, og ekki víst að öll sú iðja sé til framfara. Enda flúin burt. Föður sínum til mikilla rauna.“ (42)

 

Titil bókarinnar sækir höfundur til Benedikts Gröndals sem taldi útþrá ungra Íslendinga mestu dellu og notaði þetta orð yfir ferðlag ungrar vinkonu sinnar til Bandaríkjanna.16 Sigurlína á eftir að leggja í mikið ferðalag áður en yfir lýkur og mætti að ósekju skilgreina ferðina þá sem allnokkra delluferð. Rót ferðalagsins má rekja til kynna Sigurlínu af erlendum ferðamönnum á Íslandi. Í öðrum kafla bókarinnar fylgjum við henni í útreiðartúr með nokkrum Ameríkumönnum út fyrir bæinn en hún aðstoðar vinkonu sína við að sjá um nesti handa ferðalöngunum. Sigurlína er þarna sextán ára gömul, býr með ekklinum föður sínum og bróður í miðbæ Reykjavíkur, sinnir húsverkum og handavinnu en þráir eitthvað meira og betra, sérstaklega utanför, hugmyndir sem Brandur, faðir hennar, kennir við loftkastala. Brandur er „fræðimaður og skrifari“ á forngripasafni Íslands en bróðir Sigurlínu hyggur á nám í Kaupmannahöfn sem gæti þó tafist vegna lítilla efna fjölskyldunnar.

 

 

Einhver varð að ganga í þá gildru …

Útreiðartúrinn með útlendingunum vindur upp á sig og Sigurlína er aftur beðin um að aðstoða vinkonuna með matarstúss fyrir útlendingana en þeir ætla að slá upp veislu fyrir íslenska embættismenn um borð í skipinu Arena áður en þeir sigla aftur af landi brott. Eftir að hafa þjónað fólkinu til borðs og þegar liðið er á kvöldið mætir Sigurlína einum útlendinganna, Mr. Watson sem orðinn er drukkinn, í þröngum káetugangi skipsins. Hann gerir sér lítið fyrir og kippir henni inn í káetu sína og kemur fram vilja sínum. Lýsingin á nauðguninni er mjög vel gerð og lýsir andstæðum tilfinningum og togstreitu Sigurlínu sem á erfitt með að átta sig á því sem gerist. Í kjölfarið siglir svo skömm og sjálfsfyrirlitning sem alþekkt er í slíkum tilvikum:

 

Hún hugsaði um að slíta sig lausa en leið einkennilega og fannst hún ekki geta hreyft sig út af einhverri undursamlegri tilfinningu […]. Það var einhver vitleysa að leika sér inni í höfðinu hennar, það var eitthvað tvennt að gerast í einu sem hún kannaðist ekki við, eitthvert sull af vellíðan og viðbjóði sem magnaðist þegar Watson lyfti upp svuntunni hennar, pilsinu og niðurhlutnum, beygði sig niður og strauk grófu skegginu upp eftir hálsinum og hvíslaði einhverju í eyrað sem hún skildi ekki en hljómaði ljótt. Hann hafði hendur um mjaðmir hennar og þannig ýtti hann henni varlega aftur og ofan í kojuna sína. Hún setti hendurnar undir sig og ætlaði að rísa upp en komst hvergi, því nú skreið Watson sjálfur upp í og var á hnjánum fyrir ofan hana. Ósjálfrátt leitaði vinstri fótur hennar upp og á öxl mannsins en þegar hún reyndi að ýta honum þannig frá sér, tók hann örugglega um ofurlítinn skinnskóinn hennar og nuddaði mjórri tánni upp við nef sér og brosti. „Don‘t be a prissy old maid.“ Svo sleppi hann takinu, ýtti pilsunum hennar lengra upp á maga og settist varlega ofan á hana miðja, byrjaði að vagga sér fram og aftur eins og í leiðslu með augun lokuð. Hún hvíslaði: „Mr. Watson?“ og þá var eins og hann væri sleginn niður, stefndi beint niður á líkama hennar svo hún henti sér út á hlið og greip um andlitið. En klof hans var enn læst um mitti hennar og herti nú að af miklum þunga um leið og andardráttur hans var dýpri. Sigurlína lá grafkyrr. Hún var byrjuð að titra. Sú undarlega sæla sem hafði læst sig um líkama hennar fyrir stundu, hún fann ekki fyrir henni lengur, aðeins andstyggð á sjálfri sér þar sem hún lá undir þessum framandi líkama.“ (39–40)

 

Sigurlína er á báðum áttum yfir því sem gerst hefur og mun engum segja frá því: „Hún myndi aldrei sjá hann framar. Framferði hans og sín heimskulegu viðbrögð skyldi hún geyma vel og láta ekki kvelja sig. Hafi hún látið hann svívirða sig var það að sköpum; einhver varð að ganga í þá gildru sem káeta mannsins var“ (44). En Mr. Watson reynist hafa fleira á samviskunni en að brjóta gegn Sigurlínu og í koju hans rekst hún á forngrip, nælu, sem hún veit að tilheyrir Fornminjasafninu og tekur með sér í land. Hún kemst þó aldrei til að skila gripnum og hefur hann með þegar hún heldur óvænt og með litlum fyrirvara í sína delluferð, fyrst til Skotlands og þaðan til Ameríku.

 

Auður og örbirgð í Ameríku

Lýsingin á ferðalagi Sigurlínu og dvöl hennar í Ameríku er ævintýralegasti hluti bókarinnar, enda er það fjölskrúðugt samfélag sem Sigurlína sogast inn í þegar hún kemur til New York:

 

Auðsöfnun í þessari miklu fjármálamiðstöð sem New York-borg er bæði nærir og reiðir sig á nýja tegund lifnaðarhátta sem síaukin verksmiðjuframleiðsla gerir mögulega. Öll eru þessi ósköp knúin áfram af gífurlegri fólksfjölgun; þjóðflutningum. Síðan Hoffmann-fjölskyldan settist að á Manhattan hefur íbúafjöldi svæðisins nærri því þrefaldast. Á venjulegum degi stíga meira en sjö þúsund aðkomumenn á land á Ellis Island, nærri strandlengju New Jersey, inn í nýbyggða landamærabygginguna. Skipin fylla höfnina, önnur nálgast land. (57)

 

Fyrsti áfangastaður Sigurlínu er einmitt heimili Hoffmann-fjölskyldunnar en Franz W. Hoffmann er eigandi „stærsta bóka- og handritasafns á Nýja Englandi“ og er einn ríkasti meðlimur „hins auðuga samfélags á Manhattan“ (55). Hoffmann hefur sent Brandi föður Sigurlínu bréf og beðið hann að útvega sér íslenskumælandi skrifara því hann hefur um árabil safnað íslenskum handritum og bókum. Í því bréfi sá Sigurlína felast möguleika sinn til utanfarar og gefur sig því fram sem þann skrifara sem Hoffmann hefur óskað eftir. Þar fær Sigurlína innsýn í heim hinna ofurríku en örlögin haga því þannig að dvöl hennar hjá Hoffmann tekur skjótan endi, og reyndar á hún erfitt með að finna sig í þessum heimi:

 

En á hvaða ferðalagi var Sigurlína? Hvert var hún að fara? Stefndi bara eitthvað niður eftir og svo upp eftir aftur. Spennan við að ráfa hér um götur vék smám saman fyrir tómleika og einhverri ónotatilfinningu. Kannski var þrátt fyrir allt betra að tilheyra litlu og fábreyttu samfélagi en að vera ósýnilegur innan um allt þetta líf. […] Hún var langt að komin en samt enn föst í sínum smáheimi. Því þaðan hafði hún flúið til þess eins að snúa þangað aftur. (73–74).

 

Eftir dvölina á einu auðugasta heimili New York hallar undan fæti hjá Sigurlínu sem lendir nánast á götunni en fær að lokum vinnu á saumastofu þar sem stúlkum er þrælað út á tíu tíma vökum við að sauma nærbuxur. Hún fær því að kynnast gangverki hins kapítalíska kerfis sem er á fleygiferð í ört vaxandi stórborginni. Líf Sigurlínu meðal hinna snauðustu verður henni um megn og það eina sem henni kemur til hugar að geti hugsanlega bjargað henni úr ömurlegum aðstæðunum er að selja íslenska forngripinn sem hún er enn með í fórum sínum. Þegar hún kemur loksins á fund safnstjóra Metropolitan-safnsins og sýnir honum næluna „ýtti hann henni varlega með vísifingri í átt að ungu konunni: „You need history to turn old gold into priceless treasure““ (111) – og Sigurlína, sem aldrei deyr ráðalaus, veit hvar þá sögu er að finna sem getur breytt óhreinni íslenskri nælu í ómetalega fjársjóð. Hún hefur samband við vellauðuga ameríska konu sem er heltekin af sögu Guðríðar Þorbjarnardóttur og hefur skrifað um hana sögulega skáldsögu. Með því að spinna upp frásögn um að nælan kunni að vera „beltissproti“ sem hafi verið í eigu Guðríðar tekst Sigurlínu að vekja áhuga auðkonunnar á gripnum og á endanum að koma honum í verð. Í frásögninni af þeirri ‚skáldsögu‘ allri fer Sigrún á kostum í spaugi og sýnir bandarískt auðmannasamfélag í ærið háðslegu ljósi, jafnvel mætti tala um spéspegil. Hér er aftur hnykkt á hinni gríðarlegu misskiptingu gæðanna sem er grundvöllur amerísks samfélags um leið og hugrenningar eru vaktar um sannleika þeirra sagna sem Íslendingar hafa í gegnum tíðina spunnið upp um sínar merkustu fornminjar, miðaldahandritin. Fyrir þessa skemmtilegu skáldsögu hlaut Sigrún Pálsdóttir Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins sem veitt eru sem hvatning til nokkurra framúrskarandi rithöfunda Evrópulanda árlega.

 

Að fljúga eða ekki fljúga

Nýjasta skáldsaga Sigrúnar, Dyngja (2021), gerist á síðari hluti tuttugustu aldar og spannar mikið umbrotatímabil í sögu íslenskra kvenna – og reyndar mannkynssögunni allri. Á baksviðinu koma til að mynda við sögu alheimsviðburðir á borð við fyrstu tungllendinguna í júlí 1969, Kúbudeiluna og Víetnamstríðið. Í Reykjavík er Breiðholtið að byggjast upp, konur eru að reyna að auka frelsi sitt og möguleika og Rauðsokkahreyfingin er stofnuð. Allt þetta snertir líf aðalpersónunnar Theodóru Karlsdóttur á einn eða annan hátt. Hún er þó ekki beinn þátttakandi í opinberri kvennabaráttu en háir sitt einkastríð og á í innri baráttu þó sjaldan viðri hún frelsishugmyndir sínar við aðra. Theodóra – kölluð Teddý – er sérstæður persónuleiki, líklega er hún einhvers staðar á einhverfurófinu, á ekki sérlega auðvelt með að tengjast öðrum en er gædd góðum gáfum, sérstaklega á sviði stærðfræði sem er henni sem opin bók og áhugi hennar á tölum nánast þráhyggja.

Teddý er fædd undir lok fimmta áratugarins og uppalin á litlum sveitabæ, Tungu í Bárðardal. Hún er einkabarn foreldra sinna, náttúruunnandi og góð hestakona, líkar vel í sveitinni en hefur ekki leitt hugann sérstakleg að framtíðinni, „enda hafði framtíðin aldrei verið mikilsráðandi umtalsefni í Tungu þar sem lífið fór í sína hringi, og áfram frá einni árstíð til annarrar“ (22). Það er fyrst þegar afi hennar deyr að hún fer að hugsa um framtíð sína og hvort hún ætlaði þá einnig sjálf „að deyja inni í þessu litla koti“ (35). Úr verður að Teddý þreytir landspróf og tekur síðan stúdentspróf með glæsilegum árangri frá Menntaskólanum á Akureyri. Hún hefði dúxað hefði sögukennarinn, sem var í nöp við hana, ekki brugðið fyrir hana fæti á munnlegu prófi. Á heimavistinni deilir hún herbergi með róttækri stúlku að sunnan, Silvíu, og kynnist í gegnum hana þeirri hugmyndalegu gerjun sem átti sér stað meðal ungs fólks á sjöunda áratugnum. En þeir hugmyndastraumar hafa þó ekki teljandi áhrif á Teddý sem er einræn og blandar lítið geði við annað fólk. Helstu straumhvörf í lífi hennar sjálfrar eiga sér stað fjarri mannabyggðum, í óbyggðum og uppi í háloftunum.

 

Flug og frelsi

Því má halda fram að flug sé það tákn sem liggur til grundvallar frásögninni; flug í bæði eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Flug er hefðbundið frelsistákn, ekki síst í skáldskap kvenna sem þrá að þenja vængi sína: „Grágæsamóðir, ljáðu mér vængi,“ orti Hulda, „svo ég geti svifið suður yfir höf“. Fyrir tilviljun er Teddý boðið í útsýnisflug í lítilli einkaflugvél og þegar flugmaðurinn fær hjartaáfall neyðist hún til að taka stjórnina með hjálp frá starfsmönnum flugturnsins á Akureyri og tekst að lokum að lenda vélinni þrátt fyrir að hafa enga reynslu af flugi. Þetta fyrsta flug Teddýjar veldur straumhvörfum í lífi hennar þótt það komi ekki í ljós fyrr en mörgum árum síðar. Hún hefur þá farið í gegnum unglingsárin og snemmfullorðisár sín án þess að hafa mikla stjórn á hvernig líf hennar æxlast.

Eftir að hafa lent í óvæntu ævintýri í óbyggðum daginn sem hún varð stúdent grunar Teddý að hún sé með barni og til að redda sér úr þeim vandræðum tekur hún saman við bóndason af næsta bæ sem hafði sent henni ástarbréf stuttu eftir að hún fermdist. Þegar hún missir síðan fóstrið situr hún eftir í ástlausu sambandi sem hún kann ekki að losa sig úr. Hún flytur suður með bóndasyninum sem ætlar að freista gæfunnar í höfuðborginni og hefur keypt einbýlishús í byggingu í Breiðholtinu fyrir þau tvö og móður Teddýjar sem flytur með þeim, enda orðin ekkja og engin framtíð fyrir þær mæðgur í sveitinni. Lýsingin á lífinu í Reykjavík er fremur nöturleg, mæðgurnar eru greinilega á röngum stað og í rás tímans kemur í ljós að bóndasonurinn ræður ekki við fyrirtækjareksturinn í höfuðborginni. Teddý fær vinnu sem gjaldkeri í banka, móðirin í eldhúsi Borgarspítalans og lífið er heldur tilbreytingarlaust þangað til Teddý rekst á fyrrverandi herbergisfélaga sinn, Silvíu. Sú hvetur hana til dáða og segir að kona með hennar hæfileika eigi ekki að sætta sig við að vinna í banka, „þú ættir náttúrulega að læra að fljúga“ (129), segir hún, enda „liggur eitt og annað í loftinu, vígin eru að fara að falla eitt af öðru! Þetta veit ég því að ég er sjálf að fara að taka þátt í þessu öllu saman, ég er orðin hluti af hópi kvenna sem ætlar að stofna hreyfingu til að vekja konur upp og fá þær til að nýta sér réttindi sín og hæfileika“ (129). Silvía bendir einnig á að „launin í þessum bransa eru himinhá og atvinnumöguleikar miklir“ (130). Teddý hefur þó raunsærri sýn á möguleika sína: „Það ræður enginn konu til að fljúga flugvél. Ekki til að vinna við það“ (130) en Silvía svarar á móti: „Konur verða að framkvæma hið ómögulega, hið fordæmalausa“ (130). Brýning Silvíu hefur þó þau áhrif að Teddý ákveður að geyma peninga sem hún fékk fyrir hestinn sinn í stað þess að verja þeim í parket á nýja húsið og einhverjum mánuðum síðar hefur hún flugnám – í felum – og reynist auðvelt að tileinka sér þá þekkingu og tækni sem góðir flugstjórar þurfa að búa yfir. En þegar hún hefur lokið námi kemur að sjálfsögðu í ljós, líkt og Teddý gerði sér sjálf grein fyrir, að ekkert flugfélag er tilbúið til að ráða konu sem flugstjóra. Hún getur hins vegar fengið starf flugfreyju og því starfi á hún eftir að gegna lengi.

Ekki er ólíklegt að Sigrún Pálsdóttir byggi þennan þráð í sögu Teddýjar að einhverju leyti á sögu Valgerðar Þorsteinsson og Ernu Hjaltalín sem voru fyrstu íslensku konurnar til að ljúka flugmannsprófi en hvorug þeirra fékk starf sem flugmaður. Valgerður lauk einkaflugmannsprófi árið 1946 en Erna árið 1950, og tveimur árum síðar lauk sú síðarnefnda atvinnuflugmannsprófi og bætti síðar við sig prófi í loftsiglingafræði í Bandaríkjunum. Ekki dugði þessa mikla menntun Ernu til að hún fengi starf sem flugmaður en karlkyns samnemendur hennar voru allir fastráðnir hjá Loftleiðum að loknu prófi. Sjálf starfaði hún sem flugfreyja hjá félaginu í mörg ár en hélt áfram að fljúga einkaflugvél sinni og fleiri minni flugvélum þegar tækifæri gafst.17

Það er ljóst að flugið tengist sjálfsmynd og tilfinningum Teddýjar á djúpan hátt. Hún segir sjaldnast hug sinn en þegar yfirmaður hennar í bankanum spyr hana af hverju hún hafi farið að læra flug eftir að hafa lent í svo hættulegum aðstæðum í fyrsta skiptið sem hún steig upp í flugvél lifnar hún öll við og fer á óvenjulegt ‚flug‘ í svarinu sem hún gefur honum:

 

 Í fyrstu áttaði hann sig ekki alveg á því um hvað hún var að tala. Það var eitthvað um að finna fyrir sjálfri sér. Að hún hefði alltaf þurft að hafa fyrir slíku. Farið að því vitlausar leiðir. En þarna hefði hún fundið eitthvað rétt. Eftirvæntingin hafi magnast um leið og hún spennti sætisólina, og þegar vélin hóf sig á loft og hún þrýstist djúpt niður í sætið hríslaðist um líkama hennar einhver æðisgengin tilfinning sem hún hafði látið sér detta í hug að væri sú alsæla sem hún hafði lesið  um í bókum. En það var þó fyrst eftir að vélin var komin í loftið að hlutirnir fóru að gerast. Hún vissi ekki alveg hvort orð væri til yfir þessa tilfinningu, það var ekki beinlínis nein frelsisþrá eða slíkt, heldur var eins og hún hefði fengið einhvers konar vitrun við að sjá landið fjarlægjast og byggðina skreppa saman. Það var eins og opnast hefði fyrir einhverja skynjun, eitthvert nýtt skilningarvit. Bærinn þeirra svona agnarsmár, jörðin þeirra varla stærri en frímerki. Þó rúmuðu þessar eindir allt hennar líf og þann eina heim sem hún þekkti í raun og veru; hún sjálf ekki nema lítill punktur í grænni lautu að horfa á kynjamyndir í skýjum með maríuhænu á handarbakinu. Hún var samt ekki viss um hvort hún hefði fremur fundið fyrir stærð sinni en smæð, fljúgandi þarna yfir þessu öllu saman. (177–178)

 

Leikur að kynjum og kynhlutverkum

Hér að framan var minnst á hvernig Sigrún Pálsdóttir leikur sér að tvíræðu kyni í skáldsögunni Kompu og það sama er upp á teningnum í Dyngju. Gælunafnið Teddý er kynhlutlaust og stundum leikur Sigrún sér að því að umsnúa hefðinni og kynhlutverkum í sögu hennar. Til að mynda er þetta skemmtilega gert þegar Teddý lendir í óvæntu ‚ástarævintýri‘ í óbyggðum. Hún hefur farið í útreiðartúr á hestinum sem hún fékk í stúdentsgjöf, klædd aðeins í hvítan útskriftarkjólinn, og þegar þoka skellur skyndilega á villist hún af leið og það sama á við um bandarískan geimfara sem er við æfingar fyrir væntanlega tunglferð nálægt Öskju. Óvæntum fundi þeirra í óbyggðum er lýst frá sjónarhóli geimfarans: „Risastór og kolsvartur fákur með hvítt höfuð reis upp á afturlappirnar og á baki hans knapi, stúlkuriddari í ljósum stuttkjól með sítt og mikið hár sem slóst til í loftinu þar sem hún reyndi að ná taumhaldi á skepnunni“ (67). Teddý kemur eins og riddari á hestbaki til að bjarga geimfaranum og hefur síðan frumkvæði að því að ‚táldraga‘ hann inni í „Dyngju“ sem er „gamall gangnamannakofi“, náttstaður byggður úr torfi. Þótt ekki verði meira úr sambandi Teddýjar og geimfarans sendir hann henni löngu síðar nokkurs konar minjagrip – tunglgrjót – sem á eftir að leika lykilhlutverk í lífi Teddýjar og áætlun hennar sem gengur að nokkru leyti út á að ná sér niður á karlveldinu sem hefur staðið í vegi fyrir að hún fengi að nýta hæfileika sína til fulls – og fljúga.

Bókartitillinn Dyngja er ekki síður margræður en Kompa, eins og rætt var hér að framan. Sögusvið bókarinnar er að hluta til við Dyngjufjöll, eins og áður var nefnt bar gangnamannakofinn sem Teddý og geimfarinn dvelja í næturlangt nafnið Dyngja og sama heiti velur Teddý á fjárfestingafélag sem hún stofnar undir lok sögunnar. Ekki má heldur gleyma að orðið Dyngja vísar einnig til svefnstaðar kvenna og kvennabúrs og því má segja að í titli bókarinnar felist vísun til þeirra hindrana sem konur þurftu að glíma við á þeim árum sem sagan segir frá.

 

Saga og skáldskapur

Í öllum bókum Sigrúnar Pálsdóttur sem hér hefur verið fjallað um eru konur og hlutskipti þeirra í brennidepli. En þeim er þar ekki lýst sem viðhengi samfélagsþróunar á forsendum karllægrar sögu, svo vísað sé í áður tilvitnuð orð Sigrúnar, heldur sem sjálfstæðum einstaklingum með drauma og þrár sem þurfa að glíma við samfélagslegar hindranir og skort á tækifærum. Ef höfð er í huga sú gagnrýni Írisar Ellenberger að Sigrúnu Pálsdóttur hafi skort femínískt sjónarhorn í fyrstu bók sinni má fullyrða að slíkt sjónarhorn fari vaxandi með hverri bók sem Sigrún hefur sent frá sér. Ef til vill var hún ekki femínískur sagnfræðingur en ljóst  má vera að hún er femínískur skáldsagnahöfundur. Og þarna er í raun erfitt að aðskilja sögu og skáldskap; með hverri nýrri bók sem Sigrún sendir frá sér bætir hún við dráttum í sögu íslenskra kvenna og það gerir hún með skemmtilegum skáldskap sem er grundvallaður á traustum sögulegum grunni.

 

Aftanmálsgreinar
1 Jórunn Sigurðardóttir, Orð um bækur, RÚV, Rás 1: 22. október 2016. Hlýða má á viðtalið á vefslóðinni https://www.ruv.is/media/kompa-eftir-sigrunu-palsdottur
2 Sigrún Pálsdóttir, „Sagan um Þóru biskups.“ Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Erlendsdóttur sagnfræðingi, ritstjórar: Anna Agnarsdóttir, Erla Hulda Halldórsdóttir o.fl., Reykjavík: Kvennasögusafn, 2001, bls. 251–259. Frekari tilvitnanir í þessa heimild verða settar innan  sviga í meginmáli.
3 Finnur Sigmundsson (ritstj.), Sendibréf frá íslenzkum konum 17841900, Reykjavík: Helgafell 1952.
4 Sigrún Pálsdóttir, Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar 1847–1917, Reykjavík: JPV útgáfa 2010, bls. 5. Um bókina skrifaði ég ítarlegan ritdóm og mun því ekki fjalla nákvæmlega um efni hennar hér, sjá Soffía Auður Birgisdóttir, „Skrásetjarar með „combinationsgáfu,““ Tímarit Máls og menningar, 3. hefti 2011, bls. 140–144.
5 Án höf. „Frelsa Þóru frá sögubókunum.“ Viðtal við Sigrúnu Pálsdóttur, Fréttablaðið [sérblað um bækur] 17. nóvember 2010, bls. 7.
6 Sama heimild.
7 Sjá umsögn Gunnars Karlssonar á heimasíðu Sigrúnar Pálsdóttur: http://sigrun.funksjon.net/baekur.
8 Sjá umsögn Illuga Jökulssonar á heimasíðu Sigrúnar Pálsdóttur: http://sigrun.funksjon.net/baekur.
9 Án höf. „Frelsa Þóru frá sögubókunum.“
10 Íris Ellenberger, ritdómur í Sögu, 2. hefti 2011, bls. 235.
11Sama heimild, bls. 236.
12 Án höf. „Frelsa Þóru frá sögubókunum.“
13 Soffía Auður Birgisdóttir, „Skrásetjarar með „combinationsgáfu,““ Tímarit Máls og menningar, 3. hefti 2011, bls. 142.
14 Sigrún Pálsdóttir, Sigrún og Friðgeir. Ferðasaga, Reykjavík: JPV útgáfa 2013, bls. 176. Frekari tilvitnanir í bókina verða settar innan sviga í meginmáli.
15 Sigrún Pálsdóttir, Kompa, Reykjavík: Smekkleysa 2016, bls. 7. Frekari tilvitnanir í bókina verða settar innan  sviga í meginmáli.
16 Þetta kom fram í viðtali Egils Helgasonar við Sigrúnu Pálsdóttur í Kiljunni 9. desember 2019. Hlýða má á viðtalið á slóðinni: https://www.ruv.is/frett/spaugileg-delluferd-til-new-york-a-nitjandu-old
17 Sjá nánar Kristján Kristjánsson. „Ég var bara fædd á röngum tíma og stað.“ Viðtal við Valgerði Þorsteinsson, Morgunblaðið 20. ágúst 1996: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/282326/  og „Erna Hjaltalín, fyrsta flugkonan.“ Vefur Flugsafns Íslands: https://www.flugsafn.is/is/flugsagan/sersyningar/2008-erna-hjaltalin
 
Greinin birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2022, bls. 36-52.

Tengt efni