SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir30. júlí 2024

UMSAGNIR RÁNAR TRYGGVADÓTTUR UM BÆKUR #2

 
 
 
Þvingun eftir Jónínu Leósdóttur
 
Mig hefur lengi langað að lesa einhverja af bókum Jónínu og greip þessa með mér af bókasafninu um daginn og hugsaði mér gott til glóðarinnar að lesa reifara þar sem ég er á of miklu ferð og flugi til að einbeita mér að alvarlegri lestri (nema ljóðalestri). Bókin Þvingun uppfyllti þessa þörf, lipurlega skrifuð og nægilega spennandi til að ég kláraði bókina. En Adam, breski sálfræðingurinn, og Soffía rannsóknarlögregla og fyrrum eiginkona Adams, heilluðu mig ekki. Kannski að bókaflokkur Jónínu um orkumiklu eftirlaunakonuna Eddu, væri mér meira að skapi? Hvað segið þið sem hafið lesið meira eftir Jónínu en ég?
 
 
 
 
 
 
Gáfaða dýrið. Í leit að sjálfsþekkingu eftir Sæunni Kjartansdóttur
 
Ég var svo heppin að fá þessa bók að gjöf um daginn, stuttu eftir að hún kom út. Ég hef lengi fylgst með skrifum Sæunnar og verið hrifin af því sem hún skrifar um frumbarnæsku. Las síðan „Óstýriláta móðir mín” sem var mjög áhugaverð. Þessi bók er yfirlit yfir þá hugmyndafræði sem hún hefur tileinkað sér og sálgreiningarnámið og hvað það hefur gefið henni og það sem hún telur sálgreingingu geta gefið fólki. Líka hugleiðingar um lífið og tilveruna, hugleiðslu og heilbrigðan lífsstíl. Bókin er fallega frágengin og teikningar nöfnu minnar Flyering gefa henni skemmtilegan og léttan blæ. Vel þess virði að lesa og fékk mig til að hugsa margt og skilja betur.
 
 
 
 
 
DEUS eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur
 
Hrifning mín af Sigíði Hagalín sem rithöfundi eykst með hverri bók sem ég les eftir hana. Ég gat ekki klárað Eldana því mér fannst hún of raunveruleg og óttaleg sem segir líka sitt um hæfileika hennar sem rithöfundar og hreinis en las Hamingja þessa heims af mikilli ánægju. DEUS fékk blandaða dóma þegar hún kom út og hún fór því ekki efst á leslistann minn (og ég var líka spæld að fá ekki framhaldið af Hamingju þessa heims). En nú ef ég búin að lesa DEUS og fannst hún frábær. Ótrúlega áhugaverðar pælingar, ég elskaði alla ljóðaumfjöllunina og ætla að kynna mér ljóðskáldin sem eiga ljóð í bókinni betur. Fjölmiðlagreinarnar sem eru birtar eru mjög fróðlegar og forvitnilegar og fléttast vel inní söguna. Eina sem mér fannst ekki ganga alveg upp var bréf nunnunnar til páfans. Hefði kannski þurft að vinna lokafléttuna sem bréfið á að endurspegla aðeins betur og jafnvel setja í annað form - kannski frá fleiri hliðum eins og fyrr í bókinni. En þrátt fyrir það stendur þessi stutta, snarpa en samt djúpa bók mjög vel fyrir sínu.
 
 
 
Bækur fyrir unglinga
 
Vinkona mín var að spyrja mig um hvort ég gæti mælt með einhvejum bókum fyrir 13 ára stelpu. Ég hef mjög gaman af góðum barna- og unglingabókum og rifjaði margar þeirra upp sem, t.d. Dulstafaseríuna eftir hana Kristínu Björg Sigurvinsdóttur og Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur. Svo mundi ég eftir tvíleiknum Skuggasaga eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur sem mér fannst ótrúlega gaman að lesa. Mæli eindregið með þessum öllum.
 
 

 

 

 

Tengt efni