SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir18. febrúar 2025

EN HVERNIG GENGUR AÐ VERA RITHÖFUNDUR OG HÚSMÓÐIR...?

Árið 1989 kom út ástar- og spennusagan Sekur flýr þó enginn elti eftir Birgittu Halldórsdóttur. Sjöunda bók höfundar en bækur hennar seldust eins og heitar lummur og slógu Snjólaugu Bragadóttur út af vinsældalista á bókasöfnum landsins. Út kom ein bók á ári eftir Birgittu frá 1983-2002 og sex bækur komu út frá 2004 til 2025 en fyrir stuttu small nýjasta bók hennar, Undir óskasólu,  inn á storytel. 

Persónusköpun og frásagnarháttur í Sekur flýr... eru einföld og sagnaformúlan oftast svipuð í bókunum öllum.

Aðalpersónan Stella er fögur og óreynd stúlka,  gæðablóð og dyggðum prýdd. Hún hittir lífsreyndan mann sem heillar hana en hún reynir að verjast af öllum mætti með skynsemina að vopni en ástríðurnar sigra.

Á sveitabænum Sjávarbakka þar sem sagan gerist er líka gamall vinur sem nýlega var látinn laus úr fangelsi; stjúpsonur sem er nýkominn frá útlöndum, feitur, frekur og dökkleitur; áhrifagjörn systir hans sem hefur tapað áttum í lífinu og vinkona hennar gellulega Dísa Dögg sem kemur úr sollinum í Reykjavík. Á bænum er auðvitað amman sem veit sínu viti. Að ógleymdum Viðari hinum harðgifta og lífsreynda sem bankar uppá um miðja nótt, hann er 15 árum eldri en Stella og með ómótstæðileg augu. Auðvelt er að sjá strax af lýsingunum hvern mann persónurnar hafa að geyma og nokkuð fyrirsjáanlegt hver morðinginn er. En sagan er góð fyrir því. 

Grípum niður í blaðið Einherja, blað Framsóknarmanna í Norðurlandskjördæmi vestra, í nóvember 1989. Þar er skáldkonan, sem er starfandi bóndi í Húnaþingi, í viðtali og er spurð tveggja spurninga:

En hvenær skyldi áhugi höfundar fyrir að semja sögur hafa byrjað?

„Eg byrjaði strax sem barn” sagði Birgitta þegar þessi spurning var lögð fyrir hana á dögunum. Þegar ég var að alast hér upp bjó hérna hjá okkur amma mín Pálína Jónsdóttir. Hún sagði mér ákaflega mikið af sögum og ég held að sögurnar hennar hafi í rauninni vakið áhuga minn fyrir að semja sjálf. Eg var t.d. búin að semja heilmikið áður en fyrsta bókin mín kom út. Það er meðal annars til handrit að heilli bók frá þessum árum, en það er ólíklegt að það komi nokkurn tímann út.”

En hvernig gengur að vera rithöfundur og húsmóðir á sveitaheimili?

,,Það gengur nokkuð vel. Eg hef nokkuð góðan tíma yfir veturinn að semja en legg síðan pennann að mestu á hilluna yfir sumarið. Eg skilaði t.d. handritinu af bókinni Sekur flýr þó enginn elti frá mér í mars s.I. og fór þá fljótlega að undirbúa handrit af þeirri næstu og er núna þessa dagana að vinna í því á fullu. Svo gríp ég í að semja ljóð og smásögur annars slagið. Því er ekkert að leyna að ég hef ákaflega gaman af að semja og hef yfirleitt fengið heldur jákvæða dóma fyrir það sem ég hef sent frá mér t.d. hefur fólkið hér heima í Húnaþingi hvatt mig til að halda áfram að skrifa og meðan bækurnar seljast betur ár frá ári hlýt ég að geta verið ánægð ”sagði Birgitta Halldórsdóttir að lokum.

Hér er safaríkur kafli úr Sekur flýr þó enginn elti (1989):

 Þau drukku koníakið þegjandi og Stella fann yndislega værð koma yfir sig. Hún fann vel fyrir heitum líkama Viðars við sinn. Slopparnir höfðu runnið til og fætur þeirra lágu nú saman, naktir.
 - Ég verð að fara inn í rúm. Við verðum að hvílast.
 - Við erum að hvílast.
 - Fóturinn á þér. Við verðum að gera eitthvað fyrir hann.
 - Mér líður vel núna. Hafðu engar áhyggjur. Þú ert alltof góð stúlka. Þú hugsar um annað fólk fyrst, þó þér sjálfri líði ekki vel. Meira að segja mig sem þú þekkir lítið. Hann fór að strjúka henni létt um öxlina sem hann hélt um og Stella fann fyrir einhverjum óviðráðanlegum fiðringi sem fór um hana alla. Þetta var samt gott og hana langaði til að hann héldi áfram. En þetta var bilun. Hún reyndi að líta hlutlausum augum á þetta. Þetta gat ekki gengið lengur. Hún, ung og þekkt fyrir allt annað en daður eða ólifnað og hann, mikið eldri, harðgiftur, ókunnur maður. Nei, svona lagað var ekki hægt. Hann kyssti hana á hálsinn og henni fannst hún svífa. Ósjálfrátt hreyfði hún sig og stundi værðarlega.
 - Þetta er ekki hægt.
 Hún ýtti honum blíðlega frá sér og horfði þá í þessi djúpu augu sem gerðu hana að gjalti.
 - Það er allt hægt.
 Hann hélt áfram að kyssa hana. Heimurinn stóð kyrr. Hún vildi síst af öllu að þessu lyki og áður en hún vissi af var hún farin að endurgjalda atlot hans af ekki minni ákafa en hann. Hún fann að hana hungraði í þennan mann. Hver sem hann var og hversu rangt sem þetta var. Öll heilbrigð skynsemi hvarf á braut. Engar hömlur voru lengur til. Ástríður sem hún hafði ekki vitað að hún ætti til brutust fram og blinduðu hana. Gerðu hana stjórnlausa. Atlot hans gerðu hana að einhverju frumstæðu villidýri sem hún vissi ekki að væri til í henni. Engin heilbrigð hugsun, aðeins nautnin. Stormurinn æddi fyrir utan, regnið lamdi litla kofann. En þau vissu ekki af því. Þetta var undarleg, viðburðarík nótt. Máninn braust fram úr skýjum og glotti er hann horfði innum gluggann á kofanum og sá þessar tvær ólíku manneskjur sameinast og verða að elskendum.
 Stella komst til sjálfrar sín. Það var eins og þetta ætlaði aldrei að taka enda. Hún sem aldrei hafði upplifað fullnægingu fyrr. Þvílík unun. Það var eins og eitthvað hefði brostið í líkama hennar. Eins og hann væri loks lifandi og tæki frá henni alla skynsamlega hugsun. Það eina sem komst að var maðurinn. Þessi ókunni maður sem á svo undursamlegan hátt hafði lyft henni til skýjanna. Þau lágu í faðmlögum. Samanfléttuð eins og þau væru hrædd um að einhver reyndi að slíta þau í sundur (bls. 59-60).

 

Tengt efni