SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir19. ágúst 2025

EF ÉG KYNNI AÐ GALA GALDUR

Dimmumót Steinunnar Sigurðardóttur sem heimsslitakvæði

[Greinin birtist fyrst í fræðiritinu FLÉTTUR VI: LOFTSLAGSVÁ OG JAFNRÉTTI, RIKK, Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, 2023.]

 

 
GALDRAGAL
 
Ef ég kynni að gala alvöru galdur
 
Skyldi ég galdra mína gömlu jörð úr grimmum álögum blóðsugunnar
 
sem hefur mergsogið móður sína.
 
Fullorðið pelabarn með vígtennur. Bítur af henni geirvörturnar.
 
Sýgur blóð fyrir mjólk
kreistir
til síðasta dropa.1
 

 

 

Þetta galdragals-ljóð er að finna í fimmta og næstsíðasta kafla ljóðabókar Steinunnar Sigurðardóttur Dimmumóta sem ber yfirskriftina FLÆÐISKER. Kaflinn hefur að geyma sjö ljóð þar sem ort er um þær hörmulegu afleiðingar sem misnotkun mannkynsins á náttúrunni hefur haft í för með sér: útrýmingu tegunda, dauð lönd, drukknaðar borgir, súrnandi plasthöf, fækkandi fugla og flugur á fallandi fæti. Í þessum hluta bókarinnar víkkar skáldið sjónarhorn sitt til muna því að í þeim fimm köflum sem á undan fara hefur það verið bundið svo til alfarið við Ísland. Yfirskriftir fyrri kaflanna eru: ÞAÐ KEMUR Í LJÓS, ÍSFJALLIÐ RAMBAR; RADDIR ÚR VATNA-JÖKLA-SVEITUM; AÐ VATNI VERÐUR og JÖKLABÖRN og þar yrkir Steinunn um „hvítagullfjallið“ og „bláljósahvelið“ Vatnajökul og um sinn eigin uppvöxt í faðmi íslenskrar náttúru og skjóli jökulsins sem varpað hefur ljóma yfir æsku hennar, bæði í bókstaflegum skilningi og táknrænum. Lokahluti verksins ber yfirskriftina ÞAÐ HVERFUR og hefur að geyma þrjú ljóð: LEIFAR AF LJÓMA, Í DUFTIÐ og ÞAÐ HVERFUR OG STELPAN.

En þetta er ekki eina galdragals-ljóð bókarinnar því að FLÆÐISKERS-kaflanum lýkur á öðru slíku:

 

FLÆÐISKERS GALDRAGAL
 
Ef ég kynni að gala galdur
 
skyldi ég reisa við mergsogna móður
 
skildi ég gala
 
hvíta litinn til baka inn í heiminn:
 
Tuttugu og fjögra karata ljóshjálminn upp úr Lómagnúp.
 
Skyldi ég gala
geimruslið úr heiminum.
 
Skyldi ég gala
hafið hreint og ósúrt
 
hrinda því til baka á haf út, þangað sem það átti heima.
 
Burt frá brothættum ströndum, stórborgum, fiskiþorpum.
 
Skyldi ég forða móðurjörðinni frá því að vera flæðisker. (82)

 

Með galdragals-ljóðunum tveimur tengir ljóðmælandi sig við völvu norrænna fornbókmennta sem kann „að gala galdur“ og það rennur upp fyrir lesanda að ljóðabálkinn Dimmumót má lesa sem tilbrigði við eitt þekktasta heimsslitakvæði norrænna bókmennta Völuspá; tilvísanir til fornkvæðisins leynast í fleiri ljóðum bókarinnar, þegar að er gáð. Líkt og forna kvæðið fjallar ljóðabálkur Steinunnar einum þræði um endalok heimsins en ólíkt Völuspá þá endar heimsslitakvæði Steinunnar ekki á spádómi um nýja jörð. Ljóðmælandi Dimmumóta sér ekki „upp koma / öðru sinni / jörð úr ægi / iðjagræna“2, þv ert á móti þá hverfur allt, „bak við sólarljósið í suðri / bak við norðurljósið í norðri / meðan tungl situr hjá“, eins og segir í lokaljóði bókarinnar:

 

og það hverfur
allt hverfur
sjálft hið daufa tungl
og tungl yfir alls engum jökli (91)

 

Í öðru ljóði segir: „Og undrahnötturinn okkar breytist í flæðisker. Hvert forðar sér mannskepnan þá?“ og áfram: „Til stjarnanna? Hvaða stjarna? // Engra stjarna. // Og stjörnulausir verða tortímendurnir steinríku í byrgjunum neðanjarðar // Með kampavín til hundrað ára, skurðstofur“ (75). Með tortímendunum steinríku sem eiga sér skjól í neðanjarðarbyrgjum með skurðstofum og kampavíni vísar skáldið augljóslega til misskiptingar auðs og hins kapítalíska feðraveldis sem mesta ábyrgð ber á því ofurneysluhagkerfi sem leitt hefur mannkynið á braut hamfarahlýnunar og heimsslita.3 Og þar rís upp annað meginandstæðuparið sem Steinunn vinnur með í myndmáli Dimmumóta: hið karllega og hið kvenlega; feðraveldið gegn móðurjörðinni. Hitt andstæðuparið sem þræðir sig um allan ljóðabálkinn eru andstæðurnar ljós og myrkur enda vísar titill bókarinnar til stefnumóts þessa tveggja fyrirbæra. Orðið dimmumót merkir ljósaskipti en vísar um leið til ragnaraka; minna má á að ensk þýðing á orðinu ragnarök vísar til dimmumóta eða ljósaskipta: twilight of the gods.4

Hér á eftir verður ljóðabókin Dimmumót greind í ljósi þeirra vistfemínísku áherslna sem hér hafa verið dregnar fram. Hugað verður sérstaklega að tengslum verksins við Völuspá og hugmyndir norrænnar goðafræði um völvuna sem kann að gala galdur. Einnig verður rýnt í þær andstæður í myndmáli sem nefndar hafa verið hér að ofan og skoðað hvernig Steinunn Sigurðardóttir vinnur með bókmenntagreinarnar tregaljóð og heimsslitakvæði í Dimmumótum, auk þess sem hún fléttar sjálfsævisögulegum þáttum inn í verkið.

Undir lokin verður spáð stuttlega í viðtökur verksins haustið 2019. Þótt bókin hafi almennt hlotið góða dóma og verið tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna var einnig nokkuð áberandi að mörgum lesendum hugnaðist ekki sá reiðitónn sem ómar undir lok ljóðabálksins. Í ljósi yrkisefnisins hlýtur reiði ljóðmælanda þó að vera skiljanleg en það virðist vera að enn sem áður sé því tekið illa þegar konur tjá reiði. Spyrja má hvort það þyki „ókvenleg“ tilfinning sem konum beri að bæla? Eða eru skilaboð bókarinnar þess eðlis að best fari á að þagga þau niður?

 

Bygging ljóðabókarinnar, yrkisefni og efnistök

Dimmumót er haganlega uppbyggður ljóðabálkur, öll þrjátíu og átta ljóð bókarinnar mynda heild og snúast um sama kjarna. Eins og fram er komið skiptist verkið í sjö kafla eða hluta sem hver og einn ber fyrirsögn. Áður en kemur að fyrsta kafla mæta lesanda tvær stiklur til að staldra við. Fremst er tilvitnun, stutt hending úr Hulduljóðum Jónasar Hallgrímssonar sem vísar til Íslands og jöklanna: „Ó, hve hann hefir eftir þráð að líta / ástarland sitt með tignarfaldinn hvíta“. Þótt Jónas yrki hér um ‚ættarstoðina‘ og ,foldarblómann‘ Eggert Ólafsson, særi hann svo að segja upp úr djúpinu til að líta yfir landið, þá þekkir hann sjálfur þrána sem þarna er tjáð. Lesandinn skynjar sterkan tregann í ljóðlínum skáldsins sem líka hefur dvalið langt frá ástarlandi sínu, sem og gleðina sem fyllir brjóstið þegar það lítur tignarfaldinn hvíta, jökulinn – landsins mestu prýði. Þessi hending úr Hulduljóðum er aftur vakin til lífs í huga lesandans undir lok Dimmumóta, í ljóðinu LEIFAR AF LJÓMA, þar sem Steinunn kallast á við Jónas. Hún hefur verið fjarverandi og þráð að líta landið í ljóma jökulsins en hennar fögnuður er „blandinn ófögnuði“ því að hún er „í seinni hópum // þeirra sem mega þó augumlíta yndið í einhverri mynd // leifar af ljómanum þarna í júlí“ (89). Treginn er það grunnstef sem sterkast hljómar í Dimmumótum, í bland við kvíðann fyrir því sem virðist óhjákvæmilegt: bráðnun jökulsins vegna hamfarahlýnunar af manna völdum.

Hin stiklan sem mætir lesanda áður en hinn eiginlegi ljóðabálkur hefst er stakt ljóð þar sem aftur er sleginn tónn trega, eftirsjár og endaloka. Í þessu aðfaraljóði eru dregin fram öll meginstef ljóðabálksins, bæði sjálfsævisögulegi þátturinn og spádómurinn um endalok Vatnajökuls, sem svo aftur hefur skírskotun til stærra samhengis: endaloka heimsins.

 

Það líður hjá  Það gengur yfir
 
Rigningarskúrin  Barndómur  Fyrri og síðari
Óendanlegir dómar  Líka þeir  Líða hjá
 
Veturinn, meiraðsegja fyrir norðan, gengur yfir –
og veturinn þar á eftir, þótt seint fari
 
Eins líður flensan hjá, ástsýki, hiksti
 
og það sem ótrúlegast er, Eilífðarfjallið mitt ljósa, líður líka hjá
 
Þessi eyja á eyjunni sekkur í Grjóthafið
 
Þessi kastali úr snjóhvítu rósunum þiðnar
 
Og verður að rambandi haug
 
Það er Fullkomnað  Endanlegt  Eilífðarlok (7)

 

Vísunin í síðustu línunni til orða Krists á krossinum (endurtekin í ljóðinu JÖKULLINN DEYR (35)) sýnir að í ljóðmáli Dimmumóta er ekki aðeins vísað til heiðni heldur einnig í kristinn menningararf enda er lokarit Nýja testamentisins, Opinberun Jóhannesar, líkt og Völuspá, dómsdags- eða heimsslitalýsing5 og má sjá beinar vísanir til þess í ljóðmáli Dimmumóta.6 Þegar grannt er skoðað eru tilvísanir til fleiri heimsslitakvæða en Völuspár í ljóðabók Steinunnar Sigurðardóttur; hún sækir hvort tveggja til heiðins og kristins hugmyndaheims í myndmáli sínu og mótífum, eins og nánar verður fjallað um hér á eftir.

Í fyrsta hluta bókarinnar, ÞAÐ KEMUR Í LJÓS, hittir lesandinn fyrir stelpuna „sem kom fram í ljósið“ (11) og á örugga æsku og glaða, ekki síst í „pabbasveit með jökli“ (15). Þar gengur hún ,dagdraumaleiðina‘ með kýrnar (16–17) og yfir sveitinni ríkir Vatnajökull: „Hvítatign himins og jarðar“ (17). Steinunn dregur enga dul á að hér yrkir hún um eigin ævi þótt hún noti nafnorðið ,stelpa‘ í stað fyrstu persónu fornafnsins eða eiginnafns síns. Hið síðarnefnda kemur reyndar fram í ljóðlínunni: „Í eldhúsi bjó Amma Steinunn og gaukaði góðu að smánöfnu“ (13). Stelpan lærir á umhverfi sitt sem kemur smám saman í ljós, landslagið og „Jökullinn yfir og allt um. Splunkuný sjónarsýn“:

 

Í ljós komu kýrnar sem stelpan í mosanum passaði. Étandi fáheyrða
appelsínu. Undir fossandi sól, frameftir dalnum með Gráhól.
 
Það hélt áfram að koma í ljós, það allt, land-landslagið, beina leið
frameftir haustinu líka. Marglit birkilauf ríslandi, eldskært lyngið.
Blómstrandi ábreiða septemberjarðar.
 
Með lækkandi sól í suðri, Norðurljósi uppi í norðri. (15)

 

Með þeim hnitmiðaða og kankvísa stíl sem Steinunni er eiginlegur yrkir hún um áfanga á þroskaferli stelpunnar; hún lærir að synda og dansa, fer út í lönd að læra og eignast „sitt eigið barn“ og „löngu löngu fædd ljóðin héldu áfram að margfaldast“ (24):

 

Þá var hún víst hafin, Ævin, loksins, sú sem beðið var eftir
 
á draumkenndu dögunum.
 
Ekki komin reynsla á hana strax.
 
En það var komin reynsla á Jökulinn
í sinni sveit fyrir suðaustan.
 
Og hann var þarna allur saman,
þegar alvöruævin upphófst, og tók á rás. (24)

 

Í lokaljóði þessa fyrsta hluta, SJÓNARSVIPTIR 1, birtast váboðar, það gleymdist að jökullinn „er úr vatni gerður // að hann leysist upp í það // og flæðir yfir veg allrar veraldar“ (26). Við berum sökina; erum „Misindismenn. / Við óvitar // sem köllum okkur þó homo sapiens“ (27): „Við vitibornu skiljum þá hamfarahlýnun á jörðinni / en við látum ósköpin yfir ganga / börnin og barnabörnin. Krúttin á facebook. / Hvað verður um þeirra krútt og þeirra krúttkrútt?“ (27). Skáldið spyr hvort okkur sé „alveg sama“ og tengir slíkt sinnuleysi við „hroðgræðgi / dáðleysi“ sem við höfum sýnt „ár fram af ári, / mann fram af manni“ (27). Hin óhjákvæmilega niðurstaða er fullkomin eyðing Hvítagullfjallsins sem verður að engu og við „á Íslandseyjunni / Við í heiminum“ (26) verðum svipt því að geta augumlitið undrið.

Annar hluti bókarinnar, ÍSFJALLIÐ RAMBAR, inniheldur fjögur ljóð. Upphafsljóðið, VERU-LEIKI MEÐ JÖKLI, hefst á vísun til drauma stelpunnar sem ort var um í fyrsta hluta: Og við tæki Veruleiki, svo miklu stærri og æðri og meiri en / það sem núna var dreymt“ (31). En draumar stelpunnar rætast ekki því „það sem gerðist / þegar fram í sótti // fór ekki eftir björtum hugmyndum stelpu á gömlu leiðinni“:

 

Því draumur um ævina skrapp undan, hopaði,
draumurinn dagsins sem stundin var gerð úr,
um leið og ísfjallið rambaði aftur á bak
 
inn í allsherjarholuna, svartholið, móðurkvið.
 
Öfuga fæðing, almesti dauði allra dauða. (31)

 

Skáldið heldur áfram með myndmál fæðingar og dauða í lýsingu á Jökulsárlóni um leið og vísað er til hins þekkta ljóðs Jóhanns Sigurjónssonar um Jónas Hallgrímsson látinn.7

 

Um leið og jökulbeljan fæðir ískálfinn, ýtir úr móðurkviði, þá
deyr hún að hluta. Og afkvæmin sprikla stutta stund.
Sum þeirra komast úr sandkassa lónsins, út á fullorðinshafið,
opna sjóinn, á lífdögum sínum, stuttum en fögrum.
 
Óskabörn eyðingar.
 
Stutta flögrandi ísfiðrildislíf. (32)
 

Í næsta ljóði þessa hluta, JÖKULLINN DEYR, er ort um algjört umkomuleysi jökulsins sem er afleiðing þess að „Við gæslumenn sofnuðum á verði“ og gleymdum því „að ísinn er ekki úr ís / heldur úr vatni. // Að vatnið er líkami jökulsins / fljótandi // eins og mannslíkaminn að mestu“ (33). Við gleymdum því að jökullinn er lifandi, „ólíkt steindauðu fjalli“ og að líf hans „er árstíðum háð / eins og líf bóndans // dýralífið / plöntulífið“ (34). Við gleymdum því að afkoma jöklanna í heiminum hefur mikilvægu hlutverki að gegna í vistkerfi jarðarinnar og með hvarfi jökla er öllu lífi á jörðunni ógnað.8 Og eyðing Vatnajökuls er komin á hættulegt stig: „Nú stynur jökullinn sóttheitur. Sá sem andaði hreystibrestum þegar stelpan rak kýrnar“ (35). Lokahending ljóðsins er hrollvekjandi: „Og jöklinum í dauðateygjum blæðir út. Glæru blóði / sem maðurinn kynti undir í græðgispotti“ (35).

Í þessum hluta bókarinnar er einnig að finna ljóðið SJÖKONAN 1 sem segir af ferð sjö kvenna „í sjödagaferð“ á jökul þar sem þær fella „stórkarlavígi“; kastala gerðan úr hvítum rósum. Aftur fréttir lesandinn af þeirri ævintýraferð í þriðja hluta bókarinnar, í ljóðinu SJÖKONAN 2, og saman birtir þessi ljóðatvenna magnaða mynd af konum sem takast á við náttúruöflin í göngu sem vekur hugrenningartengsl við göngu Dantes um heim hinna dauðu í Gleðileiknum guðdómlega þar sem hann fer um niður og upp til Paradísar en vísað er til beggja vistarvera í ljóðunum og eiga þær „afturkvæmt þó, sjö íslenskar konur, úr efra og neðra, / úr heimunum þeim“ (37). Í lokaljóði annars hluta er enn ort um bráðnun Vatnajökuls, sem „hverfa mun öllum sjónum“ og ítrekað hversu nálæg endalokin eru: „Það gæti gerst á lífdögum okkar barna. // Þá verður höfuðlaus her fjalla og tinda á Ekki-Íslandi“ (38).

Í þriðja hluta, RÖDDUM ÚR VATNA-JÖKLA-SVEITUM, er fólki sem býr í nágrenni jökulsins gefið orðið og dregin fram ólík sjónarmið þeirra, allt frá væntumþykju og virðingu til ótta og skeytingarleysis; sumir skynja fegurðina, aðrir ekki – eins og gengur og gerist. „Ég dregst að þessari fegurð“ segir „[u]ppeldissystir jöklanna“ sem hefur búið í nálægð við Vatnajökul alla ævi. Hún leggur áherslu á að „jökullinn er ekki einn hann er margir“ og undirstrikar að um „lifandi lífverur“ sé að ræða: „elfarnar undir ísnum, inni í ísnum, eins og æðakerfi í risabúk“ (41). Önnur rödd spyr hvenær menn fóru að tala um „Ægifegurð jökulsins“:

 

Sem barni var mér kennt að jökullinn væri skelfilegur. Fólkið
mitt hræddist hann og það var öskrað á börnin ef við hættum
okkur nálægt honum.
 
Slík ógn var jökull að fegurðarsýnin hvarf. (42)

 

Fólkið óttaðist framrás jökulsins og flóð sem á hverju ári skemmdu lönd og ógnuðu híbýlum manna. Aðrir trúa því ekki að jökullinn hverfi, „það er ekki fræðilegur möguleiki“ (43). Bráðnun jökulsins er reyndar almennt ekki til umræðu í sveitinni og sumum stendur á sama: „Ekki það, mér væri alveg sama þótt hann hyrfi“ (43). Enn aðrir hryggjast yfir ástandinu: „Sorglegt að sjá bráðnunina. Ógnvekjandi kannski“ (45). Og þeir eru einnig til sem sækja sér hvíld og kraft til jökulsins: „Ég sæki mér hvíld og þrótt / þegar að mér sverfur / sæki ég mér hvíld og þrótt uppi á jökli“ (46). Síðasta orð ljóðsins kallast á við ljóðið SJÓNARSVIPTIR 1 úr fyrsta hluta: „En víst væri sjónarsviptir að honum. // Sjónarsviptir“ (46). Lokaljóð þessa hluta, AFKOMANDINN, er stutt og hnitmiðað: „Sá Stóri Hvíti er afkomandi Íslands. // Þegar hann fer, deyr ekki aðeins hann út, / Ættarhöfðingi eyjunnar, / heldur einnig allur ættbálkur hans“ (52).

Þessi hugsun, um dauða ættbálks jökulsins, er spunnin áfram í fjórða hluta, AÐ VATNI VERÐUR. Kaflinn hefst á ljóðinu GRJÓTFJALLIÐ, þar sem enn er minnt á það sem glatast þegar jökull bráðnar: „Fegurðardagar fágætra ljósfjalla hverfandi fara. Hátíðabrigðin. // Við taka hversdagsfjöllin daufu. Smáfríð og smáljót. Sjálfum sér lík frá upphafi“ (56). Einnig spyr skáldið, í ljóðinu HVERSLENDINGAR?: „Hvað tekur svo við? Hver verðum við? Nefnd hvaða nafni? // Hvers-lendingar verðum við þá Íslendingar svokallaðir / þegar jökullinn fer? // ÍS-lendingar ekki“ (57). Og enn er kallast á við áðurnefndar ljóðlínur Jónasar Hallgrímssonar:

 

Þessi elskaða sýn
þegar einn Íslendingur kemur af hafi
 
kemur úr lofti
 
þegar hann sér útdregna dýrð hvítu harmóníkunnar
 
það er landið þitt,
 
ástarlandið með fjallinu hvíta
 
þessu sem gnæfir yfir hálft landið
 
þessu ljósa sem skiptir litum
 
gullfjallið, sægræna fjallið,
 
ísfjall morgunroðans og hávaðableiku kvöldsólarinnar. (57–58)
 

Í þessum hluta dregur skáldið fram á áhrifaríkan hátt andstæður á milli ljóss og litadýrðar annars vegar og gráa grjótsins hins vegar. Hverfa mun „rómantíkin […] af eyjunni“ sem er „rósrauð í júlí og túrkisblá í febrúar“ (58). Andstæða ljóss og myrkurs er í raun hin yfirskipaða mynd Dimmumóta, aftur og aftur er vísað til ljóssins, birtunnar og hinna fjölbreytilegu litbrigða sem stafar af jöklinum og endurkastast þegar sólin skín á hann: „Og það kviknaði á sólinni skarpt. // Halló skínandi hvítfjall, móti himnakroppnum, sólinni sinni“ (16). Við bráðnunina sekkur „Eilífðarfjallið mitt ljósa“ í „Grjóthafið“ (7). Þeir sem búa í nágrenni Vatnajökuls þekkja þau fjölbreytilegu litbrigði sem samspil sólar og íss kallar fram á góðum dögum og má minna á málverk hornfirska listmálarans Svavars Guðnasonar í því sambandi enda var hann sjálfur fullviss um að „birtan í Hornafirði“ hefði „mótað [sína] litasjón“ og sagði jafnframt: „Í minni sál er alltaf eitthvað af birtunni af Vatnajökli, því get ég ekki neitað.“9 Í viðtali sem Matthías Johannessen tók við Svavar árið 1984 talar listmálarinn um þetta samspil jökuls og sólar: „þarna á milli þessara vatna og þessara affalla og flóa er meira endurskin sólarljóss en annars staðar, sem ég þekki til. Bæði vatnið og jökullinn endurkasta geislunum milli sín, og þarna verður bjartari og lýriskari stemning en alls staðar annars á jörðinni.“10

Tilhugsunin um að við bráðnun Vatnajökuls hverfi þetta magnaða endurkast sólarljóss og lita er ógnvekjandi og í raun erfitt að ímynda sér það: „Það fer og skuggarnir verða“ (26) segir í ljóðinu SJÓNARSVIPTIR 1 þar sem reiði ljóðmælanda brýst einna sterkast í gegn. Lokalínur þess eru:

 

Jökullinn verður enginn að sér gengnum, enginn,
ekki nokkur
 
hann verður skrattakollur, kollóttur
fjall með framliðnum fjöllum
ekki ísfjallið brakandi bjart.
Svo steindrepst heimsins hvítasti kroppur og við tekur ótínt grjót. (28)

 

Í fimmta hluta, JÖKLABÖRNUM, víkur skáldið að reynslu barnanna sem búa í nærliggjandi sveitum Vatnajökuls, sem og að eigin reynslu í barnæsku og tengir því aftur við fyrsta hluta bókarinnar. „Og ég var ástfangið barn. / Af Lómagnúp, með Öræfajökli / með Hvannadalshnúk“ (66) segir í ljóðinu BARNIÐ Í EILÍFUM JÚLÍ og í ljóðinu LAND ELDS OG EINSKIS horfir hún heitum augum „á yndið mitt stóra úr æskunni“ (68). Í þessum kafla er líka að finna titilljóð ljóðabókarinnar, DIMMUMÓT:

 

Tíminn, Höfuðskepnan
 
ekki samur
 
stormar ekki lengur striklotuna
 
svo það stirnir á makkann
 
 í eilífðar bláljósi fjallsins.
 
 
 
Höktir nú sköllóttur út á hlið
 
í vaxandi skugga fjallsins
 
í eilífu rökkri landsins
 
dægravillt gamalmenni. (69)

 

Eins og áður var getið er sjónarhornið víkkað í næstsíðasta hluta bókarinnar, FLÆÐISKER, þar færir skáldið kastljósið af Vatnajökli og Íslandi yfir á veröld víða. Hér er ort um þær afleiðingar sem vísindamenn hafa sýnt fram á að fylgi í kjölfar mengunar og hamfarahlýnunar og geti leitt til útrýmingar lífs á jörðunni. Heiti fyrsta ljóðs, ÞÆR FARA FJÖLD, er vísun í þekkt kvæði Bólu-Hjálmars11 og þar er ort um tegundirnar sem farast „með hraði. // Halda áfram að hverfa okkur frá. Sjálfum sér frá. Heiminum frá“ (75):

 

Og jökullinn er tegund. Margar. Allar í útrýmingu.
 
Þíðjökull, gaddjökull, hájökull, hjarnjökull, skriðjökull.
 
Af dauða jöklanna leiðir dauða landa og stranda, með drukknuðum borgum.
 
Osaka, Haag, Feneyjar, Shanghai.
 
Og undrahnötturinn okkar breytist í flæðisker. Hvert forðar sér mannskepnan þá? (75)

 

Í ljóðinu GEORG EINLÍFI er ort um snigilinn Georg, sem er síðasti „sinnar tegundar“ sem „[l]ifði löngu einlífi áður en hann safnaðist til feðranna. Á / nýársdag 2019, fjórtán vetra öldungur“ (76). Ljóðmælandinn syrgir Georg og minnist allra þeirra tegunda sem hafa dáið út: „Blessuð sé minning hinstu eintakanna, allra með tölu, sem / týnt hafa tölunni“ (76). Í næsta ljóði, FUGLAR HIMNIS OG PLASTHAFIÐ, lýsir ljóðmælandi því hvernig fuglum og flugum fækkar „[m]eðan bikaðir skuggarnir setjast að hinum Stóra Hvíta […] Nú verður fuglagarg, kvak og tíst að fátíðnihljóði“ (77).12 Minnt er á súrnun sjávar og plastvæðingu og lokalína ljóðsins er nokkurs konar blótsyrði þar sem aukið er við ljóðlínu Kristjáns Jónssonar fjallaskálds úr kvæðinu ÞORRAÞRÆLL: „Frýs í æðum plastblóð andskotans“ (77).13 Ljóðið sem fylgir á eftir, OG HEIMURINN …, minnir lesanda aftur á hið kapítalíska arðrán þeirra „ríku sem hyggjast lifa af með kampavíni og skurðstofum …“ (78). Ljóðmælandinn horfir á vaxandi misskiptingu og neyð og spyr (með vísun í 44. erindi Völuspár): „Munu bræður ekki aðeins berjast heldur líka éta hver annan?“ (78).

Galdragals-ljóðin tvö eru í þessum hluta bókarinnar en á milli þeirra stendur magnað ljóð sem lýsa mætti sem reiðilestri og hefur yfirskriftina MÓÐURMORÐINGJAR. Þar er jörðinni enn líkt við móður og allsnægtakvenmann sem „ól okkur mannsbörnin við brjóst sér“ og stóð lengi „af sér áraun óhugnaðarafkvæmanna“ og lokalínan er bein vísun í Völuspá:

 

En svo fór
 
eftir höggin óteljandi, sífellt þyngri,
að móðurmorðingjar náðu að mölva undirstöðubeinin
alveg
og móðurjörðin steyptist á hliðina.
 
Hún lá þar kylliflöt hún
 
grafkjur
 
og sökk bjargarlaus
 
eins og í kvæði kvæðanna
eftir völvunnar hljóðan:
 
„Nú mun hún sökkvast.“ (80–81)

 

Þessum kafla lýkur á tregaljóðinu SJÓNARSVIPTIR 2 þar sem ljóðmælandi gleðst yfir að líta jökulinn sinn „á góðum degi […] þótt hann sé orðinn að svipnum hjá sjóninni“ og rifjar upp forna ljóma bláljósa hvelsins „á stelputímanum / í endalausum júlí / á dagdraumaleiðinni“ (84). Dimmumótum lýkur svo á þremur ljóðum sem saman mynda sorgarmars, nokkurs konar útgöngusálm ljóðabókarinnar. Yfirskriftir ljóðanna minna á forgengileika og dauða og í lokaljóðinu er lýst heimsslitum: Allt hverfur og enginn von er um að töframaður komi á hvítum hesti og bjargi heiminum frá endalokum. Með þeirri mynd má gera ráð fyrir að skáldið sé að vísa til opinberunar Jóhannesar þar sem sigurvegarinn (Kristur) kemur á hvítum hesti: „Þá sá ég himininn opinn. Og sjá: Hvítur hestur. Sá sem á honum sat hét Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttlæti.“14

 

ÞAÐ HVERFUR OG STELPAN
 
Allt hverfur
 
bak við sólarljósið í suðri
 
bak við norðurljósið í norðri
 
meðan tungl situr hjá
 
og töframaðurinn sá sem kemur hann kemur ekki
á hvítum hesti yfir hjarnið
ekki á neinum hesti,
hann kemur með járnbrautarlest
í aðgerðarlitlu tunglskini
 
og það hverfur
allt hverfur
sjálft hið daufa tungl
og tungl yfir alls engum jökli
 
og hvítur hestur, hvar sem hann er, fer sína leið út úr augsýn
 
og augsýnin hverfur, öll,
strýgul stráin og bæjarhóll bak við hestinn
 
bak við sólarljósið í suðri
bak við norðurljósið í norðri.
 
Enn glittir í eldgamla lækinn sem skokkar leiðina á
steinunum við mosahraunið, fram hjá túninu
 
Aðeins eitt verður eftir, þegar allt er horfið …
 
flís af sálinni stelpunnar frá því í ágúst
 
augasteinn þá (91–92)

 

Tregaljóð og heimslitakvæði, með ævisögulegu ívafi

Eins og sjá má af umfjölluninni hér að ofan um byggingu Dimmumóta og efnistök skáldsins mætti lýsa ljóðabókinni sem tregaljóði með ævisögulegu ívafi, auk þess að tengja hana við hefð heimsslitakvæða. Sá þáttur sem hæst rís, og var oftast nefndur í umfjöllun um bókina þegar hún kom út, er treginn.15 Verkið er nokkurs konar ástaróður ljóðmælanda til Vatnajökuls um leið og það er tregaljóð ljóðmælandi er vitni að yfirvofandi dauða jökulsins sem þegar hefur látið mikið á sjá. Tregaljóðið, eða elegían, var kynnt fyrir íslenskum lesendum á nítjándu öld, í ljóði Jónasar Hallgrímssonar „Ísland farsæla frón“ og fleiri íslensk skáld ortu undir elegískum hætti í kjölfarið.16 Yrkisefni tregaljóðsins „hverfast gjarnan um mannlegan forgengileika, söknuð, missi og sorg“, bendir Guðni Elísson á í umfjöllun um tíma og trega í ljóðlist Steinunnar Sigurðardóttur.17 Samkvæmt Guðna styrkti tregaljóðið sig í sessi á tuttugustu öld þar sem það endurspeglar „menningartregann sem einkenndi öldina alla og var til dæmis mótaður af hörmungum tveggja heimsstyrjalda“.18 Tregaljóðið hefur vitaskuld tekið miklum breytingum á tuttugustu öld og meðal annars tengst baráttunni fyrir umhverfisvernd eins og hún birtist í ljóðagerð. Dimmumót Steinunnar Sigurðardóttur eru glöggt dæmi um slíkt verk. Í tregaljóðum fyrri alda má yfirleitt sjá ferli frá sorg yfir til huggunnar eða sáttar í lokin en í tregaljóðum nútímans, á tímum efahyggju og vísinda, virðist huggunin fjarri.19 Sérstaklega á það við þegar ekki er ort í minningu látins einstaklings, eins og í hefðbundnu tregaljóði, heldur um yfirvofandi dauða náttúru eða náttúrufyrirbæra. Í Dimmumótum má sjá einkenni sem tilheyra hefðinni en einnig hvernig vikið er frá hefðinni í anda tregaljóða nútímans.

Það er engin tilviljun að vísað er til Hulduljóða Jónasar í upphafi bókarinnar því sá ljóðabálkur sver sig í ætt við tregaljóðið, nánar tiltekið „svokallaðar pastoral elegíur“ (einnig kallað sveitasælu-harmljóð), eins og Sveinn Yngvi Egilsson hefur bent á.20 Sveinn Yngvi tiltekur þau atriði sem einkenna slíkar elegíur og heimfærir upp á Hulduljóð en sömu atriði eru flest, að breyttu breytanda, að finna í Dimmumótum.

 

Þar má nefna atriði eins og sviðið (sveitin); margar raddir eða persónur […] hinn „einfalda“ smala í niðurlaginu; hlutverk stefja í kvæðinu […]; hinn harmþrungna tón í byrjun; og táratalið í ljóðinu. Allt er þetta alvanalegt í pastoral elegíum bæði fyrr og síðar og að sama skapi óvenjuleg samsetning í allri annarri kvæðagerð.21

 

Sveinn Yngvi tekur kvæðið Lycidas eftir Milton til samanburðar við Hulduljóð og nefnir fleiri þætti sem eru sameiginlegir í báðum kvæðum; gyðju-ávarp í upphafi, ádrepu, sýn þar sem ójarðneskar verur stíga fram og tjá sig og lausn þar sem „smali lýsir því yfir að hinn látni sé nú „kominn á lífsins láð […] hafi m.ö.o. náð landi í himnaríki“.22 Sveinn Yngvi ítrekar að í Hulduljóðum haldi „þroskað skáld á penna og fylgir ekki hefðinni sem þræll heldur umskapar hana“ og jafnframt að ýmis atriði í byggingu ljóðabálksins megi „skýra með því að Jónas staðfæri venjur úr erlendri bókmenntahefð og semji þær að þörfum sínum – rétt eins og Milton gerði í kvæði sínu“.23 Það sama gildir að sjálfsögðu um Steinunni Sigurðardóttur, hún umskapar og lagar tregaljóðið að sínum þörfum, þannig vinna þroskuð skáld, þau nýta sér hefðina með skapandi hætti.

Með samantektina hér að framan í huga má sjá að í Dimmumótum koma fyrir flest þau atriði sem Sveinn Yngvi nefnir að einkenni pastoral elegíur. Stærsta svið bókarinnar er sveitin; það er VATNA-JÖKLA-SVEIT og PABBASVEIT MEÐ JÖKLI, heimkynni jökulsins sem tregaður er. Í þriðja hluta, RADDIR ÚR VATNA-JÖKLA-SVEITUM, tala margar raddir eða persónur. Í ævisögulega hlutanum er lýst hreinni sveitasælu þar sem ljóðmælandinn, stelpan, er í hlutverki kúa-smala sem gengur dagdraumaleiðina, „áfram með kýrnar, tvær, og tvo kálfa, framhjá landi úr mosa sem skipti litum; þurrgráum, regngrænum“ (16). Stelpan sú kemur síðan aftur inn á sviðið í lokaljóðinu og vísað er til hennar í síðustu ljóðlínunum: „Aðeins eitt verður eftir, þegar allt er horfið … // flís af sálinni stelpunnar frá því í ágúst // augasteinn þá“ (92). Endurtekin orð og stef koma einnig fyrir í Dimmumótum og eru sérstaklega tengd andstæðunum ljósi og myrkri í ýmsum tilbrigðum. Til að mynda kemur orðasambandið „að koma í ljós“ (og að koma „fram í ljósið“) fyrir þrisvar sinnum, auk þess sem það er fyrirsögn fyrsta hluta bókarinnar. Þá má nefna að ljóðlínurnar „bak við sólarljósið í suðri / bak við norðurljósið í norðri“ eru tvíteknar í síðasta ljóðinu (91 og 92) og með aðeins breyttu orðalagi í ljóðinu PABBASVEIT MEÐ JÖKLI (15). Þá er ónefnt stefið „skyldi ég gala“ sem er þrítekið í síðara galdra-gals-ljóðinu (82).

Ekki þarf að fjölyrða um harmþrunginn tón sem víða er sleginn í Dimmumótum og þó kannski sé hæpið að tala um táratal koma tár við sögu í ljóðinu LAND ELDS OG EINSKIS: „Heitum augum horfi ég á yndið mitt stóra úr æskunni. // Gegnum þurru tárin og tárin nem ég beyglaða flatneskjuna // sem eitt sinn var yfirmynd æskunnar“ (68). Eiginlegt gyðju-ávarp er ekki að finna í Dimmumótum en með því að vitna í upphafi í Jónas gerir Steinunn hann að nokkurs konar skáldskaparguði sínum og völvan sem kann að gala galdur má kallast tilbrigði við gyðju sem blæs skáldinu (baráttu)anda í brjóst.

Steinunn Sigurðardóttir þekkir vel þessa hefð enda hefur hún ort fjölda ljóða sem skilgreina má sem tregaljóð. Einkenni tregaljóða Steinunnar eru að þau beinast ekki að ákveðnum, nafngreindum einstaklingum:

 

Ljóðin eru ekki ort í minningu einhvers sem skáldkonan þekkti, þau eru ekki skrifuð í tilefni af dauða ákveðinnar persónu – a.m.k. er það ekki yfirlýst markmið þeirra hvað annað sem kann að búa að baki. Tregaljóð Steinunnar snúast öðrum þræði um hryggðina yfir því hlutskipti að gleymast að fullu, fjalla um allt sem hverfur að eilífu með dauða einnar manneskju og verður ekki endurheimt.24

 

Guðni Elísson skrifar ofangreind orð um tregaljóð Steinunnar Sigurðardóttur löngu áður en ljóðabókin Dimmumót kom út25 og í kjölfar þeirra vísar hann í eftirfarandi ljóðlínur úr ljóðabálknum „Nokkrar gusur um dauðann og fleira“ úr Hugástum (1999):

 

Þegar fólk deyr þá deyr ekki bara fólk
með því deyr alheimur
af háttalagi, vinnulagi, raddblæ, visku, fávisku.
Sérstakur hlátur deyr og bros á sérstökum hraða.

 

Nákvæmlega sömu hugsun er miðlað í Dimmumótum þótt þar sé ekki ort um fólk heldur Vatnajökul. Hún kemur fram í ljóðinu AFKOMANDINN, sem áður hefur verið vísað í, og einnig í ljóðinu SJÓNMÁL:

 

Þegar SÁ STÓRI fer
þá fer ekki bara hann
heldur fer heimsins aðal útsýnislengja
 
Í sjónmáli alla leið frá Færeyjum
 
Sjónarsvip Veröldin. Ekki bara Eyjan
 
sem einu sinni var ÍS-land. (59)

 

Í ljóðinu, LAND ELDS OG EINSKIS, er þessi hugsun enn ítrekuð: „Því ekki aðeins jökullinn deyr heldur líka lifandi snjórinn / foreldri jökulsins og afkomandi“ (68). Hér er tjáð hryggðin „yfir því hlutskipti að gleymast að fullu […] allt sem hverfur að eilífu […] og verður ekki endurheimt“, svo aftur sé vísað í orð Guðna.

Eitt sterkasta einkennið á pastoral elegíu, eða sveitasælu-tregaljóðinu, er „að þar ríkir óvenjuleg samkennd náttúru og manns“26 og það þarf því ekki að undrast að þetta forn-gríska bókmenntaform hafi gengið í endurnýjun lífdaga í ljóðlist þeirra skálda sem skilgreina sig sem náttúruunnendur og jafnvel aktívista í umhverfismálum. Þessi tilhneiging innan vist-ljóðlistar (e. ecopoetry)27 hefur sætt talsverðri gagnrýni hjá fræðimönnum beggja vegna Atlantsála á þeim forsendum að samtímaljóð sem ort eru í anda þessa forna bókmenntaforms beri keim af fortíðarþrá og upphafningu á veröld sem sé löngu liðin. Slíkur skáldskapur eigi lítið erindi við borgarbúa nútímans enda boði hann gjarnan afturhvarf til náttúrunnar (og sveitarinnar) og ljóðin megi jafnvel skilgreina sem áróður fremur en list. Aðrir benda á að í nútímaljóðum sem taka mið af bókmenntaforminu sé einfaldlega, með tvíhorfsaðferð (e. dialectical mode), verið að koma á framfæri hugmyndum um hvernig nútímamaðurinn geti bætt samband sitt við jörðina.28 Einnig er bent á að þegar forn bókmenntagrein gangi í endurnýjun lífdaga eigi sér alltaf stað einhver skapandi umbreyting. Breski bókmenntafræðingurinn, náttúruunnandinn og ljóðskáldið Terry Gifford, sem hefur rannsakað þessa bókmenntategund í áratugi, telur að í vist-ljóðum samtímans sem kenna megi við pastoral-hefðina sé hægt að greina ný einkenni og leggur hann til að þau séu skilgreind sem post-pastoral poetry. Gifford nefnir sex atriði sem hann segir einkenna slíkan skáldskap og telur koma fram í spurningum sem vaktar eru í skáldskapnum. Í fyrsta lagi spyrji skáldin hvernig þau geti tileinkað sér auðmýkt gagnvart þeirri náttúru sem þau bera lotningu fyrir. Í öðru lagi spyrji þau hvaða afleiðingar það hafi að horfast í augu við að náttúran felur í sér bæði sköpunarkraft og eyðileggingarafl.29 Í þriðja lagi er spurt: Ef það er rétt að okkar innra líf sé í samræmi við ytra lífið, fylgi ferli grósku og hnignunar líkt og náttúran, hvernig getum við þá lært meira um okkar innra líf með nánara sambandi við ytra umhverfi okkar? Í fjórða lagi velti skáldin fyrir sér hvernig þau geti notað menningu sína, ímyndunaraflið og þá sér í lagi hið skáldlegt ímyndunarafl sem tæki til að aflétta firringu mannsins frá náttúrunni. Fimmta spurningin sem Gifford segir einkenna vist-ljóðlist varðar hina þróuðu meðvitund mannsins og samvisku; spurt er hvernig við getum sýnt ábyrgð gagnvart umhverfi okkar og náttúru. Sjötta og síðasta atriðið sem Gifford dregur fram sem einkenni á þessari tegund ljóðlistar varðar sérstaklega það svið sem vist-femínistar hafa bent á: að kúgun og misnotkun okkar á náttúrunni spretti af sömu rótum og sé sambærileg við kúgun og misnotkun okkar á hvert öðru; hvernig getum við brugðist því þeirri nöturlegu staðreynd?30 Þegar rýnt er í ljóðabókina Dimmumót má sjá öll þessi einkenni sem Terry Gifford nefnir að verki eins og þegar ætti að vera ljóst af umfjölluninni hér að ofan.

Form Dimmumóta tengist þó ekki bara formi tregaljóða, heldur einnig heimsslitakvæða sem sprottin eru upp úr kristinni hefð, enda ort um yfirvofandi endalok heimsins, um það hvernig manneskjan hefur með lifnaðarháttum sínum stýrt sjálfri jörðinni og lífverum hennar á braut eyðingar og útrýmingar. Í hugarheimi kristinna miðaldamanna átti veröldin sér skýrt afmarkað upphaf og endi, eins og Ásdís Egilsdóttir fjallar um í greininni „Óttinn og vonin. Dómsdagsmynd nokkurra íslenskra helgikvæða“.31 Þar fjallar Ásdís um nokkrar íslenskar helgisögur og kvæði og sýnir hvernig efni þeirra tengist alþjóðlegum kristnum skáldskap, „þar sem kenning kirkjunnar um endalok heims og dómsdag kemur mjög við sögu“.32 Meðal annars dregur Ásdís fram hvernig áhrifa heiðninnar gætir í íslenskum helgikvæðum, til að mynda í myndmáli og mótífum úr Völuspá, og á það hvort tveggja við fornkvæði og nútímaskáldskap. Hún bendir á að í elsta dæminu um dómsdag í norrænum kveðskap, vísu í Þorfinnsdrápu sem eignuð er Arnóri Þórðarsyni (fæddum snemma á elleftu öld) megi sjá mótíf úr Völuspá:

 

Hann segir í erindinu að björt sól muni verða svört og jörðin sökkva í dimman sæ áður en jafngóður höfðingi muni fæðast í Orkneyjum. Vísan er sem endurómur úr erfidrápu Hallfreðar vandræðaskálds (um 965-1007) sem hann orti eftir Ólaf Tryggvason Noregskonung, Sólin sem sortnar minnir sömuleiðis á 40. og 54. erindi Völuspár, „sól tér sortna, sígr fold í mar“ og „svǫrt verða sólskin.33

 

Þá fjallar Ásdís líka um kaþólsk helgikvæði og trúarlegar drápur og ræðir sérstaklega kvæðið Harmsól eftir kanúkann Gamla í Þykkvabæ (12. öld) en bent hefur verið „á líkindi 31. vísu Harmsólar („Geisar eldr ok æsisk / ǫlna fold, ór moldu“) við 54./55. erindi Völuspár“.34 Minna má á að í Dimmumótum koma líka fyrir myndir af hamförum í eldi, í ljóðinu AFTURÁBAK OG NIÐUR segir: „Allt verður jörðinni að ógæfu // Innri eldurinn rýkur upp // Jörðin, einnig hún, / undir jöklinum, hitnar // Þolir ekki við“ (61). Lokalínur ljóðsins eru: „Hún brennur hún jörðin // Allt logar // ytra og innra // Eldsvoði // allsherjar“ (62). Í ljóðinu SJÓNARSVIPTIR 2 kemur fyrir orðið „Harmsól“ og má skilja sem vísun í þetta forna kvæði: „Enn vermir sólin á Íslandi / hæglega hóglega. // En ekki að Harmsól orðin“ (84). Önnur íslensk dómsdagskvæði sem Ásdís Egilsdóttir fjallar um í grein sinni eru.35 Tvö þau síðarnefndu eru eftir óþekkta höfunda en Lilja er eignuð Eysteini Ásgrímssyni sem var munkur af reglu heilags Ágústínusar, og talin ort um miðja fjórtándu öld.36 Steinunn Sigurðardóttir vitnar beint í upphafslínu 21. erindis Lilju með aðfaraorðum að öðrum hluta Dimmumóta: „Heimur er dauður en hvað er til ráða?“ (29)37 og líkt og í tilvitnuðum ljóðlínum Harmsólar og Dimmumóta brennur jörðin í eldi í 70. erindi Lilju:

 

Svo geisar þá eldur og eisa
jörð og fjöll, að í heimi öllum,
eigi finnst þá upp úr skýjum
óbrunnið og niður að grunni.38

 

Ásdís Egilsdóttir bendir á að helgikvæði fyrri alda „bergmála einhverskonar samræmda dómsdagsmynd sem menn hafa í huga sér og samsvarar latneska sálminum þekkta Dies irae og frásögnum ritningarinnar. Ógnum dómsdags er lýst sem náttúruhamförum, líkt og í Opinberunarbókinni þegar lambið hefur lokið upp sjötta og sjöunda innsiglinu“.39 Það er því ef til vill nærtækt fyrir samtímaskáld á borð við Steinunni Sigurðardóttur að vísa til slíkra kvæða þegar yrkisefnið snýst um náttúruhamfarir, hvað þá ef þær náttúruhamfarir muni hugsanlega hafa heimsslit í för með sér. Sá grundvallarmunur er þó á hinum gamla kveðskap og Dimmumótum að í helgikvæðunum fylgir von um sáluhjálp alltaf óttanum við ógnir dómsdags og skáldin beina orðum sínum til Krists og Maríu „í þeirri von að kvæðið verði launað með því að sálum þeirra verði borgið“.40 Enga slíka von er að finna í Dimmumótum og kannski er það meginástæða þess að ýmsum lesendum ljóðabókarinnar hugnaðist ekki boðskapurinn og sá reiði- og harmatónn sem liggur sem rauður þráður í gegnum hana alla. Yfirvofandi dómsdagur virðist ekki vera minni raunveruleiki fyrir höfundi Dimmumóta en fyrir hinum heittrúuðu skáldum fyrri alda og á slík líkindi bendir Ásdís Egilsdóttir undir lok greinar sinnar: „Fyrir skáldunum og áheyrendum þeirra var dómsdagur raunveruleiki og mætti helst líkja við kjarnorkuvá eða umhverfisslys á okkar dögum.“41

 

Völuspá og galdur

Femínísk vistrýni er byggð á þeirri forsendu að yfirráð og misnotkun mannsins á náttúrunni og náttúruauðlindum sé að mörgu leyti sambærileg við yfirráð og kúgun feðraveldisins á konum42 og það ætti að vera orðið ljóst að í myndmáli Dimmumóta má greina slíkar hliðstæður víða. Ekki síst í því hvernig skáldið persónugerir jörðina sem móður sem mannkynið hefur misnotað og svívirt með þeim afleiðingum að hún er í andarslitrunum. Eins og sjá má í ljóðinu FLÆÐISKERS GALDRAGAL líkir Steinunn jörðinni við „mergsogna móður“ og er sú viðlíking gegnumgangandi í bókinni.

Vísanir Steinunnar Sigurðardóttur í Völuspá í Dimmumótum má tengja við þennan skilning femínískrar vistrýni og eru vitaskuld þrungnar merkingu. Líkt og Dimmumót lýsir Völuspá hvernig heimur er á heljarþröm vegna breytni manna (og ása). Í Konungsbók eddukvæða er Völuspá í 63 erindum og í upphafi kvæðisins ávarpar völvan alla heimsbyggðina: „Hljóðs bið eg / allar helgar kindir“, en síðan snýr hún sér að Óðni og spyr hvort hann vilji hlýða á það sem hún hefur að segja. Í framhaldinu lýsir hún sköpun heimsins, gullöld, átökum og endalokum. Frásögn völvunnar spannar tímann allt frá upphafi til ragnaraka og undir lok kvæðisins sér hún nýja jörð rísa úr ægi. Lýsing völvunnar er þó ekki eins einföld og hér er lýst. Eins og Helga Kress hefur bent á er Völuspá ekki bara „eitt af frægustu kvæðum íslenskrar bókmenntasögu“ heldur „einnig það torskildasta“.43 Kvæðið er „sýn sem völva flytur sem í leiðslu eða draumi, og einkennist af brotum, sundurlausum setningum og aragrúa mynda sem ekki er hægt að binda í nokkra eina og endanlega merkingu“.44 Helga bendir auk þess á að á að ásamt því að kvæðið lýsi endalokum heiðinnar menningar hafi það „einnig að geyma aðra og sérstakari sögu, með sama frásagnarmynstri og goðsögnin um völvuna í öðrum frásögnum. Söguna um endalok (heiðinnar) kvennamenningar“.45

Merkja má einkenni frá bæði heiðnum og kristnum hugmyndaheimi í Völuspá: „Uppistaða Völuspár er norræn eða germönsk heimsmynd heiðninnar. Ívafið eru kristnar kenningar, því kvæðið er ofið úr ótalmörgum þáttum og sumir eiga sér djúpar rætur í spádómshefð.“46 Og eins og minnst hefur verið á vísar Steinunn Sigurðardóttir í bæði hugmyndakerfin í myndmáli Dimmumóta og það er hin ævaforna spádómshefð sem Völuspá á rætur í sem hún tengir sig við undir lok ljóðabókarinnar. Það er áhugavert að í íslenskum nútímabókmenntum má sjá mörg dæmi þess að kvenrithöfundar sæki í fornsagnahefðina og endurtúlki þær sögur sem þar eru sagðar og leitist við að endurvekja þann kraft sem býr í kvenhetjum fornbókmennta, ekki síst gyðjum og völvum. Í nýlegri yfirlitsgrein um íslenskar bókmenntir og femíníska vistrýni greinir Auður Aðalsteinsdóttir þessar áherslur og tekur meðal annars sérstaklega til skoðunar skáldsögu Svövu Jakobsdóttur, Gunnlaðar sögu (1987).47 Sagan byggist á róttækri endurtúlkun Svövu á 104.–110. erindi Hávamála ásamt rannsóknum hennar á keltneskum sagnaarfi sem segja frá konungsvígslum sem voru í höndum hofgyðja, en samkvæmt túlkun Svövu er frásögnin af samskiptum Gunnlaðar og Óðins lýsing á slíkri konungsvígslu en ekki frásögn af því hvernig Óðinn táldregur Gunnlöðu, beitir ofbeldi og rænir af henni skáldamiðinum í framhaldinu. Sterkur náttúruverndarboðskapur liggur sögunni til grundvallar, enda er hún skrifuð í kjölfar Tsjernobylslyssins þegar geislavirkt ský lá yfir stórum hluta Evrópu og „[þ]ungur hrammur gyðjuleysis lá yfir landinu öllu.“48 Gunnlaðar saga og Dimmumót eru báðar dæmi um það hvernig íslenskir kvenrithöfundar hafa sótt í fornan menningararf, til hinnar fornu gyðju- og völvufrásagna, í verkum þar sem umhverfismál eru í brennidepli. Segja má að þar sé leitast við að lyfta aftur á yfirborðið þeirri kvennamenningu sem ýtt var undir yfirborðið af fulltrúum rithefðarinnar sem tók við af munnlegri sagnahefð, eins og Helga Kress lýsir í bókinni Máttugum meyjum.

Í kaflanum „Skáldskapur og seiður“ fjallar Helga um hlutverk völvunnar í norrænum fornbókmenntum. Þar kemur fram að í „heimildum eru konur sem fremja seið ýmist kallaðar „völvur“, „seiðkonur“, „fjölkunnugar konur“ eða „vísindakonur““ og telur Helga að orðið völva „sé leitt af sama stofni og latneska sögnin „volvere“, velta, snúa, og vísi til leiðslunnar sem völvan fellur í, hæfileika hennar til að sjá yfir í annan heim“.49 Helga lýsir hvernig völvan „syngur eða kveður spá sína“, hvernig henni er ýmist trúað eða ekki og hvernig karlmenn reyna oft „að þagga niður í henni“.50 Þótt spá völvunnar rætist alltaf er henni síst þakkaður spádómurinn, þvert á móti: „Fyrst eru völvurnar virtar, síðan hæddar, þá ógnað, og að lokum er þeim misþyrmt, þær særðar, eða jafnvel drepnar. Þeim er þá drekkt eða þær eru grýttar.“51 Helga skrifar einnig:

 

Samkvæmt yfirlýstri siðfræði íslenskra fornbókmennta eru konur ekki drepnar. Sá mælikvarði gildir þó engan veginn um afbrigðilegar konur, þ.e. þær sem ógna samfélagi karla með visku sinni eða óhlýðni. Seiðkonur og fjölkunnugar konur eru réttdræpar í því samfélagi sem þessar bókmenntir lýsa, en seiður og fjölkynngi er eitt af fáum sviðum sem karlar ráða ekki yfir. Venjulega eru konurnar grýttar eða þeim er drekkt, og þannig ýtt undir yfirborð jarðar.52

 

Helga bendir á að merkja megi af íslenskum fornbókmenntum hvernig menning völvunnar er á hverfanda hveli og nauðsynleg þekking á því hvernig framkvæma á seiðinn er að glatast: „Til þess að fremja seiðinn þarf [völvan] konur sem kunna að syngja eða kveða ákveðið kvæði, en þær konur er ekki lengur að finna.“53 Niðurþöggun völvunnar er hluti af innreið kristins hugmyndaheims í norræna menningu og með því að vísa til völvunnar er Steinunn Sigurðardóttir að reyna að endurvekja þann kraft sem völvan býr yfir. Er sú tilraun hliðstæð þeim straumi sem víða má sjá í kvennabókmenntum, sem og femínískri baráttu í umhverfismálum, þar sem vísað er til fornar gyðjutrúar og mæðraveldissamfélaga; nútímakonur eru að reyna að vekja til lífsins aftur þær máttugu meyjar til að efla náttúruverndarbaráttu samtímans.

Í Máttugum meyjum bendir Helga Kress á að í Hávamálum, sem fylgja beint á eftir Völuspá í Konungsbók Eddukvæða, „er orðið ljóð samheiti galdurs“.54 Í því ljósi má segja að með ljóðum sínum í Dimmumótum hafi Steinunn Sigurðardóttir í raun „galað galdur“ eða alla vega sett fram sína eigin útgáfu af (nútíma-)Völuspá. En hvort sú spá – eða það galdragól – dugi til nokkurs er önnur saga. Hvort kvenröddin sem ýtt var undir yfirborðið í íslenskum fornbókmenntum, eins og Helga leiðir rök að í greiningu sinni í Máttugum meyjum, geti brotist í gegnum aftur er erfitt að segja. Feðraveldið vill helst ekki heyra slíkar raddir – og alls ekki raddir reiðra kvenna – sérstaklega ef þær ráðast gegn allsráðandi gróðahyggju og boða að grundvallarbreytinga á kapítalísku hagkerfi sé þörf. Eins og minnst var á hér í inngangi greinarinnar bar nokkuð á því að reiðitónn bókarinnar færi ekki vel í lesendur hennar. Þetta var til dæmis til umræðu í bókmenntaþættinum Kiljunni á RÚV þar sem gagnrýnendurnir Þorgeir Tryggvason og Guðrún Baldvinsdóttir voru sammála um að erindi skáldsins bæri „póesíuna“ ofurliði. Umfjöllun um samtal þeirra birtist síðan á vefsíðu RÚV með yfirskriftinni: „Skiljanleg reiði Steinunnar yfir dauðastríði jökulsins“, en eftirfarandi málsgrein fylgir í kjölfarið:

 

Gagnrýnendur Kiljunnar eru sammála því að fyrsti hlutinn af þremur í nýjum ljóðabálki Steinunnar Sigurðardóttur sé sá sterkasti. Á köflum yfirgnæfi erindið skáldið í reiði yfir hamfarahlýnun og bráðnun jökla, en þrátt fyrir að lesendur sakni póesíunnar sé bræðin bæði réttlát og virðingarverð.

 

Gagnrýnendurnir eru samdóma um að ævisögulegi hluti bókarinnar sé bestur en ljóðin um dauðastríð Vatnajökuls séu lakari. Þorgeir gengur reyndar svo langt að segja að þau ljóð séu í einhverjum skilningi „óort“ – eða í raun fyrst og fremst, svo ég umorði, áróður. Svipuð skoðun kom fram hjá Grétu Sigríði Einarsdóttur, bókmenntafræðingi, í þættinum „Orð um bækur“ á RÚV. Gréta Sigríður talaði um „ásökunarorðræðu“ og sagði að „þessi mikla reiði“ virkaði á hana sem „glymjandi“ og næði ekki til hennar.56

Hér að framan var minnst á hinn þekkta latneska dómsdagssálm Dies irae (Dagur reiði), frá síðari hluta þrettándu aldar, sem eignaður er Tómasi frá Celano (d. eftir 1250) og „er einhver frægasti sálmur í miðaldakirkjusöng“.57 Sálminn þýddi Matthías Jochumsson og var þýðing hans tekin upp í Kaþólska bænabók árið 1922.58 Í upphafserindi þýðingar Matthíasar má sjá hvernig hann tengir hina kristnu hefð við norrænu völvuna, líkt og Steinunn Sigurðardóttir gerir í sínu heimsslitakvæði.

 

Dagur reiði, dagur bræði
drekkir jörð með logaflæði
votta heilög Völufræði.59

 

Það er mikilvægt að hafa í huga að reiðilestur er órjúfanlegur hluti af dómsdagslýsingum og heimsslitakvæðum. Það er því varla sanngjarnt að saka Steinunni Sigurðardóttur um of mikla reiði þegar hún yrkir um það sem hún sér sem yfirvofandi heimsslit. Nær væri ef til vill að sjá í Dimmumótum ákall eða hvatningu skáldsins um aðgerðir áður en það verður um seinan. Steinunn Sigurðardóttir hefur alla tíð verið sjálfri sér samkvæm í náttúruverndarbaráttu sinni og lætur ekki þagga niður í sér. Þeir lesendur sem kunna ekki að meta boðskap eða hvatningu af slíku tagi verða auðvitað að eiga það við sjálfa sig. Kannski er þægilegra að njóta ljóðlistar sem krefst þess ekki að lesandinn taki afstöðu, hvað þá að hann grípi til aðgerða. Kannski er best að skála bara í kampavíni meðan heimurinn ferst.

 

Tilvísanir:

[1] Steinunn Sigurðardóttir, Dimmumót, Reykjavík: Mál og menning, 2019, bls. 79. Framvegis verður vísað til blaðsíðutala ljóðabókarinnar innan sviga í meginmáli.
[2] Erindi 57. Tilvísanir til Völuspár eru í útgáfu Gísla Sigurðssonar í Eddukvæði, Reykjavík: Mál og menning, 1998. Þar er kvæðið í 63 erindum, eins og í Konungsbók eddukvæða frá 1270, en í Hauksbók sem rituð var um miðja fjórtándu öld eru erindin 59.
[3] Um byggingu hinna ofurríku á neðanjarðar-vistarverum sem eiga að veita þeim skjól ef líf á jörðinni verður óbærilegt má til dæmis lesa í grein eftir bandaríska blaðamanninn Evan Osnos, „Survival of the Richest“, sem birtist í The New Yorker, 30. janúar 2019.
[4] Á Orðaneti Árnastofnunnar er orðið „dimmumót“ sagt samheiti við orðin „ljósaskipti“, „skyggjumót“ og „brigðlýsi“ og merking hugtaksins sambærileg við orðið „rökkur“. Í vef-orðabókinni Snöru má sjá að fyrsta enska þýðingin sem gefin er upp á orðinu ragna-rök er: „twilight of the gods (Old Norse Mythology)“.
[5] Upphafsorð Opinberunarbókarinnar er gríska orðið apokalypsis, sem vísar hvort tveggja til opinberunar og heimsslita.
[6] Þess má geta að flestir fræðimenn eru á þeirri skoðun að rætur Völuspár liggi inn í kristinn hugmyndaheim og að myndmál kvæðisins sæki mikið til hvort tveggja helgirita kristninnar sem og kristinnar myndlistar, svo sem dómsdagsmynda sem skreyttu ýmsar höfuðkirkjur í Evrópu. Sjá t.d. Þórhallur Eyþórsson og Pétur Pétursson (ritstj.), Rætur Völuspár, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2022, og Terry Gunnell og Annette Lassen (ritstj.), The Nordic Apocalypse. Approaches to Völuspá and Nordic Days of Judement, Turnhout: Brepols, 2013.
[7] Ljóð Jóhanns ber yfirskriftina „Jónas Hallgrímsson“: „Dregnar eru litmjúkar / dauðarósir / á hrungjörn lauf / í haustskógi. / Svo voru þínir dagar / sjúkir en fagrir / þú óskabarn / ógæfunnar.“ Jóhann Sigurjónsson, Rit I, Reykjavík: Mál og menning, 1940, bls. 239–240.
[8] Andri Snær Magnason hefur fjallað mikið um þær ógnir sem heimurinn stendur frammi fyrir við bráðnun jökla, sjá Um tímann og vatnið, Reykjavík: Mál og menning, 2019. Í inngangi segir meðal annars: „á næstu hundrað árum verða grundvallarbreytingar á eðli vatns á jörðinni. Jöklar utan heimskautanna munu flestir bráðna að miklu leyti, yfirborð hafsins mun rísa, hitastig jarðar mun hækka með tilheyrandi þurrkum eða flóðum og sýrustig hafsins breytast meira en sést hefur í 50 milljón ár“, bls. 9. Eins og titillinn vitnar um fjallar bók Andra Snæs meira og minna um þetta efni, en benda má sérstaklega á kaflana „Hrimhvíta alheimsmóðirin“ og „Að kveðja hvítan risa“ (bls. 177–188). Ég bendi einnig á bækur bandaríska land- og jöklafræðingsins dr. M. Jackson, sem beitir svipaðri aðferð og Andri Snær, að vefa saman persónusögu og traustum vísindarannsóknum: The Secret Lives of Glaciers, Brattleboro, Vermont: Green Writer’s Press, 2019, og While Glaciers Slept. Being Human in a Time of Climate Change, Brattleboro, Vermont: Green Writer’s Press, 2015. Fyrrnefnda bókin fjallar sérstaklega um jökla á Íslandi og er byggð á doktorsritgerð höfundar. Þá má einnig nefna skýrslu Vísindanefndar: Halldór Björnsson, Bjarni D. Sigurðsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur S. Ástþórssson, Snjólaug Ólafsdóttir, Trausti Baldursson og Trausti Jónsson, Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi. Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar 2018, Veðurstofa Íslands, 2018, sem og nýlega skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál: IPCC, 2022: Hans-Otto Pörtner, Debra C. Roberts, Melinda M. B. Tignor, Elvira Poloczanska, Katja Mintenbeck, Andrés Alegría, Marlies Craig o.fl. (ritstj.), Climate Change 2022. Impacts, Adaptation and Vulnerability. Contribution of Working Group II to the Sixth Assessment Report of the Intergovernmental Panel on Climate Change, Cambridge og New York: Cambridge University Press.
[9] Matthías Johannessen, „„Fjöllin eru eins og greinds manns tunga.“ Rætt við Svavar Guðnason listmálara“, Morgunblaðið, 18. nóvember 1984, bls. 101. Þetta efni, um jöklabirtuna í málverkum Svavars Guðnasonar og ljóðum Steinunnar Sigurðardóttur, er í raun efni í aðra grein og hefur greinarhöfundur, sem er búsett í ríki Vatnajökuls, hug á að takast á við það efni síðar og fer því ekki nánar í það hér.
[10] Sama heimild.
[11] Bólu-Hjálmar orti: „Mínir vinir fara fjöld / feigðin þessa heimtir köld / ég kem eftir, kannske í kvöld / með klofinn hjálm og rofinn skjöld, / brynju slitna, sundrað sverð og syndagjöld.“ Hjálmar Jónsson frá Bólu, Ljóðmæli (Jónas Jónsson gaf út), Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1942, bls. 89–90.
[12] Hér má ef til vill sjá óbeina vísun í hina þekktu bók Rachel Carson, Silent Spring, Boston: Hougton Mifflin, 1962. (Íslensk þýðing: Raddir vorsins þagna, þýð. Gísli Ólafsson, Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1965.) Í þeirri áhrifaríku bók gagnrýndi Carson harðlega notkun manna á skordýraeitri til að efla vöxt í matarframleiðslu. Hún sýndi fram á alvarlegar afleiðingar þess fyrir allar lífverur á jörðinni og titillinn vísar til þess möguleika að fuglar drepist af eitrinu og fuglasöngur hverfi.
[13] Kristján orti: „Nú er frost á Fróni / frýs í æðum blóð.“ Sjá kvæðið „Þorraþræll“ í Kristján Jónsson, Ljóðmæli, Víglundur Möller bjó til prentunar, Akureyri: Bókabúð Rikku, 1946, bls. 16.
[14] „Opinberunarbók Jóhannesar“, Biblían. Heilög ritning, Reykjavík: Hið íslenska Biblíufélag, JPV útgáfa, 2007, bls. 341.
[15] Í þættinum „Orð um bækur“ á Rás 1 á RÚV þann 28. mars 2020 ræddi Jóhannes Ólafsson við Grétu Sigríði Einarsdóttur bókmenntafræðing og Kára Tulinius ljóðskáld og þeim var m.a. tíðrætt um að bókin lýsti sorgarferli. Á Bókmenntavef Reykjavíkurborgar skrifar Rósa María Hjörvar í nóvember 2019 að bókin sé „óður til Vatnajökuls og harmþrungin hugleiðing um afleiðingar loftslagsbreytinga“ og sjálf vakti ég athygli á treganum sem grunnstefi bókarinnar í ritdómi, sjá Soffía Auður Birgisdóttir, „Hvers-lendingar verðum við þá?“, Stundin, 6. desember 2019.
[16] Nefna má Benedikt Gröndal og Steingrím Thorsteinsson. Reyndar þekkist eldra dæmi eftir sr. Jón Guðmundsson í Hítardal, ort á fyrri hluta sautjándu aldar. Sjá Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Mál og menning, 1983, bls. 69.
[17] Guðni Elísson, „„Í kirkjugörðum nefnum við ekki nöfn“. Tími og tregi í ljóðum Steinunnar Sigurðardóttur“, Hef ég verið hér áður? Skáldskapur Steinunnar Sigurðardóttur, ritstj. Guðni Elísson og Alda Björk Valdimarsdóttir, Reykjavík: Bókmennta- og listfræðastofnun og Háskólaútgáfan, 2011, bls. 45–70, hér bls. 51–52.
[18] Sama heimild, bls. 52.
[19] Sjá Jeffrey Thomson, „„Everything Blooming Bows Down in the Rain.“ Nature and the Work of Mourning in the Contemporary Elegy“, Ecopoetry. A Critical Introduction, ritstj. J. Scott Bryson, Salt Lake City: The University of Utah Press, 2002, bls. 153–161, hér bls. 153.
[20] Sveinn Yngvi Egilsson, „Hulduljóð sem pastoral elegía“, Andvari, 1994, bls. 103–111.
[21] Sama heimild, bls. 105.
[22] Sama heimild, bls. 106.
[23] Sama heimild.
[24] Guðni Elísson, „„Í kirkjugörðum nefnum við ekki nöfn““, bls. 55.
[25] Grein Guðna birtist fyrst í Ritinu 3/2003, bls. 91–113.
[26] Sveinn Yngvi Egilsson, „Hulduljóð sem pastoral elegía“, bls. 108.
[27] Ef til vill færi betur á að þýða eco-poetry sem umhverfis-ljóðlist.
[28] Sjá Terry Gifford, „Gary Snyder and the Post-Pastoral“, Ecopoetry. A Critical Introdution, bls. 77–87.
[29] Í þessu sambandi bendir Gifford sérstaklega á skrif skoska náttúrufræðingsins John Muir (1838–1914) um jökla. Muir segir að fegurð jöklanna í Alaska eigi uppruna sinn í hinum ógnandi eyðileggingarmætti þeirra: „what we in our faithless ignorance and fear call destruction is creation finer and finer.“ Sjá Terry Gifford, „Gary Snyder and the Post-Pastoral“, bls. 81.
[30] Terry Gifford bendir á þessi sex atriði út frá greiningu sinni á ljóðlist bandaríska skáldsins Gary Snyder (f. 1930) en telur að þau megi heimfæra upp á vist-ljóðlist almennt.
[31] Ásdís Egilsdóttir, „Óttinn og vonin. Dómsdagsmynd nokkurra íslenskra helgikvæða“, Rætur Völuspár, ritstj. Þórhallur Eyþórsson og Pétur Pétursson, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag 2022, bls. 28–41.
[32] Ásdís Egilsdóttir, „Óttinn og vonin“, bls. 29.
[33] Sama heimild, bls. 31. Í útgáfu Gísla Sigurðssonar á Eddukvæðum, sem stuðst er við í þessari grein, er erindið sem hefst á „Sól tér sortna“ nr. 55.
[34] Sama heimild, bls. 34. Ásdís vísar (í ngr. 17, bls. 34) í G. Turville-Petre, Origins of Icelandic Literature, Oxford: Clarendon Press, 1953, og Wolfgang Lange, Studien zur christlichen Dichtung der Nordgermanen 1000–1200, Göttingen: Vandenhoeck & Ruprech, 1958, og fleiri fræðirit sem fjalla um kristin áhrif á Völuspá.
[35] Ásdís Egilsdóttir, „Óttinn og vonin“, bls. 38–41.
[36] Eysteinn Ásgrímsson, Lilja, Reykjavík: Stafafell, 1974, bls. 8.
[37] Sama heimild, bls. 34.
[38] Sama heimild, bls. 83.
[39] Ásdís Egilsdóttir, „Óttinn og vonin“, bls. 38.
[40] Sama heimild, bls. 41.
[41] Sama heimild, bls. 41.
[42] Þetta kemur fram í flestum yfirlitsritum um vistrýni, sjá t.d. Cheryll Glotfelty og Harald Fromm (ritstj.), The Ecocriticism Reader. Landmarks in Literary Ecology, Athens, GA: The University of Georgia Press, 1996; Douglas A. Vakoch (ritstj.), The Routledge Handbook on Ecofeminism and Literature, New York og London: Routledge, 2023. Sjá einnig grein Unnar Birnu Karlsdóttur, „Grænn femínismi. Vistfemínískir þræðir í íslenskri umhverfispólík“, Ritið, 2/2022, bls. 141–163, en þar er gefið gott yfirlit yfir helstu einkenni vistfemínisma og hvaða íslenskir fræðimenn hafa beitt vistfemínískum aðferðum í rannsóknum sínum.
[43] Helga Kress, Máttugar meyjar. Íslensk fornbókmenntasaga, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1993, bls. 50.
[44] Sama heimild, bls. 50–51.
[45] Sama heimild, bls. 51.
[46] Tryggvi Gíslason, „Formáli“, Rætur Völuspár, 2022, bls. 8.
[47] Auður Aðalsteinsdóttir, „Icelandic Literature and Ecofeminism“, The Routledge Handbook on Ecofeminism and Literature, ritstj. Douglas A. Vakoch, New York og London: Routledge, 2023, bls. 213–222. Auður minnist á Dimmumót í greininni en ræðir á ítarlegri hátt skáldsögurnar Lifandi vatnið (1974) eftir Jakobínu Sigurðardóttur, Jarðnæði (2011) og Undirferli (2016) eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur, í samhengi femínískar vistrýni. Einnig nefnir hún verkin Blóðhófni (2012) eftir Gerði Kristnýju, Dýralíf (2020) eftir Auði Övu Ólafsdóttur og þríleik Vilborgar Davíðsdóttur um Auði djúpúðgu (Auður (2009), Vígroði (2012) og Blóðug jörð (2019)).
[48] Svava Jakobsdóttir, Gunnlaðar saga, Reykjavík: Forlagið, 1987, bls. 181. Sjá nánar um úrvinnslu Svövu á heiðnum og kristnum sagnaarfi í Svava Jakobsdóttir, „Gunnlöð og hinn dýri mjöður“, Skírnir, 1988, 162 (haust), bls. 215–245; Dagný Kristjánsdóttir, „„Stabat Mater dolorosa“. Um Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur“, Andvari, 1988, bls. 99–112, og Soffía Auður Birgisdóttir, „Lífsvon í deyjandi sköpunarverki. Um Gunnlaðar sögu og Graalsögnina“, Kona með spegil. Svava Jakobsdóttir og verk hennar, ritstj. Ármann Jakobsson, Reykjavík: JPV, 2005, bls. 116–130.
[49] Helga Kress, Máttugar meyjar, bls. 35.
[50] Sama stað.
[51] Sama heimild, bls. 35–36.
[52] Sama heimild, bls. 50.
[53] Sama heimild, bls. 37.
[54] „Þátturinn ljóðatal fjallar um átján galdra sem Óðinn hefur náð valdi á, og er endurtekið stef þess: „Það kann ég.““ Sama heimild, bls. 64.
[55] Egill Helgason hóf umræðuna með því að segja: „Þetta er bók þar sem Steinunni liggur ofboðslega mikið á hjarta, hún er reið.“ Þorgeir Tryggvason og Guðrún Baldvinsdóttir taka strax undir og Guðrún segir kveða við nýjan tón: „Það er þá aðallega þessi reiði – og skiljanleg reiði varðandi loftslagsmál, umhverfisáhrif og náttúru.“ Þorgeir tekur undir þessi orð og segir „erindið yfirgnæfa skáldið“. Sjá Júlía Margrét Einarsdóttir og Egill Helgason, „Skiljanleg reiði Steinunnar yfir dauðastríði jökulsins“, RÚV, 14. desember 2019.
[56] „Orð um bækur“, Rás 1 á RÚV þann 28. mars 2020
[57] Sjá „Dagur reiði, dagur bræði“ á óðfræðivefnum Braga sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum heldur úti, þar sem lesa má þýðingu Matthíasar.
[58] Ásdís Egilsdóttir ræðir einnig þennan sálm í áður tilvitnaðri grein, „Óttinn og vonin“, bls. 31.
[59] Kaþólsk bænabók, Reykjavík, 1922, bls. 97.

 

Tengt efni