SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 8. október 2025

FÖR MÍN TIL FURÐUSTRANDA

Fyrirsögn greinarinnar er vísun í heiti á ljóði í ljóðabók Bjargar Pétursdóttur, Tvennir tímar, en Björg var ein af stofnendum Verkakvennafélagsins Vonar sem stofnað var á Húsavík 28. apríl árið 1918. Tvennir tímar var gefin út af Framsýn, stéttarfélagi árið 2018 hundrað árum síðar í samstarfi við afkomendur hennar. Björg sem var fædd á Birningsstöðum í Laxárdal 17. desember árið 1875 var fremst í flokki þeirra húsvísku alþýðukvenna sem komu á fót félagi, fátækra verkakvenna sem sögðu ranglætinu stríð á hendur og börðust fyrir bættum kjörum kvenna, eins og stendur í formála bókarinnar. Það má með sanni segja að hægt sé að líta á þann tíma sem tvenna. Upphaf kvennabaráttunnar hinnar fyrstu. Víða um heim á þessum tíma voru konur farnar að gera kröfur um bætt kjör og verkalýðs- sem og kvenfélög fóru að líta dagsins ljós.

Bókin er mikil fengur fyrir íslensku kvennabaráttuna og sögu hennar. Í gegnum ljóð Bjargar getum við lesið hróp eða áköll kvenna um rétt þeirra til þess að eiga sér mannsæmandi líf.

Í formála bókarinnar sem ritað er af formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna Baldussyni segir svo m.a.:

,,Að sunnudaginn 28. apríl árið 1918 var haldinn fundur í fundarsal Húsavíkur í þeim tilgangi að stofna verkalýðsfélag fyrir konur. Björg Pétursdóttir stýrði fundinum og las upp lög Verkakvennafélags Reykjavíkur, sem henni var send og spunnust nokkrar umræður út af þeim. Félagði var stofnað af 46 konum og fundurinn samþykkti eftir nokkrar umræður að félagið skyldi heita Von."

Áður en til fundarins kom hafði Björg Pétursóttir unnið að stofnun félagsins með því að kynna sér réttindabaráttu kvenna hér á landi en aðeins fjögur verkakvennafélög höfðu á þeim tíma verið stofnuð ,,Mér var ljóst, sagði Björg, að hér var stórmál á ferðinni, sem ég tæpast kenndi mig mann til að veita forystu, enda heimlisaðstæður mínar þannig, að þær heimtuðu mig óskipta. Þó fann ég vel, að slíku málefni var ekki sæmandi að stinga undur stól, þörfin var brýn og markmiðið göfugt. - Viðhorfið til framkvæmda hins vegar ískyggilega fast sveipað vanavéum afturhaldsins."

Þá segir Aðalsteinn að það hafi verið snemma á hennar lífsskeiði sem hún hafi hneigðst til kveðskapar og lýsir því hvernig ljóðin spegli allt í senn ættjarðarást, virðingu fyrir náttúrunni sem og sorgum. Erfið lífsreynsla hennar flæði í gegnum ljóðin og oft var hún fengin til þess að flytja ljóð sín á fundum félagsins. 

Það má með sanni segja að sum ljóð Bjargar endurspegli líf kvenna, séu kvennaljóð og þau segja líka sína sögu um niðurlægingu og hundsun. Allar þær konur sem gátu sett hugsanir sínar á blað og ortu hin fegurstu ljóð um harðindi, sorgir og áföll, fengu enga athygli. Það var ekki fyrr en mörgum áratugum seinna eftir grýttar slóðir og baráttu upp á líf og dauða sem einhverri athygli var náð. Hér yrkir Björg magnað ljóð sem hún kallar ,,Í fjötrum" það er ekki bara að Björg leikur sér með ljóðformið sjálft er með innrími þar sem önnur og fjórða kveða ríma saman. T.d. tötrum - fjötrum.

Í fjötrum
 
Blunda ég í tötrum, bundin fjötrum.
Hristi hlekki, þeir hrökkva ekki.
Svíða sárin. Ég sé gegnum tárin.
Ég sé til fjalla, þau seiða og kalla.
Þrá mín heyrir, þó helfjörtar reyri.
Hún þráir frelsi, frá húmi og helsi.
Frá öllu lágu, um loftin háu,
hún leggur af stað.
Þá er ekkert að, allstaðar sólskin
og blómskrýddar lendur á báðar hendur.
Hún sækir til fjalla, þau seiða og kalla.
Hún sér þau svo alhrein, úr morgunlaug stigin,
þeim er eldur í barmi árgeisli í hvarmi,
í algleymi þrá mín, í faðm þeirra hnigin. 
Hún hlustar, hún heyrir eilífðar óma
í öræfa þögninni, sígilda hljóma.
Gegnum aldanna húm, yfir tíma og rúm
ljósvana sálum þeir lyft hafa úr myrkranna dróma.
 

Næsta ljóð Bjargar ,,För mín til furðustranda"  gefur okkur smá innsýn í hugarheim hennar og baráttu. Hún færir þeim söguna vel, íslensku skáldunum, með rímunum sínum, en um leið segir hún frá sinni eigin baráttu um athygli, eins og segir á einum stað ,,litin smáum sjónum"  að vera ekki meðal þeirra sem fylla lendur Braga skáldajöfra. Bls. 74

För mín til furðustranda ,ort til íslenskra skálda
 
Þeim er betri þögnin ein er þurfa að klifa
ljóðagjörð til þarfa og þrifa
á því sem aðrir hugsa og skrifa.
 
Einlægt brestur orðaval og efni líka
þó farið sé um furðustrendur
finnast hvergi auðar lendur.
 
Eitt sinn lagði ég af stað í óför slíka
óðar gleymdi ég efnisheimi
andinn var þar lengi á sveimi.
 
Lista svanir sátu þar á söngva bekkjum
ýmsir hér frá efnisheimi
óteljandi úr dulargeimi.
 
Ekkert sæti átti ég þar og enga vini
hjá þeim miklu lista ljónum
litin var ég smáum sjónum.
 
Steingrímur þar stilli hörpu, á strengjum lætur 
óma fögur ástarljóðin
ymur í tónum sjafnarglóðin.
 
Syngur enn um ferða frægð og foldar minni
hann, sem ljóðin kveða kunni
svo kvað við allt í náttúrunni.
 
Matthías þar bogann spennti báðum mundum
til allra heima er hann boðinn
alltaf sami tignargoðinn.
 
Stefáns harpa hærra tók en hinar allar
langförull um ljóða veldi
lengir daginn fram að kveldi.
 
Breiðfirðings þar svanir voru á sólarbárum
ættlands þrá í strengjum stundi
stirðnuð bráin vakna mundi.
 
Þegar Hjálmar þreif til gígju þrymdi heimur
sagði hýr í hugans inni
hrein í strengjum sjóla minni.
 
Andvarp mér við eyra var er undrun vakti
sá ég þá við sólar heiði
svaninn gráta á Kristjáns leiði.
 
Ekki er Kvaran ennþá kominn uppá hjallann
alltaf sálin er að vakna
eftir því sem fjötrar rakna.
 
Heyrði ég Þorseins söngva svan í sumar strengjum
svífa hverjum erni ofar,
aldrei sjónum til hans rofar.
 
Einar Ben hjá Braga sat og bikar kneyfði
harpan lík og loga rákin
leiftruðu sporin eftir fákinn.
 
Sá ég Guðmund sitja þar á svörtum hellnum
brá hann grönum, greypti á skjöldinn
galdrarúnir bakvið tjöldin.
 
Rauðir blossar brunnu þar á bjarkatindum
krunkuðu þar hvítir hrafnar
hvergi fundu sína jafna.
 
'Oteljandi svanir sungu í sögum Braga
þar kenni ég hörpu Katla goðans
knúða á vængjum mogunroðans.
 
Guðmundur svo gripinn snart að gall við strengur
söng hann hátt við heiðið frána
um hennar spor sem bjó við ána.
 
Yst við ljómns bárublik á Braga sænum
þar sem unaðs ómar vaka
Árdals heyrði ég svaninn kvaka.
 
Svanur Huldu syngju ljúft á sónar hylnum
opnast björg og álfahallir
óma gígju tónar snjallir.
 
Sigurjón á sónar hylnum sótti í djúpið
hlustaði næmt við harmagættir
heilluðu tónar landsins vættir.
 
Ennþá Jóhann yrkir ljóð af eigin hvötum
búin glæstum Braga klæðum
býr hann efst á sálarhæðum.
 
Svanur Davíðs söng þar milt um sárafossinn
Kristur á þar æðsta kossinn
ætli hann vilji bera krossinn?
 
Með vindsúg miklum velti Tómas vorsins stjörnum
fákurinn honum veginn varði
valt hann um í klausturgarði.
 
Rennur Steinars ljóðlind um lukta vegi
stundum undir götum grafin
gáta er dulmál vafin.
 
Vel gekk Trausta um huliðshaf með heimleið sína
gistir hann nú á goða palli
hjá góða Jóni og Síðu Halli.
 
Fána val á Arnas Örn í óma veldi
undirspil lék hrönnin háa
við hinstu sigling Stjána bláa.
 
Varla mundu endast aldur alla að telja
sem í andans svanalíki
sæti eiga í Braga ríki.
 
Þó er einn sem á þar heima og átti að nefna
býr hann þar í Barga hreysi
og barmar sér um efnaleysi.
 

Björg á sér margar líkar, ljóðakonurnar sem ortu um líf kvenna á þessum árum. Ljóð með lifandi tilfinningar. Konur sem ortu um aðrar konur og vildu jafnvel láta það berast lengra, gefa út, verða séðar. Þessum konum mættu algert skilningsleysi. Það þótti ekki við hæfi að benda á þær staðreyndir að lífið væri ekki eintómur dans á rósum. Í þá daga var ekki talið að konur gætu yfirhöfuð ort ljóð. Engar rannsóknir voru til. Það var ekki fyrr en upp úr miðja 20. öld sem slíkar rannsóknir litu dagsins ljós og jafnvel þær rannsóknir voru litnar hornauga. Sjá. (28) Viðtökur femínískra bókmenntarannsókna: Einkenni og orðræða.

En þessar fyrstu konur sem í upphafi tuttugustu aldar vildu segja sína sögu í gegnum ljóðin sín en voru hafðar að háði, þær voru niðurlægðar og þaggaðar niður. Þær voru hinar fyrstu hetjur, þær ruddu brautina en voru nafnlausar og þær voru margar. Meira um það síðar.

Kveðja

Magnea

 

 

 

 

 

 

 

 

Tengt efni