SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir12. október 2025

MARA KEMUR Í HEIMSÓKN

Mara kemur í heimsókn er ljóðabók Natashu S. Natasha er rússnesk/íslensk skáldkona sem býr hér á landi. Þetta er önnur ljóðabók hennar sem kemur út á Íslensku. Fyrsta bókin hét Máltaka á stríðstímum en hún kom út árið 2022. Sú bók fékk mjög góða dóma.

Mara er góð myndlíking á þeim tilfinningum sem Natasha gengur í gegnum þegar ættlandið hennar á í stríði. Ekki síst vegna þess að það virðist vera langvinnt og viðvarandi og Rússar herja á annað land án viðláts. Átök hafa staðið yfir í mörg ár. Innlimum Krímskagans af Rússum 2014 í kjölfar stjórnmálakreppu á Krímskaga og innrás þeirra inn í Úkraínu árið 2022 með óstöðvandi hatri og yfirgangi á frjálst og óháð land. (mín ályktun)

Foreldrar Natashu búa í Rússlandi og styðja sinn forseta en Natasha er í nöp við hann, hefur allt aðrar skoðanir á ástandinu en þau. Af því verða svo afleiðingar, endalausar áhyggjur af fólkinu sínu. Hvað verður um þau? Hvernig líður þeim? Sér í lagi vegna þess að bönn eru svo til á allar upplýsingar til fólksins í landinu. 

Á einum upplýsingavefnum kemur fram að mara sé, samkvæmt gamalli þjóðtrú, óvættur sem ræðst á sofandi fólk. Að mara sé einskonar martröð og að fá martröð þýðir að vera troðin niður af möru. Þá eru þær oftast kvenkyns verur. Þá segir í Ynglinga sögu að Vanlanda konungur Svíþjóðar hafi svikið hina finnsku brúðu sína Drífu. Drífa réði seiðkonuna Huld til að koma fram hefndum og Huld ásótti Vanlandi í svefni og tróð hann til bana. Þá var kveðið og kemur mara þar við sögu.:

En á vit
Vilja bróður
vitta véttr
Vanlanda kom
Þá tröllkund
um troða skyldi
liðs grím-Hildr
ljóna bága,
og sá brann
á beði Skútu
menglötuðr
er mara kvaldi.
 

Ynglinga saga

Mara kemur í heimsók er óhrifaríkt ljóð sem setur tóninn í ljóðabókina hennar Natashu. Tilfinning sem festist svolítið innra með manni.

Mara kemur í heimsókn
 
ég man ekki nákvæmlega
hvenær hún kom
 
hvort það var í snjóbylnum
þegar enn ein réttlætisbaráttan tapaðist
eða á sólríkum degi
þegar sprengjum rigndi
í nokkrum löndum
en ég held að það hafi verið
þegar ég frétti að pabbi væri með
meinvörp í beinunum
 
hún reif í sundur 
draumafangarann
ruglaði í hárinu
settist á bringuna á mér
og byrjaði að troða
 

Sjá viðtal við Natashu Skáld.is

Tengt efni