SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir26. desember 2023

MÓÐURÁST: ODDNÝ eftir Kristínu Ómarsdóttur

Kristín Ómarsdóttir. Móðurást: Oddný. Benedikt 2023, 138 bls.

 

Móðurfólk mitt hélt ekki dagbækur sem ég veit af, það afmáði ummerki, gekk svo snyrtilega um að það skildi ekki eftir sig efniskennd spor. Að skrifa söguna eru því drottinssvik við móðurfólk mitt, einnig skuld við það og þökk. (Úr kynningu á bókinni í Bókatíðindum)

 

Svo kemst Kristín Ómarsdóttir að orði um nýjasta skáldverk sitt sem ber titilinn Móðurást og undirtitilinn Oddný. Undirtitillinn vísar til Oddnýjar Þuríðar- og Þorleifsdóttur, langömmu höfundar, sem var fædd árið 1863, í Bræðratungu í Biskupstungum í Árnessýslu.

Það er áhugavert hversu margir íslenskir rithöfundar hafa sótt efnivið bóka sinna til lífs og lífsbaráttu Íslendinga á fyrri öldum, nú í ár sem og undanfarin ár. Jafnframt virðist áhugi kvenna á að skrifa sögu formæðra sinna fara vaxandi; af skáldverkum þessa árs má auk bókar Kristínar benda á Völsku eftir Nönnu Rögnvaldardóttur, Sumarblóm og heimsins grjót eftir Sigrúnu Ölbu Sigurðardóttur og Liti í myrkrinu eftir Ólöfu Dóru Bartels Jónsdóttur.

En Kristín Ómarsdóttir er ekki fyrr stigin inn í þennan straum að hún stígur út úr honum aftur og fer sínar eigin leiðir – og ekki við öðru að búast. Móðurást: Oddný er einstök í sinni röð á margs konar hátt. Í fyrsta lagi er um nóvellu eða stuttsögu að ræða þar sem höfundur bregður upp brotum sem saman byggja upp nokkurs konar sneiðmynd af lífi íslenskrar fjölskyldu á síðari hluta nítjándu aldar. Í öðru lagi spannar sögutíminn aðeins nokkra mánuði, ytri tíma frásagnarinnar á sér stað á þorra 1872 en innri tímar vísar þó oft til fyrri tíma og jafnvel til framtíðar. Í þriðja lagi er sjónarhornið bundið við hina átta ára gömlu Oddnýju sem fylgist með umhverfi sínu og túlkar það sem gerist (að mestu leyti) út frá sínu barnslega og skapandi sjónarhorni, tilfinningum sínum og forvitni.

Oddný býr í tvílyftum torfbæ með foreldrum sínum, Þuríði og Þorleifi, systkinum, frændfólki og vinnufólki. Líkt og tíðkaðist á sveitaheimilum þessa tíma er fjöldi heimilismanna mikill og stundum erfitt að henda reiður á persónum, ekki síst þar margir í fjölskyldunni bera sömu nöfn, en þar kemur ættartré aftast í bókinni til hjálpar og við annan lestur, sem ég mæli með, nær lesandinn betri tökum á tengslum fólksins. Í gegnum lýsingar Oddnýjar teiknast upp trúverðug mynd af baðstofulífi þar sem fólkið vinnur, hlýðir á húslestur og heldur kvöldvökur, talar saman, gantast og hlær. Lesandinn fær líka góða tilfinningu fyrir hinum sögulega tíma í gegnum umræður fullorðna fólksins sem Oddný miðlar. Þar er til að mynda rætt um „síldveiðar Norðmanna við strendur Íslands; hvernig fínu skipin þurrkuðu upp miðin“ (14-15); um fjárkláðann sem ógnar lífsviðurværi bænda um víða um land en hefur ekki náð yfir Tungufljót og bændurnir í sveitinni eru staðráðnir í að koma í veg fyrir það.

Þuríður móðir Oddnýjar er að sjálfsögðu miðjan í hennar lífi, hún er drottningin í lífi hennar; hlý og umvefjandi. Oddný dáist að móður sinni þar sem hún gengur með reisn „til fjóss og allra annarra verka“, bein í baki, „beinabyggingin liðug og mjúk, dálítið fött, beinin löng; hún seig aldrei í herðum“ (65). Þuríður er önnur kona Þorleifs en Oddný er skírð í höfuð á fyrri konu hans sem hann missti fyrir tólf árum, sé miðað ytri tíma frásagnarinnar. Þorleifur syrgir fyrri konu sína mjög og segist dreyma hana á hverri nóttu. Þuríður hefur skilning á því og veit að hún á stöðu sína sem húsmóðir og móðir andláti Oddnýjar að þakka. Þegar Oddný litla spyr hvers vegna hún beri nafn fyrri eiginkonu föður sína svarar móðir hennar: „Við skírðum þig Oddnýju í höfuðið á Oddnýju Setselju- og Símonardóttur sálugu því án dauða hennar hefðir þú ekki fæðst. Þannig borguðum við okkar hlut“ (43).

Þuríður er fimmtán árum yngri en Þorleifur, hún er létt í lund og ræðin. „Þegi manna fjarlægist hún nútíðina“, ályktar Oddný: „Tali hún eignast hún hana margfalda og meira til: eilífðina?“ En léttlyndið og kvennatalið er stundum svo mikið að eiginmanninum blöskrar:

 

Þuríður mín, hvenær ætlarðu að læra það hvað orð eru rándýr? Hélt pabbi áfram; hann kemst ekki yfir það hvað kona hans bruðlar með orð.
  En þögnin er dýrari, svarar mamma.
  Hvernig má hún vera dýrari, Þuríður mín?
  Hún er dauðinn, Þorleifur minn. (40)

 

Sérstaklega á faðirinn bágt með að þola galsann í konunum og hlátur Ívars, sonar síns af fyrra hjónabandi, og finnst sem hann sé að missa tökin á húsaga og reglu. Oddný segir svo frá:

 

Oftast varnaði mamma þess að Ívar hlægi of lengi í návist pabba með augnaráði sem fór framhjá pabba. Þakka skyldi guði fyrir að mamma kunni að tjá sig laumulega. Á fyrsta æviskeiði mínu var Ívar haldinn hláturveiki, sótt eða æði. Hann hló líka ætti grátur betur við. Ef röð dauðsfalla systkina okkar efldist hlátursóttin. (65)

 

Það kemur að því að faðirinn tekur til sinna ráða og flengir átján ára gamlan son sinn fyrir hláturinn, ekki síst vegna þess að hláturinn var vakinn af mistökum föðurins. Eftirmál flengingarinnar eru mikil og áhrifin óafturkræf og þegar móðirin, sem reynir að verja Ívar, gagnrýnir föðurinn og heldur fram mikilvægi gleðinnar, fær hún líka á baukinn og eiginmaðurinn slær úr henni tönn. Við það fær Þuríður áfall og heldur tilfinningaþrungna ræðu um kjör kvenna sem Oddnýju litlu finnst „næstum því óskiljanleg“ en hefur mikil áhrif á hana. En móðirin beygir sig. Föðurvaldið er óskorað, skoðanir hans eru lög og „Blygðunarlaust talar hann í eyru annarra úr ósýnilegu hásæti sem handantíðin færir honum andspænis konum og vinnufólki“.

Oddný dregur eftirfarandi lærdóm af þessum átökum foreldra sinna: „Enginn lái föður mínum sem sá eftir barsmíðum sínum í sömu mund og hann loftaði svipunni og fann til sárrar einsemdar: einn gegn hópi sem hló að léttvægum mistökum hans. Pabbi fann sig hornkróaðan í valdastöðu sinni. / Taki manneskja sér vald slítur hún sig frá þeim sem gegna því og einsemd verður kvilli valdsins“ (89). En andrúmsloftið er breytt: „Ný sorg fæddist í Bræðratungu eftir að pabbi sló úr mömmu tönn og dómstóll hans hafði ákært, dæmt og refsað fyrir glæp Ívars; sorgin nýja óx, lifði með okkur og setti mark á minningar. Annað hélt áfram næstum því einsog fyrr (89).

En þótt hláturinn ómi í kringum mömmu þá er lífsbaráttan fyrst og fremst hörð og óvægin, barnadauðinn ógurlegur og dauðinn tekur hina fullorðnu líka. „Frá janúar 1867 til desember 1871 æfðust pabbi og Páll föðurbróðir minn […] í að smíða kistur, tvær í fullorðinsstærð, fjórar undir kornabörn. Mamma skreytti þær innan grösum, lyngi og mosa, prjónaði hverju vettlinga og sá til þess að eiga alltaf rautt garn í vettling“ (31). Og Oddný ályktar: „Menn slátra lömbum og kindum, guð slátrar börnum og fólki“ (28).

 

Ein af skyldum Oddnýjar er að mjólka kúna Ídu Pfeiffer, sem talar færeysku en það lærði hún af færeyskri „mjaltapíu“ sem bjó á bænum áður en Oddný fæddist. Kýrin ber nafn austurrískrar konu sem var ein víðförlasta kona sinnar samtíðar og kom til Íslands sumarið 1845 og ritaði um ferðina bók sem kom út í íslenskri þýðingu Guðmundar J. Guðmundssonar í fyrra. Íslandsferð Idu Pfeiffer er skemmtileg lesning þótt ljóst sé að hún hafði lítinn skilning á stöðu fátæks bændafólk, blöskraði sóðaskapurinn og fannst híbýli alþýðufólks viðbjóðsleg. Það er því írónískur broddur í að nefna kú í höfðuð á konunni. Ida Pfeiffer rómar þó að allir á Íslandi eru lesandi og skrifandi og þá furðulegu staðreynd að í hverjum moldarkofa eru bækur að finna. Oddný á mörg heimspekileg, samtöl við kúna Idu og færeyskan hennar setur skemmtileg svip á þau samtöl.

 

Þótt bók Kristínar Ómarsdóttur sé ekki löng í blaðsíðum talið er makalaust hversu djúpa og flókna mynd henni tekst að draga upp af íslensku bændasamfélagi nítjándu aldarinnar í frásögn Oddnýjar. Hér hefur aðeins verið tæpt á örfáum dráttum í þeirri mósaíkmynd sem Oddný skapar með frásögn sinni og reyndar vaknar grunur lesandans um að myndlist sé eitthvað sem hún muni fást við í framtíðinni – eða þrái að fást við í framtíðinni.

 

Fremst í Móðurást kemur fram að þetta sé „fyrsta bók skáldaðrar sögu“ Kristínar Ómarsdóttur um Oddnýju langömmu sína og jafnvel má á höfundi skilja að bækurnar verði nokkrar. Í viðtali í Kiljunni upplýsti Kristín að í næstu bók yrði Oddný 15 ára. Ég hlakka svo sannarlega til að lesa meira um það hvernig lífi Oddnýjar Þuríðar- og Þorleifsdóttur vindur fram, hvort draumar hennar rætast eða hvort feðraveldið og fátæktin stífi vængi hennar.

 

Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá á Rás 1, 18. desember 2023

Tengt efni