SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ólöf Sigurðardóttir á Hlöðum

Ólöf Sigurðardóttir fæddist 9. apríl árið 1857 á Sauðdalsá á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu.

Æsku sinni og uppvexti lýstir Ólöf af einstöku raunsæi og hreinskilni í frásögninni Bernskuheimili mitt sem birtist í Eimreiðinni árið 1906. Húsakynnin á bernskuheimilinu voru eins og moldarkofarnir gátu verstir verið, segir Ólöf og skrifar einnig að lítil menning hafi þrifist á þessum afskekkta stað og sveið henni það sárt. Móðir Ólafar hafði gifst tvisvar og eignast sextán börn, af þeim lifðu tíu og var Ólöf næst yngsta barnið. Fjölskyldan bjó við mikla fátækt á uppvaxtarárum Ólafar, faðir hennar var læs en móðirin ekki og hvort þeirra var skrifandi. Systkininum var kennt að lesa en enga aðra kennslu fengu þau. Flest lærðu þau þó að skrifa upp á eigin spýtur.

Árið 1876 fór Ólöf til Reykjavíkur til að læra ljósmóðurfræði. Að loknu námi þar hélt hún út til Kaupmannahafnar og dvaldi þar frá 1882-83 til að læra meira. Þegar hún sneri aftur heim starfaði hún sem ljósmóðir í Reykjavík.

Ólöf giftist Halldóri Guðmundssyni trésmið árið 1887 en þegar hún þurfti að hætta vinnu vegna berklaveiki ári síðar hófu þau búskap á Hlöðum í Hörgárdal, þaðan sem Halldór var ættaður. Þeirra búskapur þótti nokkuð sérstakur því þau skiptu húsi sínu í tvennt; hvort hafði sér stofu og svefnherbergi og sömuleiðis höfðu þau aðskilinn fjárhag. Þar kann að hafa ráðið sú sterka sjálfstæðis- og frelsisþrá Ólafar sem kemur svo skýrt fram í ljóðum hennar. Í ljóðum sínum lýsir Ólöf Halldóri sem fóstra sínum sem aldrei hafi lagt á sig bönd en leyft sér að "flögra og fljúga" að vild.

Eftir lát Halldórs flutti Ólöf til Akureyrar og þaðan svo til Reykjavíkur, þar sem hún lést 23. mars árið 1933. Eftir að Ólöf flutti burt frá Hlöðum, árið 1920, kallaði hún sig Ólöfu frá Hlöðum en áður var hún skáldkonan Ólöf á Hlöðum.

Tvær ljóðabækur sendi Ólöf frá sér; árið 1888 komu út Nokkur smákvæði og sama titil bar seinni ljóðabók Ólafar á Hlöðum sem kom út 1913. Titlar bókanna eru eiginlega rangnefni því það eru engin smá-kvæði í bókunum, þvert á móti má segja að í þeim megi finna ljóð og kvæði sem eru með þeim merkari sem ort voru á Íslandi á síðari hluta nítjándu aldar og fyrstu áratugum tuttugustu aldar. 

Ólöf birti einnig ljóð og sögur í blöðum og tímaritum og hlaut hún verðlaun fyrir söguna Móður snillingsins sem birtist árið 1910 í tímaritinu Dvöl sem Torfhildur Hólm gaf út.

Á fyrstu Reykjavíkurárum sínum kynntist Ólöf Þorsteini Erlingssyni skáldi og leitaði til hans um ráðgjöf í skáldskaparmálum. Þau áttu í merkilegu bréfasambandi á árunum 1883-1914. Bréf þeirra voru mjög persónuleg og geyma ef til vill táknmál tilfinninganna, ástarinnar, líkt og segir í umfjöllun um bókina Orð af eldi sem birtir bréfin.

 

Heimildir og frekara lesefni:

  • Helga Kress. 2001. „Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum“ Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur, bls. 126.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
  • Ólöf Sigurðardóttir á Hlöðum. 2000. Orð af eldi. Bréfasamband Ólafar Sigurðardóttur á Hlöðum og Þorsteins Erlingssonar á árunum 1883-1914. Bindi 4 of Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. Erna Sverrisdóttir tók saman. Háskólaútgáfan, Reykjavík.  
  • Silja Aðalsteinsdóttir. 2003. „Ólöf frá Hlöðum.“ Bók af bók. Bókmenntasaga og sýnisbók frá 1550-1918, bls. 289. Mál og menning, Reykjavík.
  • Soffía Auður Birgisdóttir. 1987. Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. Mál og menning, Reykjavík.

 

 


Ritaskrá

  • 1945  Ritsafn
  • 1913  Nokkur smákvæði
  • 1906  Bernskuheimili mitt (birtist í Eimreiðinni)
  • 1888  Nokkur smákvæði

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 1910  Verðlaun fyrir söguna Móðir snillingsins

 

Tengt efni