SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Nína Björk Árnadóttir

Nína Björk Árnadóttir var fædd á Þóreyjarnúpí í Línakradal í Vestur-Húnavatnssýslu 7. júní 1941.

Foreldrar Nínu Bjarkar voru Árni Sigurjónsson, systursonur Stefáns frá Hvítadal, og kona hans Lára Hólmfreðsdóttir, en Nína Björk var fóstruð frá þrettán mánaða aldri af hjónum Ragnheiði Ólafsdóttur og Gísla Sæmundssyni, sem bjuggu á Garðsstöðum við Ögur í Ísafjarðardjúpi til 1946 og síðan í Reykjavík.

Nína Björk stundaði gagnfræðanám á Núpi í Dýrafirði og síðan leiklistarnám í Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur.

Árið 1965 kom út fyrsta ljóðabók Nínu Bjarkar, Ung ljóð, sem vakti mikla athygli og var fljótlega þýdd á dönsku. Síðan komu frá henni níu ljóðabækur, tvær skáldsögur (Móðir, kona, meyja og Þriðja ástin) og nokkur leikrit. Þeirra þekktust eru líklega Súkkulaði handa Silju og Fugl sem flaug á snúru. Einnig skrifaði hún ævisögu myndlistarmannsins Alfreðs Flóka. Leikrit Nínu Bjarkar voru sett upp í Þjóðleikhúsinu, Leikfélagi Reykjavíkur, Leikfélagi Akureyrar og víðar, auk þess sem þau voru flutt í útvarpi, bæði á Íslandi og erlendis.

Ljóð Nínu Bjarkar eru oft einlæg og tilfinningaþrungin; hún yrkir meðal annars um trú, samskipti kynjanna, pólitík og bernsku sína. Auk þess yrkir hún gjarnan í orðastað þeirra sem minna mega sín til dæmis persóna sem beittar hafa verið ofbeldi eða eru veikar á geði. Fyrir vikið beinir hún sjónum sínum að þeim sem eru á jaðrinum, ekki síst að konum og veruleika þeirra. Ljóð Nínu Bjarkar þóttu nýstárleg því þegar hún byrjar að yrkja var lítið rætt opinskátt um ofbeldi og geðsjúkdóma.

Allur tilfinningaskalinn einkennir konuna í ljóðum Nínu Bjarkar en auk þess að yrkja um þolendur ofbeldis ræðir hún hispurslaust um sársauka kvenna, þjáningu þeirra og ekki síst ótta. Silja Aðalsteinsdóttir fjallar meðal annars um óttann í ljóðum Nínu Bjarkar í Íslenskri bókmenntasögu V en hún segir: „Þessi ótti má heita leiðarstef í öllu höfundarverki Nínu Bjarkar, djúpur persónulegur ótti sem hún ýmist gefst upp fyrir eða býður birginn. Þessi ótti býr í myrkrinu í samræmi við hefðina í fyrstu ljóðabókum Nínu Bjarkar, seinna flytur hann sig stundum út í birtuna og daginn þar sem manneskjan verður berskjölduð fyrir honum en myrkrið verður þá felustaður hennar og skjól.“

Silja nefnir einnig að í ljóðum Nínu Bjarkar er myndmálið ekki flókið og að allt frá upphafi hafi hún verið óhrædd við að nota stór og mikil orð og sýna sterk viðbrögð eða tjá stórar tilfinningar. Þá er einnig einkennandi fyrir texta Nínu að hún blandar gjarnan saman ljóðrænum og leikrænum texta og er umhugað um hryjanda ljóðanna.

Í minningargreinum um Nínu Björk sem birtust í Morgunblaðinu kemur meðal annars fram að hún hafi verið skemmtileg, húmorísk, traustur og góður vinur, trúuð, viðkvæm og full af ástríðu. Bókmenntafræðingurinn Helga Kress er meðal þeirra sem skrifar um skáldkonuna en hún lýsir Nínu Björk afar fallega: „Við Nína kynntumst í gegnum skáldskapinn. Ég bað hana að skrifa fyrir mig sögu í safn smásagna um og eftir íslenskar konur sem ég var að taka saman. Hún bjó þá við Laufásveginn, með fallegt útsýni yfir Hljómskálagarðinn og var með yngsta son sinn í vöggu. Söguna nefndi hún „Síðan hef ég verið hérna hjá ykkur“ og er hún mjög nýstárleg í íslenskum bókmenntum. Hún er sögð frá sjónarhorni ungrar konu í sálarháska, er eins konar mónódrama, þar sem hversdagsleiki og fantasía blandast saman á tragikómískan hátt. Sjálf lifði Nína við sálarháska sem ágerðist með árunum og gerði vinum hennar oft erfitt fyrir sem vildu hjálpa en vissu ekki hvernig. Hún var mjög viðkvæm og auðsærð, en um leið næm fyrir atvikum, samtölum og tilsvörum sem fengu táknræna vídd í frásögn hennar. Hún hafði einstakan húmor, sem ekki fólst í tilbúnum bröndurum, heldur í tungumáli og sjónarhorni, því sem var að gerast á líðandi stund, varðaði á einhvern hátt viðstadda og skipti þá máli. Hún hafði mikla nærveru og gerði öllum hátt undir höfði. Hún var mjög vel máli farin, bæði í frásögn og raddbeitingu, og var svo góður upplesari að unun var á að hlýða. Bæði í lífi sínu og skáldskap var hún upptekin af mannlegum samskiptum, einkum í tungumáli, og fjalla mörg ljóða hennar um þann túlkunarvanda sem fylgir samskiptum manna. Þau lýsa í senn annarleika og þrá eftir samkennd sem er þó ævinlega óuppfyllt, því að eitthvað er að sem ekki verður tjáð nema í skáldlegri mynd“.

Nína Björk fékk ýmsar viðurkenningar fyrir skáldskap sinn og var borgarlistamaður í Reykjavík árið 1985. Ljóð hennar voru þýdd á ýmis tungumál; öll Norðurlandamálin, þýsku, spænsku, rússnesku, pólsku, nokkur indversk tungumál og fleiri og birtust í safnritum.

Eiginmaður Nínu Bjarkar var Bragi Kristjónsson bóksali og eignuðust þau þrjá syni.

Nína Björk lést í Reykjavík 16. apríl 2000.

 

Heimildir:

Silja Aðalsteinsdóttir, „Módernt raunsæi“, Íslensk bókmenntasaga V, ritstjóri Guðmundur Andri Thorsson, Reykjavík: Mál og menning, 2006, bls. 138-173, hér bls. 159-163.

 


Ritaskrá

  • 2000  Blómið sem þú gafst mér (Ljóðasafn)
  • 1997  Móðir, kona, meyja (skáldsaga)
  • 1996  Mannleg samskipti: einleikur
  • 1996  Ég heyri þig hlaupa: einleikur
  • 1996  Raufarhöfn sumarið '65: einleikur  
  • 1996  Alla leið hingað
  • 1995  Þriðja ástin
  • 1994  Engill í snjónum
  • 1994  Smásaga í Tundur dufl: erótískar sögur
  • 1992  Ævintýrabókin um Alfreð Flóka
  • 1988  Hvíti trúðurinn
  • 1988  Frystikista og svo falleg augu
  • 1985  Fugl sem flaug á snúru
  • 1984  Undir teppinu hennar ömmu (Alþýðuleikhúsið) 
  • 1983  Súkkulaði handa Silju  
  • 1982  Svartur hestur í myrkrinu
  • 1980  Það sem gerist í þögninni
  • 1978  Hvað sögðu englarnir
  • 1977  Mín vegna og þín
  • 1975  Fyrir börn og fullorðna
  • 1972  Fótatak (Leikfélag Reykjavíkur)
  • 1971  Börnin í garðinum
  • 1969  Í súpunni (Litla leikfélagið)
  • 1968  Undarlegt er að spyrja mennina
  • 1965  Ung ljóð

 

Verðlaun og viðurkenningar

  • 1985  Borgarlistamaður Reykjavíkur 
  • 1982  Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins

 

Þýðingar

Þýðingar á verkum Nínu Bjarkar

  • 2018  Caballo negro en la obscuridad (Rafael García Péres þýddi á spænsku)

 

Þýðingar Nínu Bjarkar

  • 1979  Í klóm öryggisins eftir Vitu Andersen
  • 1978  Vetrarbörn eftir Dea Trier Mørch
  • 1974  Ferðin eftir John Kærgaard: útvarpsleikrit
  • 1973  Glerbúrið eftir Göran Nordström: útvarpsleikrit
  • 1972  Dauði H. C. Andersens eftir Jan Guðmundsson: útvarpsleikrit

 

 

Tengt efni