Snjólaug Bragadóttir frá Skáldalæk
Snjólaug Bragadóttir er fædd þann 1. janúar árið 1945, dóttir hjónanna Guðbjargar Hermannsdóttur frá Bakka á Tjörnesi (sem einnig skrifaði ástarsögur) og Braga Guðjónssonar frá Skáldalæk í Svarfaðardal.
Snjólaug ólst upp á Akureyri í hópi fjögurra bræðra og lauk gagnfræðaprófi þar vorið 1962. Næstu fimm árin stundaði hún ýmis störf á Akureyri, fluttist svo til Reykjavíkur þar sem hún vann sem blaðamaður hjá Tímanum í tíu ár. Upp úr 1980 flutti Snjólaug til Dalvíkur ásamt manni sínum og tveimur börnum og stundaði ritstörf meðfram húsmóðurstarfinu.
Skáldsögur Snjólaugar komu út á 14 ára tímabili, sú fyrsta árið 1972 og sú síðasta árið 1986.
Snjólaug Bragadóttir sendi frá sér tólf ástarsögur áður en hún hætti að skrifa og snéri sér alfarið að þýðingum. Hún er sérlega afkastamikill þýðandi ástarsagna og þýddi einnig flestar Ísfólksbækur Margitar Sandemo sem notið hafa gríðarlegra vinsælda. Einnig hefur Snjólaug þýtt heilmikið fyrir Stöð 2 og tekið að sér ýmis þýðingaverkefni í lausamennsku. Snjólaug er síðasti metsölurithöfundurinn á Íslandi í ástarsöguskrifum.
Bækur Snjólaugar urðu strax mjög vinsælar og urðu metsölubækur um leið og þær komu út. Hún tróndi efst á útlánslista bókasafna um allt land í mörg ár. Snjólaug gaf strax í skyn í viðtölum að hún væri ekki að skrifa bókmenntaverk heldur afþreyingarbækur í fyllstu merkingu orðsins og það ætti að líta á þær og fjalla um þær á þeim forsendum. Framan af var gagnrýni á bækur hennar nokkuð sanngjörn. „Þegar tekið er tillit til lágrar stöðu ástarsagna innan bókmenntageirans, þá og enn þann dag í dag, er nokkuð aðdáunarvert í sjálfu sér hversu mikla umfjöllun bækur hennar fengu“ (Vilborg Rós Eckard, 2015). Vilborg hefur fjallað um verk Snjólaugar, þ.á m. um viðtökur og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér ritgerð hennar.
Vilborg Rós Eckard (f. 1973) segir m.a.: „Snjólaug var 27 ára þegar fyrsta bók hennar kom út ... Hún var ung kona sem bjó í Reykjavík að skrifa um samtíma sinn eins og hún upplifði hann og felldi inn í formúlu ástarsögunnar. Þetta var alveg ferskt og nýtt þá, sem var áhugavert innslag í hina karllægu bókmenntamenningu þar og þá. Bækurnar eru eins og ferðalag inn í íslenskan raunveruleika, rétt áður en kvennabarátta áttunda og níunda áratugarins byrjar á fullri ferð. Þar birtast ljóslifandi ungar konur sem á þessum tíma lifðu og hrærðust í hringiðu Reykjavíkur, búa á Laugaveginum stunda skemmtanalífið, þær vinna úti, eru oftast skrifstofustúlkur og bankastarfsmenn. Fyrirsæta og dægurlagasöngkona er aðalpersóna einnar bókarinnar, barnabókateiknari er önnur, einnig birtast aukapersónur í starfi fiskverkakvenna, flugfreyja, hárgreiðslukvenna, hjúkrunarkvenna og kennara. Þetta er nokkurs konar þverskurður á kvennastörfum á Íslandi í kringum 1970 til 1980...“ (Vilborg Rós Eckard, 2015).
Snjólaug hlaut Ísnálina 2017 sem er veitt höfundi og þýðanda bestu þýddu glæpasögunnar á íslensku ár hvert. Alþjóðlega glæpasagnahátíðin Iceland Noir, Bandalag þýðenda og túlka, og Hið íslenska glæpafélag standa að verðlaununum.
Vilborg Rós Eckard segir um höfundarverk Snjólaugar:
„Ég vil meina að þessar bækur séu týndur fjársjóður sem hafa ekki fengið nóga viðurkenningu fyrir það sem þær voru og eru. Hreinar og beinar afþreyingarbókmenntir, auðlesnar og vel skrifaðar.“
Heimild:
Vilborg Rós Eckard, Ráðskona óskast í borg - má hafa með sér barn. Um rómantískar en rausæjar ástarsögur Snjólaugar Bragadóttur. Óútgefin BA-ritgerð í Almennri bókmenntafræði, Háskóli Íslands 2015. Aðgengileg á Skemman.is
Ritaskrá
- 1986 Setið á svikráðum
- 1984 Gefðu þig fram,Gabríel
- 1985 Undir merki steingeitar
- 1982 Leiksoppur fortíðarinnar
- 1981 Sumarblóm í Paradís
- 1980 Dægurlagasöngkonan dregur sig í hlé
- 1977 Lokast inni í lyftu
- 1976 Enginn veit hver annars konu hlýtur
- 1975 Holdið er torvelt að temja
- 1974 Allir eru ógiftir í verinu
- 1973 Ráðskona óskast í sveit, má hafa með sér barn
- 1972 Næturstaður
Verðlaun og viðurkenningar
- 2018 Ísnálin, fyrir þýðingu á Hrafnamyrkri eftir Ann Cleeves
Tilnefningar
- 2023 Til Ísnálarinnar fyrir þýðingu á Nágrannavarsla eftir Unni Lindell
Þýðingar
- 2022 Nágrannavarsla eftir Unni Lindell
- 2019 Roðabein eftir Ann Cleeves
- 2018 Náttbirta eftir Ann Cleeves
- 2018 Kona bláa skáldsins eftir Lone Teils
- 2017 Hrafnamyrkur eftir Ann Cleeves
- 2005 Stefnumót í Saint Tropez eftir Danielle Steele
- 2004 Öruggt athvarf eftir Danielle Steele
- 2003 Fimm dagar í París eftir Danielle Steele
- 2001 Vegferð til vonar eftir Danielle Steele
- 1988 Ógnir Alpakastalans eftir Colin Forbes
- 1985 Stríðsminningar eftir Herman Wouk
- 1984 Stríðsvindar eftir Herman Wouk
- 1978 Eldsporin eftir Robert Arthur
- 1978 Tortímið hraðlestinni eftir Colin Forbes
- 1977 Leyndardómur verndargripsins eftir Robert Arthur
Snjólaug þýddi einnig fjölda ástarsagna fyrir Ásprent og tugi Ísfólksbóka eftir Margit Sandemo.