AÐ NÁ ÁTTUM. Segulskekkja
Soffía Bjarnadóttir. Segulskekkja. Reykjavík: Mál og menning 2014, 167 bls.
Ofbeldi og vanræksla gagnvart börnum er mun stærra vandamál í samfélagi okkar en við gerum okkur almennt grein fyrir. Börn sem alast upp við slíkt atlæti bera þess merki þegar þau vaxa úr grasi og eiga erfitt með að fóta sig í lífinu. Í Segulskekkju, fyrstu skáldsögu Soffíu Bjarnadóttur (2014), segir frá konu sem hefur lent í ýmsu í uppeldinu og sambandinu við móður sína, Siggý, sem hún tignar og hræðist í senn.
Geðveiki, „leikhúsleg tilþrif“ (44) og furðulegt uppeldi hafa sett mark sitt á Hildi sem í æsku veit aldrei hvernig aðkoman er heima, hvort mamman er með réttu ráði, hvort fjölskylda er að flytja búferlum eina ferðina enn eða hvort Pétur stóri bróðir hefur fengið nóg og er farinn. Eina ráðið sem hún gat gripið svo hún hrapaði ekki fram af brúninni með Siggý var að slíta öll tengsl við hana. Byrja síðan að byggja upp sjálfsmynd, sætta sig við orðinn hlut og stefna fram á við. En afleiðingar uppeldisins eru ekki auðveldlega umflúnar; bæling, sjálfsmorðshugleiðingar og sjálfshatur verða hennar fylgifiskar, tilfinningaleg flatneskja, höfnunarkennd og skömm heltaka hana.
Þetta er afskaplega vel skrifuð og falleg saga og lýsir angist og grimmd, sem verður átakanlegast þegar sjónarhorn barnsins ræður. Í tuttugasta kafla er brugðið upp mynd af heimilinu þar sem þær mæðgur bjuggu síðast saman, þar eru ömurleikinn og hjálparleysið hyldjúp og yfirþyrmandi en því er lýst með myndmáli sem er bæði fagurt og frumlegt.
Dýr koma víða fyrir í textanum og eru táknræn, bæði fuglar, ýmist vængstýfðir eða kramdir, kettir og köngulær. Gullbrá skýtur upp kolli en hún þurfti sem kunnugt er að prófa graut, stól og rúm til að vita hvort hún passaði inn á heimilið og Lína langsokkur á óborganlega senu í sögunni, sterkasta fyrirmynd sem til er. Stíllinn er svo ljóðrænn að sumir kaflarnir gætu staðið einir og sér sem ljóð:
Regndroparnir eru hreint ekki svo slæmur félagsskapur.Þeir eru taktfastir og það er hægt að stóla á komu þeirra.Yfir dáleiðandi slætti þeirravelti ég fyrir mér hvort hægt sé að vera með áfalla- og streituröskunalla ævi,frá barnæsku og fram í elli.Hvort slík hugtök geti átt við um almenna líðan.Þrumu- og regnguðinn Indra hefur líklega haft auga með mér frá barnsaldri.Þegar ég heyri í honumkalla til mín af himnumog hann rífur upp festinguna verð égundarlega sáttvið það að búa undir þessum himni (43).
Við andlát Siggýjar skríður Hildur í skjól í hús hennar á Flatey á Breiðafirði. Þar gerir hún upp við minningarnar og stefnir kannski í átt að frelsandi uppgjöri og sátt og jafnvel ást í kaupbæti en þó er ekkert víst í þeim efnum vegna segulskekkjunnar í lífinu. En í bókarlok er Hildur a.m.k. farin að hallast frekar að því að lifa en deyja.
Sögumaður spyr guð í örvæntingu hvar skekkjumörkin liggi, hvar segulnálin sé (87) og í hvaða átt skuli halda. Eru engin takmörk fyrir hvað er lagt á sumt fólk? Það er ljóst að hér er um keðjuverkun og vítahring að ræða, undir yfirborðinu er þetta ættarsaga fjögurra kynslóða sem allar eru áttavilltar og hafa orðið fyrir einhverju tilfinningalegu hnjaski sem erfitt er að bæta, amman er þögul og lokuð, mamman klikkuð, Hildur skemmd og sonur hennar sjálfsagt eitthvað flæktur þótt hann segist vera kúl.
Fólk reynir að komast undan sársaukanum á ýmsa vegu, með kaldhæðni, vímu eða trú á guð, ástina og fyrirgefninguna. Siggý, með allt sitt rugl og kenjar, er eina manneskjan í ættinni sem hefur kjark til að biðjast fyrirgefningar, þótt það sé eftir dauðann. Vonandi nær Hildur áttum, samúð lesandans er með henni og öllum vanræktum börnum heimsins.
Greinin birtist í Kvennablaðinu, 2. febrúar 2015