SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir13. júlí 2020

VEL ÞEKKT, MEINLAUS DÝRATEGUND. Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú?

Hildur Hákonardóttir. Hvað er svona merkilegt við að vera biskupsfrú? Reykjavík: Sæmundur 2019, 202 bls.

Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú, spyr Hildur Hákonardóttir í bók sinni frá 2019 um ævi níu kvenna sem allar voru biskupsfrúr í Skálholti. Hildur sem áður hefur skrifað fræðibækur sest nú á bak skáldafáki og nýtir sér samtalsform til að rekja sögu frúa og fyrirkvenna frá 1510-1623. Konur þessar hafa sótt að Hildi af miklum krafti, vöktu hana á morgnana, setjast í huga hennar og neita að láta hana í friði fyrr en hún hefur komið sögu þeirra á blað. Þungamiðja frásagnanna er afleiðingar siðaskiptanna og aftöku Jóns Arasonar og sona hans sem í þessari bók birtast sem ribbaldar og yfirgangsmenn.

 

Safaríkar sögupersónur

Meðal annars er rætt í bókinni við Guðrúnu dóttur Gottskálks biskups grimma, en fyrsta konan sem færði ævisögu í skáldlegan búning, Torfhildur Hólm, fjallaði einmitt um hana í bók sinni, Jón Arason (1950). Guðrún er safarík sögupersóna, hún varð ófrísk meðan hún beið trúlofuð eftir Gissuri Einarssyni tilvonandi biskupi sem var í erindagjörðum erlendis. Hún eignaðist þríbura sem dóu allir. Gissur vildi taka hana í sátt þrátt fyrir að hafa fallerast en því boði tók hún ekki, heldur bjó hjá Oddi bróður sínum til dauðadags. Fátt lætur Guðrún þó uppi um þessa atburði í samtalinu.

Önnur biskupsfrú, Katrín Eyjólfsdóttir (f. 1515) var komin af ríkum höfðingjum en hrökklaðist að heiman unglingur þegar upp komst að hún og systir hennar urðu báðar ófrískar eftir bróður þeirra. Það hefur gengið á ýmsu í vestfirska húminu.

 

Úr myrkviði horfinna alda

Frásagnir af konunum níu er fróðlegar og settar fram frjálslega, eins og setið sé á notalegu spjalli. Mismikið efni er til um frúrnar og þá fer frásögnin stundum út í aðra sálma, eins og um fatatísku, húsaskipan, matargerð o.fl. Auðvelt er að finna til samkenndar með konum þessum sem lifðu umbrotatíma í trúarlífi þjóðarinnar. Saga þeirra er dregin fram „úr myrkviði horfinna alda enda er oftlega fjallað um konur fortíðar nánast eins og um væri að ræða vel þekkta, meinlausa dýrategund sem deilir landinu með körlum.“

 

Annað bindi væntanlegt

Hildur Hákonardóttir er fædd 1938 og er myndlistarkona. Hún er höfundur Ætigarðsins – handbók grasnytjungsins, sögu um kvennadaginn, Já, ég þori, get og vil, og Blálandsdrottningarinnar sem fjallar um ræktunarsögu kartaflna á Íslandi. Biskupsfrúabók Hildar má skilgreina sem skáldverk og fram kemur á bókarkápu að von er á framhaldi.

Sjá viðtal Steinunnar Ingu við Hildi: Eins og huldukonur í sögu þjóðarinnar.