SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir20. nóvember 2022

BLÚSSANDI SKÁLDSKAPUR, BASL OG VÍMA - Um Ástusögur

Ásta SIgurðardóttir var ein af fyrstu módernísku höfundunum hér á landi og hafði áhrif á bókmenntir, menningu og samfélag svo eftir var tekið. Hún skrifaði um málefni sem tengjast reynsluheimi konu; nauðgun, misrétti, fordóma, valdaleysi og drykkju kvenna.

Út er komin bókin Ástusögur, líf og list Ástu Sigurðardóttur, skrifuð til heiðurs skáldkonunni því liðin eru 90 ár frá því hún fæddist. Ritstjórar eru Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir sá um hönnun og umbrot. Í bókinni er stefnt saman fræðikonum og skáldkonum auk þess em  fjölskyldumeðlimir skrifa í bókina og varpa á Ástu margvíslegu ljósi -  og skuggum.

Margt er merkilegt í  bókinni, bæði er þar vönduð fræðimennska og fallegur skáldskapur. Þar er að finna áður óbirt uppkast að smásögunni Frostrigningu sem einhver hefur ritskoðað af nokkru offorsi og einlæg bréf sem Ásta skrifaði systur sinni. Þá fjallar  Bergljós Soffía Kristjánsdóttir um kveðskap Ástu sem sýnir skýrt að skynjun hennar var óvenjuleg og Soffía Auður Birgisdóttir túlkar smásöguna Súpermann á nýstárlegan hátt. Í grein eftir Kolbein Þorsteinsson og Silju Aðalsteinsdóttur er m.a. rætt um þær miklu væntingar sem til Ástu voru gerðar sem skáldkonu og áttu etv þátt í hnignun hennar og falli. Dagný Þorsteinsdóttir ritar minningar um móður sína sem láta engan ósnortinn. Sigrún Margrét, annar ritstjóranna, skrifar ritrýnda grein um kvengotnesk viðfangsefni hjá Ástu. Og loks má nefna grein Dagnýjar Kristjánsdóttur þar sem m.a. er fjallað um þá drusluskömmun sem Ásta varð fyrir, svo dæmi séu tekin um áhugavert efni í bókinni.

Sjö skáldkonur heiðra Ástu í bókinni. Guðrún Hannesdóttir tekur upp þráð frá Ástu, þar sem hún skrifaði um heimahaga sína:  „...má allt eins kalla ljóð eins og svo margt óbundið mál hennar“:

 

Ég vildi láta grafa mig í flæðarmáli að loknum ævidögum eins og sumir landnámsmenn. Ekki þó af sömu ástæðim og þeir, enda byggðust þær á misskilningi eins og öll trú. Ef sjórinn „vígir“ sér það svæði sem hann ríkir yfir, er sú vígsla heiðin. Heiðni er eðli lands og hafs, lofts og elds, þetta heiða, kreddulausa lífsviðhorf sem er ekki skoðun og ekki trú, heldur eðli og lögmál, eilíft eins og náttúran. Í svölum hreinum ægissandi vil ég verða að engu, láta brimgnýinn kveða mig inn í þessa eilífu hringrás, meðan tær sjórinn þvær bein mín og tandurhreinn skeljasandur fágar þau hvít og breytir þeim í sína mynd (174).

 

Síðan ævisaga Ástu Minn hlátur er sorg kom út 1992, hefur vantað heildstætt rit með pælingum um höfundarverk þessarar merku skáldkonu. Lífi hennar og list eru gerð fagmannleg (tvær greinar eru ritrýndar) og fagurfræðileg skil, af virðingu og skilningi sem hún ekki naut í lifanda lífi. Ásta var fjölhæf og listræn, lifði hratt og dó ung, líf hennar var blússandi skáldskapur, basl og víma. Sögupersónur hennar eru utangarðs og áttavilltar í ríkjandi smáborgarahætti, „og eina leiðarljósið er oft og tíðum sígarettan“ eins og fram kemur í grein Ástu Kristínar Benediktsdóttur en þar segir að ljóst sé að frægar ljósmyndir Kaldals af skáldkonunni með sígarettuna hafi átt stóran þátt í að efla og varðveita ímynd Ástu sem uppreisnarkonu, bóhems og róttæklings - sem reyndist svo hvorki sanngjarnt né heilladrjúgt.

Tengt efni