SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir24. desember 2022

LYKILLINN - um Pólerað Ísland eftir Ewu Marcinek

Á árinu kom út verkið Pólerað Ísland eftir Ewu Marcinek og hefur hún hlotið góðar viðtökur. Bókin kom út í mars á vegum Forlagsins í þýðingu Helgu Soffíu Einarsdóttur en á ensku, með titlinum Polishing Icelandic, í nóvember í útgáfu Ós Pressunnar.

Ewa Marcinek er frá Póllandi en hefur búið í Reykjavík frá árinu 2013. Ewa lærði menningarfræði og skapandi skrif í Wroclaw og lagði síðan stund á myndlist við Myndlistarskólann í Reykjavík. Pólerað Ísland er fyrsta verk Ewu sem hún stendur að ein en hún hefur áður sent frá sér ljóð á prenti; hún var einn af höfundum ljóðabókarinnar Pólifóníu af erlendum uppruna sem kom út í fyrra. Þá er Ewa einn af stofnendum Ós Pressunnar og leikfélagsins Reykjavík Esemble sem hefur sett á svið verk eftir hana, m.a. sýningu samnefnda nýju bókinni. Auk þessa hefur Ewa skrifað pistla í Tímarit Máls og menningar svo að hún hefur látið mjög að sér kveða á ritvellinum.

Pólerað Ísland er til marks um að þar fer þroskaður höfundur. Bókin geymir bæði ljóð og lausamál sem byggir á ævi Ewu og reyndust skrifin henni ákveðin hreinsun, líkt og hún segir í viðtali við Skáld.is. Ewa byrjaði að skrifa handritið að verkinu árið 2015, í vinnustofu fyrir konur af erlendum uppruna, skipulagðri af Borgarbókasafninu og Bókmenntaborg UNESCO, og má því segja að verkið hafi verið mjög pólerað og pússað áður en það leit dagsins ljós; fyrst á sviði árið 2020 og loks á bók í ár.

Pólerað Ísland hefst með sögu af lykli og hann gengur síðan líkt og rauður þráður í gegnum bókina, opnar hana bæði og lokar henni. Í fyrrgreindu viðtali er Ewa spurð út í þetta stef og hún svarar:

Bókin byrjar á örsögu af pólskum innflytjanda sem týndi lyklinum sínum. Þegar hann hefur náð að opna dyrnar að heimili sínu með hníf, lýgur hann til um það til að vernda orðspor sitt. Nokkrum síðum síðar, stafar aðalpersónunni ógn af því að ráðist sé á hana og þá íhugar hún að nota lykla sem vopn til að verjast.

Þessi almenna hugmynd, eða líking lykill-hnífur, hverfist um verknaðinn að opna eða að fara inn í eitthvað á kurteisilegan eða ofbeldisfullan máta. Líkingin varpar líka ljósi á tvíeðlið í mannlegri reynslu. Er þetta lykill eða hnífur? Er þetta von eða ógn? Hlutirnir reynast stundum annað en þeir líta út fyrir. Fólksflutningar geta ýmist verið ógn fyrir nærsamfélagið eða auðgað það. Fyrir einstaklinginn sem flytur í nýtt land geta flutningarnir falið í sér löngun til að prófa eitthvað nýtt en einnig getur það verið aðferð til að flýja erfiða reynslu.

 

Á fyrstu síðum bókar er því lýst hvernig Ewa er elt heim að dyrum og hún mundar lykilinn líkt og eggvopn í hendi sinni:

Að ganga hraðar eða líta um öxl í þriðja sinn væri að bjóða
hættunni heim. Fótatak hans brakar á frosinni jörðinni.
Ég vef vonum mínum utan um lyklana, silfurblöð þeirra milli
fingra mér. Ætti ég að auka hraðann eða hægja á mér?
Er ráðlegt að líta aftur fyrir mig?

(bls. 9)

Ljóðið minnir óneitanlega á smásöguna Heim eftir Fríðu Ísberg, sem birtist í smásagnasafninu Kláða, en hún segir af konu með lyklakippuna þrædda um fingurna þar sem hún gengur óttaslegin heim af barnum um miðja nótt. Þetta kannast margar konur við, því miður.

Konan í sögu Fríðu slapp ómeidd í skjól en ekki Ewa og segir hún í fyrrnefndu viðtali að hún kjósi að fjalla á opinskáan hátt um reynslu sína til að gera fólk meðvitaðra því #metoo bylgjan hafi sýnt hversu margar konur hafa þurft að kveljast í hljóði og í þögninni breytist fátt.

Með þessa sáru reynslu í farteskinu flytur Ewa til Íslands. Hún fær starf á veitingastað og dregur upp margar grátbroslegar myndir af samskiptum sínum við kúnnana. Hún hittir „match“ af Tinder, það er reynt við hana, talað niður til hennar og káfað á henni. Hún þarf að mæta ýmsum fordómum og vill tungumálakunnáttan þvælast fyrir:

. . .
„Nei. Ert þú ka pólsk?
„Ka pólsk?“ Ég skil þetta ekki. „Ég skil ekki.“
„Ert þú kaÞólsk? Are you a Catholic?“
„Nei, það er ég ekki““
„Ertu það ekki?“
. . .
(bls. 64)
 

Það er töluð enska við Ewu, þó svo að hún tjái sig á íslensku, og hún nefnir dæmi þess að fólk vilji ekki að útlendingur afgreiði það. Eftirfarandi ljóð er löðrandi í kaldhæðni enda hljómar það eins og afrit af heimskulegri skoðun sem má stundum lesa í athugsemdakerfinu á netinu en iðulega mun verr orðuð og stafsett:

Og allar þessar gengilbeinur sem tala bara alls enga íslensku.
Meira að segja enskan þeirra er léleg.
Hver ræður þær eiginlega?
(bls. 93)
 

Ewu finnst hún stundum vera „þrítyngt skrímsli, klofin sál“ (99) og er tíðrætt um tungumálið enda ber þar helst á milli og menningarheimarnir með. Skemmtilegt dæmi um slíkan árekstur má finna á einum stað í bókinni:

Póstburðarkonan hefur verið að minna innflytjendafjölskyldu á
að setja nöfnin sín á bjölluna. „Vinsamlegast merkið bjölluna,“
skammast hún, „annars fáið þið kannski ekki póstinn ykkar.“
Mest pirrandi póstburðarkonan í 101 Reykjavík. Loksins kemur
hún að hvítum miða undir bjöllunni við hliðina á útidyrum fjöl-
skyldunnar. Á honum stendur Bjalla.
(bls. 131)
 

Víða veltir Ewa fyrir sér bæði íslenskri og pólskri tungu. Í fyrrgreindu viðtali segir hún að þar sem íslenskan reyndist henni mjög framandi fór hún að búa til litlar sögur, eigin skilgreiningar og útskýringar til að leggja íslenskan orðaforða á minnið. Og enn noti hún þrjú tungumál, íslensku, ensku og pólsku og blandi þeim mjög oft saman. Pólska og íslenska eiga sum orð sameiginleg eða þau hljóma svipað en merkingin er ólík, til dæmis hljómar íslenska orðið „takk“ eins og pólska orðið „tak“ en það merkir „já“. Þá er orðið „kona“ til í pólsku en þar merkir það „er að deyja“. Ewa lýsir þessu sem svo að í hennar huga „virtist það að læra íslensku eins og dulkóði eða gáta sem þyrfti að leysa.“

Þegar sígur á seinni hluta bókar tekur Ewa aftur upp þráðinn með frásögnina af ofbeldisglæpnum og greinir frá tilkynningu héraðsdóms í Wroclaw um að hún fái einungis ferðakostnað endurgreiddan aðra leiðina til að bera vitni, þ.e. aðeins til Póllands en ekki til baka til Íslands. Það sé þó hvort sem er ekki nauðsynlegt að hlustað verði á framburð hennar þar sem hún búi erlendis. (bls. 139) Segja má að þessi tilkynning kjarni viðhorf réttarkerfis til þolenda kynferðisofbeldis, þeir eru einungis vitni í eigin máli og jafnvel óþörf. Þá verður lykillinn aftur þrálátt stef og Ewa skrifar bréf til herra Disney:

Þegar ég var barn sagði systir mín mér að til séu menn sem fela
sig í myrkrinu. Augu þeirra á röngum stað, á röngunni. Þeir sjá
aðeins sitt eigið hungur [...]
Til eru stelpur sem þurfa að ganga í gegnum þetta hvern einasta dag
ævinnar. Álfkonur. Öskubuskur. Prinsessur. Litlar hafmeyjur.
Snertar. Hræddar. Nauðgað. Hver og ein hefur sögu að segja.
 
Vinsamlegast hlustaðu.
(bls. 141)
 

Lokaljóð bókar er aðeins eitt orð, „lykill“ og hefur margræðni hans verið áður tíunduð. Það felst talsverður máttur í að hafa lyklavöld; lykil að réttlátu réttarkerfi, vinsælli og mótandi afþreyingu og ekki hvað síst er tungumálið þarfur lykill að samfélaginu en því lýsir Ewa  afar vel í þessari bók. Hún veitir afar góða innsýn í líf manneskju sem hefur tungumálið ekki á valdi sínu og kemur því víða að læstum dyrum. Að sama skapi er verkið Pólerað Ísland lykill lesandans að upplifun og reynslu innflytjanda, sem auk þess er kona, sem er innfæddum afar holl lesning.

 

Tengt efni