SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir28. janúar 2023

LEIKA, ÞYKJAST OG LJÚGA - Um Hvítfeld

Kristín Eiríksdóttir var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna í ár í flokki skáldverka fyrir Tól, frábæra bók, en hreppti ekki verðlaunin í þetta sinn eins og gengur. Kristín gaf fyrst út ljóðabók 2004 og síðan þá hafa komið frá henni skáldverk sem eru einkar áleitin og áhrifamikil.

Skáldsagan Hvítfeld Fjölskyldusaga er bók af því tagi en hún kom út 2012 og er ljúft að lesa aftur. Þetta er ættar- og fjölskyldusaga eins og titillinn ber með sér, líkt og Tól, og segir frá þeim systrum Jennu og Eufemíu, sem alast upp á níunda  áratugnum, og foreldrum þeirra. 

Óhamingja, lygar, geðveiki og alkóhólismi gegnsýra líf fjölskyldunnar. Móðirin Hulda er saklaus og dreymandi námsmær sem verður sjúklega ástfangin af kennaranum sínum sem notar hana til að svala fýsnum sínum. Rómantískar hugmyndir hennar um ást og kynlíf bíða algjört skipbrot. Hún gengur svo í hjónaband með Magnúsi, vænum pilti í laganámi en það byggir á lygum og rugli. Hulda þjáist af fæðingarþunglyndi í heilt ár en systir hennar hjálpar henni og heldur því leyndu fyrir öllum, þokkalega mikil meðvirkni í gangi þar. Magnús drekkur og fær skapofsaköst og dæturnar Jenna og Eufemía vita aldrei hvaðan á þær stendur veðrið, Loks skilja þau hjónin, Hulda stendur ein uppi með dæturnar í blokk í Breiðholtinu en Magnús vill bara vera í friði með nýju konunni. Poppprinsessan Britney Spears kemur heilmikið við sögu, hún er líka kona margra karaktera og lyga eins og Jenna.

Jenna er sjúklega metnaðargjörn og flytur loks búferlum til Texas til að afla sér fjár og frama en systirin Eufemía leiðist út í neyslu, m.a. vegna skorts á ást og athygli og er það dregið listilega fram. Þegar hún deyr neyðist Jenna til að koma til Íslands með litlu dóttur sína og horfast í augu við sjálfa sig og fjölskylduna. Hún hefur spunnið upp sögur um velgengni sína og frægð í útlöndum, til að lappa upp á lélega sjálfsmynd en nú er komið að skuldadögum.

Í viðtali á skald.is sem Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir tóku í mars 2021 var Kristín spurð um Hvítfeld og samband veruleika og skáldskapar:

"Þú nefnir misræmið í frásögninni og lygarnar í Hvítfeld móta frásögnina á þann hátt að skáldskapur og veruleiki renna saman í eitt og stundum er erfitt að henda reiður á hvað er satt og rétt og hvað ekki. Er þetta kannski einum þræði saga um sköpunarferlið? Og ertu jafnan mikið að velta fyrir þér sambandi veruleika og skáldskapar?
 
Já algjörlega. Ég hitti vinkonu mína í gær sem er rithöfundur og við vorum að ræða hvernig senur gerast stundum. Ég er kannski stopp í skrifum, svo er ég einhvers staðar að gera eitthvað alveg óviðkomandi, bara í Krónunni úti á Granda og þá gerist senan þar og ég get haldið áfram. Og þá er í raun einsog opið sé inní eitthvað, einhverja vídd og allt talar inn í þessa vídd.
 
Var Jenna Hvítfeld þá einhver sem þú hittir í Krónunni?
 
Nei, en það er samt einmitt svona dæmi. Ég bjó í mánuð á gistiheimili í Chiang Mai að skrifa og þar kynntist ég manni sem var patólógískur lygari, það var rosa magnað. Það voru engin takmörk. Hann fann alltaf út hvað fólki fannst fínt og var heimsmeistari í því. Ég kom að honum á tali við konu sem bjó á gistiheimilinu líka og hún hefur sjálfsagt haft einhvern dansáhuga vegna þess að hann var að segjast hafa dansað ballet bæði með dansflokknum í Moskvu og San Fransiskó. Hún var alveg lens. Svo hitti ég hann á markaði þarsem ég var að leita mér að sandölum og kom í ljós að hann hafa unnið náið með Jimmy Choo, alveg sérstakur skósérfræðingur á Manhattan um árabil og aðstoðaði mig við að kaupa mér flippfloppera. Ég vissi alltaf að hann var að plata en hann var samt svo sannfærandi. Þetta varð frásagnaraðferðin sem ég notaði í bókinni. Að einhverju leyti trúði ég öllu sem hann sagði, og Jennu. Ég trúði henni líka."
 

Jenna lýgur svo listilega að lesandinn trúir sögum hennar eins og nýju neti. Líf hennar byggir á lygum eins og líf foreldranna en það er spurning hvort dóttirin Jackie  leikur sama leikinn eða hvort í henni leynist vonarglæta.

Persónurnar eru  breyskar og harmrænar og glíma við drauga fortíðar, fíkn, óheiðarleika og skapbresti. Syndir fortíðar koma niður á börnunum, áföll sem ekki er unnið úr viðhalda óhamingjunni.  Sumt má ekki tala um en liggur grafið í minninu og eitrar úr frá sér. Um leið og sagan fjallar um persónulega harmleiki á nærfærinn hátt er hún samfélagsgreining, innsýn í tíðaranda, uppeldi og siðferði kynslóðanna. Spurning sem vaknar við lesturinn er áleitin: Hættum við einhvern tímann að leika, þykjast og ljúga í lífinu?

 

 

 

 

Tengt efni