SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir26. febrúar 2023

HVAÐ GERIR MAÐUR EKKI FYRIR ÞESSAR MÆÐUR? Móðurlífið, blönduð tækni

Yrsa Þöll Gylfadóttir: Móðurlífið, blönduð tækni. Bjartur 2017. 264 bls.

Snemma í skáldsögunni Móðurlífið, blönduð tækni eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur spyr hinn tvítugi Bjarni, um leið og hann færir Kamillu móður sinni konjaksfyllt súkkulaði úr fríhöfninni: „Hvað gerir maður ekki fyrir þessar mæður.“ (11) Þarna er orðuð ein af grundvallarspurningum sögunnar sem fjallar meðal annars um það hversu langt Kamilla er reiðubúin að ganga til að fegra ímynd sinnar eigin móður, framúrstefnulistakonunnar Sirríar, sem lést fyrir sextán árum úr alls kyns áfengistengdum sjúkdómum, eins og það er orðað (99). Listasafn Reykjavíkur hefur haft samband við Kamillu vegna yfirlitssýningar sem safnið hyggst halda á verkum Sirríar; safnið „vildi heiðra listakonuna með stórri sýningu og útgáfu bókar í tilefni af því að fimmtíu ár væru liðin frá fyrstu sýningu hennar í Listamanna­skálanum“ (8). Listfræðingur safnsins, Þórey, leitar liðsinnis Kamillu við að hafa upp á verkum eftir Sirrí og öðrum gögnum sem gætu hjálpað til við að varpa ljósi á lífsferil hennar.

Fljótlega kemur í ljós að Sirrí er ein þeirra ‚slæmu‘ mæðra sem hefur tekið listina fram yfir börnin sín tvö, Kamillu og Gústa, og yfirgefið þau á barnsaldri. Að auki hefur hún lifað skrautlegu lífi í uppreisn gegn hefðbundnu siðferði og smáborgaralegum leikreglum. Í upphafi virðist sem Kamilla hafi (með aðstoð sálgreinis) tekið móður sína í sátt þrátt fyrir höfnun hennar en bróðir hennar Gústi hefur ekki gert það og vill ekkert af fyrirhugaðri listsýningu vita. Kamilla er aftur á móti öll af vilja gerð að aðstoða við uppsetningu sýningarinnar. Í því skyni heldur hún í ferðalag til vesturstrandar Bandaríkjanna þar sem hún kynnist syni fyrrverandi elskhuga móður sinnar, háskólakennaranum William (Bill), sem varðveitir muni úr dánarbúi föður síns, meðal annars nokkur listaverk Sirríar, auk bréfa hennar til elskhugans sem skrifuð voru á tólf ára tímabili, frá 1973-1982. Í gegnum það bréfasafn kynnist Kamilla móður sinni betur og kemst að ýmsu sem rótar upp í tilfinningalífi hennar og í ljós kemur að kannski hefur hún ekki unnið eins vel úr fortíðinni og hún vill vera láta.

 

Listakonan og skilyrði hennar

Íslenskar skáldkonur hafa skrifað um sköpunarþrána og árekstur hennar við skylduna í sögum og ljóðum allt frá því þær hófu penna á loft, jafnvel mætti tala um þessa togstreitu sem eitt helsta þema kvennabókmennta.1 Í íslenskri kvennabókmenntasögu má sjá að framan af þótti varla annað koma til greina en að bæla sköpunarþrána, að fórna sér fyrir heimili og börn var heilagasta skylda allra kvenna og fórnina átti að færa af gleði og heilum hug. Þegar íslenskar konur höfðu sent frá sér bækur (þótt fáar væru) í um hálfa öld (á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar) fóru að koma brestir í þessa mynd; fórnin varð æ erfiðari og leiddi jafnvel til harma og ógæfu. Af eldri íslenskum skáldsögum sem glíma við þennan árekstur listiðkunar og kvenhlutverks á áhugaverðan hátt má til dæmis nefna Dísu Mjöll, þætti úr lífi listakonu (1953) eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur og Villibirtu (1969) eftir Unni Eiríksdóttur. Báðar endurspegla þessar skáldsögur vel samtíma sinn og þann vanda sem konur með listdrauma áttu við að etja. Einnig eru heimspekilegar pælingar gildur þáttur þeirra og í Villibirtu má líka sjá athyglisverðar formtilraunir. Í Dísu Mjöll segir á einum stað: „Kona er þó alltaf kona, hvaða hæfileikum, sem hún kann að vera búin, og hún verður að lifa lífi sínu í samræmi við siðvenjur síns þjóðfélags, sinnar stöðu í þjóðfélaginu“ (187) og jafnframt:

 

Í okkar samfélagi er alloftast örðugt að vera listamaður, þó enn örðugara að vera listakona, til konunnar eru gerðar grimmdarlegar kröfur, hún á að afneita einstaklingseðli sínu, bæla niður hæfileika sína og þrár, hvernær, sem það er talið bezt henta umhverfi hennar. Hvenær er eftirspurn eftir afburðakonum? Ef þær koma fram, er það nær undantekningarlaust í illvígu þrássi við allt. Þær fíngerðustu og næmlyndustu eru bornar ofurliði af skilningsleysi, ruddaskap og úlfúð grófgerðrar manntegundar, sem er svo sorglega algeng. (229)

 

Við fyrstu sýn virðist sem Sirrí velji listina fram yfir börnin sín án verulegra efasemda um að það sé hið eina rétta í stöðunni, en þegar nánar er að gáð kemur þó annað í ljós. Í gömlu blaðaviðtali segir hún til að mynda: „Á tímabili hélt ég að listsköpunin væri forsendan fyrir lífskraftinum og hamingjunni, en það er ekki svo einfalt. Maður er líka að lepja dauðann úr skel og kveljast á barmi helvítis þótt maður skapi og skapi og telji sér trú um að öðlast með því hamingju.“ (49) Þótt hún viðurkenni að hafa í „sinni einföldustu og yfirborðslegustu mynd“ fórnað fjölskyldulífinu fyrir listina þá bætir hún við að það sé „samt aldrei hægt að snúa baki við upprunanum og því sem maður skilur eftir sig. Það hangir á eftir manni í löngu bandi og maður kippir af og til í spottann til að ná jarðtengingu“ (50). Þá vitnar systir hennar, Kristín, um að þegar Sirrí sneri að lokum heim hafi hún verið „að þrotum komin á líkama og sál, þjökuð af sektarkennd og sjálfshatri“ og jafnframt „aðframkomin á taugum af geðveiki, drykkju og hamslausri ástarsorg“ (68). Síðustu orðin setja stórt spurningarmerki við val listakonunnar; var það kannski vegna ástarinnar – fremur en listarinnar – sem hún yfirgaf börn sín?

 

Mæður og dætur

Samband mæðra og dætra er einnig efni sem skýtur upp kollinum aftur og aftur í bókmenntum og virðist með flóknustu samböndum sem um getur. Mamma skilur allt (1950) er heiti á klassískri íslenskri barnabók eftir Stefán Jónsson og tilheyrir bókaflokknum um Hjalta litla. Þótt vera kunni að í tilviki Hjaltabókanna sé um írónískan titil að ræða virðist sem slíkt viðhorf gildi helst þegar um samband móður og sonar að ræða – í tilviki dætranna mætti vísa í eina af bókum Ragnheiðar Jónsdóttur sem bera undirtitilinn Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi þar sem aðalpersónan staðhæfir: „Mamma skilur ekkert“ (Ég á gull að gjalda, 1954) og mætti yfirfæra á margar lýsingar bókmennta á sambandi mæðra og dætra. Minna má á hina djúpsæju og flóknu mynd af mæðgnasambandinu í Sölku Völku Halldórs Laxness (1931-1932) þar sem samband Sölku og Sigurlínu myndar helsta burðarás frásagnarinnar og líf dótturinnar virðist lengst af snúast um að skilja sig frá móðurinni og afneita kvenhlutverkinu. Svo vill til að þetta þema, þ.e. flókin sambönd mæðra og dætra, sem og mæður sem bregðast, er einkar áberandi í nýlegum íslenskum skáldverkum. Hér má, auk Móðurlífsins, blandaðrar tækni, til dæmis nefna skáldsöguna Elínu, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur sem lýsir tveimur flóknum mæðgnasamböndum og ljóðabækurnar Dauðinn í veiðarfæraskúrnum eftir Elísabetu Jökulsdóttur og Slitförin eftir Fríðu Ísberg sem hnitast um mæðgnasambönd, svo bara sé bent á bækur sem komu út á síðasta ári. Þá fjallar Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson meðal annars um móður sem yfirgefur börn sín og afleiðingar þess.

Í Móðurlífið, blönduð tækni er mæðgnasambandið í raun aðaldrifkraftur frásagnarinnar. Þótt frásögnin snúist á yfirborðinu um stöðu listakonunnar Sirríar, í fortíð og nútíð, þá er það afstaða Kamillu til móður sinnar, og tilfinningar hennar í garð móður sinnar, sem búa í djúpgerð frásagnarinnar, þrýsta stöðugt á og ógna hinu yfirborðslega jafnvægi. Það er sá þáttur frásagnarinnar sem býr yfir mestum mótsögnum og afhjúpast smátt og smátt. Minna má á að frásögnin er römmuð inn af tveimur myndum af Sirrí: Í upphafsmálsgrein sögunnar lýsir Kamilla móður sinni sem eins konar „femme fatale“ týpu sem má ekki vera að því að gefa barni sínu hafragraut og virðist á leið í einhvers konar geðrofsástand. Í bókarlok gengur Kamilla inn á sýninguna í Listasafni Reykjavíkur og „starandi augnaráð listamannsins [fylgir] henni eftir, leitandi og ákallandi“ (264). Kamilla lítur undan þessu augnaráði, enda með margt á samviskunni þegar þarna er komið sögu.

 

Vanrækt börn og vanþroska fullorðnir

Persónulýsingar bókarinnar eru flestar mjög vel unnar frá hendi höfundar og sálfræðilega trúverðugar. Sérstaklega á þetta við í tilviki systkinanna Kamillu og Gústa. Í upphafi lítur út fyrir að þau standi fyrir ólíka úrvinnslu á erfiðri reynslu uppvaxtaráranna. Að mati Kamillu hefur Gústi ekki náð að yfirvinna reiðina í garð móðurinnar, hann hefur ekki „náð þessari hreinsun og æðruleysi heldur virtist hann sækja í sársaukann“ (51). Kamilla telur hann byggja „sjálfsmynd sína nánast á þessum tregafulla harmleik æskunnar. Það var rauði þráðurinn sem hann spann sögu lífs síns úr“ (51). Þessu fylgir að Gústi, sem sjálfur er giftur og tveggja barna faðir, leggur sig í líma við að halda fyrirmyndarheimili þar sem yfirborðið er slétt og fellt og „allt nýmóðins og flott“ (23) en ljóst er að yfirborðsskurnin er þunn og brothætt. Framan af virðist Kamilla hins vegar búa yfir traustari sjálfsmynd og hafa góða stjórn á lífi sínu sem söngkona og einstæð móðir hins tvítuga Bjarna, þótt fjárráðin séu ekki til að hrópa húrra fyrir. Smám saman kemur þó í ljós að Kamilla er haldin dæmigerðu heilkenni hins vanrækta barns sem leggur sig í líma við að halda heiminum saman, er mjög umhugað um álit annarra (12), alltaf að hugsa um aðra (33) og að þeim líði vel (57). Hún er sem sagt haldin meðvirkni á háu stigi og meðvirknin leiðir hana jafnvel út í kynlíf sem hún hefur í raun engan áhuga á, eins og lýst er í einni vandræðalegustu – en um leið tragíkómískri – senu frásagnarinnar (114-117). Sálgreinir Kamillu telur að „þar sem henni var í æsku kennt að taka fullkomið tillit til móður sinnar“ hafi hún „þróað með sér þann eiginleika að óttast eilíflega að geðjast ekki öðrum og valda þeim vonbrigðum“ (118). Sjálf fellst hún á þessa greiningu og viðurkennir að „[h]elst vildi hún alltaf hafa alla í kringum sig góða og ánægða, einkum og sér í lagi ánægða með hana“ (119). Vísbending um þessi persónueinkenni Kamillu er ef til vill einnig fólgin í nafni hennar en bent er á að Camillus er nafn á verndara altarisins og ambátt helgiþjónustunnar „og einnig þýðir nafnið fullkomnun“ (189). Í yfirfærðri merkingu má sjá Kamillu sem verndara fjölskylduímyndarinnar sem hún vill upphefja og lagfæra; hafa sem fullkomnasta. Það er þessi þörf sem leiðir Kamillu að lokum út í miklar ógöngur eins og á eftir að koma á daginn. Þegar Kamilla les sendibréf móður sinnar, sem hún finnur í vesturför sinni, kemur berlega í ljós að ekki er fullkomlega gróið yfir sár barnæskunnar. Kamilla hugsar með skelfingu til þess að efni þeirra verði opinberað almenningi í ævisögunni sem listfræðingurinn Þórey hyggst skrifa í tengslum við sýninguna. Hún veltir fyrir sér hvort réttlætanlegt sé að „undirstrika gömlu ímyndina af móður hennar sem syndara og óábyrgri glyðru og útsetja hana fyrir enn meiri skömm og vanþóknun?“ (132). Ætti hún ef til vill að halda bréfunum leyndum eða grípa til enn róttækari aðgerða?

 

Móðurlífið

Í gegnum sendibréfin gefst lesandanum tækifæri til að kynnast listakonunni Sirrí beint og milliliðalaust. Sú mynd sem dregin hefur verið upp af henni fram að því að bréfin finnast er ófögur en um leið harmræm. Við vitum að hún valdi listina fram yfir fjölskylduna en einnig að hún dó úr ólifnaði, „að þrotum komin á líkama og sál, þjökuð af sektarkennd og sjálfshatri“ (68). En við vitum líka að listaverk hennar skipta máli í íslenskri listasögu, að hún var frumkvöðull og áhrifavaldur, enda tæki Listasafn Reykjavíkur verk hennar varla til sýninga ef svo væri ekki. Það að list Sirríar „virtist oft hafa stuðandi áhrif á fjölskyldumeðlimina“ (39) skiptir að endingu engu máli í hinu stærra samhengi, eins og listfræðingurinn reynir að koma Kamillu í skilning um þegar hún verður uppvís að fölsunum á sögu og persónuleika móður sinnar:

 

„Er þér svona annt um að móðir þín hljóti einhvers konar náðun fólksins? Skilurðu ekki að fólki er andskotans sama um Sirrí sem móður? Hún er listamaður af guðs náð, brautryðjandi og einstök og fólk er að koma til að fagna því, ekki til að rifja upp gamalt fjölskyldudrama sem á sér stað inni á öðru hverju heimili landsins.“ (234)

 

Sú mynd sem birtist af Sirrí í gegnum bréf hennar staðfestir í raun að flestu leyti þá mynd sem þegar hefur verið gefin en sýnir jafnframt sálarstríð listakonunnar. Þótt hún eigi þess kost „að verða hinn borgaralegi listamaður sem Ísland virðist hampa“ þá óttast hún þá stöðu. Hún vill umfram allt varðveita „bóhemið“ og staðhæfir að allir viti „að um leið og listin er framleidd í návígi við allt þetta staðgóða fjölskylduumstang þá líður hún fyrir það. Ég er að verða ein af þeim. Mamman ásækir mig og listakonan er að deyja“ (122). Sirrí er sannfærð um að það fari ekki saman að skapa list og sjá um fjölskyldu, hún upphefur listina og telur val sitt í raun snúast um líf og dauða: „ef ég vel ekki listina get ég allt eins dáið.“ (130) Hún þarf að sinna listsköpun til að beisla tilfinningar sínar og hræðist að týnast „undir mörgum lögum af húsbúnaði, þvotti, bleyjum ...“ (130).

Í einu sendibréfanna lýsir Sirrí listaverki sem hún er með í smíðum og „fjallar einmitt um móðurina, nánar tiltekið um móðurlífið“ (150). Hún lýsir því nánar og segir það fjalla um móðurlífið „á mjög líkamlegan og dýrslegan hátt – móðurlífið sem þröngt og þrúgandi svarthol, blóðuga og slímuga hvelfingu. Sem hýði dýrs sem ummyndast og klekst út. En líka um móðurlífið sem vélknúinn kyndiklefa eða ofn sem púlserar og um fara bylgjur og straumar“ (150). Það er þessi mynd af móðurlífinu – sem er í senn leg og móðurhlutverk – sem Kamilla á erfitt með að sætta sig við að fari fyrir sjónir almennings á fyrirhugaðri listsýningu og áræðir því að hagræða sannleikanum. En spyrja má hvort falsanir Kamillu séu ekki um leið gríðarleg svik við móðurina og lífsviðhorf hennar. Kamilla leitast við að umbreyta hinni uppreisnargjörnu listakonu í elskandi móður: hún klæðir hana úr „bóheminu“ og aðlagar að því borgaralega siðgæði sem móðirin fyrirleit. Um leið endurskapar Kamilla móðurina í sinni mynd, því sjálf er hún holdgervingur hins borgaralega listamanns sem móðirin hafnaði; dóttirin hefur fætt móðurina í nýrri mynd sem fjölskyldunni hugnast.

 

Blönduð tækni

Undirtitill bókarinnar, blönduð tækni, er vel til fundinn og hefur margræða merkingu. Blandaðri tækni er oft beitt í myndlist þar sem mismunandi efni og aðferðir eru notaðar við myndsköpun. Yrsa Þöll beitir einnig blandaðri tækni við byggingu sögunnar, þriðju persónu frásögnin er fleyguð með dagbókarbrotum, sendibréfum, blaðaviðtölum, ritgerð og ræðum sem smám saman byggja upp heildarmyndina. Þá marka mismunandi leturgerðir víða skil frásagnaraðferðanna. Og heildartitilinn, Móðurlífið, blönduð tækni, nær einnig að miðla þeirri hugsun að það að vera móðir, og það að ala upp börn, krefst blandaðrar tækni sem fólk hefur misvel á valdi sínu.

Móðurlífið er önnur skáldsaga Yrsu Þallar og ljóst er að hún hefur náð miklu betri tökum á frásagnartækni og sögufléttu en í fyrstu skáldsögunni Tregðulögmálinu sem kom út 2010. Sú frumraun var þó áhugaverð að mörgu leyti, ekki síst vegna þess hversu einarðlega þar er tekist á við spurninguna hver er ég? og hver er staða mín í þessum heimi? í fyrstu persónu frásögn ungrar konu sem „langar að trúa því að fræðileg og heimspekileg hugsun séu undirstaðan, grundvöllurinn fyrir því að unnt sé að skilja heiminn“ (Tregðulögmálið, 66). Við lestur á Móðurlífinu, blandaðri tækni er ljóst að Yrsa Þöll er orðin verulega leikin í að halda mörgum boltum á lofti; að spinna marga þræði sem saman mynda góða heild. Bókin hefði jafnvel orðið enn betri hefði góðum skærum verið beitt því á köflum er frásögnin full ítarleg og ýmislegt hefði mátt stroka út til þess að efnið nyti sín betur. Það breytir því þó ekki að þetta er afar áhugaverð skáldsaga um þessa eilífðartogstreitu í lífi kvenna sem virðist síst á undanhaldi þótt komið sé fram á tuttugustu og fyrstu öldina.

 

[1] Sjá Soffía Auður Birgisdóttir. 1987. „Skyldan og sköpunarþráin. Ágrip af bókmenntasögu íslenskra kvenna.“ Eftirmáli við Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. Ritstjóri Soffía Auður Birgisdóttir. Reykjavík: Mál og menning, bls. 913-971. Kom einnig út í sérprenti.
 
Ritdómurinn birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2018 og einnig í bókinni
Maddama, fröken, kerling, frú. Konur í íslenskum nútímabókmenntum (Háskólaútgáfan 2019).

 

 

Tengt efni