SALT, FREYJA OG ÓDAUÐLEG BRJÓST - erindi Brynhildar Heiðar- og Ómarsdóttur
Erindi eftir Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur sem upphaflega var flutt í útvarpsþættinum Orð um bækur á Rás 1 þann 31. mars 2018.
Nýlega komu út þrjár nýjar bækur í bókaflokknum Meðgönguljóðum, bókaflokki Partus bókaútgáfunnar sem kynnir efnileg ljóðskáld fyrir íslenskum lesendum. Meðgönguljóðabækur hafa á stuttum tíma náð að vinna sér sess í íslenskri bókaútgáfu, á örfáum árum hafa komið út 28 bækur í bókaflokknum.
Eitt af því sem einkennir Meðgönguljóðabækur er að þær eru í styttri kantinum, ljóðin eru gerð aðgengilegri fyrir lesendur, sem sumir hverjir myndu forðast lengri og tormeltari ljóðasöfn. Það sem einkennir Meðgönguljóð þó sérstaklega er að bækurnar eru einstaklega vandaðar. Ritstjórn útgefenda á ljóðskáldum sínum, sem mörg hver eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum með útgáfu bókanna, er traust, ljóðabækurnar einkennast oftar en ekki af hugmyndafræðilegri heild og fáguðum ritstíl. Ekki skemmir það fyrir að bækurnar sjálfar eru afar fallegar! Í mars 2018 var bókaflokkurinn tilnefndur til hönnunarverðlauna Reykjavík Grapevine, og sagði dómnefndin að bókakápur Meðgönguljóða væru sterkar og skýrar, myndræn verk sem tæla lesendur til lestrar bókanna.
Nýjustu bækurnar í Meðgönguljóðum eru Salt eftir Maríu Ramos, Freyja eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur og Ódauðleg brjóst eftir Ásdísi Ingólfsdóttur og eru þessar bækur allar fyrstu ljóðabækur höfunda.
***
Ljóðabókin Salt eftir Maríu Ramos er römmuð inn af heimsendi. Í upphafsljóðinu, sem ber einfaldlega titilinn „Upphaf“, sýnir ljóðmælandi lesanda inn í kvikmyndasal, fólk streymir inn í salinn til að stara á svartan skjá. Í ljóðinu ríkir myrkur, ádeila á almenning sem fagnar tómarúminu af gömlum vana, og ljóðmælandi sem neitar að taka undir.
Leit ljóðmælenda að frelsi, afneitun þeirra á væntingum samfélagsins, er leiðarstef í safninu, en einnig ómöguleikinn að slíta sig úr viðjum vanans. Ljóðmælendur segja eitt en gera annað; þeir kveikja í ljóðunum þegar rútínan hefur gleypt þá. Ljóðmælendur lifa í fortíðinni, leita að ástvinum sem horfnir eru en finna þá einungis í minningunum, finna þá í hugmyndinni um ást, í möguleikanum á ást.
Eftirlætisljóð þáttarstjórnanda er eitt lokaljóð safnsins, „undir svartri sól“.
Fuglar synda á hafsbotni
skilja eftir fótspor
í öldunum
Trén eru rótlaus
það vantar á þau laufblöðin
regnskógurinn hefur kulnað
og draugarnir eru
löngu dauðir
Varúlfurinn leggst við fætur þína
og sleikir á þér tærnar
blíður til augnanna
Hann býr undir svartri sól
Á himninum fljúga börn
þau eru að leita að
bókahillum til að tæma
þau eru að leita að
sögum án orða
Skjálfandi á beinunum
hlusta þau á hljóðlausar sprengingar
og þurrka upp þornað blóð
þau loka augunum
þú lokar augunum
ég loka augunum
(„undir svartri sól“ í Salt eftir Maríu Ramos. Reykjavík: Partus, 2018)
Þetta ljóð sker sig úr öðrum ljóðum í safninu, það er heldur pólitískara, með skírskotun í bókmenntaarfinn. Varúlfurinn liggur við fætur lesanda, gamalkunnugt skrýmsli af hvíta tjaldinu, úlfur sem ráfar um Völuspá, þegar svört verða sólskin, stjörnurnar hverfa af himnunum og jörðin sekkur í sæ, hækkandi sjávarmál í kjölfar hlýnunar jarðar. Ljóðið hefst á hinu ómögulega sem verður mögulegt í ómögulegum heimi, fuglar sem synda í sjónum og skilja eftir fótspor í öldunum. Heimurinn er að enda kominn. Trén eru rótlaus og blaðlaus. Regnskógarnir dánir. Jafnvel draugarnir eru dánir. Ljóðið endar á ávítum til lesenda sem hunsa heimsendi sem nú á sér stað. Börnin leita sér að sögum án orða, mögulega vegna þess að orð myndu vekja þau til vitundar um þá eyðileggingu sem nú á sér stað, sem við leyfum að eiga sér stað, eyðileggingu á náttúru jarðar og eyðileggingu stríðsreksturs og kúgunar. Þau loka augunum, þú lokar augunum, ég loka augunum.
Áhrifaríkt ljóð í ljóðasafninu Salt eftir Maríu Ramos.
***
Freyja er fyrsta ljóðabók Díönu Sjafnar Jóhannsdóttur og í ljóðunum hrífur ljóðmælandi lesanda inn í hversdagslíf borgarinnar. Ljóðin birta leiftur úr daglegu lífi ljóðmælanda, ungrar stúlku sem fer út á djammið, tekur strætó út í IKEA, „frómuð freyja“ sem „rótar villt í leit að gleðinni“. Hægt er að fylgjast með þroskasögu ljóðmælanda í ljóðasafninu, á meðan fyrstu ljóð bókarinnar eru bundnar í tíma og rúmi, lýsa einstökum augnablikum, eru síðustu ljóðin íhugulli, sjálfsskoðun ljóðmælanda sem „fjárfesti í fegurð“ og „gleymdi að orð gera lífið“.
Eftirlætisljóð þáttarstjórnanda er eitt hið fyrsta í safninu, og er titlað „11e“
ég skil við barnæsku mína
á dansgólfi í miðbænum
með ælu í ölglasi
er ég flýti mér á hringbraut
til að kveðja mömmu
í hinsta sinn
hvísla brottfararleyfi
í eyra
og syng barndómsvísur
frá fyrri tímum
kíki síðan í kringluna eftirá
til að kaupa símahulstur og
glimmergalla
fyrir næsta fössara
við heimkomu
veggfóðra ég húsið
með samúðarskeytum
drekk heila rauðvínsbelju
geng um ganga í leiðslu
þar til ég man
að ég fæ engu ráðið
grasið grænkar með sumrinu
næst á dagskrá
er að kenna pabba á þvottavélina
(„11e“ í Freyja eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur. Reykjavík: Partus, 2018)
Sorgin í ljóðinu er nístandi, akkúrat vegna þess að hún er svo hversdagsleg. Titill ljóðsins vísar til krabbameinsdeildar Landspítala, deild 11E, deild sem er kunnugleg mörgum Íslendingum.
Ljóðið lýsir reynslu sem svo mörg okkar hafa þurft að ganga í gegnum, að þjóta á deild 11e, að kveðja þar ástvin í síðasta skipti og við ástvinamissinn heldur lífið áfram, ef til vill er það sárasta við sorgina, sú staðreynd að heimurinn endaði ekki við missinn, að stjörnurnar hurfu ekki af himninum og sól varð ekki svört. Nei, á einu augnabliki situr ljóðmælandi við dánarbeð móður sinnar, hvíslar í eyra hennar brottfararleyfi og syngur henni barnagælurnar sem mamma hafði áður sungið henni. Og í næstu andrá er ljóðmælandi í Kringlunni, því lífið heldur áfram, við kaupum símahulstur og glimmergalla til að klæða af okkur tómarúmið sem skyndilega hefur fest rætur í hjarta okkar.
Í seinni helmingi ljóðsins glímir ljóðmælandi við sorgina, leitar huggunar í samúðarskeytum, sameiginlegri sorg, og leitar svo gleymskunnar í drykkju. Ljóðið endar á ákveðinni sátt. Ljóðmælandi lítur til sumarsins þegar grasið grænkar og gerir áætlanir fyrir framtíðina, tekur fyrstu skrefin í átt að því að endurskilgreina fjölskyldumynstrið. Næst á dagskrá ljóðmælanda er að kenna pabba á þvottavélina.
Hversdagsleiki sorgarinnar í ljóðabókinni Freyju eftir Díönu Sjöfn Jóhannsdóttur.
***
Ódauðleg brjóst er fyrsta ljóðabók Ásdísar Ingólfsdóttur, en hún er þó enginn nýgræðingur á ritvellinum. Ásdís starfaði um árabil sem blaðamaður og hefur birt ljóðaþýðingar í Stínu og Tímariti Máls og menningar.
Ljóð Ásdísar eru þroskuð ljóð, þetta eru ljóð um líf og dauða, þau eru blóðrauð, blóðug slanga úr nýfæddum börnum á vökudeildinni, blóðugir skurðir eftir hárbeitta hnífa skurðlækna sem skera æxli úr brjóstum og börn úr kviði, blóðið sem blandast við moldina þegar ráðist er á ljóðmælanda.
Ljóðasafnið ber titilinn Ódauðleg brjóst og vísar titilinn til sílíkonpúðana sem eru settir í brjóst ljóðmælanda í kjölfar brjóstakrabbameins, glóbrystingar sem settir eru í barm ljóðmælanda eftir að latexhjúpaðar hendur námu sítrónurnar á brott úr brjóstum hennar. Í titilljóði bókarinnar hlustar ljóðmælandi á saltvatnið gjálfra í sílíkonpúðum og veltir fyrir sér ódauðleika nýju brjóstanna, sem munu skjótast um eins og poppkorn í hitanum í líkbrennsluofninum síðar meir.
Hægt er að lesa í ljóðabókinni lífshlaup ljóðmælanda, mismunandi þræði sem fléttað er saman, í einu af fyrstu ljóðum safnsins, „Dregið verður um röð atburða“, en þar vísar ljóðmælandi lesanda á leið, dregur saman atburðarás lífsins, útlistar atburði sem sumir hverjir verða krufðir nánar í komandi ljóðum, leiðarvísir um líf hennar, leiðarvísir um ljóð hennar.
Eftirlætisljóð þáttarstjórnanda er upphafsljóð ljóðasafnsins sem ber titilinn „Óttinn, flóttinn“.
Skrítið hvernig
úthaldið er minna þegar einhver eltir þig
skrítið hvernig
sérstakt bragð er af því þegar þú skellur í jörðina
þurrt
málmbragð
rykbragð
moldarbragð
blóðbragð
tennurnar skella saman
hnykkur á höfuðið
hökuör til frambúðar
þú ert ´ann
(„Óttinn, óttinn“ í Ódauðleg brjóst eftir Ásdísi Ingólfsdóttur. Reykjavík: Partus, 2018)
Þetta ljóð er eitt af þremur í safninu þar sem ljóðmælandi gerir upp kynferðisofbeldi, knappt og sterkt ljóð sem hrellir lesanda strax á fyrstu blaðsíðunni. Ljóðið er sérlega skelfilegt, augnablikið þegar þolandi er gripinn af árásarmanni færð í stílbrögð hefðbundinnar ljóðlistar. Í titli ljóðsins er að finna eina rímið í ljóðasafninu, óttinn og flóttinn, óttinn við flóttann, flóttinn frá óttanum.
Stuðlun og klifun tengja saman upphaf, miðju og enda ljóðsins. Skrítið og sérstakt og skellur. Ljóðinu er skipt í þrjá aðskilda kafla.
Í upphafserindi er óttanum og flóttanum lýst á óhlutrænan máta, ljóðmælandi fjarlægir sig frá árásinni með því að velta fyrir sér hve skrítin þessi lífsreynsla sé, hve skrítið það sé að úthald sé minna þegar einhver er að elta þig, hve skrítið bragðið sé, þegar þú skellur í jörðina.
Um miðbik ljóðsins taka skilningarvitin völdin og koma í veg fyrir alla vitræna og óhlutbundna hugsun. Þurrt málmbragð, rykbragð, moldarbragð. Blóðbragð.
Ljóðið endar á árásinni sjálfri, verknaðurinn sem fyrstu erindin tvö skirrtust við að kveða fast að orðum um, á sér loksins stað. Tennurnar skella saman, hnykkur á höfuðið, hökuör til frambúðar.
Þú ert ´ann tilkynnir ljóðmælandi okkur í lokalínu ljóðsins. Hver ´ann er, rannsakar lesandi á blaðsíðum ljóðasafnsins Ódauðleg brjóst eftir Ásdísi Ingólfsdóttur.
Ljósmynd af Brynhildi: Carolina Muñoz Salas