SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir30. mars 2023

REGNBOGI Í PÓSTINUM

Gerður Kristný. Regnbogi í póstinum, Mál og menning 1996

Óhætt er að fullyrða að fram sé að koma ný kynslóð íslenskra rithöfunda, bækur eftir höfunda sem fæddir eru um og upp úr 1970 eru áberandi á bókamarkaði á þessu hausti, og um er að ræða smásagnasöfn og skáldsögur en ekki eingöngu ljóðabækur, en eins og kunnugt er byrja ungir höfundar margir hverjir á því að gefa út ljóð.

Gerður Kristný (f. 1970) er, eftir því sem ég kemst næst, eina konan í þessum hópi og er vissulega nýlunda að skáldsögu hennar Regnbogi í póstinum, en áður hefur Gerður Kristný gefið út ljóðabókina Ísfrétt (1994). Regnbogi í póstinum segir frá einu sumri í lífi Tinnu, sem nýlokið hefur stúdentsprófi og heldur út í heim í leit að sjálfsmynd. Efnið er því nokkuð dæmigert fyrir bækur ungra höfunda gegnum tíðina, en þó er nýstárlegt að hér er um stúlku að ræða en ótal sambærilegar sögur af ungum karlmönnum hafa verið sagðar áður.

Sagan hefst á skemmtilega táknrænni lýsingu á klukkustreng sem Tinna fékk í vöggugjöf frá ömmu sinni. Með krosssaumi hefur amma saumað myndir af stúlku á ýmsum aldri og neðst er saumað nafn Tinnu. Tinna hefur ætíð getað samsamað sig einhverri myndinni og þannig fundið sér stað í tilverunni, en nú er það breytt: „ég, sem alltaf hef getað bent á einhverja myndina og sagt: „Svona er ég núna“, hef ekki lengur neina mynd að benda á“ (bls. 5). Með þessari táknrænu lýsingu (sprottinni úr reynsluheimi kvenna) undirstrikar sögukonan þá leit að sjálfsmynd sem frásögnin öll miðar að.

Ekki ætla ég að tíunda hvað á daga Tinnu drífur í útlöndum því þar með væri lestrarskemmtunin tekin af væntanlegum lesendum, en þó ætti að vera í lagi að segja að ekki er um að ræða eiginlega sögufléttu sem miðar að hápunkti og lausn, heldur eru aðskiljanleg atvik rakin með húmor og írónísku ívafi, og ættu flestir lesendur af yngri kynslóðum að kannast við svipaðar aðstæður og þær sem Tinna upplifir á sínu flakki.

Óhjákvæmilegt er fyrir unga rithöfunda að máta sig á einn eða annan hátt við fyrirrennara sína, eða, með öðrum orðum, að takast á við hefðina. Þetta gerir Gerður Kristný á einstaklega skemmtilegan og frumlegan hátt. Í sögubyrjun er lýsing á komu Halldórs Laxness til Kaupmannahafnar árið 1919 þegar hann var 17 ára gamall. Lýsingin er öll hin skoplegasta og er Nóbelskáldið sýnt í íronísku Ijósi sem ungur sjálfsmeðvitaður spjátrungur, sveitapiltur í heimsborgaraleik. Með þessum kafla hefur Gerður Kristný á táknrænan hátt afkrýnt kónginn með góðlátlegu gríni - og kemur hann ekki meira við sögu.

Því það er ekki Laxness, heldur tveir mun yngri íslenskir höfundar sem eru greinilegastir áhrifavaldar á Gerði Kristnýju sem höfund, þau Pétur Gunnarsson og Steinunn Sigurðardóttir. Gerður Kristný vísar meðvitað aftur og aftur í Pétur Gunnarsson og bregður jafnvel fyrir heilu setningunum úr sögunni af Andra sem Pétur sagði í fjórum skáldsögum. Áhrifin frá Steinunni tengjast fyrst og fremst stíl og persónusköpun. Persóna Tinnu er skyld bæði Öldu úr Tímaþjófnum og Samöntu úr Ástin fiskanna: Hún er falleg og veit af því (ánægð með sig) og hin íróníska lífsýn minnir á Öldu. En kannski á Regnbogi í póstinum meiri snertifleti við Ástin fiskanna. Báðar eru sögurnar stuttar og segja frá ungri íslenskri stúlku í útlöndum.

Í niðurlagi Regnbogans er þessi klausa: „Mamma svarar og þegar ég heyri röddina hennar sé ég hana fyrir mér þegar hún er í góða skapinu. Þegar hún er nýkomin úr gufubaði og er að lakka á sér táneglurnar. „Ég er að koma heim“, segi ég óðamála. „Þú lætur okkur pabba þinn vita hvenær þú kemur og við sækjum þig út á völl. Hvernig er veðrið hjá þér?“ Hún býður ekki eftir svari heldur tekur til við að lýsa íslenskum lægðardrögum af ótrúlegri innsýn í veðurfræðina. Ég strýk kusk af nýja, bleika kjólnum mínum og þar sem ég stend með símtólið í hendinni finnst mér ég eitt andartak minna á einhverja konu sem ég þekki. Ég man bara ekki hverja.“ (bls. 139). Lesandi íslenskra nútímabókmennta man hverja: hana Samöntu úr Ástin fiskanna.

Í lokin er gaman að velta fyrir sér hvort Tinna hafi við bókarlok einhverja mynd að benda á og segja: „Svona er ég núna“. Ekki samkvæmt sögunni sjálfri því Regnbogi í póstinum er ekki þroskasaga af því tagi sem miðar að lausn eða fullum þroska sögukonu. Ég leyfi mér að gamni þann hæpna leik að samsama söguhetjuna Tinnu, sem segir frá í fyrstu persónu, höfundi sínum og vísa til myndarinnar á bókarkápunni. Þar getur að líta hálft andlitið á Gerði Kristnýju sem í dag getur bent á kápuna og sagt: „Svona er ég núna, ungur kvenrithöfundur“, en enn eru ekki öll kurl komin til grafar og ýmis konar fyrirheit leynast í þeim andlitshluta sem enn er hulinn óræðu mynstri.

Ritdómurinn birtist í Veru í desember 1996

 

 

Tengt efni