SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir21. júní 2023

„MEÐ HÓFADYN Í HJARTASTAГ. Um Höggstað

TITILLJÓÐ ljóðabókar Gerðar Kristnýjar, Höggstaður frá 2007, prýðir kápubakið og er rammlega kveðið þótt ekki sé rímað. Ljóðstafir og stuðlar mynda stríðan takt og hrynjandi.

Myndir ljóðsins eru tengdar ógn og eyðileggingu: brú og brunnir stöplar, kyndill í krepptri hendi, hér er engum þyrmt. Ljóðin eru þó flest friðsæl, a.m.k. á yfirborðinu, og fjalla um lífið og landið. Sorgin gerir aðför að skáldinu, óvelkominn gestur kemur í heimsókn en í skagfirskum kirkjugarði ríkir sátt við líf og dauða. En sums staðar læðist einhver óskilgreindur uggur að: hafsbotn lætur undan, stráin hópa sig saman, öskur klýfur kyrrðina og skyndilega berst vein í gegnum vængjaþyt. Hefðin er ekki langt undan í ljóðunum, bæði hvað varðar form og efni. Myndmálið er heildstætt, t.d. í hinu ískalda Ættjarðarljóði (5) þar sem sængurföt eru kvíði, drífa og
snjóbreiða. Vetur og myrkur ráða ríkjum og persónugerð á stöku stað, t.d. í Norður (7) og Við vatnið: „Hvítir fyrir hærum / skríða hamrarnir / út úr nóttinni. / Grátt fyrir járnum / ryður frostið veginn …“ (43).

Nótt (13) og Logn (42) lýsa ást sem einkennist af öryggisleysi og innilokun og margræð íronían, sem Gerður Kristný er þekkt fyrir, birtist víða, s.s. í Nótt:


… Ég sekk
um þúsund faðma
án þess að nokkur þeirra
nái á mér taki …

Nokkrar kunnar persónur koma við sögu í listilegum ljóðum, t.d. Egill Skalla-Grímsson, Hallgerður í Laugarnesi og Helgi tattoo. Í ljóðinu Jónas er dulúðug stemning en húmorinn ekki langt undan. Ljóðið hefst í Danmörku og endar í Öxnadal, þjóðskáldið paufast peðfullt upp þrepin sem urðu honum að aldurtila:


Útidyrnar opnast inn í hús
þar sem þoka leikur um þrepin
og tunglskinið strengist milli veggja
Nóttin er þungstíg
í þessu húsi
reikul í spori
en ratar samt heim
Bara að nú verði ekki sungið,
hugsar fólkið í húsinu
og festir aftur blund
Í dögun hrekkur það upp
við hrafna á þaki
þeir teygja sig
eins og tindar upp í himininn
(25)


Titill bókarinnar er margræður líkt og á fyrri ljóðabókum Gerðar Kristnýjar, Ísfrétt (1994) og Launkofi (2000). Á þessari bók er engan höggstað að finna, varla veikan blett, ljóðin eru falleg, yfirveguð og djúp, þau síast inn í hugann og sveima þar eftir að lestri lýkur. En listin tekur sinn toll, skáldið er greinilega sárt eftir þung högg skáldfáksins og í hjartanu dunar hófatak hans.

Áður birt í Mbl 23.11.2007

 

Tengt efni