SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir25. maí 2024

LOKSINS MÁLALOK - Morðið á Ísafold

Dauðadjúp sprunga er fimmta og (kannski) síðasta bókin um Áróru sem rannsakað hefur morð systur sinnar, Ísafoldar, í fjögur ár. Lík systurinnar fannst loksins í hraunsprungu en þar fannst einnig lík sambýlismannsins Björns, sem var grunaður um morðið. Svo nú er rannsóknin komin á upphafsreit og finnst kannski sumum nóg um lopann. 

Áróra er mikill töffari, lyftir lóðum, snýr niður handrukkara og er sérfræðingur í efnahagsbrotum. Hún er fljót að koma auga á peningaþvætti, þegar illa fengnu fé er bætt við uppgjör hvers dags til að búa til hagnað. Hún þrífst á spennu og eltingaleik við háar fjárhæðir sem þvælast um kerfið.

Persónur sögunnar eru viðkunnanlegar flestar og eiga sína sögu. Felix t.d. er áhugaverð persóna sem gaman væri að fylgjast meira með, hann er mislukkaður og leiðitamur og gæti komið á óvart. Samband Áróru og ljúfa lögreglumannsins Daníels er á viðkvæmu stigi en þau bæta hvort annað upp. En sambúð Ísafoldar og Björns var sjúk, hann beitti hana bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi og er algjör skíthæll. Búið er að mola bæði sjálfstraust og siðferði Ísafoldar og brjóta niður vilja hennar algjörlega. Svæsnar eru lýsingarnar á ofbeldinu en alltaf er hún tilbúin í annan hring af misþyrmingum Björns, iðrun hans og yfirbót. Áróra gafst upp á að reyna að bjarga Ísafold ú úr þessu ömurlega sambandi og kennir sér síðan um dauða hennar sem er dæmigert. Við sögu koma svo bæði stórglæpamenn og smásvindlarar, lesbíska parið úr fyrri bókunum og glaðværa dragdrottningin, hælisleitendur í stappi við Útlendingastofnun og undarlegur nágranni - öllu er haldið til haga . Svo er daðrað aðeins við yfirnáttúrulega hluti, s.s. endurfæðingu og líf eftir dauðann, til að krydda söguna sem er ágætlega stíluð og streymir fram með mátulegum spennumolum í lok hvers kafla.  

Titlar bókanna fimm eru samsettir úr áþekkum orðum sem tengir þær þétt saman: DREP- NÁ- BLÓÐ- HEL- DAUÐA- : HRAUN, JÖRÐ, SJÓR, SÓL og SPRUNGA. Eftir langan aðdraganda eru sögulokin býsna hraðsoðin. Hvort lesendum finnst málalokin trúverðug eður ei, að Björn sé virkilega svona heimskur, þá er gott að leitinni sé lokið svo hægt sé að vonast eftir nýrri bók og nýjum málum frá Lilju Sigurðardóttur sem er virtur og vinsæll höfundur og skrifar glimrandi góðar glæpasögur. 

 

 

 

Tengt efni