SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir22. desember 2024

FJÖRLEG EN ENDASLEPP. Um Friðsemd eftir Brynju Hjálmsdóttur

Brynja Hjálmsdóttir, Friðsemd, Benedikt 2024, 213 bls.

Það er margt á seyði í fyrstu skáldsögu Brynju Hjálmsdóttur Friðsemd, svo mikið reyndar að lesandi þarf að hafa sig allan við til að grípa hina mismunandi þræði á lofti og halda athyglinni óskertri. Sagan gerist í framtíðinni þegar áhrif hamfarahlýnunar hafa meðal annars valdið því að yfirborð hafsins hefur hækkað það mikið að stór hluti láglendis á Íslandi er kominn undir sjó. Hafið nær inn að Hveragerði en einmitt í því sjávarplássi á stór hluti atburðarásarinnar sér stað. Þessi þráður setur verkið í flokk framtíðarsagna og vistskáldskapar.

Aðalpersóna bókarinnar, sem heitir Friðsemd, er rúmlega sextugur þýðandi sem stendur á tímamótum í upphafi sögu. Hún hefur í mörg ár starfað við að þýða æsilegar spennusögur með erótísku ívafi eftir vinsæla danska skáldkonu, Fatimu Bergkjær. Í gegnum það starf hefur hún kynnst Fatimu náið, þær hafi verið vinkonur í marga áratugi og Friðsemd þekkir innviði bóka hennar eins og lófann á sér. Að vissu leyti er komið fyrir Friðsemd líkt og ýmsum öðrum þekktum persónum úr heimsbókmenntum – nefna má Don Kíkóta og frú Bovary – hún skynjar tilveruna að miklu leyti í ljósi bókanna og grípur gjarnan til söguþráða þeirra í leit að leiðsögn í þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur. Kannski má segja að hún hafi lesið sér til ógagns, líkt og áðurnefndar bókmenntapersónur. Þetta veldur því að þegar hún fréttir lát Fatimu, sem féll ofan af kletti í hafið við Hveragerði, grunar hana að um morð sé að ræða og ákveður að rannsaka andlátið upp á eigin spýtur og notar hún sér aðferðir úr bókum Fatímu til leiðsagnar í þeirri rannsókn. Kaflar úr reyfurum Fatímu, sem eiga að vera henni leiðsögn, fleyga því meginfrásögnina öðru hvoru, stundum í alllöngu máli og hér bætist því enn ein bókmenntategundin við þær sem áður voru nefndar. Það er reyndar athyglisvert að Friðsemd lítur aðeins til spennuþáttarins í bókum Fatimu, hún tengir ekki við erótísku vídd bókarinnar og er það skýrt með því að hún hafi ekki áhuga á rómantík. Það er reyndar lítil rómantík í kynlífslýsingum bókarinnar en ef til vill hefur höfundi einfaldlega fundist aðalpersóna sín of gömul til að vera að standa í kynlífsbralli.

Í lýsingum á reyfurum Fatímu verður ljóst að höfundur er að leika sér að því gera grín að þessari tegund bókmennta og minnir á hvernig Auður Haralds gerði kostulegt grín að formúlukenndum ástarsögum í skáldsögu sinni Ung, feig, há og ljóshærð sem kom út fyrir tæpum fjórum áratugum. Aðalpersóna bóka Fatímu er grænlensk-ættaður lögfræðingur, þokkagyðjan Simone Pilunnguaq Larsen, eða Advokat Larsen eins og hún er kölluð. Henni er lýst svona:

 

Advokat Larsen vinnur fyrst og fremst sem verjandi en bregður sér í öll hlutverk. Hún er líkt og rannsóknarlögregla, njósnari, verjandi, saksóknari og blaðakona – allt í einum sexý pakka. Hún er löng og íturvaxin, með stór og mjúk brjóst og svart glansandi hár, grásprengt á hárréttum stöðum, sem hún bindur aldrei í greiðslu heldur leyfir að flæða niður fallegar axlirnar. Augu hennar eru djúp og dökk og full af dulmögnuðu innsæi. Hún er alltaf óaðfinnanlega klædd, í sígildum en um leið framsæknum stíl sem rammar inn framúrskarandi vaxtarlagið. Þegar hún gengur inn í herbergi fer það ekki fram hjá nokkrum manni, menn setur hljóða. Satt að segja ekki allkostar ólík Fatimu sjálfri, svona að þessu leyti. (19-20)

 

Aðal andstæðingur Advokat Larsen er uppfinningamaðurinn Jack Jackson, sem er yfirleitt sá sem stendur á bakvið þá glæpi sem hún rannsakar og lýsingin á viðureign þeirra tveggja og söguþræði fyrstu bókarinnar nær yfir fjórar og hálfa síðu í öðrum kafla bókar Brynju. Hægt er að tala um ákveðna James Bond-takta í spennusögum Fatímu, með þeim umsnúningi hefðarinnar að hetjan er kvenkyns.

Líf Friðsemdar hefur fram að andláti Fatimu verið mesta friðsemdarlíf, hún er einhleyp, barnlaus og vinafá, býr á Eskifirði, sinnir vinnunni, fer í sund, les bækur og glímir við kvíða (8). Eina tilbreytingin í þessu friðsemdarlífi er þegar hún talar við Fatimu í síma eða hittir hana í eigin persónu, en Fatima er andstæða hennar í öllu, leitar uppi ævintýri og á fjölda vina, er alltaf súperhress eða „jákvætt hlaðin“ eins og það er skemmtilega orðað.

Í þeim tilgangi að rannsaka andlát Fatimu heldur Friðsemd til Hveragerðis og ræður sig til vinnu í eldhúsi stórfyrirtæksins SELÍS en eigandi þess og forstjóri er stórlaxinn Eldberg Salman Atlason, sem hefur marga fjöruna sopið í viðskiptalífinu. Hann er jarðvísindamaður sem hefur snúið sér að uppfinningum – og minnir þar á aðalandstæðing Advokat Larsen í spennubókum Fatimu og leikur Brynja sér að því að draga upp hliðstæður á milli þeirra tveggja. Í fjórða kafla bókarinnar er löng lýsing á misheppnuðum uppfinningum Eldbergs Salman sem hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjölda fólks en alltaf hefur honum sjálfum tekist að rísa upp að nýju:

 

Hann stóð samt alltaf keikur, hann leit svo á að klúður væri eðlilegur hluti af ferli sem myndi óhjákvæmilega enda með velgengni. Þegar illa fór gekk hann frá borði með höfuðið reigt og mannorðið tiltölulega óflekkað, tilbúinn að snúa sér að næsta verkefni. Menn með persónuleika eins og Eldberg Salman fengu alltaf annað tækifæri (36).

 

Uppfinninga og vísindamaðurinn Eldberg Salman sér tækifæri í afleiðingum hamfarahlýnunar og ætlar sér að tækla vandamálið og „enda á toppnum“ (37). Í fjórða kafla er löng lýsing hans á því hvernig komið er fyrir Íslandi, landfræðilegri forsögu landsins er lýst og hér fær lesandinn innsýn inn í hugmyndir „brjálaða vísindamannsins“ og, já, hér er komin ein bókmenntategundin í viðbót sem höfundur leikur sé að. Eldberg Salman stofnar SELÍS: Samsteypu um eðlisbreytingar á láglendi Íslands sem margir fjárfesta í og meðal annarra Fatima Bergkjær. Það er vegna þeirrar fjárfestingar sem hún er stödd í Hveragerði þegar hún hrapar til bana.

Af því sem hér hefur verið farið yfir má vera ljóst að Brynja Hjálmsdóttir er að leika sér að því að paródera svokallaðar ‚greinabókmenntir‘ og tekst henni víða vel upp í því gríni. Hér hafa verið dregnir upp megindrættir söguþráðarins en lengi mætti halda áfram því, eins og getið var í upphafi, eru þræðir frásagnarinnar margir og liggja í ólíkar áttir. Inn í frásögnina fléttast meðal annars draumar Friðsemdar sem og draumar Eldbergs Salman og fjölbreytilegar persónur stíga inn á sviðið. En í þessum fjölbreytileika liggur einnig megin veikleiki bókarinnar, það er einfaldlega of mikið á seyði í skáldsögu sem ekki telur nema ríflega 200 blaðsíður og margir þræðir hanga í lausu lofti í bókarlok. Frásögnin er hins vegar fjörleg og í henni eru góðir sprettir sem gefa fyrirheit um að þessi höfundur eigi eftir að láta meira að sér kveðja á skáldsagnasviðinu í framtíðinni. Æfingin skapar meistarann.

Ritdómurinn var fluttur í Víðsjá, rás 1, 17. desember 2024

Tengt efni