ÆVISAGA Í LJÓÐUM. Ritdómur um VEÐUR Í ÆÐUM eftir Ragnheiði Lárusdóttur
Ragnheiður Lárusdóttir. Veður í æðum. Bjartur 2024.
Veður í æðum er fjórða ljóðabók Ragnheiðar Lárusdóttur en hún er gefin út í stórri bók ásamt þremur fyrri bókum skáldsins. Fyrsta ljóðabók Ragnheiðar, 1900 og eitthvað (2020), vakti heilmikla athygli enda hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir verkið og var vel að því komin. Tvær aðrar fylgdu í kjölfarið; Glerflísakliður (2021) og Kona / Spendýr (2022), báðar fjarska góðar. Það er nokkuð óvenjulegt að gefa út nokkurs konar „heildarsafn“ höfundar aðeins fjórum árum eftir að frumraunin leit dagsins ljós, og hlýtur að teljast allnokkur viðurkenning í því fólgin. Eðli málsins samkvæmt er óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um allar fjórar bækurnar og raunar má sjá sterka tengingu á milli þeirra allra því saman mynda þær ævisögu ljóðmælanda og því nokkuð „lógískt“ að gefa þær út í einni bók. Ljóð Ragnheiðar eru óbundin og í viðtölum við hana hefur hún ekki leynt því að hún yrkir út frá eigin reynslu, samsvörun á milli ljóðmælanda og höfundar er því augljós.
Langflest ljóð Ragnheiðar eru frásagnir af lífi hennar sjálfrar og hennar nánasta fólki, þótt líka megi finna undantekningar frá því. Hún dregur víða upp feiknasterkar myndir með áhrifamiklu myndmáli sem oftar en ekki sýna líkama konunnar á súrrealískan hátt, bæði að utan og innan. En þær eru líka sláandi natúralískar myndir af stöðu konu sem hefur búið í karlveldissamfélagi áratugum saman. Dæmi um femínískan súrrealisma er ljóðið „Hún og hann“ úr bókinni Kona / Spendýr:
Hún færir honumheita konuhann tekur hnífapörog sker burthöfuðhandleggifótleggieftir stendurbrjóstpíkarassstaðgóður málsverður
Í þessu ljóði og fleirum er auðveldlega hægt að sjá virðingarverða vísun í skáldskap Svövu Jakobsdóttur, sérstaklega smásöguna „Sögu handa börnum“ þar sem börn framkvæma aðgerðir á líkama móður sinnar með stuðningi föðurins.
Auk hins súrrealíska myndmáls er að finna í bókunum fallegar bernskumyndir, án beinna tákna, og á það sérstaklega við um fyrstu ljóðabók Ragnheiðar, 1900 og eitthvað, þar sem lýst er barnslegu sakleysi í sveit í afskekktum firði, þar sem þó leynast hættur á hverju strái, þegar grannt er skoðað.
Í Veður í æðum er Ragnheiður komin langan veg frá bernsku sinni í firðinum fyrir vestan. Það fer ekki milli mála að ljóðmælandi flestra ljóðanna í bókunum fjórum er skáldið sjálft, eins og áður segir. Hún segir frá afar persónulegum, dramatískum og dimmum atburðum; sakleysi bernskunnar, í hættulegri og ógnandi en fagurri náttúrunni, og hættum unglingsáranna, þar sem ógnin stafar frá fullorðnum kennara. Lýst er flutningi suður til höfuðborgarinnar og söknuði eftir heimaslóðum, barneignum sem taka á, sárum skilnaði, hrikalegum veikindum hennar og lífshættu sonar hennar. Í Glerflísakliði er fléttað fallega saman ljóðum um heilabilaða móður Ragnheiðar og óendanlega sorg ljóðamælanda sjálfs eftir skilnað. Hér lýsir hún einnig eigin veikindum. Alltaf er þetta tjáð frá kvenlegu, femínísku sjónarhorni og lesandi fær nána innsýn í líf einnar konu, þar sem dauðatónninn er þrálátt stef. Því er beinlínis lýst í ljóðinu „Far“ í bókinni Kona / Spendýr:
Þegar dauðinn klappar konunni á kollinnsést lófafarið æ síðanþungi þess torveldar konunni líf og starf
Veður í æðum hefur undirtitilinn: flétta handa dóttur, sonum og formæðrum og þar kveður enn við dapurlegan tón, en nú hefur orðið móðir sem hefur misst dóttur sína frá sér í undirheima fíkniefnaneyslu, með öllum þeim skelfingum sem því fylgir. Þetta eru vel gerð og áhrifamikil ljóð sem sýna á víxl örvæntingu og von, sem þó minnkar hratt. Í bókinni eru líka að finna tvö ljóð um formæður, „Í húsi formæðra“ og „Hús formæðra“. Við fyrstu sýn virðast þessi ljóð á skjön við önnur, en þegar betur er að gáð tengjast þau hinum því þar er líka fjallað um konur sem missa frá sér dætur sínar. Einnig eru þarna ljóð sem vísa í fyrri bækur Ragnheiðar en þau gætu vel verið um áfallið sem skilnaðurinn olli.
Í heildina er áhugavert að sjá hvernig skáldið notar veðurmyndir til þess að túlka tilfinningar og þannig skilur Veður í æðum sig frá fyrri ljóðabókum. Þriðja ljóðið er titilljóð bókarinnar:
þegar bæði sól og tungl eru á loftisendir kvöldsólin mér geislaum æðar mérrennur eldheittappelsínurautt sólarblóðmávur flýgurmilli tveggja hnattahandan við hafblámannmótar fyrir útlínum jökuls
Ljóðmyndin er afar falleg náttúrulýsing en þegar betur er að gáð og með heild ljóðanna í huga er því lýst þarna að ekki er allt sem sýnist. Veðrið í æðunum getur vísað hvoru tveggja til tilfinninga ljóðmælanda, sem og til eitursins í æðum dótturinnar. Annað ljóð bókarinnar hefur yfirskriftina „Móðir“ og slær tón fyrir meginstefið; leið dótturinnar sem liggur frá saklausri bernsku til fullorðinsára í klóm eitursins:
hefur borið og nært líf
í líkama sínum
fætt af sér barn
gætt þess eins og eigin lífsbarn sem síðar
leitast við að spilla líkama sínum
og sál
Lífshættan og angistin sem er aðalstefið í bókinni kemur einnig afar vel fram í ljóðinu „Dóttir“:
flýr lífið
í brjósti sérvelur bjargsyllu
sem svefnstað
stýfir eitrið
úr hnefa
vakir sofandisefur vakandi
Það er í raun sama hvar borið er niður í þessari útgáfu allra ljóðabóka Ragnheiðar Lárusdóttur; ljóðin eru mynduð af stuttum, sterkum og skýrum myndum sem sýna miklar tilfinningar, oft táknaðar með áhrifamiklum náttúrulýsingum. En einnig eru þarna ljóð sem eru stakar myndir sem lýsa mætti sem augnabliksmyndum af náttúru og umhverfi. En það sem helst lifir eftir er að Ragnheiður sýnir okkur inn í persónulega sögu sína sem er svo átakanleg að við verðum djúpt snortin.
Það hefur verið afar ánægjulegt að fylgjast með afköstum Ragnheiðar Lárusdóttur eftir að hún byrjaði að gefa ljóðin sín út fyrir aðeins fjórum árum og fagnaðarefni að fá þessa eigulegu bók í hendur með ljóðum sem hægt er að lesa aftur og aftur.
Hrund Ólafsdóttir
Ritdómurinn birtist í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði 2024.