SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn13. janúar 2025

GRALLARAGLEÐI. Um AÐLÖGUN eftir Þórdísi Gísladóttur

Þórdís Gísladóttir. Aðlögun. Benedikt bókaútgáfa 2024.

 

Aðlögun er sjötta ljóðabók Þórdísar Gísladóttur en hún hefur einnig gefið út skáldsögu, smásagnasafn og barnabækur. Undanfarin ár hefur Þórdís verið afkastamikill þýðandi eftirtektarverðra sænskra og danskra skáldsagna. Í Aðlögun eru á ferðinni ljóð sem taka sjálf sig ekki of hátíðlega heldur er stutt í þann húmor sem hefur áður komið fram í ljóðabókum Þórdísar. Í Aðlögun eru 20 nafngreind ljóð en að auki byrjar bókin á titillausu ljóði þar sem lýst er hvernig ljóðmælanda er fyrirmunað að muna afmælisdaga með tilheyrandi möguleika á móðgunum. Upphaflínurnar gefa tóninn: „Ég er gallaða manneskjan // sem man sjaldan tölur // og þar af leiðandi ekki afmælisdaga.“ Hin gallaða manneskja dúkkar víða upp í bókinni með tilheyrandi sjálfsásökunum en það glittir líka í umburðarlyndi. Bókin er brotin upp með fjórum svarthvítum myndum sem tengjast ljóðunum mismikið og ekki hægt að sjá að þær hafi einhverju við ljóðin að bæta. Flest ljóðin ná yfir nokkrar blaðsíður. Það er lítið um náttúrulýsingar en þeim mun meira um lýsingar á persónum með stórar og miklar skoðanir og kafað ofan í hversdagsflækjur lífsins.

 

Í ljóðunum má skynja andúð á viðteknum venjum nútímamannsins og því hvernig við öpum frasana upp hvert eftir öðru. Á lymskufullan og háðslegan hátt er siglt á móti straumnum, á móti þeim sem þykjast hafa stjórn á lífi sínu og röð og reglu á hlutunum. Hér er lofsöngur til  draslarans og óreiðunnar og alls þess sem fylgir lífinu óhjákvæmilega. Hin hversdagslega óreiða kemur fram í ljóðinu „Sambúð“ en líka sú staðreynd að hjúskaparvandi er alltaf til staðar og breytist ekki. Hér sjáum við fallegt umburðarlyndi makans, sem hleypur snemma morguns.

 

Kaffiangan liðast upp stigann og inn til mín, en ég get ekki
opnað augun. Einhver annar hlaupandi maður yrði kannski
brjálaður yfir þessum nætursiðum. Og líka yfir fötum sem var
hent í gólfið, opnum skápum, hálfdrukknum kaffibollum og
vinningslausum happaþrennum á víð og dreif.

 

Í ljóðinu „Tengsl“ er frumleg upptalning á langtímasambandi ljóðmælanda við hversdagslega hluti en líka við leikstjóra, höfunda, skáldsagnapersónur og fleira. Ljóðið „Öldrun“ hefst á þessum orðum: „Fólk sem þráir tilbreytingu ætti að kunna að meta að eldast. Það gerist sjálfkrafa og án allrar áreynslu“. Þarna er á dásamlegan hátt bent á leiðir til að fagna þessu óhjákvæmilega fyrirbæri sem öldrunin er og þannig snúið upp á þau skilaboð sem dynja á okkur úr öllum áttum um að öldrun sé óæskileg og eitthvað sem þurfi að berjast gegn. Eitthvað svipað er uppi á teningnum í ljóðinu „Ógeðsauðmagnið“ þar sem yfirborðskennd fullkomnun og hreinlæti fá á baukinn: „En líkamsvessar geta verið lokkandi. //  Ógeðið hefur aðdráttarafl. // Í þúsundir ára hafa fílapenslar verið kreistir.“ Í beinu framhaldi fáum við ljóðið „Meðalmennska“ þar sem hugmyndinni um að allir vilji vera framúrskarandi sigurvegarar er gefið langt nef og meðalmennskan lofsungin. Snúið er upp á þekkt spakmæli í ljóðinu „Spakmæli fyrir nýja tíma“ þar sem hvert og eitt spakmæli myndi sóma sér vel á vegg í óreiðukenndu eldhúsi, gott dæmi eru þessi tvö: „Bæling er líka sjálfsvinna. // Sobril er billegra en sálgreining.“

Það er eitthvað við afstöðuna og tóninn í ljóðum Þórdísar sem minnir á skopmyndir Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur (Lóaboratoríum) og sum ljóðin gætu hreinlega verið textaskreytingar við þær myndir (eða öfugt). Oft er brugðið upp grátbroslegum myndum af manneskjum sem flestar virðast tilheyra kvenkyni og jafnvel líka menntaðri, efri millistétt. Yfirlýsingaglaðar manneskjur sem lýsa því yfir að þær hafi engar skoðanir á hlutunum eins og ljóðmælandinn segir í löngu og marglaga ljóði sem heitir „Þróunarfræði“:

 

Í heiminum eru tvær tegundir;
fólk sem fer í bílalúguna á Aktu taktu
og fólk með snefil af sjálfsvirðingu.
 
Ég hef enga skoðun á þessu.
Þetta er ekki mitt vandamál.
Við skulum ekki brjóta múrana.

 

Háðið er ekki ásakandi og beinist jafn mikið að ljóðmælanda og öðrum. Því verður ekki neitað að stundum læðist sá grunur (og ótti) að manni að maður sé rétt í þann mund að afhjúpa blinduna á eigin plebbaskap sem gæti hæglega orðið næsta myndefni Lóu Hlínar eða efni í ljóð eftir Þórdísi Gísladóttur. Verandi komplexeruð miðaldra kennslukona sem klæðist stundum mussulegum kjólum þá er hættan raunveruleg. Kaldhæðni getur þó skapað fjarlægð og varnarmúr og margir eiga í flóknu sambandi við kaldhæðnina og þar með eru ljóðin eflaust ekki allra. En það sem gerir mörg af ljóðunum í bókinni skemmtileg er einhver tegund af lúmskri lífsgleði eða prakkaraskap, sem mætti kalla grallaragleði.

Sigurlín Bjarney Gísladóttir

 

Ritdómurinn birtist í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði 2024

 

 

Tengt efni