ÁFÖLL FROSIN FÖST Í MINNI MÍNU - Um Hirðfíflið
.jpg)
Anna Ragna Fossberg (f. 1966) hefur sent frá sér bókina Hirðfíflið sem hún gefur út sjálf. Áður hefur hún sent frá sér skáldsöguna Auðnu út árið 2018 sem er dramatísk fjölskyldusaga og ástarsöguna Hugfanginn.
Aðalsögupersóna bókarinnar, Inga Stella, elst upp við alkóhólisma móður og kynferðisofbeldi af hendi föður síns. Í bókinni ávarpar hún foreldra sína til skiptis, rifjar upp atvik úr bernskunni og reynir að átta sig á því hvernig þetta allt gat viðgengist.
Faðir hennar, sem ekki er nafngreindur í bókinni, er virtur maður í þjóðfélaginu sem hóf sig upp úr fátækt og bæklun til mennta og metorða. Yngsta barnið og pabbastelpan gerir hvað sem er til að fá athygli hans. Ofbeldið varð sífellt grófara en þögul hróp hennar um hjálp heyrast ekki. „Ég vildi óska að þú hefðir stigið inn og bjargað mér, náð mér frá þessum hættulega manni“ (126) segir Inga Stella í bókinni og ávarpar móður sína. Löngu síðar áttar hún sig á að móðirin var á valdi fíknar sinnar, veik og valdalaus hafði hún hvorki bolmagn né kjark til að taka dóttur sína úr þessum aðstæðum, þótt hún vissi hvað gekk á.
"Þegar heim kemur vaknar hirðfíflið úr dvala“ segir á einum stað í sögunni (135). Hirðfífl þarf konung sem pantar sýninguna, hlær og klappar. Hvort er hirðfíflið í sögunni, pabbinn eða barnið? Á viðbjóðslegan hátt stillir faðirinn dæminu upp eins og dóttirin vilji ofbeldið. En hún er bara barn að reyna að lifa af. „Í mínum augum er þetta lífsnauðsynlegt leikrit sem gengur út á að þjóna þér, gleðja þig svo allt verði gott“ (136).
Afleiðingar ofbeldisins fylgja Ingu Stellu allt til þessa dags; sjálfshatur, áfallastreita, skömm og reiði, ofsakvíði og innilokunarkennd. Með bókarskrifunum varpar hún ábyrgðinni á hegðun föðurins af sér og skilar henni þangað sem hún á heima. Batinn tekur mörg ár með mikilli sjálfsvinnu og samkenndarmiðaðri nálgun sem byggir á núvitund og góðvild í eigin garð sem er forsenda þess að fyrirgefa sjálfum sér og öðrum. Engum blöðum er um það að fletta að Inga Stella er Anna Ragna sjálf.
Frásögnin er öll í nútíð sem færir atburðina nær lesandanum. Raunsæið er allsráðandi í lýsingum á líkömum, skömm, ofbeldi og blæðingum og bókinni fylgir kort af íbúðinni þar sem fjölskyldan bjó.
Að vera beitt kynferðisofbeldi í æsku er áfall sem hefur varanleg og djúpstæð áhrif á þroska og mótun barns. Hirðfíflið er saga af hrikalegu ofbeldi sem var þagað um og tók áratugi að vinna úr. Sannleiksgildi frásagna þolenda kynferðisofbeldis er oft dregið í efa og umdeilt hvort eigi að segja frá. En fyrir áhrif frá #metoo- og #höfumhátt-umræðu stíga æ fleiri fram og segja sögu sína. Það er hvorki auðvelt né sársaukalaust að raða saman brotum og erfiðum minningum í eina heild eins og segir á titilblaði bókarinnar, en hver einasta saga meitlar örlitla sprungu í þagnarhjúpinn:
Þótt áföll hafi frosið föst í minni mínu
hefur þurft mikla túlkun
til að setja þau í samhengi og
koma sögunni í heild sinni á blað.


