SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir19. nóvember 2025

DALALÍF HIÐ NÝJA - Um Sjáandann

Ester Hilmarsdóttir er fædd í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu árið1985. Hún kemur sterk inn i bókmenntirnar með íslenskt sveitalíf og gullaldarmálfar enda á heimavelli.

Fyrsta bók hennar, Fegurðin í flæðinu, var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2023. Hún fjallar um blæðingar, allt frá fyrsta dropa til hins síðasta. Allt frá eftirvæntingunni sem því fylgir að byrja á fyrstu blæðingum til ergelsis, bakverkja og magakrampa. Ekkert er dregið undan. Farið er inn á jafnrétti, skömm, umhverfismál og fegurðina sem tengist þessu sérstaka ferli líkamans með alvöru og húmor í bland, segir í lýsingu á bókinni. Teikningar Esterar prýða bókina, þær eru dregnar svörtum línum með rauðum túrblettum.

Nú sendir Ester frá sér skáldsöguna Sjáandi. Sagan gerist á einu sumri í fögrum dal á tímum sveitasíma og förukvenna. Mögulega um 1970 en um þessar mundir eru rúm fimmtíu ár frá því að stórt atvik átti sér stað í sögu íslenskrar umhverfisverndar sem vísað er til í bókinni (Laxárdeilan). Á bænum Molastöðum er allt með kyrrum kjörum þar til spákonan Gyða mætir á svæðið með galdra og skyggnigáfu og er alls ekki öll þar sem hún er séð. 

Vikapilturinn Dofri er 14 ára mútugrey og það er í gegnum hann sem fylgst er með kostulegum persónunum og öllu því sem fram fer á bæjunum í sveitinni. Innan um hversdagslega atburði eins og bakstur og brugg, girðingarvinnu, sveitaball og heyskap, verður heimasæta sjúklega ástfangin af giftum manni, laumuhommar finna hvor annan, trans fær nýtt líf, bændur standa sameinaðir gegn kapítalisma og virkjunarframkvæmdum og buguð og gaslýst átta barna móðir grípur til örþrifaráða. Svo það er nóg um að vera í sveitinni. Það er eitthvað við efni og efnistök sem leiðir hugann til Dalalífs Guðrúnar frá Lundi sem er nú aldeilis ekki leitt að vera líkt við.

Frá öllu fjörinu er sagt á kjarnyrtu máli af einlægri frásagnargleði með líflegum samtölum að ógleymdri frábærri persónusköpun og miklum húmor. Þetta er kvennasaga, það eru konur sem hafa orðið lengst af og þær drífa söguna áfram. 

Víða eru kostulegir sprettir í sögunni sem gleðja og kæta. Það er óneitanlega gaman að lesa t.d. skáldlega málsgrein eins og þessa: „Hún hafði starað í eymd inn í fataskápinn sinn fyrr um daginn á morknar og lúnar kjóldruslur sem héngu uppi á armæðunni einni saman. Þar voru teygð hnappagöt, brotnar tölur, snjáðir olnbogar, upplituð efni og gapandi saumar af ofnotkun og umhyggjuleysi síðustu ára. .“  (219). 

Grípum niður í söguna á góðum stað:

Þar kom að því að eiginkona gifta mannsins kæmist að hliðarsporum bónda síns. Kvöld eitt í seinni hluta júlímánaðar var barið látlaust að dyrum á Molastöðum laust fyrir miðnætti. Konurnar voru komnar framí forstofu og reyrðu að sér náttsloppana þegar hurðinni var hrundið upp með látum. Úti var tekið að rökkva og það tók Krúsu ofurlitla stund að sjá hver var mætt. Gyða hafði hinsvegar fengið hvísl úr handanheimi um að von væri á fjandsamlegri heimsókn og var búin að vera sem hengd upp á þráð, kyrjandi bænir öllum til verndar. Gerður hafði gleymt gleraugunum á náttborðinu í öllum æsingnum og rýndi sig rauðeygða við að sjá hvaða gest bar svo frekjulega að garði svona síðla kvölds.

Stuttar krullurnar stóðu úfnar út í loftið og glitruðu af silfri tunglsins eins og snákar sjálfrar Medúsu. Málmlitur bjarmi næturinnar bætti heldur á ónot þeirrar svipmyndar sem fyrir þeim stóð, silfurslegin, í dyragættinni. Þar var Bergfríður á Brekku mætt og hún var ekki komin til að þiggja kaffi og með því. Hún var komin til að hefna fyrir hórdómsbrot bónda síns. Fölblá augu frúarinnar voru samankipruð af bræði. Hérna stóð hún, sjálf ísdrottningin, rafmögnuð af tunglskini og heift, og sendi sínar ísnálar í átt til Krúsu. Krúsa gekk aftur á bak sem í leiðslu inn í forstofuna, skelfingu lostin., í tilraun til að komast í burtu frá þessari kviðmágkonu sinni. Breiður afturendinn staðnæmdist við símaborðið og ruddi símanum, ásamt tveimur postulínsstyttum, niður á gólf svo undir tók í forstofunni. Skellurinn virkaði eins og byssuhvellur við rásmark og við hann æddi Bergfríður af stað í átt til Krúsu með hvítkreppta hnefana reidda til lofts. Krúsa stóð sem negld við vegginn, líkt og dýr starir í bílljós sem færast nær á ógnarhraða og getur sig hvergi hrært. Bergfríður kastaði sér á Krúsu. Hún reif og tætti í náttkjólinn, barði og sló í andlit og bringu, klóraði og kleip í handleggi, og rykkti í hár meðan hún lét flaum fúkyrða ganga yfir hana.

(...)

Bergfríður dró djúpt andann og það sást í viprunum sem fóru um andlit hennar að hún mátti taka á honum stóra sínum til að sýna stillingu. Hún strauk yfir rifna blússuna og renndi báðum höndum um hár sér eins og til að reyna að stilla til friðar í því óglæsilega umróti sem hafði farið um höfuð hennar. Því þótt hún hefði haft yfirhöndina í slagsmálunum við heimasætuna, þá hafði Krúsu samt tekist að grípa handfylli af hrjúfum krullum frúarinnar og rífa af svo eftir sat þumlungslangur blettur þar sem skein í skallann. Krúsa lá enn stjörf á gólfinu og hélt sem fastast um hárvöndulinn. Gerður og Gyða þurftu að hjálpa stúlkunni á fætur og spenna upp kreppta lófa hennar af afli til að losa um hárflyksurnar sem svifu eymdarlega niður á forstofugólfið (187-188).

Sjáandinn er fínasta skemmtilesning um ástina og sambandið við náttúruna, um fjölbreytileika mannlífsins og fegurðina í berjunum og stráunum og um niðinn í ánni sem liðast um dalinn, alveg frjáls.

Tengt efni