GLÆPIR, BRESTIR OG DULDAR ÞRÁR - Um Feluleiki
Út er komin spennusagan Feluleikir eftir Lilju Magnúsdóttur. Hún gefur bókina út sjálf undir merkjum bókaútgáfu sem heitir BRANA. Bókin er ætluð lesendum á öllum aldri.
Aðalpersónan Arna er að skrifa handrit um Skaftárelda fyrir kvikmyndagerðarmanninn og elskhugann Baldur hinn fríða sem hana grunar sífellt að eigi vingott við aðrar konur. Í ofanálag á hún flókna fjölskyldu þar sem erfið mál hafa í gegnum tíðina verið þögguð niður. Sögur og sýnir hafa ávallt fylgt Örnu í lífinu og hún á nokkur samtöl við séra Jón Steingrímsson eldprest og huldufólk. En þegar Baldur er handtekinn og aðstoðarkona hans liggur í dái, þarf Arna að láta til sín taka og koma málum á hreint.
Sagan gerist haustið 2006, þ.e. fyrir daga snjallsímans svo persónurnar þurfa að bjarga sér upp á eigin spýtur í alls konar nauðum. Og skreppa milli landshluta, það er nú minnsta mál.
Arna er skemmtileg persóna, hlaðin orku og sköpunarkrafti, framtakssöm og sjálfstæð kona. En það þvælist fyrir henni að vita ekki almennilega hvar hún hefur Baldur og hvort hún sé verðug ástar hans. Lífið í sveit og borg er ólíkt og báðir kostir toga í Örnu. Flestar persónurnar hafa sitthvað að fela, s.s. gamla glæpi, ýmsa bresti og duldar þrár. Samtölin eru lipur og lífleg og höfundur gefur sér góðan tíma til að segja söguna og sinna persónum sínum.
Um aðrar bækur Lilju:
Lilja Magnúsdóttir hlaut glæpasagnaverðlaunin Gaddakylfuna fyrir smásöguna Svikarann árið 2008.
Árið 2018 kom út eftir hana skáldsagan Svikarinn sem er úrvinnsla og framhald smásögunnar. Bókin kom út hjá Storytel og var þar tilnefnd til skáldsagnaverðlauna. Sagan fjallar um unga konu sem missir allt og tekst á við að byggja líf sitt upp að nýju.
Smásagnasafnið Gaddavír og Gotterí kom út árið 2022. Sögurnar segja frá uppvexti barna í íslenskri sveit á tímum sveitasímans og svarthvíta sjónvarpsins þar sem ævintýri hversdagsins snúast um búskapinn, kindur og hesta.
Friðarsafnið kom út árið 2023. Sagan fjallar um mann sem er á flótta á Íslandi og unga konu sem hefur stofnað friðarsafn en það breytist óvænt í glæpavettvang.


