„LÍFIÐ LÆTUR EKKI ALLTAF AÐ STJÓRN“ – VIÐTAL VIÐ LILJU MAGNÚSDÓTTUR
Lilja Magnúsdóttir (f. 1963) er rithöfundur og íslenskukennari og hefur skrifað fjórar bækur: Svikarinn 2018, barnabókina Gaddavír og gotterí 2022, Friðarsafnið 2023 og Feluleikir 2025. Steinunn Inga náði Lilju í spjall þar sem hún var önnum kafin við að kynna nýju bókina sína sem hún gefur út sjálf, Feluleiki.
- - -
Þú hefur gefið út hjá bókaforlagi en síðustu tvær bækurnar gafstu út á á eigin vegum. Þú stofnaðir bókaútgáfu, af hverju? Eru það mikil umsvif? Ertu að gefa út fleiri höfunda?
Ég tók meistaranám í Háskóla Íslands í ritstjórn og útgáfu. Ég var í starfsnámi í nokkrar vikur í Sölku þar sem Hildur Hermóðsdóttir kenndi mér mjög margt. Ég fékk að koma að öllu ferlinu. Ég stofnaði litla útgáfu utan um mínar bækur en hef ekki gefið út aðra höfunda ennþá. Fyrst gaf ég út smásögur um börn sem eru að alast upp í sveit um 1970 og eru eiginlega um okkur systkinin. Það er eins og við höfum verið börn fyrir hundrað árum, ein að leika okkur í sveitinni og lífið snérist um hesta, kindur og hænur og skemmtiferðir til ömmu og afa. Þessa bók vildi ég gera fyrir mig og mitt fólk en svo seldist hún prýðilega og selst enn og þar með komst ég upp á lagið með hvernig ætti að gera þetta.
Hver er helsti munurinn á að vera einyrki eða hjá forlagi?
Það er dreifingin og markaðssetningin sem er erfiðust. Það er ekki auðvelt að gala á torgum alla daga og reyna að vekja athygli á eigin bók og hvetja alla sem maður hittir til að kaupa hana. Vinirnir eru farnir að láta sig hverfa ef þeir sjá mig með bóksöluglampann í augunum.
Hvernig var að leggja frá sér fast starf eins og þú gerðir og kasta sér út í skapandi óvissu? Er frelsið mikilvægt? Sérðu eftir einhverju?
Það var alltaf draumurinn að skrifa og ég var lengi búin að vinna að því með mínum manni að greiða niður skuldir og svo kom að því að ég gat tekið stökkið. Ég myndi gera þetta aftur. Það er svo frábært að geta látið drauminn rætast og mér finnst skemmtilegasti hlutinn af ferlinu að sitja ein við tölvuna með hóp af fólki í huganum og ákveða örlög þeirra.
Hvernig er vinnulag þitt? Ertu morgunhani eða náttugla? Hvað er kona lengi að skrifa 350 bls spennusögu eins og þína nýjustu, Feluleiki?
Ég get hent mér niður og skrifað hvar og hvenær sem er. Ég er miðjubarn í sex systkina hópi og var á heimavistarskólum í tíu ár, þannig að ég var sjaldan í næði og stundum finnst mér gott að einbeita mér á kaffihúsi þar sem er erill og hávaði.
Mér finnst best ef ég næ að skrifa fram til tvö, fara svo út og hreyfa mig og gera það sem þarf að gera. Feluleikina skrifaði ég líka eftir níu á kvöldin og þá rankaði ég stundum við mér um miðnætti og margt hafði gerst í sögunni sem ég vissi ekki að ætti eftir að gerast.
Það tók mig um tvö ár að skrifa Feluleiki en ég var að vinna ýmislegt með. Ég kenni íslensku, sé um vefsíður og svo er ég stundum að mála innanhúss og utan til að hvíla hugann og vinna með höndunum. Ég leiðsegi líka stundum fólki um Klaustur og nágrenni. Ég hef safnað miklu efni á vefinn eldsveitir.is sem fjallar um sögu, menningu og náttúru í sveitunum í kringum Kirkjubæjarklaustur. Ég er alltaf aðeins að bæta við og lagfæra þann vef og vinna með fólki sem hefur áhuga á þessum frásögnum.
Í Friðarsafninu frá 2023 er varpað fram siðferðislegum spurningum um ástandið í heiminum og það er alveg skýrt hver afstaða þín er. Tónninn er sleginn strax í upphafi sögunnar: „Hvað gerir sá sem er bannað að bjarga sér?“ (7). Hefur þú fleira að segja um þetta? Væri hægt að setja upp Friðarsafn í alvörunni?
Það væri virkilega þörf á að setja upp Friðarsöfn sem víðast í heiminum. Og þörfin eykst nú þegar það er eðlilegt að tala niður fólk bara vegna þess að það er ekki af „réttu“ þjóðerni eða með „rétta“ kynhneigð. Ömmur og afar skrifa svona í kommentum og virðast ekki skilja að ef við tölum niður einn hóp getur það orðið þinn hópur á morgun sem er úthrópaður. Ég hélt þegar ég skrifaði Friðarsafnið að fólk almennt væri sammála um að við verðum að vinna saman í heiminum. Það kom heimsfaraldur og flestir viðurkenndu að það þyrfti samstöðu til að takast á við vandann. Mér finnst jafn augljóst að við verðum að takast á við önnur vandamál sem ein heild. Við erum gestir og hótel okkar er jörðin segir í góðu ljóði. Mér finnst Evrópubúar tala eins og þeir séu málsvarar friðar og mannréttinda en þar hafa þó geisað stríð; báðar heimstyrjaldirnar og hræðilegt stríð á Balkanskaganum. Ég trúði ekki að það myndi gerast að Evrópuríki réðist á annað ríki í Evrópu, enn einu sinni, en það gerðist og við sjáum ekki fyrir endann á því stríði. Nýlendustefna og yfirgangur Evrópuríkja hefur líka skaðað mörg önnur ríki og brottrekstur Gyðinga frá Evrópu var vond ákvörðun og illa ígrunduð og veldur átökum á öðrum stað í heiminum í dag. Við verðum að vanda ákvarðanir okkar. Við getum ekki vísað vandamálum til næstu kynslóða.
Við verðum að standa með fólki sem missir heimili sín hvar sem er í heiminum, hvort sem það er vegna ófriðar eða náttúruhamfara. Það er ekki ásættanlegt að ætla að búa til sérstök svæði til að „geyma“ fólk sem flýr heimili sín. Hugsið ykkur líðan fólks sem lendir í svona endalausri bið? Það á ekki að vera möguleiki að vera ólöglegur í heiminum. Landamæri, dvalarleyfi og ríkisborgararéttur eru uppfinning manna og við getum líka fundið lausnir á því að fólki fái tækifæri á öðrum stað ef þeirra heimkynni verða óbyggileg eða hættuleg. Ég held að ríki sem bjóða fólk velkomið eigi eftir að verða sterkari en þau sem skella öllu í lás og loka sig af. Íslendingar eru þjóða líklegastir til að verða flóttamenn og á minni örstuttu ævi hafa um átta þúsund Íslendingar misst heimili sín og orðið að treysta á að geta komið sér fyrir á öðrum stað, tímabundið eða til langframa.
Í Feluleikjum eru greinileg tengsl við söguna og náttúruna á Suðausturlandi, ertu þaðan? Skipta staðhættir máli í verkum þínum? Eða náttúran?
Ég hef búið á Kirkjubæjarklaustri í rúm þrjátíu ár og er orðin dálítið skaftfellsk en er Borgfirðingur að uppruna. Þessi saga tengist svæðinu frá Skógum, austur í Öræfi og svo Austurlandinu en svo gerist hún líka fyrir sunnan eins og sagt er fyrir austan. Mér finnast sögur og sérkenni þessara svæða skemmtileg en það var ekkert markmið að segja frá staðháttum. Það er bara þannig að sumar persónur bókarinnar eru grúskarar af guðs náð og segja sögur, hafa ferðast mikið og þekkja landið mjög vel.
Í bókinni eru margir feluleikir, allir hafa eitthvað að fela. Frásagnargleðin er mikil, það er eins og þú viljir helst ekki skilja við persónurnar. Hafa þær fylgt þér lengi? Hvernig komu þær til þín?
Ég get alls ekki svarað því hvaðan þetta fólk kom en ég hafði mjög gaman af að vera með þeim og skrifa sögu þeirra. Sakna þeirra svolítið eftir að bókin kom út.
Hvaðan færðu innblástur, hvaðan koma hugmyndirnar þínar?
Ég hef hlustað á mömmu og vinkonur hennar, systur og frænkur spjalla saman frá því ég man eftir mér og þær voru alltaf að spá í fólk, líðan þess, samskipti og örlög. Svo hef ég haft gaman af að kynnast gömlu fólki og hef notið þess að hlusta á það segja frá. Ég held að þetta fari bara allt inn í höfuðið, ásamt öllu því sem maður les eða horfir á. Hugmyndirnar koma svo upp úr þessum haug ef ég sest niður við tölvuna. Ég get ekki skýrt þetta nánar.
Setur þú upp plan í excel eða skrifar þú í flæði?
Ég skrifa í flæði fyrst en svo þarf ég að taka mér tak og skipuleggja efnið. Þá þarf að gæta þess að gleyma ekki smáatriði sem er í fyrsta kafla og tengist því sem gerist í fimmtánda kafla. Þarna hjálpar góður ritstjóri mjög mikið. Vinnan við að lesa yfir og lagfæra í lokin getur verið erfið. Þá dugir ekki að kasta til höndunum og einhver sem er samkynhneigður, brúneygur strákur í byrjun er orðinn gagnkynhneigð bláeyg stelpa um miðja bók!
Aðalpersónan Arna er skemmtileg persóna, með bullandi athyglisbrest og finnst gott að fá sér í glas. Hún er að skrifa kvikmyndahandrit en bókin þín gæti sjálf verið efni í góða kvikmynd eða þáttaseríu. Arna er að kafa ofan í sögu Skaftárelda og sjálfur Jón Steingrímsson horfir yfir öxlina á henni. Hvernig kom það til að hafa dauðan karl á stjái á sviðinu?
Það er gaman að heyra að þér þyki Arna skemmtileg. Gamli karlinn er mjög eðlileg afleiðing af því að Arna er alltaf að grúska í einhverju gömlu og hún er farin að þekkja fólkið svo vel að það lifnar við. Ég hef lesið mikið um Skaftáreldana og finnst mjög eðlilegt að séra Jón vilji fylgjast með hvernig sagt er frá honum og hans lífi. Hann skildi eftir sig ævisögu til að réttlæta sínar ákvarðanir í lífinu og mér finnst mjög líklegt að hann myndi hafa skoðun á kvikmynd sem fjallaði um hvernig hann brást við í þessum hryllilegu náttúruhamförum.
Bækur þínar eru spennusögur, lipurlega skrifaðar og taka óvænta stefnu. Eru þær til afþreyingar, skemmtiefni? Telur þú þig með spennusagnahöfundum eða ert þú á annarri vegferð? Einhver boðskapur sem þú vilt koma til skila?
Já, ég gæti tekið undir að ég skrifi spennusögur og þar eru samskipti fólks stór hluti spennunnar. Mér finnst skemmtilegt að tvinna saman örlög fólks og sýna hvernig líf okkar tengist alltaf öðrum og ákvarðanir okkar hafa áhrif. Varðandi boðskapinn þá er ekki meðvitaður boðskapur annar en sá að lífið lætur ekki alltaf að stjórn. Það er ekki alltaf val hvernig lífið fer. Við ættum því öll að hlusta á sögu fólks, ekki dæma, reyna heldur að skilja hvert annað. Flestir eru að reyna að gera sitt besta en það getur bara ýmislegt komið í veg fyrir það eins og við fáum að vita þegar feðginin Arna og Arngrímur tala saman og sumir hafa lítið val, eins og Guðmundur sem þó reynir alltaf að gera sitt besta. Ég var spurð af lesanda sem las káputextann hvort það væri gerendameðvirkni í bókinni! Fólk verður að leita að því sjálft.
Áttu þér fyrirmyndir í bókmenntaheiminum? Einhver sem þú vilt líkjast eða forðast að líkjast?
Þegar ég byrjaði á Feluleikjunum hugsaði ég bara um að ég ætlaði skrifa bók sem mig langaði að lesa. Ég veit ekki með fyrirmyndir. Ég hef alltaf lesið mjög mikið og þetta er dálítið í einum graut. Mér hefur þótt gaman að lesa bækur Kristínar Mörju eins og Mávahlátur, Hús úr húsi og bækurnar um Karitas. Svo get ég nefnt bækur eins Skugga-Baldur og Mánastein eftir Sjón þar sem sagan grípur mann algjörlega. Kaldaljós Vigdísar Grímsdóttur heillaði mig á sínum tíma eins og flest sem hún hefur skrifað. Bækur Einars Kárasonar finnast mér skemmtilegar og persónugalleríið óborganlegt hvort sem er í Eyjabókunum eða bókunum sem gerast á Sturlungaöldinni. Ég hef lesið flest eftir Steinunni Sigurðardóttir og varð algjörlega brjáluð út í þessa snobbuðu Öldu í Tímaþjófinum en hef sæst við hana og skil að það að búa til persónur sem gera mann foxillan er mikil snilld. Svo kenndi ég Íslandsklukkuna eftir Halldór Laxnes í íslensku í menntaskóla og það var merkilegt að lesa sömu bókina önn eftir önn og finna alltaf eitthvað nýtt sem átti fullkomlega við nútímann, áratugum eftir að bókin var skrifuð. Þar er nákvæm lýsing á varnarleysi áfengissjúklings sem svo veldur öllum skaða í kringum sig, mest konunni sem hann elskar. En ég held að það hafi líka haft áhrif á mig að lesa bækur Isabel Allende, Gabriel Garcia Marques og fleiri suður-amerískar bækur sem komu út á íslensku þegar ég var unglingur og voru fullar af furðusögum og frásagnargleði.
Ertu komin með hugmynd að næsta verki / næstu verkum?
Ég er núna upptekin við að kynna Feluleikina, dreifa og selja svo ég hef ekki haft tíma til að hugsa um hvað verður næst. En það er samt ein hugmynd að banka og kannski hleypi ég henni inn. Í maí 2011 skall á öskugos og það var svartamyrkur – algjört myrkur í maí - og askan lagðist yfir allt. Þá óttuðumst við að þurfa að yfirgefa það sem við vorum búin að byggja upp og finna okkur búsetu á öðrum stað. Þetta var furðuleg upplifun. Gæti verið gaman að nota þetta sem sögusvið.
Þér liggur margt á hjarta, ss um frið í heiminum, flóttamannavandann, virkjanir, margs konar ofbeldi, transfólk ofl, vilt þú gera heiminn að betri stað með bókum þínum?
Það væri dálítið vandræðalegt að segja að ég vilji ekki leggja eitthvað af mörkum til að bæta heiminn. Ætli ég verði ekki flokkuð með „góða fólkinu“ ef ég segi að ég vildi svo gjarnan að fólk tileinkaði sér betri framkomu og skilning á örlögum annarra við lestur minna bóka. En það er líka gaman að skemmta fólki og láta söguna gerast burtséð frá einhverjum boðskap. Vona samt að ég falli ekki í flokk með „vonda fólkinu“ með þessum orðum.
Samkennd og kærleikur ásamt skemmtilegri bók geta bjargað miklu í heiminum. Takk kærlega fyrir spjallið og bækurnar þínar Lilja og gangi þér vel í bransanum!
Viðtöl SIÓ við skáldkonur 2025-2026 eru styrkt af Hagþenki
Viðtalið við Lilju er nr 1 í röðinni



