SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir28. nóvember 2025

SORGARÓÐUR TIL JARÐARINNAR

Nína Ólafsdóttir. Þú sem ert á jörðu. Forlagið 2025.

 

Loftlagsbókmenntir – það sem á ensku kallast climate-fiction – er af augljósum ástæðum flokkur bókmennta sem er í örum vexti um heim allan og við Íslendingar eigum þegar nokkrar perlur sem heyra þarna undir, nefna má Dimmumót Steinunnar Sigurðardóttur og Um tíminn og vatnið eftir Andra Snæ Magnason. Nokkur erlend verk af þessum toga hafa komið út í íslenskum þýðingum undanfarin ár, til dæmis skáldsögurnar Blá (2019) og Saga býflugnanna (2020) eftir norska rithöfundinn Maju Lunde.

Algengastar í þessum bókmenntaflokki eru framtíðarsögur þar sem höfundar reyna að gera sér í hugarlund hvernig tilveru mannkynsins muni háttað eftir að hamfarahlýnun hefur gert jörðin svo til óbyggilega. Tvær nýútkomnar íslenskar skáldsögur eru af þessu toga, annars vegar Eilífðarvetur eftir Emil Hjörvar Petersen og hins vegar Þú sem ert á jörðu eftir Nínu Ólafsdóttur. Þetta eru mjög ólíkar sögur, sem markast annars vegar af gjörólíkum frásagnarhætti og stíl höfundanna tveggja en hins vegar af ólíkri sýn þeirra á mögulega framtíð okkar ef svo heldur áfram sem horfir með losun gróðurhúsaloftegunda og afleiðinga þess fyrir líf á jörðunni.

Vísindamenn hafa bent á að ef jöklar heimsins bráðna muni yfirborð sjávar hækka svo mikið að fjöldi borga muni sökkva í sæ, borgir eins og London og svæði eins og Manhattan-eyja í New York, til dæmis, auk þess að vatnsuppspretta tuga milljóna manna í Austurlöndum hverfur með bráðnun jöklanna í Himalajafjöllum. Hér á norðurslóðum er hættan hins vegar einna mest sú að Golfstraumurinn breyti um farveg og að á Íslandi verði óbyggilegt vegna kulda – öfugt við þá hlýnun sem aðrir hlutar heimsins þurfa að glíma við. Þá stafar einnig mikil vá af súrnun sjávar, með tilheyrandi hættu fyrir lífríkið neðansjávar, sem og ógnun við líffræðilega fjölbreytni og á útdauða dýrategunda.

Í skáldsögu Nínu Ólafsdóttur, Þú sem ert á jörðu, er þetta þó ekki til umræðu, við erum einfaldlega stödd í heimi þar sem slíkar breytingar eru þegar orðnar. Stór hluti mannkyns hefur –  má álykta – þegar farist í flóðum, eldum eða öðrum hamförum, en um það er heldur ekkert fjallað sérstaklega. Það eru ekki gefnar skýringar á þeim aðstæðum sem blasa við lesendum strax á fyrstu síðum bókarinnar – nema óbeint, því vissulega eru vísbendingar hér og þar í textanum.

Upphafssíða bókarinnar samanstendur af þremur málsgreinum sem gefa tóninn fyrir það sem á eftir fer:

 

Tvíeykið skynjaði bergmál breytinga. Það ómaði allt um kring, úr fortíð og framtíð, frá öllu sem var horfið og öllu sem myndi hverfa.
   Manneskjan lá og hlustaði á jökulinn kelfa í fjarska. Brestirnir ferðuðust um túndruna, endurómuðu í hlíðum fjallanna eins og þrumur.
   Hún reyndi að sofna en sorgin og einveran þrengdu að hálsinum eins og þungar keðjur og þarna í myrkrinu urðu hljóðin fyrir utan að einhverju öðru og stærra. Að afli sem var ekki af þessari jörðu. Að öskri frá annarri vídd og öðrum tíma. (9)

 

Tvíeykið mynda manneskja og hundur. Hún heitir Arnaq – sem þýðir kona í inúítamáli – og smám saman fær lesandi nægar vísbendingar til að átta sig sögusviðið er Grænland og tvíeykið á við mikinn vanda að glíma, þann brýnastan þó að afla sér fæðu: „Gaulandi maginn átti alla athyglina“ (10). Þótt Arnaq sé vel þjálfuð sem veiðimaður, nokkuð sem faðir hennar kenndi henni á barnsaldri, kemur lítið í netin sem hún leggur, fiskar og selir sjaldséðir og eins og segir á sama stað: „Að baki þeim rann jökullinn til sjávar […]“. Þau eru ein eftir í byggðinni, allir aðrir löngu horfnir á brott. Fjölmargar vísbendingar um bráðnun jökla á þessu heimskautasvæði eru gefnar í rás frásagnarinnar og við fáum að vita heimasvæði Arnaq hefur áður verið vinsæll viðkomustaður ferðamanna: „þegar fólk sótti ennþá á hjara veraldar í leit að síðasta snjónum í heiminum“ (17). En nú eru ekki bara ferðamennirnir horfnir heldur einnig íbúarnir því um heim allan hefur ríkt óðaverðbólga, eldneytiskostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi, vöruskortur hefur smám saman vaxið og farmskipin hættu að koma. Við fáum engar upplýsingar um hvert fólkið fór eða hvernig því hefur reitt af. Arnaq og hundurinn er ein eftir og þegar matarbirgðir eru uppurnar og veiðarnar bregðast halda þau af stað í leit að lífsbjörg og öðrum manneskjum.

Ferðalag tvíeykisins er í upphafi um landslag hopandi jökla og ótraustra ísbreiða. Þau lenda á ísfleka sem losnar frá landi og rekur dögum saman yfir úthafið í ólgusjó og ofsaveðri en ná við illan leik að meginlandi, nær dauða en lífi, og halda ferð sinni áfram um yfirgefin svæði, auða bæi og tómar borgir. Víða eru merki um hnignun og niðurbrot mannvirkja og hamfarir á borð við eldsvoða en náttúran hefur víðast hvar sinn framgang, fuglar, fiskar og önnur dýr eru á sveimi og tvíeykið getur veitt sér til matar og tínt ber. Arnaq finnur stundum matvæli í yfirgefnum byggingum og þar finnur hún líka gömul dagblöð á norrænu tungumáli með ógnvekjandi fyrirsögnum, dómsdagsspám (128). Lesandi veit ekki fremur en Arnaq hvar hún er stödd, en getur ályktað að hún hafi komið að landi við Noregsstrendur og haldi suður eftir Evrópu, fyrst meðfram strandlengjunni á kajak, síðan fótgangandi.

Þú sem ert á jörðu er saga um baráttu mannsins við náttúruöflin, um samband manns og dýrs, hér eru allar lífverur að berjast fyrir lífi sínu og þær eru allar jafnar frammi fyrir þeirri baráttu. En þetta er saga um fegurð náttúrunnar ekki síður en ógnir hennar. Frásögnin er óður til jarðarinnar og áhrifarík lýsing á sorginni yfir því sem mannkynið hefur glatað með græðgi sinni og lífsháttum.

Eitt af því sem er allra mest brilljant við Þú sem er á jörðu er hvernig fortíðin og framtíðin renna saman í frásögninni og minna má á inngangsorðin:

 

Tvíeykið skynjaði bergmál breytinga. Það ómaði allt um kring, úr fortíð og framtíð, frá öllu sem var horfið og öllu sem myndi hverfa.

 

Með því hvarfi siðmenningar sem manneskjan upplifir á ferðalaginu mást út skil framtíðarinnar, sem er tími frásagnarinnar, og fortíðarinnar. Undir lok bókar er Arnaq stödd í helli og málar þar myndir á vegg sem renna saman við ævafornar hellamyndir og ristur. Og lesandinn skynjar hvernig tími mannsins er afstæður, eða öllu heldur hvernig tími mannkyns er örstuttur í heildarsögu veraldarinnar.

Allir sem hafa tjáð sig um þessa frumraun Nínu Ólafsdóttur á skáldskaparsviðinu eru sammála um hversu vel bókin er skrifuð og haglega saman sett og tek ég heilshugar undir það. Hér er áhugaverð ný rödd í íslenskum bókmenntum sem óhjákvæmilegt er að binda frekari vonir við.

En það sem ristir einna dýpst þegar bókin hefur verið lesin er að þetta ekki bara saga af lífsbaráttu og baráttu við náttúröflin, heldur er frásögnin ekki síður saga af skerandi einmanaleika og eftirsjá. Líkt og í Dimmumótum Steinunnar Sigurðardóttur er það sorgin og söknuðurinn sem eru sterkustu tilfinningar frásagnarinnar og því miðlar Nína Ólafsdóttir á einstaklega magnaðan hátt.

Soffía Auður Birgisdóttir
ritdómurinn var fluttur í Víðsjá, rás 1, 24. nóvember 2025

 

Tengt efni