SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir21. desember 2025

ÁSTIN BÓMSTRAR Á JÓLUNUM - Um Stjörnurnar yfir Eyjafirði

Valeríu finnst líf sitt staðnað og vonlaust. Hún býr heima hjá foreldrum sínum, 27 ára gömul, einhleyp og staurblönk og allar vinkonurnar löngu orðnar ráðsettar. Loks tekur hún af skarið, fær nýja vinnu og flytur til Akureyrar. Þar kynnist hún góðu fólki og fær að njóta hæfileika sinna. Og eignast hún loksins almennilegan kærasta? Gæti verið,  bókarkápan gefur það í skyn. 

Ása Marin hefur skrifað skemmtilegar og vel stílaðar sögur um nútímakonur á fartinni sem finna ástina á óllíklegustu stöðum. Nýjasta bókin er  Stjörnurnar yfir Eyjafirði, sjálfstætt framhald Hittu mig í Hellisgerði en báðar bækurnar tengjast jólunum. Þetta eru ljúflestrarbækur sem taka sig ekki alvarlega, með slatta af húmor og ástarkrísum.

Tilgangurinn með þessu jarðlífi er að finna sína hillu og láta gott af sér leiða og það tekst Valeríu loksins með góðri hjálp. Vinkonan Lísa kemur þar sterk inn en hún er áhugaverð persóna, jarðbundin og traust vinkona. Hún er kennari í grunnskóla sem vill gera sitt besta en er að sligast undan ómanneskulegu álagi í starfinu og grætur af bugun í sturtunni að loknum vinnudegi. Mamman er kostuleg persóna, erfið i skapi og sjálfhverf, en fallegt að sjá hvernig samband þeirra mæðgna þróast í bókinni. Í annarri bók Ásu, Elsku sólir, er stormasamt  mæðgnasamband líka til umfjöllunar; stundum getur það verið baneitrað.

Í Eyjafirði eru einmana manneskjur eins og annars staðar og Valería fær þá frábæru hugmynd að koma á fót stefnumótaþjónustu. Af því lærir hún heilmargt, kynnist nýju fólki og hjálpar því út úr skelinni. Ein af hennar mörgu hugmyndum er að smala saman þeim sem eru einmana um jólin. Hún býr sjö viðburði fyrir alla sem melda sig, fimm kvöldverðarboð á aðfangadagskvöld, göngutúr og spilakvöld á jóladag. Vel gert, Valería! 

Í hnotskurn: Ánægjuleg lesning á jólunum!

 

 

 

 

Tengt efni