SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 8. janúar 2026

SVONA YFIRMÁTA MILD OG MEINLAUS?

Guðrún Hannesdóttir. Ljóðasafn. Dimma 2025.

Nýlega kom út Ljóðasafn Guðrúnar Hannesdóttur. Ljóðabækur hennar sem komu út á árunum frá 2007-2024 eru tíu talsins og er þær allar að finna í safninu og spanna 500 blaðsíður. Aftast er síðan öndvegis eftirmáli eftir Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur sem ber heitið „við hjartslátt himindjúpanna“. Þar er farið yfir ýmis fræði til að varpa ljósi á helstu höfundareinkenni og nokkur ljóð eru greind ítarlega. Höfundarverk Guðrúnar er mjög heilsteypt frá upphafi. Myndmál hennar einkennist af vísdómi, fáguðum smekk, vísunum í heimsbókmenntir og ljóðlínurnar eru haganlega smíðaðar. Formið er fágað, stuðst er stillilega við aldna bragarhætti, höfuðstafi og rím þegar það hentar efninu og víða er regluleg hrynjandi og margvísleg hljómtengsl. Í ljóðinu „mosi“ minnir formið á ljóðahátt en bæði mosi og háttur eru þjóðleg fyrirbæri og látlaus í eðli sínu. Jafnframt er ljóðið falleg nýgerving þar sem mosinn er eins og uppbúið rúm „gullbryddur gleði“, „dimmgræn hvíla“,  „tunglofin sæng / og stjörnukoddi“ (61).

Guðrún yrkir af orðsnilld og hagleikni, djúpri visku, stakri myndvísi og knýjandi þörf. Ljóð hennar eiga það öll sameiginlegt að vera yfirveguð og þaulhugsuð. Þau fjalla um manneskjuna (konuna), bernskuna, minningar og menningu, landið og söguna. Tungumálið er Guðrúnu eilíf uppspretta túlkunar og nýjunga. Titlar ljóðabóka og ljóða hafa úthugsaða merkingu en eru alltaf hógværlega rituð með litlum staf og ljóðin eru knöpp, rúmast flest á einni blaðsíðu (hefði Ljóðasafnið átt að fá titil sinn með litlum staf?). Víða eru nýgervingar og ný orð eða samsetningar: snjóbirtuórar, kyrrðardans, gælitunga, ástnæmur, dúnhvítur, öskuskór og himinstrá.

Bergljót Soffía greinir fremsta ljóðið í Ljóðasafninu ítarlega. Það er ljóðið „firn“ sem ber sterk höfundareinkenni skáldsins sem strax í upphafi voru fullmótuð og birtast áfram í hinum ljóðabókunum, þ.e. djúpa náttúruskynjun, orðkynngi, frumlegt myndmál og hárfínan húmor. Náttúran í ljóðum Guðrúnar er viðkvæm fyrir öllu hnjaski og athyglinni er beint að hinu algenga og viðtekna sem fær við það nýtt líf; steinvölum, regndropum og laufblöðum, þunnum ís og snjókornum. Víða má sjá hvernig náttúra, land, saga og liðinn tími fléttast saman í ljóðunum. Skýr afstaða er tekin gegn náttúruspjöllum, svo sem í „ósamin ljóð um jökla“; „innan tíðar / verður ekkert eftir / nema fagurhvít tíbrá / í augum þínum“ (356). Ljóðið „tónverk í smíðum“ er á sömu nótum en þar er verið að eyðileggja náttúruna með því að „mylja fjöll / þurrka upp ár / krossfesta vindinn / þrautpína prísundarfiska“ (454). Guðrún varar við því að verði ekkert að gert hverfi landið undir grjótnámur, virkjanir og vindmyllur áður en nokkur veit af. 

Í fyrstu ljóðabókum Guðrúnar er víða hlýlega vísað til bernsku, minninga og liðinna daga, fjárhúsa og fornra handrita, sveitalífs og þjóðsagna sem lifna auðveldlega í menningarbakgrunni (eldri) kynslóða. Heimspekilegar pælingar um bernskuna og sakleysið eru Guðrúnu hugleikin yrkisefni, einkum í fyrstu ljóðabókunum. Þar birtist víða ljúfsár löngun eftir einföldu lífi í kyrrð og nægjusemi í samhljómi við náttúruna. Ljóðið „kvintsöngur“ sýnir vel hvernig efni, myndmál, form og bragur ljóða Guðrúnar smella saman; fortíð og minningar, náttúrusýn og saga, ásamt tímanum sem engu eirir.

 

steinninn stiginn
vatni ausinn
járnið hvatt og
sorfið til eggjar
 
þögnin spunnin
og himinljóminn
tvísungið með kvörninni
kölluð fræ úr mold
 
steinninn slitnar
ljárinn þynnist
hendur hverfa
og aldir sem sindur (94)

 

Fleiri ljóð, þar sem form og efni fallast í faðma, mætti nefna, svo sem„leiðarstef“ (117), „afsakið hlé“ (130), þar sem teikn eru á lofti um endalok heimsins, og „umróðrar“ (143).

Í þriðju ljóðabókinni (teikn 2012) hafa ljóðin lengst, nokkur ná yfir eina opnu. Vísanir eru lærðar og þær sem eru lengst að komnar skýrðar í bókarlok. En nú er bernskan ekki lengur eins áberandi þema. Alls konar fyrirboðar og forneskja eru á sveimi í ljóðarökkrinu, svo sem kveldriða og galdrafjöður, móðir mín í kví, hrafnar Óðins, dynur kattarins og skoffín í eggi – fyrirbæri sem minna á fortíð sem við hefðum átt að læra af. Guðrún kinkar kolli til annarra skálda og listamanna, nefna má Vilborgu Dagbjartsdóttur, Jónas Hallgrímsson, Halldór Laxness og Kjarval, og sómir sér sannarlega vel í þeirra hópi. Henni liggur alltaf margt á hjarta og alvaran eykst með hverri bók. Húmorinn er þó ekki langt undan, sbr. eftirfarandi ljóð þar sem snúið er á háalvarlegan dauðann:

 

 

umgangur
(engill dauðans)
 
ég hélt  þú kæmir með básúnuþyt og sveipanda sverði
og kunngjörðir lok míns útmælda tíma
þrumandi raust
 
en ég hef séð ummerki þín
líkt og músaspor kringum kvörnina
nótt eftir niðdimma nótt
og þýfið sem þú hefur smámjatlað frá mér
eins og hver annar bomsuþjófur

(nú síðast öðru eða þriðja hverju slagi hjartans)
 
á meðan hefur sál mín setið á bitanum
og safnað sér forða sem þér sást yfir
fullum poka af ískrandi kátínu og gleði
sem ég hef gert ráðstafanir til að skili sér
á réttan stað að mér genginni (133)

 

 

Ljóðabókin slitur úr orðabók fugla sem út kom 2014 er óvenju sterk þematísk heild með ljóðum sem öll tengjast fuglum á einhvern hátt. Þarna birtast kristilegar dúfur, stressuð lóa, svekktur svanur og gaukur í klukku. Sumir fuglar tala, aðrir eru feigir eða jafnvel dauðir, frosnir við svell eða standa í ljósum logum, þeir eru greyptir í gull og blý en allir eiga við okkur erindi. Yfir vofir lúmsk ádeila að hætti Guðrúnar sem birtist meðal annars í að samúð ljóðmælandans er með dýrum frekar en mönnum.

Fyrir ljóðabókina með fallega nafninu humátt (2015) var Guðrún tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Tónninn nú er dekkri og áleitnari en í hinum bókunum fjórum. Skáldinu liggur á að „skrifa þetta ljóð því ef það / dregst á langinn getur útkoman aðeins orðið kraftminni / bragðdaufari útvatnaðri“ (218). Hið kyrra yfirborð sem einkenndi fyrri ljóðabækurnar hefur gárast, hið illa er farið á kreik. Nú koma til sögu heljargreipar, blóðlifrar, angistargættir og ólánsstígar, fáryrði og örþrifaráð, brotsár og skálar reiðinnar.

Guðrún heldur sífellt áfram að þróa ljóðheim sinn, myndmál og hugmyndir. Í ljóðabókinni skin (2016) er sitthvað tengt hafi og sjósókn sem er nýtt yrkisefni hjá skáldinu. Pétursskip og skötumóðir koma við sögu, önglar, innhaf og fjara, ýsuauga og ljóðið „bátur“ með sinn lognfarm (245) sem Bergljót Soffía kannar ítarlega í eftirmálanum. Hér sannast enn að myndvísi er aðalsmerki Guðrúnar, t.d. ljóðið „að óvörum“ þar sem hestar sem snjóar á verða „silfurhestarnir“ (251) og „ský  (salvum conductum)“ (253) þar sem skýjum er líkt við kýr; sægrá með mjúk júgur, lygna augum og þokast áfram í einfaldri röð yfir í næstu sýslu.

Ljóðið „dómsdagur“ er þulukennt ljóð með óreglulegum stuðlum og vísun í alþýðutrú og kristni. Ljóðið hverfist um leið um tíma og aldur og endar á bullandi íroníu:

 

 

ég hef látið hjá líða
að halda til haga
afskornum nöglum
og klipptu hári
sem sagt er
að betur sé geymt
í veggjarholu
svo nálgast megi
óbrenndum fingrum
 
láðst að varðveita
ýmis líffæri
tennur sem týndust
og annað smálegt
svo ekki sé minnst á
ljóma augna minna
limamýkt
og ljúft geð
 
svo það er ekki
um annað að ræða:
ég verð að koma eins og ég stend ... (37)

 

 

Femínískur undirtónn er víða í ljóðum Guðrúnar. Nefna mætti ljóð um atburðinn þegar Marta þvær fætur frelsarans en í seinna erindinu færir íslensk vinnukona sjómann í hlýja sokka (300); báðar þjóna þær körlum. Annað dæmi er „gamla mestatestið“ þar er brugðið upp mynd af ónafngreindri konu Nóa sem reynir að halda eldinum á lífi, þrífa og hugga um borð í Örkinni (135). Kraftmikið ljóð sem heitir „það hlýtur að vera...“ má túlka sem kraumandi sársauka vegna kúgunar kvenna gegnum aldir:

 

 

Ég hlýt að hafa staðið
á eyðilegri heiði
um niðdimma nótt 
borað krepptum tánum
niður í votan svörðinn
fundið veiðihárin spíra út úr nefinu
heita blóðtauma
hríslast um tennur og tungu
og augun loga af grimmd
hlýt að hafa keyrt 
hnakkann á bak aftur
og sperrt út klóhvassa fingur
í eitt skipti fyrir öll
og rekið upp þvílíkt
skerandi skaðræðisöskur
að stjörnurnar á himninum
dofnuðu um stund
 
hvernig hefði ég annars
getað fæðst aftur
svona yfirmáta
mild og meinlaus?  (46)

 

 

Mörg fleiri femínísk ljóð mætti nefna, svo sem „samningur“ (368) um að konur skyldu ríða í söðli þvert gegn vilja sínum og „vindhanahlátur“ (476) um bældan hlátur formæðra okkar. Þá rifjast upp ummæli Margaret Atwood: Karlar óttast að konur hlægi að þeim - konur óttast að karlar drepi þær.

Eftir því sem lengra líður á skáldferil Guðrúnar verður pólitískt sjónarhorn meira áberandi og varnaðarorðin skýrari; ljóðin „aðföng“ (360), „lúðurhljómur“ (362) og „moj“ (380) senda skýr skilaboð; „níðingsverkin komin á fullan skrið“; ógn steðjar að mannkyninu, hvort sem það er af heimsku, illsku eða skeytingarleysi:

 

 

skollaeyru
 
skrjáf peningaseðla
svo undurlétt
og svalandi
 
yfirgnæfir bæði kvein
betlaranna hrjáðu
tötrabarnsins
örþyrsta
og allt úrelt fjas
um fagurt mannlíf  (329)

 

 

Þemu eins og ofbeldi gegn börnum, stríð, sorg og óhugnaður er víða að finna. „þrálát eins og þakleki / þessi manndráp“ segir í upphafserindi „kvöldvöku“ (312). Ljóðið „tannaför á ís“ er ort í minningu barnahermanna (414). Á einni opnu í ljóðabókinni fingramál eru sögur sem tengjast barni sem dó (412-413) og eitthvað hræðilegt gerðist hjá barninu í ljóðinu „að baki þér ópið“ (410-411). Í eftirfarandi ljóði er gefið í skyn að eitthvað illt hafi komið fyrir en það eru engin sönnunargögn og efinn sækir að fórnarlambinu.

 

 

vettvangur
 
hvergi blóðblettir
afhöggnir fingur
útstungin augu
 
sama hvað ég þreifa
 
hér virðist hvorki
vettvangur glæps né
merki um sálarmorð
 
ekki svo mikið
sem flugufótur
eða sparð úr smádjöfli
 
bara skínandi
ósnortinn snjór
eða hef ég gleymt
að taka af mér vettlingana? (417)

 

 

Síðust bóka í Ljóðasafninu er kallfæri frá 2024. Í ritdómi í Són benti Soffía Auður Birgisdóttir  á að Guðrún vinni markvisst með skynfæri mannsins, þ.e. sjón (spegilsjónir), snertingu (fingramál)  og heyrn (kallfæri). Það kemur ekki á óvart, hjá Guðrúnu er allt í hennar öndvegis ljóðum útpælt; efni, form, bygging og röð ljóða, uppsetning á síðum og opnum, titlar o.s.frv. Eins og áður má greina kunnuglegan söknuð eftir fortíð og því að tengjast náttúrunni, þar sem blakta gullstrá og huggunarreyr, hryssur bíta, regndropar og snjókorn falla, fræ fjúka og norðurljósin syngja en sprunga hefur myndast í þessa fallegu mynd. Stríðin halda áfram og bitna mest á börnum, sbr. ljóðið „Jeríkó“ (454), spegilbrot gætu verið „...fleiri / beittari blóðugri og líkari veruleika okkar / en hægt væri að afbera með nokkru móti“ (498) og „níðingar skríða“ enn.

Þótt jafnan sé því haldið fram að Guðrún sé skáld hins kyrrláta og smáa er hún alls ekki „yfirmáta mild og meinlaus“. Hún tekur í ljóðum sínum skýra afstöðu gegn stríði, náttúruspjöllum, andvaraleysi og hvers kyns yfirgangi og ofbeldi. Í síbylju daganna heyrist ekki nógu hátt í þeim lækjarnið, fjaðraþyt og forneskju sem hún bregður víða upp myndum af, en við ættum að leggja eyrun við. Rödd Guðrúnar Hannesdóttur er rödd þess sem víða hefur farið og margt reynt og vill vara okkur við áður en það verður of seint. 

 

Steinunn Inga Óttarsdóttir
Ritdómurinn birtist í SÓN, tímariti um ljóðlist og óðfræði, 2025.

 

Tengt efni