Á EIGIN VEGUM Á JÚLÍÖNU - HÁTÍÐ SÖGU OG BÓKA
Í gær hófst JÚLÍANA - HÁTÍÐ SÖGU OG BÓKA í Stykkishólmi. Hátíðin stendur frá 22.-24. mars og má kynna sér metnaðarfulla dagskrána hér.
Yfirskrift hátíðarinnar að þessu sinni er HVER VEGUR AÐ HEIMAN ER VEGURINN HEIM - BÆKUR SEM FENGU FRAMHALDSLÍF.
Ein af þeim bókum sem fjallað er um á hátíðinni er Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur, en hún fékk einmitt framhaldslíf á leiksviðinu þar sem Sigrún Edda Björnsdóttir brilleraði í hlutverki Sigþrúðar, aðalpersónu sögunnar. Á morgun, laugardag, kl. 13:30 munu þau Maríanna Clara Lúthersdóttir, höfundur leikgerðarinnar, og Stefán Jónsson, leikstjóri sýningarinnar, segja frá sviðssetningu bókarinnar.
Kl. 14 verður svo skáldsaga Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snerting, og leið hennar á kvikmyndatjaldið, vera til umræðu en það er Margrét Einarsdóttir höfundur búninga sem segir frá myndinni, auk þess sem bókarhöfundur verður með í fjarsambandi á tjaldi.
Kl. 15:45 munu þau Maríanna Clara, Stefán, Silja Aðalsteinsdóttir og Margrét Einarsdóttir síðan ræða saman um framhaldslíf bóka.
JÚLÍANA - HÁTÍÐ SÖGU OG BÓKA er glæsileg og metnaðarfull hátíð sem nú er haldin í tólfta sinn en það er Gréta Sig Bjargardóttir sem á hugmyndina og heiðurinn af hátíðinni sem ber nafn Júlíönu Jónsdóttur skáldkonu, sem var fyrst íslenskra kvenna til að gefa út ljóðabók, en það var bókin Stúlka sem kom út 1876.