SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir21. mars 2025

Á EIGIN VEGUM Á JÚLÍÖNU - HÁTÍÐ SÖGU OG BÓKA

 

Í gær hófst JÚLÍANA - HÁTÍÐ SÖGU OG BÓKA í Stykkishólmi. Hátíðin stendur frá 22.-24. mars og má kynna sér metnaðarfulla dagskrána hér.

Yfirskrift hátíðarinnar að þessu sinni er HVER VEGUR AÐ HEIMAN ER VEGURINN HEIM - BÆKUR SEM FENGU FRAMHALDSLÍF.

 

Ein af þeim bókum sem fjallað er um á hátíðinni er Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur, en hún fékk einmitt framhaldslíf á leiksviðinu þar sem Sigrún Edda Björnsdóttir brilleraði í hlutverki Sigþrúðar, aðalpersónu sögunnar. Á morgun, laugardag, kl. 13:30 munu þau Maríanna Clara Lúthersdóttir, höfundur leikgerðarinnar, og Stefán Jónsson, leikstjóri sýningarinnar, segja frá sviðssetningu bókarinnar. 

Kl. 14 verður svo skáldsaga Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snerting, og leið hennar á kvikmyndatjaldið, vera til umræðu en það er Margrét Einarsdóttir höfundur búninga sem segir frá myndinni, auk þess sem bókarhöfundur verður með í fjarsambandi á tjaldi.

Kl. 15:45 munu þau Maríanna Clara, Stefán, Silja Aðalsteinsdóttir og Margrét Einarsdóttir síðan ræða saman um framhaldslíf bóka.

 

 

JÚLÍANA - HÁTÍÐ SÖGU OG BÓKA er glæsileg og metnaðarfull hátíð sem nú er haldin í tólfta sinn en það er Gréta Sig Bjargardóttir sem á hugmyndina og heiðurinn af hátíðinni sem ber nafn Júlíönu Jónsdóttur skáldkonu, sem var fyrst íslenskra kvenna til að gefa út ljóðabók, en það var bókin Stúlka sem kom út 1876.

 

Tengt efni