SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir og Helga Jónsdóttir16. desember 2022

„NÁTTÚRAN HEFUR ALLTAF HAFT STERK ÁHRIF Á MIG.“ Viðtal við Birtu Ósmann Þórhallsdóttur

Birta Ósmann Þórhallsdóttir sendi nýverið frá sér áhrifamikla ljóðabók að nafni Spádómur fúleggsins. Áður hefur hún gefið út örsagnasafnið Einsamræður og eigin þýðingu á skáldsögunni Snyrtistofunni eftir Mario Bellatin. Öll þessi verk hafa komið út hjá bókaútgáfunni Skriðu sem Birta starfrækir ásamt kettinum sínum sem útgáfan er nefnd eftir. Við tókum Birtu tali og ræddum við hana um skáldskapinn og hvernig er að vera útgefandi á landsbyggðinni. 

 

Hefur þú alltaf haft þörf fyrir að yrkja?

Ég hef alla tíð haft sterka sköpunarþörf. Síðan ég var barn hef ég lesið mikið og foreldrar mínir gaukað að mér góðu lesefni. Kveðskapur er einnig mikils metinn í minni fjölskyldu, í báðum ættum. Ég ólst upp við að hlusta á aðra fara með vísur og svo grúskaði maður í ljóðabókum sem til voru á heimilinu og hjá ömmu og afa. En ætli ég hafi ekki byrjað að yrkja fyrir alvöru í lok grunnskólans, þá stofnuðum við Ástríður vinkona mín fjöllistahóp og gáfum út ýmislegt ritað efni, m.a. tvo handgerða ljóðableðla sem við vélrituðum og seldum til vina og kunningja en aðal gamanið var þó að setja þá inn um tilfallandi bréfalúgur og hjá fólki sem okkur þótti merkilegt.

 

Spádómur fúleggsins er mjög flottur titill á ljóðabók. Getur þú sagt okkur hvernig hann kom til sögunnar og hvort einhver merkingarauki liggi honum að baki?

Eftir að ég hafði sett handritið saman og skoðað ljóðin kom þessi titill einfaldlega til mín, án þess að ég væri beinlínis að leita eftir því. Titillinn er marglaga og hefur persónulegar vísanir, hann vísar til fugla og tímans, en tíminn er oft lykilatriði í spádómum. Hann fjallar líka um ófrjósemi og þeirra tilfinninga sem sóttu á mig í því samhengi. Það varð til þess að ég leitaði betur inn í núvistina og þakklætið og það finn ég sterkt í náttúrunni.

 

Var ljóðabókin lengi í smíðum?

Ekki svo mjög, einhver ljóð urðu til í fyrra og hin nú í sumar. Þessi ljóð komu til mín eftir að ég fluttist vestur á Patreksfjörð, ég er oftast með skissubók og penna í vasanum, sum komu í gönguferðum, þá varð ég að setjast á stein eða þúfu og punkta niður. Í sumar var ég svo landvörður á Látrabjargi og það var mikill innblástur að vera umvafin gargi bjargfuglanna.

 

Fremst í ljóðabókinni er tilvitnun í ljóð eftir Nínu Björk Árnadóttur; hvers vegna kaustu að nota það sem einskonar inngang að þínu verki?

Ég hef lengi haldið upp á Nínu Björk, á allar ljóðabækurnar hennar og glugga mikið í þær. Þetta ljóð talaði sérstaklega til mín þegar ég þurfti einmitt að „gleyma því sem mennirnir segja, hvernig þú eigir að lifa“ og „ganga í fjörunni og vita að friðurinn hann er til.“ Þetta ljóð, eins og mörg ljóð Nínu Bjarkar er hreinlega stórkostlegt, segir margt og meira en maður heldur í fyrstu.

 

Lestu mikið af ljóðum?

Já, ég les mjög mikið af ljóðum og hef alla tíð gert. Ég reyni að lesa megnið af þeim ljóðabókum sem koma út og er einnig alltaf að glugga í gamlar ljóðabækur. Við pabbi tölum í hverri viku saman um bókmenntir og þá oftast um ljóð, sendum oft ljóð á milli sem okkur þykja góð, spáum og spekúlerum.

 

Áttu þér kannski einhverjar fyrirmyndir í ljóðlistinni?

Fyrirmyndir, jú, þær eru margar. Af íslenskum skáldum má nefna Nínu Björk, Geirlaug Magnússon, Vigdísi Grímsdóttur, Óskar Árna, Elísabetu Jökuls og Þorstein frá Hamri. Einnig formæður- og feður sem gáfu ekki út en ortu, allt hefur þetta haft áhrif á mig.

 

Í sumum ljóða þinna má finna skemmtilegan leik með formið. Varstu markvisst að reyna að ná fram einhverjum ákveðnum áhrifum með þeim hætti?

Mér fannst það eðlilegt og eitthvað sem þurfti að vera í bókinni því ég hef fengist lengi við þetta form, í myndlistinni aðallega og gert nokkur bókverk og prentverk þessu tengt. Mér finnst myndljóðið, eins og þetta er stundum nefnt, stórfengleg leið milli ritlistar og myndlistar - en það tvinnast einmitt oft saman í því sem ég geri.

 

Við tókum einmitt eftir því í nýju ljóðabókinni hvernig myndlistin setur mark sitt á textann jafnt með tilliti til forms og efnistaka, auk þess sem þar má finna eitt myndverk eftir þig. Ertu sjálf meðvituð um þessi áhrif og finnst þér mikill munur á að yrkja og teikna?

Já, ég myndi segja að ég væri meðvituð um þetta þó það gerist að vísu nokkuð ósjálfrátt, að myndlistin stígi inn í ritlistina og öfugt. Mér finnst í sjálfu sér ekki mikill munur á þessu tvennu, ég vinn þetta á svipaðan hátt.   

 

Eins og þú nefndir býrðu núna á Patreksfirði en þó ólst upp í höfuðborginni, hvað varð til þess að þú ákvaðst að flytja út á land? 

Skilin urðu eftir að ég flutti aftur heim til Íslands eftir tæpa tveggja ára dvöl í Mexíkóborg, þá fann ég að taugin til náttúrunnar var sterkari, ég þráði að komast í kyrrð og ró en að auki spilaði fasteignaverð inn í. Báðir foreldrar mínir eru utan af landi svo þetta var ekki svo framandi. Fyrst flutti ég á Hvammstanga og bjó þar í þrjú ár, þar þekkti ég til samfélagsins enda föðurfjölskylda mín þaðan. Mér reiknaðist til að þar fengi ég meira rými og næði til sköpunar og að það færi betur um mig og Skriðu köttinn minn. Síðan kynntist ég Grími manninum mínum sem var nýfluttur aftur í heimahagana og við Skriða fluttumst til Patreksfjarðar, sem var mikið gæfuspor. Okkur þykir öllum gott að sjá hafið út um gluggann og heyra í hávellunum.

 

Heldur þú að návist þín við náttúruna hafi áhrif á skrif þín og efnistök í ljóðabókinni? 

Sannarlega. Náttúran hefur alltaf haft sterk áhrif á mig og það sem ég fæst við. Ég fæ mikinn kraft og styrk úr náttúrunni.

 

Þú hefur áður sent frá þér örsagnasafn og í nýju bókinni má finna prósaljóð - sem kannski mætti líka flokka sem örsögur - finnst þér skilin skýr á milli þessara flokka; örsagna, prósaljóða og ljóða; og finnst þér mikill munur á því að yrkja undir hatti þessara bókmenntagreina?

Ég hugsa aldrei um þessi skil þegar ég er að vinna en ef til vill notar maður örsöguna frekar til þess að reyna að miðla ákveðinni sögu sem maður vill segja en prósann og ljóðið til þess að miðla ákveðinni tilfinningu, andrúmslofti eða augnabliki, það er þó ekki algilt. Formið kemur yfirleitt til mín eins og yrkisefnin sjálf og sjaldnast breyti ég því eftir á.

 

Greina má heimspekilegar vangaveltur í ljóðum þínum til að mynda í ljóðinu um eðli tímans; finnst þér ljóðið betra form en annað fyrir slíkar vangaveltur?

Ljóðið er vissulega gott form til þess að velta upp spurningum og ljóðið skilur oft eftir meira rými fyrir lesandann, orðin hafa meira vægi og merking þeirra getur orðið margslungin og óræð, það er spennandi.

 

Í ljóðabókinni vinkar þú til Mario Bellatin með því að tileinka honum eitt ljóðanna; en þú hefur einnig þýtt bók eftir hann, Snyrtistofuna, hvers vegna ákvaðstu að þýða þá bók?

Ljóðið sem ég tileinka Mario kom til mín eins og það stendur eftir fyrsta lestur á ljóðabók sem hann gaf út fyrra og heitir Placeres, bókin hafði sterk áhrif á mig og handverkið er fallegt. Um þessar mundir er ég að vinna í því að þýða hana og vonandi kemur hún fyrir almenningssjónir fljótlega á næsta ári.

Varðandi Snyrtistofuna þá fannst mér ég bara verða að þýða hana, Mario Bellatin er stórkostlegur höfundur, sá áhugaverðasti af samtímahöfundum Rómönsku-Ameríku að mínu mati og reyndar þó víðar væri leitað. Skáldskapur sem er ólíkur öðru sem ég hef lesið. Bókin fékk síðan svolítið nýtt samhengi í kóvid, því hún fjallar um faraldur. Snyrtistofan er hans þekktasta verk og því fannst mér við hæfi að byrja á því.

 

Í eftirmála Snyrtistofunnar fjallar þú um höfundinn og tekur dæmi um hvernig hann hefur gert grín af viðhorfi til listamanna; þar sem listaverkið fellur í skugga skapara síns. Hver er þín afstaða til hlutverks listarinnar og höfundarins?

Mér finnst þetta umhugsunarvert og velti stundum fyrir mér hvernig heimurinn væri ef samfélagið setti ekki ákveðnar persónur eða höfunda á stall. Eins er skemmtilegt að velta fyrir sér þeirri hegðun sem virðist nokkuð mannleg, sem er að taka afstöðu eða mynda sér skoðun út frá öðrum. Ég held að það sé líka dálítið hættulegt að byggja sjálfsmynd sína á þessu. Ég vil trúa því að listin geti staðið ein og sér, án persóna, höfunda, skapara.

 

Hvers vegna ákvaðst þú að stofna bókaútgáfuna Skriðu?

Skriða, kötturinn minn, stakk upp á þessu og líkt og persónan í Snyrtistofunni sagði ég já án þess að hugsa mikið um afleiðingarnar. Hún er stofnandi og rekur útgáfuna en ég talsmaður og snattari, hún gat ekki fengið kennitölu og vasknúmer, svo hún fékk mig með. Við ræðum mikið bókmenntir, við Skriða, og henni þótti leiðinlegt að sjá hvað hefur aukist að bækur séu prentaðar á lélegan pappír og handverkið gleymt og grafið, hún hafði séð mig vera að binda inn bækur og talaði mig inn á þetta, vissi að ég væri sama sinnis um þessi mál.

 

Hvernig bækur gefur þú helst út; ertu kannski með ákveðna stefnu sem þú fylgir eftir? 

Já, Skriðu er annt um fegurðina í smáatriðunum, handverkið, góðan pappír og bókina sem grip. Annars reynum við að fylgja innsæinu, Skriða er mjög lítið meðvirk og með sterkar skoðanir og stundum þarf ég því að miðla málum. En hún er opin fyrir flestu og þá sérstaklega því sem aðrir sýna minni áhuga.

 

Hvernig gengur að reka bókaútgáfu á landsbyggðinni?

Það er strembið, verður að segjast, en ég held að það eigi við um flestar smærri útgáfur á Íslandi. Eflaust hjálpar heldur ekki að vera á Vestfjörðunum, minni umfjöllun og minni sýnileiki og maður getur ekki vaðið í bókabúðirnar og passað að bækurnar séu á góðum stöðum. Þess vegna er mikilvægt að íslenskir bókaunnendur séu duglegir að kaupa bækur beint frá litlu útgáfunum, enda er það líka yfirleitt mun ódýrara því bókabúðirnar leggja mikið á.

 

Ertu komin með hugmynd að næsta verki?

Ég er að vinna að skáldsögu, sem er öðruvísi ferli og tekur langan tíma, ég er búin að vera yfir ár með hana, samhliða því að vinna í þýðingum og myndlistinni. Þetta er skemmtilegt ferli en verulega krefjandi, mér finnst skáldsagnaformið mun erfiðara en ljóðlistin og örsögurnar sem yfirleitt koma nokkuð auðveldlega til mín.

 

Við þökkum Birtu innilega fyrir spjallið og mælum með lestri nýju ljóðabókarinnar hennar og að lesendur fylgist vel með útgáfustarfssemi Skriðu.