SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir27. maí 2023

ÁSTIN ER DÝRASTA DJÁSNIÐ - Sólskinshestur töltir á ný

Sólskinshestur Steinunnar Sigurðardóttur töltir á ný!  Að þessu sinni í ritröðinni Íslensk klassík. Þetta er áhrifamikil saga um ekki-bernsku, ástlausan uppvöxt í stóru húsi og óhöndlanlega hamingju; um draumóra og kaldan veruleika, æskuást sem týnist og birtist á ný, djúpa sorg – og um dauðann. "Ástin er dýrasta djásnið og ástarþráhyggjan sem heltekur hugann, ljúf og sár, verður að skjólvegg sem lokar úti lífið. Hamingjan er alltaf fyrir handan", segir í kynningartexta Forlagsins.

Fáir íslenskir höfundar eiga jafn greiða leið að hjartarótum lesenda og Steinunn Sigurðardóttir. Skáldsögur hennar eru ljóðrænar og leikandi, fullar af húmor og glöggskyggni, viðkvæmni og visku. Sólskinshestur var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna þegar hún kom fyrst út árið 2005.

Um Sólskinshest ritaði Úlfhildur Dagsdóttir m.a.:

Hér hefur textinn verið skorinn við nögl, svo að hann er orðinn næsta útskorinn, fágaður, tálgaður og tilhogginn. Þetta gerir það að verkum að fyrstu kaflar sögunnar gera miklar kröfur til lesandans - hanga með í beygjunum, hugsaði ég oft með mér þegar ég fletti aftur á bak og byrjaði einhvern kaflann upp á nýtt. Allt er þetta fyllilega þess virði því Sólskinshesturinn er frábærlega falleg bók, áhrifarík og býður lesanda upp á háskalega og heillandi tilfinningalega rússibanaferð. Hér er kallað á tár og hlátur, undrun og undirdjúp, sorg og líka einskonar könnun, því samhliða öllum átökunum er kyrrlát skoðun á þessum mörgu hliðum dauða og doða (Bókmenntaborgin).

Í viðtali við Freystein Jóhannsson í Mbl, 26. nóvember 2005, sama dag og bókin kom út, segir Steinunn um tilurð og ferli:

Ekki kött-og-peist-höfundur
– Hvernig verður bókin til hjá þér?
„Ég safnaði efni til þessarar bókar í sjö ár og síðustu tvö árin var ég eiginlega innilokuð við að skrifa hana. Ég er nefnilega svo seinvirkur rithöfundur! Ég vinn mér alla hluti svoerfiða. Og ég skrifa svo lélega fyrstugerð, að það hálfa væri nóg. Ég leið önn fyrir þetta lengi vel, en svo las ég í bók um Toni Morrison, sem er einn af mínum uppáhaldshöfundum, að henni væri eins farið og mér hvað fyrstugerðina snerti. Þá fékk ég uppreisn æru!

Ég er ekki svona kött-og-peist-höfundur. Ég er í prentun og pappír. Ég er með borð út um allt hús undir söguna mína. Og ég verð að hafa blýant. Mér dugar ekki skjárinn. Ég prenta út af honum og raða blöðunum á borðin, les af þeim, skrifa leiðréttingar og viðbætur á þau og færi þær svo inn í tölvuna. Stundum handskrifa ég heilu kaflana. Þessi bók er mikil spennu- og áhættusaga, því það var einn samfelldur háski að skrifa hana. Á 25 metra löngum ganginum í húsinu mínu dróst ég áfram á töfflum með þetta sérstaka draugahljóð á hælunum. Sambýlismaður minn sagði, að það hefði verið farið að bera á nokkrum þunglyndiseinkennum hjá mér á lokasprettinum!“

– Hvað var erfiðast?
„Að skrifa um börnin. Þau eru svo minnimáttar og maður er fljótur að finna til með þeim, en verður samt að vera svo kúl; hjartað heitt og hausinn kaldur. Út á það gengur þetta! Sjóðheitt hjarta og ískaldan haus. Mér finnst lesandinn eiga svo gott. Hann
getur látið hjartað ráða! Mér finnst mest um vert að lesandinn geti samsamað sig sögufólkinu mínu. Kona ein sagði við mig, að henni fyndist ég alltaf vera að skrifa um sig, bæði í þessari sögu og í Hjartastað. Svona ummæli eru mér mikils virði, því þau benda til þess að mér hafi tekizt það sem ég ætlaði mér; að láta lesandann sjá sig í bókinni, að hún komi fólki við.“

Guðrún Steinþórsdóttir bókmenntafræðingur ritar eftirmála að nýju útgáfunni.

Steinunn Sigurðardóttir hefur sent frá sér fjölda geysivinsælla skáldverka, sögur, ljóð og leikrit, og hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin og Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar auk annarra viðurkenninga. Þá hefur Háskóli Íslands sæmt hana heiðursdoktorsnafnbót. Bækur Steinunnar hafa verið þýddar og gefnar út víða erlendis. Nýjasta skáldsaga hennar er Systu megin og nýjasta ljóðabókin heitir Tíminn á leiðinni.

Tengt efni