SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 2. febrúar 2023

TÍMINN Á LEIÐINNI eftir Steinunni Sigurðardóttur

Steinunn Sigurðardóttir. Tíminn á leiðinni, Mál og menning, 2022, 82 bls.

Snemma á síðasta ári sendi Steinunn Sigurðardóttir frá sér tólftu ljóðabók sína sem ber titilinn Tíminn á leiðinni, þá voru hvorki meira né minna en 53 ár síðan fyrsta ljóðabók hennar, Sífellur, kom út árið 1969. Á þessum tíma hefur Steinunn markað sér stöðu sem eitt helsta ljóðskáld okkar og hver ný bók frá henni sætir tíðindum.

Í ljóðabókinni Dimmumótum (2019) orti Steinunn magnaðan ljóðabálk; tregaljóð um bráðnun Vatnajökuls með skírskotanir til heimslitakvæða fyrri alda, svo sem Völuspár. Nýja ljóðabókin er af öðru tagi en þó má sjá tengsl á milli þessa tveggja bóka, sem og reyndar einnig tengsl við fyrri ljóðabækur Steinunnar. Sá sem er vel heima í ljóðlist hennar mun hafa sérstaka ánægju af því að sjá slíkar tengingar og pæla í einkar frumlegum og skemmtilegum hugmyndaheimi og myndmáli skáldsins.

Í Dimmumótum er sterkur sjálfsævisögulegur þráður, þar yrkir Steinunn um æsku sína í skjóli foreldra og náttúrunnar. Tíminn á leiðinni hefst á kafla sem hefur yfirskriftina „Dótturljóð“ og aftur er hún á ævisögulegum nótum: „Nú koma þeir til mín í ljómandi runu / morgnarnir meðan ég var dóttir lifandi mömmu og pabba“ segir í fyrsta ljóðinu sem lýsir sælustund í bernsku á uppáhaldstað „undir himnesku þaki“ þar sem fullkomið jafnvægi ríkir á milli náttúru og manna. Ljóðið er falleg minning um foreldra; andláti móðurinnar er lýst á áhrifríkan hátt: „Öll heimsins auðn hvolfdist ofaní grautardiskinn // Sólmyrkvuð þögn. Kuldaboli allsherjar.“ Sólmyrkvinn, þögnin og kuldinn mynda sterkar andstæður við sólbjarta morgna og hitann sem stafar af hjartahlýju og ástríkri samveru sem áður hefur verið lýst.

Næsti kafli bókarinnar hefur yfirskriftina „Barnaljóð“ og þar eru þrjú ljóð: SONARSÖNGUR, TÖKUBARNALJÓÐIÐ og TVÍBURALJÓÐ. Í því fyrstnefnda segir:

 

Ég hef gert það af mér að fæða þig inn í þennan heim
án þess að hugsa út í það fyrst, að þú, líka þú, þyrftir að deyja.

 

Lýst er sektarkennd móður um að fæða barn inn í heim sem „er þeirrar gerðar / að formóðir okkar ein taldi hann vera verri staðinn“ og síðari hluti ljóðsins er afar áhrifamikill og ættu allar mæður að geta tekið undir með ljóðmælanda:

 

Ekkert sem ég hef gefið þér, og ég hefði viljað gefa þér allt,
gæti búið þig undir sársaukann sem á eftir að nísta þig. 
-
Ég get aðeins vonað sonur minn
að mesta ógæfa muni ekki dynja yfir þig.
 
Að stundir hláturs og gleði verði nógu margar, nógu stórar,
til að milda sorgina sem vomar við bikaða eyju, úr sjónmáli
og mun taka kúrsinn í áttina að einmitt þér, þegar vindáttin snýst.
 
Einnig þetta segi ég þér ekki, sonur minn, ekki.

 

Í TÖKUBARNALJÓÐINU er skyldur þráður spunninn, ljóðið samanstendur af óvægnum og sterkum myndum sem túlka hlutskipti mannsins á nýstárlegan og magnaðan hátt.: „Fæðing er brottför úr ákjósanlegast innheimi / voðfelldu bóli sem manneskjan þráir síðan“, segir þar. Slík kenning, að móðurlífið sjálft sé besti samanstaður menneskjunnar sem við þráum síðar, er samdóma álit marga sálfræðinga, enda stendur í sviga á eftir titili ljóðsins „(veifað til Otto Rank)“. Eftir fæðinguna erum við tökubörn í umsjá „ráðskonu“ og „staðgengil móður“, því sú sem tekur við okkur „í útheimi“ er ranghverf harðhent kona og við erum „því á flótta í eigin lífi, manneskja mín // Útlendingurinn. Lærir málið í landinu aldrei almennilega“. TVÍBURALJÓÐIÐ má skilja sem sjálfmyndapælingu, en þær eru fleiri í bókinni eins og komið verður að síðar.

Eftir Barnaljóðunum þremur koma þrjú ljóð „beinlínis um konur“ og þar yrkir Steinunn um þrjár kvenlegar erkitýpur sem lesendur hafa áður rekist á í ljóðum hennar og sögum: FEMME FATALE, ÓGÆFUKONUNA og SEIÐKONUNA. Þetta eru sterkar kvenmyndir og um þær allar þrjár mætti segja, líkt og segir í upphafslínu FEMME FATALE: „Ekkert stóðst henni snúning.“. Ljóðið um ÓGÆFUKONUNA minnir lesanda á leiksögu Steinunnar, Systu megin (2021), og SEIÐKONAN kemur einnig fyrir í Dimmumótum í líki völvunnar sem kann að gala galdur.

Næsti kafli, INNRI MANNS LJÓÐ, hefur að geyma sex ljóð þar sem ljóðmælandi veltir fyrir sér sínum innri manni og stöðu hans. Innri maðurinn er „illa giftur“, „undrabarni líkur“, „ítalskur hommi“, „blindingi í böndum“, „sjúkur soldán“ og „dvergur“. Hér vakna sterk hugrenningatengsl við ljóðabálkinn SJÁLFSMYNDIR Á SÝNINGU úr Kúaskít og norðurljósum (1991) þar sem sál ljóðmælanda er ýmist „dvergur“, „stelpa sem krotar á veggi“, „fræðimaður sem sveitungar kalla búskussa“, „fakír á bretti“ og „eina íslenska skottan / sem eftir lifir / ef líf er þá orðið“. Lokaljóð SJÁLFSMYNDA Á SÝNINGU er svona:

 

Sál mín er fangi í dýblissu dvergsins
saklaus dæmd til lífstíðarvistar.
 
Hún verður að afplána allan tímann
og fer ekki út nema í skrautlausri kistu
                         loksins frjáls, þetta fjötraða hró.
-
 
Þá höktir dvergur á eftir við lítinn staf
óhuggandi í eins manns líkfylgd.

 

Lokaljóð INNRI MANNS LJÓÐA er hins vegar á þennan veg:

 

Minn innri maður er ekki maður
ekki beint, eða ekki fullvaxta.
 
Dvergurinn, handarvana og haltur.
Slagandi af drykkju á volgum degi í miðbænum.
 
En beinn í baki, alltaf beinn
með eilífa glottið sem segir: Ég er ekki dvergur!

 

Tengslin á milli þessa tveggja ljóðabálka, sem birtir eru með ríflega tuttugu ára millibili, eru augljós og það er gaman að rýna í ljóðin sem spila á ólíkar tilfinningar með myndmáli sem oft á tíðum er galsafengið, stundum alvarlegt en alltaf áhugavert.

Í kaflanum„Staðarljóð úr nálægð og fjarlægum fjarska“ yrkir Steinunn enn um sælustaðinn sem lesendur hennar kynntust í Dimmumótum og kemur aftur fyrir í fyrsta hluta þessarar bókar. Hér eru níu ljóð um staðinn og sum þeirra eru ort úr „fjarlægum fjarska“, þegar ljóðmælandinn er annars staðar en sér staðinn fyrir sér: „Ég er ekki hér, en dreymandi augun sjá / heimilsfangið, höfuðstöð sálar.“ Það er á þessum stað sem ljóðmælandi „fær að hitta sjálfa sig fyrir“, staðurinn þar sem sjálfmyndin vefst ekki fyrir henni; þar sem sjálfið á sér samastað. Flest ljóðanna eru ort í vetrarbirtu nóvembermánaðar, lengsta mánuði ársins að mati Steinunnar sem oft hefur vitnað til þekkts ljóðs hins nýlátna danska skálds Henriks Nordbrandt um að fjórtán mánuðir séu í árinu, á milli október og desember komi nóvember, nóvember og nóvember.

Í næstu tveimur köflum bókarinnar, TVENNT UM VATNIÐ og ÞRENNT UM SORG OG ÞAÐ SEM VEX, eru að finna undurfalleg ljóð um ástina og sorgina. Í þessum ljóðum ríkir fegurð í bland við eftirsjá, jafnvel þótt segi í einu ljóðanna: „Leiddu það hjá þér sem liðið er / láttu minningar hvíla í löngum duftkerjagarði.“ Í þessum ljóðum má merkja hið gríðarlega vald sem Steinunn hefur á þeirri list að láta alvöru og skop vegast á í hárfínu jafnvægi.

Í síðasta kafla bókarinnar, sem ber sömu yfirskrift og ljóðabókin sjálf, „Tíminn á leiðinni", yrkir Steinunn um miskunarleysi tímans sem engu eirir, grimmd hans kemur til að mynda vel fram í fyrsta ljóði þessa hluta, „Bekkjarmótinu“, þar sem „misgrimma kvikindið“ leikur gamla skólafélaga grátt, þeir „koma tinandi á bekkjarmótið, alveg óþekkjanlegir“. Aðrir hafa varðveitt „ljómann, ytri og innri“, það eru „sigurvegarar tímans, konur“ sem „eru vel í holdum, sem fyrr, með óbrotgjarnt kónganefn. Fráleitt smáfríðar. Hafa náð langt“.

„Með tímanum verðum við undarleg í háttum“ segir í ljóðinu HÁTTALÖG; „stækkandi mynd af því slefandi flóni / sem var hrint af stað í leiðangurinn“. Og á eftir HÁTTALÖGUM koma LOFTSLÖG sem einnig eru grátt leikin af tímanum og „kemur ekki til af góðu“.

Í lokaljóðinu, UM YFIRBURÐI TÍMANS OG FLEIRA, kemur sá við sögu sem yfir tíma okkar ræður, dauðinn, sá „verkfræðingur andskotans. Hvort sem hann nálgast viðskiptavininn í sadistalíki / með langvarandi og hugmyndaríkum pyntingum // eða hann kemur með fallöxina á hjólum / meðan þú sefur fast.“ Magnaðar eru lokalínur ljóðsins, dauðinn er: „Svo snöggur að þú nemur ekki hvininn / og hefur aldrei hugmynd um að af er höfuðið“.

Í formála að Ljóðasafni: Frá Sífellum til Hugásta (2004) skrifar Guðni Elísson að ljóðum Steinunnar sé „ætlað að endurheimta tilfinningu lesandans fyrir lífi og náttúru, að vinna gegn vélrænu hversdaglegra athafna og hjálpa honum að upplifa nánasta umhverfi sitt á nýjan leik“. Þetta er vel að orði komist um ætlun skáldsins sem tekst ætlunarverkið, a.m.k. ef lesandinn er með opinn huga og eftirtektarsamur við lesturinn. 

Tíminn á leiðinni er frábær viðbót við það ljóðasafn Steinunnar Sigurðardóttur sem hófst fyrir ríflega hálfri öld og lesandinn óskar þess eins að enn eigi eftir að bætast í safnið.

 

 

 

 

 

 

 

Tengt efni