SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 4. júlí 2023

ELÍSABET OPNAÐI SÝNINGU OG FRUMFLUTTI LEIKVERK

Í gær var opnuð HIN GÖFUGA PÖDDUSÝNING með myndum eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur í Bókasafni Hveragerðis (sem er staðsett í verslunarmiðstöðinni. Sýningin samanstendur af ríflega þrjátíu myndum sem Elísabet málaði fyrir nokkrum árum og eru þær allar til sölu á sýningunni. Þetta eru fjölbreytilegar myndir, sumar litskrúðugar og aðrar í einum eða tveimur litum. Pöddurnar eru af ýmsum gerðum, sumar líkjast bjöllum, aðrar köngurlóm og enn aðrar er mjög óræðar og opnar fyrir túlkunum. 

Myndir af pöddunum fóru að koma þegar Elísabet upplifði sig sem pöddu í lélegu ástarsambandi. Það var sama sjálfsmyndin og hún upplifði á unglingsárunum en þegar hún fór að mála pöddur fann hún að það var heilandi og gefandi; það varð list og Elísabet sá að það var harla gott... eins og segir í lýsingu hennar sjálfrar.

 

 

Á opnun sýningarinnar var einnig leiklesið í fyrsta sinn leikverk Elísabetar PADDAN en það leit dagsins ljós á sama tíma og myndirnar. Elísabet leiklas verkið ásamt Önnu Jórunni Stefánsdóttur, leikkonu úr Leikfélagi Hveragerðis og sellóleikara.

 

Ritstjórn Skáld.is átti að sjálfsögðu sína fulltrúa á opnunni og getur svo sannarlega mælt með að fólk skelli sér í bíltúr til Hveragerðis til að líta hinar litríku pöddur Elísabetar augum og njóta annars þess sem Hveragerði hefur upp á að bjóða!

 

 

 

Tengt efni