9/11 - GLEÐI Í GUNNARSHÚSI
Ból er eldheit og grípandi átakasaga um ofurást og hjartasorg, styrk og uppgjöf, listilega stíluð og byggð svo úr verður magnað og margbrotið skáldverk.
Líneik Hjálmsdóttur – LínLín – er ekki fisjað saman. Hún hefur stigið ölduna í stórsjó lífsins og stendur enn keik þrátt fyrir sáran missi og þung áföll. En nú er komið að ögurstund. Náttúran fer hamförum rétt við sælureitinn hennar í sveitinni, hjartastaðinn sem foreldrarnir byggðu upp og ræktuðu. Einbeitt heldur hún til móts við ógnina sem engu eirir – og fortíðina um leið: minningarnar, ástina, leyndarmálin og sorgirnar stóru.
Steinunn Sigurðardóttir hefur skrifað fjölda óviðjafnanlegra verka sem hafa notið verðskuldaðra vinsælda. Skörp sýn hennar á mannlega náttúru, beitt skopskyn og leiftrandi stíll heilla lesendur og ný skáldsaga frá henni sætir ávallt tíðindum.
Sjáumst á fimmtudagskvöldið!