BÓL HREPPTI VERÐLAUNIN Í FLOKKI SKÁLDVERKA
Skáldsagan sem sigraði í kvöld er Ból eftir Steinunni SIgurðardóttur. Sjóðheit saga um ást og sorg, land og líf. Textinn er heillandi, seiðandi og göldróttur, hann rímar og stuðlar; orðin valin af alúð úr óþrjótandi forða, húmorinn upp á sitt besta og sársaukinn svo sannur og fagur. Ein besta bók Steinunnar sem endalaust eys af snilli sinni með ástríðu fyrir landi og tungu.
Gunnar Helgason og Rán Flygenring hrepptu verðlaun í flokki barna- og ungmennabóka og sagði Gunnar m.a.: Ekkert í þessum heimi mikilvægara en börn og engar bækur mikilvægari en barnabækur.
Í flokki fræðibóka og rita almenns efni sigraði Samfélag eftir máli, bók um skipulagsmál eftir Harald SIgurðsson sem sækir titil sinn í fræga smásögu Svövu Jakobsdóttur.
Eva Björg Ægisdóttir hreppti Blóðdropann fyrir bókina Heim fyrir myrkur. Metnaðarfull saga um falinn fjölskylduharmleik, fórnir og gömul sár.
Til hamingju verðlaunahafar og öll sem voru tilnefnd!