SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 5. febrúar 2024

VERÐLAUNAFÖGNUÐUR STEINUNNAR

Á morgun, þriðjudaginn 6. febrúar verður haldinn fögnuður í tilefni þess að BÓL, skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin nýverið. Fögnuðurinn er haldinn í Bókabúð Forlagsins á Fiskislóð og hefst kl. 16:30.

 
 
 
Dr. Guðrún Steinþórsdóttir, bókmenntafræðingur, spjallar við Steinunni um BÓL og höfundur les upp úr bókinni og áritar.
 
 
 
Steinunn er fyrst kvenna til að hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin tvisvar í flokki skáldverka en áður hlaut hún þau fyrir Hjartastað árið 1995.
 
BÓL hefur fengið glimrandi dóma og frábærar viðtökur; margir segja að þetta sé besta skáldsaga Steinunnar!
 
Umsögn dómnefndar Íslensku bókmenntaverðlaunanna segir allt sem segja þarf:
 
 

„Ból er efnismikil saga þrátt fyrir að bókin sé ekki ýkja löng. Viðfangsefnið er ástin í öllum sínum fjölbreyttu myndum, en líka missir, tengsl og tengslaleysi, hvort sem er við sjálfa sig eða aðra, umhverfi sitt og náttúru. Ferðalag söguhetjunnar rammar inn frásögnina sem um leið verður innri ferð hennar og uppgjör við lífið. Það er margt sem kraumar undir, líkt og í náttúrunni sem býr sig undir að gjósa, en ferðinni er heitið heim í unaðsreit fjölskyldunnar, Ból, sem er um það bil að verða náttúruöflunum að bráð. Steinunn vefur blæbrigðaríkan textavef sem heldur lesandanum föngnum allt frá upphafi, sagan snertir við honum og tilfinningarnar malla lengi eftir að lestrinum lýkur. Hið ósagða er oft jafn afhjúpandi og það sem sagt er og, líkt og í fyrri verkum Steinunnar, er leikandi írónía í bland við myndríka ljóðrænu einkennismerki textans. Þótt Ból sé að vissu leyti heimsendasaga ræður fegurðin för og það er hún sem situr fastast eftir.“
 
 
 
Allir eru velkomnir á verðlaunafagnaðinn meðan húsrúm leyfir.

Tengt efni