SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Guðrún Steinþórsdóttir25. nóvember 2023

AÐ LIFA ER AÐ SKRIFA - Viðtal við Steinunni Sigurðardóttur

Það er alltaf fagnaðarefni þegar út kemur bók eftir Steinunni Sigurðardóttur en á dögunum sendi hún frá sér hina frábæru skáldsögu BÓL sem segir frá þýðandanum Líneik Hjálmsdóttur, eða LínLín eins og hún er kölluð. Sagan er listavel skrifuð og feikilega spennandi en í henni er fjallað af mikilli næmi um ofurást, sorg og eftirsjá og um leið áhrif leyndarmála, flókin samskipti og dýrmæta vináttu. Náttúran setur einnig svip sinn á verkið en eins og vel er dregið fram í sögunni getur hún bæði verið undurfögur og ægileg. Mér lék forvitni á að vita meira um skáldsöguna og tilurð hennar og tók því Steinunni tali. 

 

 

Innilega til hamingju með nýju bókina. BÓL er glæsilegur og margræður titill, hvaðan kemur hann? 

Það var svo mikið um örnefni sem enduðu á BÓL í sveitinni minni í Fljótshverfi, Skaftafellssýslu. Gluggból, Skarnból til dæmis. Ég var heilluð af þessu sem barn – að fleira gæti verið BÓL en mitt eigið ból og pabbaból. Örnefnin áttu yfirleitt við um ból fyrir kindur – en Heiða mín á Ljótarstöðum kynnti mig reyndar líka fyrir örnefninu Fálkaból í Skaftártungu. Svo magnað fyrir mig að þetta magíska orð úr bernskunni gat orðið fínasti titill á heilli skáldsögu. 

Í sögunni minni er BÓL stytting á Sæluból. Staðnum sem foreldrar söguhetjunnar LínLín hafa byggt upp á afskekktum náttúrufögrum reit, reist hús og fleiri mannvirki, ræktað skóg og skóg. Þannig að úr verður staður sem er meira en athvarf, það er hér sem sálin söguhetjunnar býr, hér sem minningarnar lifa skærastar. Þegar hættan svo sverfur að þessum stað þá sparkar það söguhetjunni til þess að taka mjög drastíska ákvörðun og leggja út í dæmalausan leiðangur – sem liggur um Suðurstrandarveg. Fyrsti áfanginn er Grindavík. Sem nú er orðinn annars konar sögustaður en þegar BÓL var skrifuð, og illilega í stíl við einn efnisþráð sögunnar.     

 

Átti sagan sér langan aðdraganda?

Já og furðulegan. Ég fékk grunnhugmyndina að sögunni fyrir fimm árum, það kviknaði neisti sem ég vissi að mundi lenda í nógu stórum eldiviðarstafla til að kynda undir heilli skáldsögu. Og byrjaði að skrifa. Vissi eitt og annað um hvað mundi koma fyrir mína LínLín. En ég vissi samt ekki nóg um það hver hún var, hvað hafði gert hana að því sem hún er. Svo ég hafði vit á því að setja söguna í pækil, sem er mikill uppáhaldslögur í minni skáldsagnagerð. Fyrir sirka tveimur árum hirti ég upp úr pæklinum og hélt áfram. 

Sagan græddi stórlega á þessari marineringu. Ég hefði út af fyrir sig getað haldið áfram þarna í byrjun lige ud ad landevejen, en eitthvað stoppaði mig sem ég get ekki útskýrt hvað var. Reyndar sé ég núna að mér hraus hugur við því að leggja út í leiðangurinn með LínLín, því hann yrði enginn barnaleikur. Og ég hafði rétt fyrir mér, BÓL var mér mjög þung, bæði tilfinningalega og tæknilega. Enn síður en með fyrri skáldsögur sá ég útúr augunum um það hvað ég var með í höndunum meðan ég var að skrifa. Þetta er sérstaklega óþægilegur og taugatrekkjandi fylgifiskur þess að skrifa skáldsögur – og maður þarf að koma sér upp sérstakri tækni við að sjá sem sjaldnast það að maður sér ekki. 

Það rofaði ekki til fyrr en síðastliðið vor þegar ég þorði að biðja Þorstein manninn minn um að lesa yfir. Ég hef áður getað reitt mig mjög á hans snilldargáfur og dómgreind og hann er nú orðið alltaf fyrsti lesandi. Minn er yfirvegaður maður, en viðbrögðin hjá honum voru nógu ýkt á jákvæðu nótunum til þess að ég þorði að senda hana Forlaginu. Þar voru viðtökur og samstarf allan hringinn, ekki síst við heimsins besta ritstjóra, Sigríði Rögnvaldsdóttur, á svo góðum nótum að það gerði mér eftirleikina umtalsvert léttari. Sem ekki veitti af, því lokaspretturinn varð lengri en ég ætlaði. Nýir efnisþræðir heimtuðu að fléttast inn þó nokkuð frameftir – sem gerði byggingarvinnuna enn flóknari og tímafrekari. 

 

LínLín skipar sér auðveldlega í flokk með öllum þínum eftirminnilegu kvenpersónum, til dæmis Öldu úr Tímaþjófnum, Lillu úr Sólskinshesti og Systu úr Systu megin svo ég nefni nokkrar, en um leið er hún mjög ólík þeim. Geturðu sagt mér aðeins frá persónunni og hvernig hún kom til þín?

 

Þetta get ég svarið að er einhvers konar leyndardómur. Ég hef ekki hugmynd um hvaðan þær koma, og ég er að kynnast þeim allt fram á leiðarenda. Þær koma mér á óvart, og geta verið mjög erfiðar og uppátektarsamar fylgikonur, en þær eiga það sameiginlegt að ég beinlínis elska þær og gæti ekki án þeirra verið. Það stórmagnaða er svo að þegar skáldsaga er um það bil að klárast, eða búin, þá spretta þessar persónur upp, úr lifanda lífinu. Þær eru semsagt til, utan bókar. Stundum beinlínis með nafni. Þannig að það er ekki aldeilis dáið fólk sem spólar í mér, heldur lifandi fólk. 

Söguhetjurnar mínar eru sumar búnar til að einhverju leyti, með mestu útúrsnúningum, úr mínum eigin tilfinningum, eða jafnvel reynslu. Varðandi Öldu sem er reykvísk yfirstétt, þá þekkti ég engan úr þeirri stétt fyrr en ég var orðin mjög vel stálpuð. Og næstum allir vinir mínir fyrr og síðar eru af „venjulegu fólki“ komnir.  Þannig að hér hafði ég stórgaman af því að búa til umgjörð um Öldu, sem er svo ólík minni eigin og var mér lokuð bók lengi frameftir. Og gleymi því aldrei hvað það var ótrúlegt að koma inn í Vesturbæjarhíbýlin með persneskum teppum, Kjarvalsmálverkum, ábúðarmiklum mublum. Flygli jafnvel. Þannig að raunverulega var Alda mér exótísk tegund, hið ytra – og innra þó nokkuð líka. Hún er þungt haldin af íslenskri ættarhyggju og ber ættarnafn, líklega norskuskotið, Ívarsen (frekar hlægilegt, afsakið!).  Ég skal viðurkenna að ég er heilluð af því hugarfari íslensku sem ég kannast vel við, að manneskja telji sig betri en aðra af því hún sé af svo háum stigum, með svo mikið ættarnafn, af svo miklum gáfumennum kominn/komin. Í praxís er þetta náttúrlega hvumleitt og minnimáttarskapandi fyrir krakkann úr Vogahverfinu, en verður hagstætt skáldskaparefni. Og hjálpar höfundinum við að kokka upp persónu eins og Öldu Ívarsen. Sem er beinlínis hrokafull og gæti tæpast talist geðþekk. En mjög geðþekkar sögupersónur eiga yfirleitt ekki upp á pallborðið hjá mér, nema þá helst sem aukapersónur – hvorki í því sem ég skrifa né því sem ég les eftir aðra höfunda. Alda hefur farið hroðalega í taugarnar á mörgum lesandanum.  Ég hef ekki á móti því. 

Lilla mín í Sólskinshesti er eiginlega handan við að vera geðþekk eða ekki geðþekk. Hún er alvarlega vanrækt barn og stórsködduð, þótt sá skaði sé ekki málaður sterkum yfirborðslitum. En svo nálægt fór ég því sem börn Reykjavíkur geta þurft að þola, og það börn foreldra úr efri heilbrigðisstétt, að starfskraftur í fyrirtæki vinkonu minnar spurði hana hvort hún Steinunn hefði komist í skýrslunnar um hana og bróður hennar.  Það vildi meiraðsegja svo til að viðkomandi bróðir var hommi eins og Mummi í Sólskinshesti

 

Ég held að Systa í Systu megin sé einhver óvenjulegasta söguhetjan mín. Hún er kannski sú eina af mínum sem hefði alls ekki getað skrifað sögu sína sjálf, þannig að ég ljáði henni mína rödd. Þegar einn harðsnúinn lesandi tjáði mér að röddin væri Systu, ekki mín, þá hoppaði ég nú hálfa hæð mína af kæti. Systa er ein af persónunum mínum sem er til í alvörunni. Lára Björnsdóttir félagsmálakempa segist þekkja margar Systur. Persónur sem lifa við sárari fátækt en augu okkar sjá og skrimta með því að vera fádæma úrræðagóðar. En Systa er mér raunverulega jafn framandi tegund og Alda, því ég hef aldrei þekkt neinn svona jaðarsettan og sárafátækan.

 

Einhver lét það útúr sér fyrir skemmstu að Tímaþjófurinn hefði verið skrifaður á árum þar sem konur voru aðallega að fara út með ruslið í íslenskum bókmenntum, en Alda í Tímaþjófnum skæri sig úr fyrir það að eiga sér innra líf. Ég get ekki lagt dóm á þessi ummæli og hef hreinlega ekki þá yfirsýn – en ég fór að hugsa til þess að ég hef líklega aldrei verið kölluð feminískur höfundur þrátt fyrir að margar af kvensöguhetjunum mínum hafi staðið í einu og öðru stríði við æðra kynið, kannski frekar leynt en ljóst. Þetta virðist vera þannig að höfundurinn þarf að hafa verið aktífur í hreyfingu til þess að vera talinn upp á kvenhöndina hugmyndafræðilega. En mitt vopn er stílvopnið. Ég er ekki í hreyfingum.  

Ég segi þetta með þeim fyrirvara að mér getur sem best hafa yfirsést eitthvað af þeim mörgu fínu fræðigreinum sem hafa verið skrifaðar um verkin mín.

Svo ég komi mér nú að því að svara spurningunni beint þá veit ég alls ekki hvaðan LínLín kemur – og ekki enn er hún komin til mín sem lifandi persóna. En ég hef rambað á lífsreynslu fleiri en eins lesanda BÓLS, sem er sama og hennar, fólks sem ég kannaðist við – en vissi ekki hvað hafði á dagana drifið. Og þá fólk sem hefur einmitt brugðist við ekki ólíkt því sem hún gerir. Ég held að LínLín sé langmest í ætt við Öldu í Tímaþjófnum af öllum mínum söguhetjum. Eitthvað af hugarfarinu. Og svo það að hafa orðið fyrir höfnun í ástum, sem þær þola ekki – þótt með ólíku móti sé.  

Það getur verið að LínLín sé sú söguhetja þar sem ég sæki hvað mest beinlínis til sjálfrar mín, að því leyti kannski sérstaklega að við erum báðar orðafíklar, notum þá fíkn í vinnunni – og við gleymum okkur við skrifborðið. Svo er ég náttúrubarn einsog LínLín og hennar fólk. Og vel á minnst, pabbi og mamma voru ekta sveitafólk eins og foreldrar LínLín – þótt búið væri í Reykjavík. 

 

Í fyrri verkum hefur þú gjarnan kannað samskipti barna og foreldra en oft hafa þau verið mjög stirð, ekki síst sambönd dætra og mæðra. Í BÓL er þó allt annað á ferðinni. Samskipti LínLín við foreldrana eru mjög góð, sérstaklega samband hennar við pabba sinn, og samband hennar við Ásu einkadótturina virðist vera dásamlegt. En í sömu mund marka allskyns leyndarmál fjölskyldulífið og raunar má segja að þetta sé hálfgerð leyndarmálabók. Geturðu lýst fyrir mér fjölskyldudýnamíkinni og hvaða áhrif leyndarmálin hafa á hana?

Það heillar mig hvað sambönd sem eru góð og falleg geta samt verið skemmandi.  Fjölskylduleyndarmálið spillir mjög fyrir sálarlífinu hjá LínLín og er skemmandi eftir óútreiknanlegum leiðum. Kannski sérstaklega er LínLín eyðilögð vegna þess að hún sér að mamma hennar getur raunverulega hvergi notið sín nema í kæfugerð og garðyrkju – að hennar heita tilfinningalíf er í kælingu, af völdum leyndarmáls. Og LínLín dregur þá ályktun að af þess völdum deyi mamma hennar fyrir tímann. Að leyndarmál góðs fólks sem kemur vel fram við hvert annað – en á sér ósýnilegt leynilíf – geti verið banvæn. Í þessu tilfelli er LínLín líka eini vörslumaður leyndarmálsins, og því má velta fyrir sér hvort það sé henni hollt. Svo mikið er víst að hún getur ekki talað um það við neinn – fyrr en um síðir, við þann sem er málið skylt – og þá takmarkað, í eitt einasta skipti. 

 

Rétt eins og í mörgum öðrum verkum þínum gegnir ástin stóru hlutverki í sögunni en hér eru efnistökin þó allt önnur. Sem ung kona verður LínLín fyrir höfnun æskuástarinnar; hvaða áhrif hefur það á hana?

LínLín er heittelskuð af bæði föður og móður, einbirnið. Kannski er það þannig að svo umvafinn ástarpakki þolir höfnun enn verr en aðrir. Skilur hreinlega ekki að einhver elski hana ekki – að strákur geti hugsanlega tekið aðra stelpu framyfir hana. Við komumst meir að segja að því einhvers staðar á leiðinni að hún LínLín var gasalega sæt stelpa. Hefur talið sig ómótstæðilega. Óttinn við höfnun er mjög djúpstæð tilfinning hjá öllum, og þegar höfnunin dynur yfir þá getur það verið hroðaleg lífsreynsla.  Ég er hrædd um að LínLín sé þannig samsett að höfnun í ástum þegar hún er bráðung setji mark sitt á allt hennar líf. Við vitum að hún verður aldrei ástfangin aftur og hún þarf að hökta áfram í þeirri tegund af ástleysi. 

 

BÓL er einum þræði saga um missi. LínLín fær ekki æskuástina og í ofanálag upplifir hún margskonar missi. Er sagan kannski að einhverju leyti aðferð til að skoða hvernig fólk tekst á við sorgina?

Já, ég væri sammála því. Eins lömuð og LínLín er af höfnun og missi, þá tekst henni samt að finna nýjar aðferðir við að vera til. Þær hlutgerast í því sérstaklega að hún innréttar bílskúr í nýju húsi sem nokkurs konar helli – með útsýni á hafið þó. Í þessu hjúpaða umhverfi, sem hún kallar Núllskúr reynir hún að setja sig á núllpunkt og skerma sig af frá minningum og sorg. Og þetta er hennar einkastaður sem enginn á að stíga fæti inn í nema hún, meðan hún er ofanjarðar. Með þessu er hún í raun að búa sér til jákvætt leyndarmál – kannski sem mótvægi við þau sorglegu leyndarmál sem hún ein burðast með.  

Nýja húsið hennar LínLín við hafið kemur þannig til að Þyrí vinkona hennar sér að það er ekki hollt fyrir hana að búa áfram í íbúð sem er stútfull af minningum sem tengjast sárum missi – þar sem hver hlutur og hver mubla og hvert herbergi minnir hana stöðugt á barnið sem hún átti, elskaði mest, og hefur nú misst. Og Þyrí heldur málinu til streitu, hjálpar vinkonu sinni að skoða hugsanlegar eignir, mánuðum saman. Og það verður á endanum léttir fyrir söguhetjuna mína að flytja og losa sig við húsgögn og muni minninganna.  

 

Missirinn snýst ekki aðeins um lát ástvina heldur veikist LínLín líka alvarlega og missir þar með heilsuna. Hvaða áhrif hefur það á líf hennar?

Já hún er þjökuð af lamandi þreytu og kvillum. Þetta ástand dregur úr baráttuþreki hennar við sorgarfylgjuna og gerir hana enn þyngri á bárunni en hún var fyrir krabbamein og meðferð. En það sem bjargar henni er að hún hefur þó þrek til að vera við skrifborðið einhverja tíma á dag, við eftirlætisiðju sína, að þýða. Þar gleymir hún sér helst og getur þannig fleytt sér fram eftir dögunum án þess að sökkva. 

Það þarf ekki að tíunda að léleg heilsa til skrokksins hefur massíf áhrif á sálarlíf manneskjunnar, í bók og utan bókar. Ein afleiðing er að ég held óöryggi. Tilfinningin fyrir því að vera brothætt og kannski stutt í að verða hjálpar þurfi. Annað er það að léleg heilsa gerir fólki erfiðara fyrir við það að njóta lífsins, það hefur kannski hreinlega ekki heilsu til að njóta. LínLín er svolítið á þeim mörkum.

 

Þótt missirinn og harmurinn séu klárlega rauðir þræðir í verkinu er húmorinn, sem er nú eitt af þínum aðalsmerkjum, samt til staðar. Áttu alltaf auðvelt með að blanda honum inn í sögurnar þínar?

Það væri nú aldeilis fróðlegt að vita hvernig einn höfundur kemur sér upp stíl, einum stíl eða fleiri. En í mínu tilfelli held ég að húmorinn spretti gjarnan upp í textanum, sé samofinn textanum, sama hvað ég væri að skrifa ólíkar stíltegundir. Þetta held ég að sé tiltölulega ómeðvituð afstaða frekar en einhver meitlaður ásetningur. Og ef svo væri held ég að það væri frekar af hinu góða. Svo mikið er víst að áreynslukenndur húmor er ekki skemmtiefni fyrir lesandann, og tæpast í ætt við góðar bókmenntir. 

Hvað BÓL varðar skal ég hreinlega játa að það kom mér í opna skjöldu þegar lesendum mínum fór að þykja LínLín frekar fyndinn karakter á köflum. Útgefandinn minn fíni, Hólmfríður/Úa, átti svarið: „Þú ræður bara ekki við þig.“  Ég er að vona að það séu meðmæli að vera óvart svo fyndinn höfundur að maður ráði ekki við sig. En mér var nú annað en hlátur í hug meðan ég var að semja BÓL.

Ég hugsa að þó nokkuð stór skammtur af húmornum vefjist inn þegar ég er að endur- og endursemja textann. Að ég finni mér leiki á borði til að hnykkja betur á einhverri lýsingunni, tilsvari eða ástandi með því að lauma inn vitlausu orði eða orðalagi á réttan stað. Eitthvað sem er á skjön, kemur á óvart, og skerpir á því sem ég vil skerpa á.

En mér finnst glitra á húmor í flestum af þeim albestu skáldsögum sem ég hef lesið, það er mismikið glimmer, en lági glansinn getur verið alveg ofboðslega áhrifaríkur. Eins og mér finnst hann til dæmis vera hjá John Coetzee, fæddur 1940, sem er mesti núlifandi skáldsagnahöfundur sem ég veit um. Og er nýbúinn að senda frá sér meistarasöguna, The Pole/Pólverjinn. Öllu meira áberandi er húmorinn hjá öðru átrúnaðargoði, Toni Morrison. Hún er meira og minna „hilarious“ í flestum sögunum, bæði í sjálfum textanum og lýsingum – þannig að maður beinlínis skellir uppúr, innanum alla alvöruna og þann hrylling sem hún lýsir, ekki síst varðandi þrælahald. Eins og í Beloved, sérstaklega.  

Sólskinshestur, skáldsagan mín frá 2005, telst nú kannski ekki til minna fyndnustu skáldsagna – en þar er nú samt ýmislegt slíkt að finna. Ég er svona eftirá ánægð með það til dæmis að hafa búið til barnahúmor. Mummi, litli bróðir söguhetjunnar, held ég að sé mjög fyndið síli. Og samskipti litlu vanræktu systkinanna oft gráthlægileg, þótt tilefnin hefðu mátt vera skemmtilegri!

Stórkarlalegri er svo húmorinn í því sem er sagt vera fyndnasta skáldsagan mín, Jöklaleikhúsið. Hér spóla alls konar ærsladraugar í flestum sögupersónunum.

Ég stóð einu sinni frammi fyrir því að mig langaði að skrifa skáldsögu um leiðinlega manneskju. Ég var þá nýbúin að hitta líklega einu leiðinlegu manneskjuna sem ég hef hitt. Og ég skildi það ekki. Vel meinandi og ekki heimsk, bara ólýsanlega óskiljanlega leiðinleg. Mig langaði til að rannsaka þetta fyrirbæri. En sá á endanum alls ekki hvernig ég færi að því að skrifa skáldsögu um leiðinlega persónu, án þess að sagan yrði hrútleiðinleg og rúin fyndni. Ég er bara alls ekki ánægð með að hafa ekki fundið lausn á málinu, og sé ekki fram á að ég geri það nokkurn tímann.

 

Orðin og merking þeirra eru bókmenntaþýðandanum LínLín hugleikin og hún nostrar greinilega við þýðingar sínar á sama hátt og skapari hennar gerir við sína texta. Hvaða gildi hafa þýðingarnar í lífi LínLín? Myndir þú segja að hún væri dæmigerður þýðandi? 

Það sem ég get sagt er að ég er heilluð af þýðendum. Þeir hafa nú líka gert verkunum mín ómælt gagn og bjargað mínu bókmenntalega framhaldslífi fyrir utan Ísland. Frábærar persónur líka, þýðendurnir sem ég þekki. Mig hefur lengi dreymt um að hafa þýðanda sem söguhetju, en hélt kannski að væri eitthvað hjákátlega nálægt minni skrifborðsvinnu. Svo þegar ég sá að átrúnaðargoðið Javier Marias hefur þýðendur fyrir söguhetjur, þá hugsaði ég, ókei, nú má ég.

Ég hef líka þýtt sjálf, og það er nokkuð sem ég hefði svo gjarnan viljað gera meira af. En tíminn er harður húsbóndi! Sérstaka unun hef ég af því að þýða ljóð – sem er nokkurs konar ómöguleiki. En þýðingarnar bjarga LínLín í harmi og einmanaleika, það er við skrifborðið sem hún gleymir sér og er vígreif í glímunni við orð og merkingu. Ég held að hún sé dæmigerður þýðandi að því leyti að orðin eru hennar líf, útlensk og íslensk. Og þar get ég virkilega samsamað mig. Það var lúxus að mega búa til persónu sem er svona nálægt sjálfri mér þegar að orðunum kemur.

Mér verður líka hugsað til þeirra sem þýða yfir á íslensku. Það er einn minn helsti bókmenntalegi innblástur að lesa þeirra verk, svo ég nefni bara fáein nýleg dæmi. Árna Óskarsson (Lólíta, til dæmis) Jón Bjarna Atlason (Loftslög) Jón St. Kristjánsson (Glæstar vonir) og Áslaugu Agnarsdóttur (Tolstoi).  Hér er í gangi svo mikil nýsköpun tungumáls og hugsunar. Góss úr öðrum menningarheimum en okkar íslenska.

 

Eitt af því sem er svo skemmtilegt við frásagnirnar þínar er ljóðrænan sem einkennir þær en hluti af henni felst í öllum frábæru nýyrðunum sem þú smíðar og þar er BÓL engin undantekning. Í nýlegri gagnrýni um söguna minntist Soffía Auður Birgisdóttir á að þú hefðir búið til ýmis orð sem tengjast sorg, eins og SORGARFYLGJA, SORGARSORT, SORGARLÉTTIR og SORGARPEST. Ertu lengi að upphugsa öll þessi nýyrði og var það með ráðum gert að auka orðaforða lesenda um sorgina?

Ég veit ekki alltaf hvort orðið er nýtt úr minni smiðju eða hvort ég hef séð það áður. Þessi sem þú nefnir eru þó væntanlega öll mín eigin – nema mér finnst ég hafa rekist á orðið SORGARFYLGJA. Það er alveg á hreinu að ég rembist ekki við að koma með nýyrði. Þau eru eitt af fáu í minni ritmennsku sem kemur af sjálfu sér. Nema, hvað kemur af sjálfu sér? Ég hef verið orðafíkill frá því ég var lítil. Orð og frasar voru í hávegum höfð heima hjá mér. Það kom sér vel upp á fjölbreytni að foreldrar mínir töluðu ekki sama tungumálið, pabbi sitt skaftfellska, mamma sitt grímsneska.

Sigfús Blöndal er uppáhaldslesning og ég hef dröslað honum með mér milli landa í einum flutningum á eftir öðrum. Eins hef ég legið í Jónasi Hallgrímssyni, nýyrðasmið, ekki síst náttúrulýsingum og þýðingum. Ég bæti því svo við, að það að finna upp ný orð og samsetningar er nú kannski á endanum eitt af því allra skemmtilegasta sem hendir mig við skrifborðið – þegar ég yfirleitt tek eftir því að nú sé komið nýtt orð og orð.

 

Náttúran leikur stórt hlutverk í sögunni. Við fáum magnaðar náttúrulýsingar; sumar eru undurfagrar en aðrar minna á ógnina sem af náttúrunni getur stafað og tala því ákaflega (og jafnvel óþægilega) vel inn í íslenskt samfélag. Hvaða áhrif hefur náttúran á líf LínLín og hjartastaðinn hennar, Sæluból?

LínLín er dóttir náttúrubarna. Annað úr Aðaldal, hitt af Suðurlandi. Þannig að hún er „genetískt“ náttúrubarn, þó ekki alveg eins þungt haldið og foreldrarnir. Þegar náttúruöflin taka sig til og steðja að Sælubóli, eða BÓLI, þá er tilveru LínLín snúði alveg á hvolf.  Það þarf draum til að segja henni hvað hún á að gera. Svo leggur hún upp í sinn dæmalausa vel undirbúna leiðangur austur að BÓLI.

 

Í lýsingu á BÓL segir að sagan sé um „ofurást og hjartasorg, styrk og uppgjöf“. Undir það má svo sannarlega taka en mér finnst þetta líka vera saga um vináttu; og meira að segja mjög sterka og góða vináttu. Getur þú aðeins sagt mér frá sambandi LínLín við hennar bestu vini Þyrí og Skúla?

LínLín kallar þau lífgjafa. Þau ganga henni í föður og móður-stað finnst henni.  Það var mér styrkur í sálarstríðinu við að skrifa BÓL að skapa þessa vini, mér fannst eiginlega eins og þeir væru beinlínis mínir bandamenn við skrifborðið. Vináttan við Þyrí er ekki komplexeruð, það er líka til. Vináttan við Skúla er kannski flóknari, hann liggur undir grun um að bera ástarhug til LínLín – en nógu raunsær til að átta sig á því að sá hugur væri ekki endurgoldinn, ekki sem slíkur. Svo lék ég mér að því að gera þau öll þrjú að einbirnum. LínLín er nú samt almesta einbirnið af þeim, og kannski má segja að þau tvö, Þyrí og Skúli, séu eitthvað í ætt við fylgihnetti – en hún LínLín sé aðal.

 

LínLín hlustar mikið á tónlist og í sögunni er vísað til hljómsveita á borð við Bítlanna, Rolling Stones og The Zombies en einnig til tónsmíða ýmissa klassískra tónskálda. Þessar vísanir víkka sannarlega merkingu textans – enda spegla þær margar hverjar tilfinningalíf persónanna eða eitthvað sem gengur á í lífi þeirra. Hvernig valdirðu tónlistina inn í textann? Hlustaðir þú eitthvað á öll þessi verk sem nefnd eru við skrifin?

Ég er svo ljónheppin að vera af kynslóðinni sem ólst upp með þessum geggjuðu hljómsveitum og dansaði mig upp að hnjám við lögin þeirra, alveg þó nokkuð frameftir ævinni. Þannig að ég eiginlega valdi ekki tónlistina, hún valdi sig sjálf. Það er náttúrlega veraldarundur hvað afurðir þessara hljómsveita og fleiri kringum sextíu sjötíu hafa enst brjálæðislega vel – sem sannar auðvitað gæðin og innihaldið.

Ég hlusta stundum og stundum ekki á tónlist meðan ég skrifa. En þar kemur Bossa Nova ættin reyndar einna mest við sögu. Jú, meðan ég var að skrifa rifjaði ég nú til dæmis upp eðal-lagið She’s not There, The Zombies, lag sem kom sér aldeilis vel fyrir innviðina í BÓL.

 

Sagan kemur manni sífellt á óvart en meðal þess sem stuðlar að því er bygging verksins sem er afar margslungin, eins og sést til dæmis á því að sagan flakkar fram og til baka í tíma, í gegnum endurlit LínLín, auk þess sem ýmsar textategundir raðast saman í henni, svo sem bréf, ljóð, dagbókarskrif og minningabrot. Hvernig vannstu söguna?

Stutta útgáfan er sú að ég fékk hugmynd, og byrjaði strax. Það þoldi ekki bið. Ég notaði mína hefðbundnu aðferð, að safna efni, skrifa ekki textann í réttri blaðsíðuröð. Það er útilokað að hafa byggingu svona skáldsögu algjörlega á hreinu áður en byrjað er. Líka vegna þess að efnisþættir halda áfram að fléttast inn – þætti sem geta komið sjálfum höfundinum stórlega á óvart. 

Það sem ég reyni að gera er að halda sögunni inni í höfðinu í heild sinni þegar nóg efni er komið. Í þessu tilfelli byrjaði ég frekar fljótt að raða og setja saman. Oft á ferlinu skrifa ég niður efnisþættina – hvar hver efnisþáttur er staddur, og sé þá gjarnan að eitthvað gengur ekki upp, svo ég þarf að færa til. Þó nokkuð af þessu er hrein uppröðun, hvað á að koma á undan hverju.  Og svo er það þessi óárennilega skammtafræði. Hvað má segja á hverjum stað – og hvað ekki. Hvað er of snemmt að segja – og hvað of seint? 

Hvort byggingin lukkast finnst mér byggjast mikið á því að halda vinnunni samfelldri og reyna að grynna í því á hverjum tíma hvar sagan er stödd, hvers hún þarf við til að upp megi ganga.  Og svo grimmilegasta endurskoðun á öllu þegar hún er komin sirka áttatíu prósent áleiðis. 

Það er árátta hjá mér að stefna saman ólíkum textategundum. Vandmeðfarið og þarfnast sérstakrar tegundar af yfirlegu. En textategundirnar eru nauðsynlegar til þess að koma efninu til skila, eins og ég skrifa. Þeim er ekki stefnt saman bara hipsumhaps. 


Ein lokaspurning; ertu byrjuð á næsta verki?

Hvurnin spurðu? eins og Dísa á Núpum hefði sagt. Ég er alltaf með í bakhönd fleiri en eitt langtímaverk. Skáldsögur, leikrit, ljóðabálka. Ég á alltaf efni í næsta verk og þarnæstu meðfram því verki sem ég einbeiti mér að hverju sinni.  Það er minn vinnumáti – og um leið öryggisatriði – trygging fyrir áframhaldinu, lífsmátanum mínum sem er mér allt. Að lifa er að skrifa, fyrir mér.  Gaman að þessi lykilorð skuli meiraðsegja ríma!

 

Ég þakka Steinunni kærlega fyrir gott spjall og mæli eindregið með nýju bókinni.

 

 

 

 

Tengt efni