SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 5. mars 2024

LEIKUR GRÁTT OG LÝIR MÁTT

Herdís Andrésdóttir var fædd þann 13. júní 1858 í Flatey á Breiðafirði. Tvíburasystir hennar var Ólína Andrésdóttir. Áttu þær aðrar fjórar systur. Er faðir þeirra fórst í desember 1861 voru systurnar sendar í fóstur og fór Herdís til kaupmannahjónanna Brynjólfs og Herdísar og bjó hún hjá þeim til þrettán ára aldurs.

Herdís lést árið 1939. Soffía Auður Birgisdóttir hefur rannsakað og greint kveðskap þeirra systra sjá  Skáld.is (skald.is)

Góuvísur Herdísar eru líkar góuvísum systur sinnar hennar Ólínu og það er með ólíkindu að þær systur hafi ekki setið saman og ort ljóð, borið saman og skeggrætt. Góan er oft á tíðum bæði köld og ill en um leið færir hún okkur von um bjarta og hlýja daga.

 

Góuvísur
 
Þeysti góa í garð með snjó
geyst á nógu skriði.
En þorri hló og hneig og dó
hljótt í ró og friði.
 
Góa þótti okkur ill,
yndi stundum skerða.
En einmánuður ekki vill
eftirbátur verða.
 
Eygló bjarta sjaldan sjer,
sveipast fönnum hagar.
Á Suðurlandi sýnast mjer
sólarlitlir dagar.
 
Þessi góa þíddi mó,
þrávalt glóey brosti;
en vön að sóa var hún ró,
vafin snjó og frosti.
 
Man jeg forðum, fannalest
flutti norðan strengur.
En nú er orðið öfugt flest,
alt úr skorðum gengur.
 
En engum kvíða ylli þó
- efldist lýða styrkur -
fengist blíða og friðarró
fyrir hríðar-myrkur.
 
Þó rigni þrátt með rosa hjer,
og rofi smátt til hlíða,
jeg er sátt, ef sendi er mjer
sunnanáttin blíða.
 
Leikur grátt og lýir mátt,
litlum sáttum heitir,
norðanáttar hljóðið hátt,
hörpuslátt er þreytir.
 
Skáld.is (skald.is)

         Skáld.is (skald.is)

         Skáld.is (skald.is)

 

 

 

 

Tengt efni