SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. maí 2024

TMM KOMIÐ ÚT

Annað hefti TMM á þessu ári er komið út. Það er að þessu sinni óvenju ríkt að skáldskap; sögum og ljóðum eftir íslenska og erlenda höfunda sem fara með lesendur á ólíklegustu staði: í taugatrekkjandi fasteignaskoðun, inn á blúsbar í Bangkok, upp í rúm með afmælisbarni og um San Francisco-borg þvera og endilanga í leit að jólatrjám, svo fátt eitt sé nefnt.
 
Alda Björk Valdimarsdóttir opnar heftið en önnur skáld og þýðendur eru að þessu sinni Haukur Ingvarsson, Sigurjón Bergþór Daðason, Birgitta Björg Guðmarsdóttir, Hrafn Andrés Harðarson, Ægir Þór Jähnke, Erla Björg Gunnarsdóttir, Steinunn Helgadóttir, Arthúr Björgvin Bollason, Ágúst Borgþór Sverrisson og Ragnheiður Lárusdóttir, Hjörleifur Rafn Jónsson sem þýður sögur eftir Sila Khomchai og Tinnakarn og Þóður Sævar Jónsson sem þýðir Richard Brautigan.
 
Greinahöfundar líta líka til ýmissa átta; Kristján Hrafn Guðmundsson rýnir í Tímann og vatnið eftir Stein Steinarr og veltir fyrir sér kyni ástarviðfangs ljóðsins. Snædís Björnsdóttir gefur innlit í það sem efst er á baugi í dönsku bókmenntalífi um þessar mundir og Jón Erlendsson hugleiðir heimsbókmenntir, vegagerð og varnargarða í þakkarávarpi sem hann hélt þegar honum voru veitt Íslensku þýðingarverðlaunin á dögunum. Þá eru barnabækur til umfjöllunar, og meira að segja barnabækur í barnabókum, um þær rita Margrét Tryggvadóttir og Sigþrúður Silju Gunnarsdóttir. Friðgeir Einarsson færir okkur hugvekju og Atli Bollason og Einar Már Jónsson skrifa umsagnir um bækur.
 
Sigurður Þórir á kápumyndina sem kallast á við grein Kristjáns Hrafns en hún er úr myndaflokknum Tíminn og vatnið (2008) þar sem hvert erindi ljóðbálksins er túlkað í mynd.
 
 
 
Heimild, af fb-síðu TMM.

Tengt efni