SKÁLDKONUGARÐUR
Fyrir fáeinum dögum var opnaður svonefndur Freyjugarður, við Freyjugötu 19 en um er að ræða ljóðrænan rósagarð að franskri fyrirmynd. Hugmyndin að skáldkonugarðinum er upphaflega komin frá Sigrúnu Úlfarsdóttur hönnuði.
Í garðinum eru samtals fimm standar með tíu ljóðum eftir fimm íslenskar núlifandi skáldkonur. Sigurbjörg Þrastardóttir var fengin til að ritstýra ljóðunum og urðu eftirfarandi skáldkonur fyrir valinu: Alda Björk Valdimarsdóttir, Arndís Lóa Magnúsdóttir, Eva Rún Snorradóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir og Þóra Jónsdóttir.
Elías Freyr hannaði standana en möguleiki er á því að skipta út ljóðunum og má því búast við að sjá fleiri verk íslenskra skáldkvenna birtast í Freyjugarði. Hér má lesa ljóðin.
Í garðinum er einnig að finna bókaskiptiskáp, þar sem setja má bækur eða taka með og er hann liður í þeirri hugmynd að garðurinn sé lifandi í orðsins fyllstu merkingu, og stendur hann opinn öllum, allan sólarhringinn.
Hér má fræðast meira um Freyjugarð
Myndin er sótt af vef borgarinnar en þar má sjá skáldkonurnar og dætur Þóru Jónsdóttur, Elínu og Kirstínu Flygenring, sem mættu fyrir hönd móður sinnar.